08.04.1960
Efri deild: 59. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1892 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

127. mál, lánasjóður íslenskra námsmanna erlendis

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Með hliðsjón af gengisbreytingunni, sem samþ. var hér á hv. Alþingi, gekkst ríkisstj. fyrir því, að fjárveiting til íslenzkra námsmanna erlendis var hækkað verulega eða í 5 millj. 195 þús., en sú fjárveiting nam 2 millj. kr. s.l. ár og 1 millj. 275 þús. 1958,. og . er því ,fjárveitingin nú liðlega fjórum sinnum hærri en hún var á því ári.

Fjárveitingin nær til styrkja og námslána. Gert er ráð fyrir, að námsstyrkir hækki sem svarar gengisfellingunni, en jafnframt verði hægt að verja til námslána 3 millj. 250 þús. kr. eða margfalt hærri upphæð en verið hefur.

Með frv. er ætlað, svo sem í grg, segir, að koma fastari skipan á námslánamál íslenzkra námsmanna erlendis en verið hefur fram að þessu. Í Nd. voru gerðar á frv. nokkrar breytingar, sem ég tel að allir geti orðið sammála um að til bóta horfi. Með frv., eins og það nú liggur fyrir, er m.a. lagt til, að lögfest verði vaxtakjör og greiðslutími námslánanna og einnig lágmark árlegs framlags ríkissjóðs til námslánasjóðsins, sem sé 3 millj. 250 þús. kr., og enn fremur að vextir og afborganir námslána, sem veitt hafa verið á árunum 1952 –59, skuli renna í sjóðinn. Í grg. með frv. er svo gerð áætlun fram í tímann um afkomu sjóðsins og möguleika til aukningar á útlánum.

Ég ætla, að hv. þm. geti verið á einu máli um það, að með frv, sé stigið stórt spor til hagsbóta fyrir íslenzkt námsfólk erlendis.

Menntmn. hefur haft frv. til athugunar, og eins og fram kemur í nál. á þskj. 315, hefur nefndin orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþykkt óbreytt, en flytur ekki við það neinar brtt.