07.04.1960
Efri deild: 58. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

127. mál, lánasjóður íslenskra námsmanna erlendis

Menntmrh. (Gylfi D. Gíslason):

Herra forsetl. Með lögum þeim um breyt. á skráningu krónunnar, sem Alþ. samþ. nú fyrir skemmstu, jókst framfærslukostnaður íslenzkra námsmanna erlendis mjög verulega eða um 79%. Af þessum sökum taldi ríkisstj. nauðsynlegt að gera alveg sérstakar ráðstafanir til þess að létta undir með þessum námsmönnum og auka stórlega þau framlög, sem Alþ. veitir árlega þeim til styrktar og lána þeim til handa.

Í fyrra voru veittar í fjárlögum 2 millj. kr. til námslána og námsstyrkja handa Íslendingum, sem stunda nám erlendis. Í fjárlögum þeim, sem nú nýlega hafa verið afgr., var þessi upphæð aukin upp í 5.2 millj. kr., eða um 3.2 millj. kr. Þegar Alþ. hafði tekið þessa ákvörðun um hið aukna framlag til íslenzkra námsmanna erlendis, leitaði ég álits menntamálaráðs, sem hefur haft með höndum veitingu styrkja og lána til þeirra, á því, hvernig skynsamlegt væri að verja hinu aukna fé, sem Alþ. hafði veitt í þessu skyni. Var það einróma álit menntamálaráðs og raunar einnig annarra embættismanna, sem ég leitaði til um þetta efni, að skynsamlegast mundi vera að hagnýta hina auknu fjárveitingu Alþ. í fyrsta lagi þannig að auka styrki þá, sem veittir hafa verið, þannig að þeir héldust a.m.k. óbreyttir í erlendum gjaldeyri, þ.e. að styrkjaupphæðin í erlendum gjaldeyri lækkaði ekki þrátt fyrir gengisbreytinguna, heldur gæti frekar hækkað, en að öðru leyti væri þessu nýja fé, sem Alþ. hefur nú veitt, varið þannig, að stóraukin væru námslánin til námsmanna erlendis.

Menntamálaráð tók upp þann sið fyrir um það bil 8 árum, — ég hygg, að það hafi verið 1952, — að verja nokkru af því fé, sem það árlega fær til umráða, til þess að veita námsmönnum erlendis námslán, og gerir það með leyfi eða samþykki menntmrn. Síðan hefur það aukið þessa lánastarfsemi sína nokkuð, og á síðasta ári mun það hafa notað um það bil 400 þús. kr. af þeim 2 millj., sem það hafði til umráða, til námslána. Menntmrn. hefur einnig heimilað menntamálaráði með bréfi að endurlána þær upphæðir, sem endurgreiðast af þegar veittum námslánum.

Nú, þegar fjárveitingin í þessu skyni hefur verið aukin upp í rúmár 5 millj. kr., kom í ljós, að hægt yrði að veita í námslán á þessu ári 3 millj. 250 þús. kr., og þegar menntamálaráð óskaði eftir því að verja þessari upphæð, 3 millj. 250 þús. kr., í námslán á þessu ári, ,þá taldi ég ekki eðlilegt, að svo víðtæk lánastarfsemi færi fram eingöngu með heimild í venjulegu ráðuneytisbréfi, heldur æskilegt og raunar alveg nauðsynlegt, að sett yrðu lög um svo víðtæka lánastarfsemi. Þetta er þeim mun eðlilegra sem sérstök lög hafa nú í heilan áratug gilt um hliðstæða starfsemi við Háskóla Íslands, en til eru lög um lánasjóð stúdenta við Háskóla Íslands, sem Alþ. veitir árlega fé til, hefur nú um nokkur undanfarin ár verið 1 millj. kr., en var hækkað upp í 1.4 millj. kr. á fjárlögum fyrir þetta ár.

Ég gerði því ráðstafanir til þess, að samið yrði frv. um lánasjóð íslenzkra námsmanna erlendis, algerlega hliðstætt þeim lögum, sem nú gilda um lánasjóð stúdenta við Háskóla Íslands. En þau námslán, sem menntamálaráð hefur veitt til námsmanna erlendis, hafa fylgt alveg sömu reglum og gilt hafa um lánasjóðinn við Háskóla Íslands, en þær eru í meginatriðum þær, að lánin eru veitt til 10 ára, endurgreiðsla hefst 3 árum eftir að námi er lokið og vextir af lánunum eru 31/2 % . Og þetta eru meginákvæði þessa frv: Í 1. gr. eru ákvæði um, að sjóðurinn skuli stofnaður og menntamálaráð skuli fara með stjórn hans. Í 2. gr. eru síðan almennar reglur um starfsemi sjóðsins, sem eru algerlega hliðstæðar lögunum um lánasjóð stúdenta við háskólann og þeim reglum, sem menntamálaráð hefur fylgt fram að þessu varðandi þau námslán, sem það hefur veitt. Í 3. gr. eru ákvæði um, að ríkissjóður leggi sjóðnum árlega a.m.k. 3 millj. 250 þús. kr., en það er sú upphæð, sem menntamálaráð er sammála um að verja til námslána af þeim 5.2 millj., sem það hefur til umráða samkvæmt fjárlögum.

Hv. Nd. afgreiddi þetta mál við þrjár umr. á fundum sínum í dag, og menntmn. hv. Nd. mælti einróma með samþykkt frv., að gerðum þremur minni háttar breyt. á greinum þess. Ég vil leyfa mér að óska eftir því við þessa hv. d., að menntmn. hennar taki málið til meðferðar í kvöld eða fyrramálið, og óska eftir því, að d. sjái sér fært að afgreiða málið frá sér á morgun. Ástæða til þess, að ég ber fram ósk um svo hraða afgreiðslu á .málinu, er sú, að nú er nýhafið annað gjaldeyrisúthlutunartímabil til námsmanna erlendis, — og raunar fyrsta tímabilið, sem gengislækkunin kemur til framkvæmda á gagnvart námsmönnum erlendis, því að á fyrsta ársfjórðungnum var heimilað að yfirfæra gjaldeyrisleyfi til námsmanna erlendis á gamla genginu. Nú munu yfirfærslur hins vegar verða að fara fram á nýja genginu, og þess vegna er mjög nauðsynlegt, að menntamálaráð geti sem allra fyrst úthlutað þessum 5.2 millj., sem það hefur yfir að ráða.

Ég á ekki von á því, að þetta mál geti talizt ágreiningsefni á milli flokka. Það kom líka í ljós í hv. Nd., að það var afgr. shlj. bæði í hv. menntmn. og í d. sjálfri, og vil ég mega leyfa mér að láta í ljós þá ósk, að eins verði hér í þessari hv. deild.

Ég ítreka því þá ósk mína, eftir að hafa lagt til, að málinu verði vísað til hv. menntmn., að n. sýni málinu þann velvilja að taka það til afgreiðslu fyrir fund á morgun og að d. afgreiði það síðan frá sér síðdegis á morgun.