01.04.1960
Efri deild: 53. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1909 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

111. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Það er fram komin till. um það að vísa þessu máli til fjhn., eins og eðlilegt er. Af því að ég á sæti í þeirri n., mun ég ekki nú að þessu sinni flytja langa ræðu eða fara ýtarlega út í frv., þó að full ástæða sé til þess, áður en lýkur.

Skattamál eru vandasöm mál, það skal viðurkennt, og engir skattar hygg ég að finnist, sem séu gallalausir. Ég man þá tíð, að ég las í Alþýðublaðinu á ritstjórnardögum Ólafs Friðrikssonar og Haralds Guðmundssonar hugvekjur um skattamál, þar sem gert var upp milli beinna og óbeinna skatta. Þar var lögð áherzla á, að beinu skattarnir væru réttlátir, af því að þeir væru Lagðir mönnum á herðar eftir burðarþolinu, óbeinu skattarnir óréttlátir, af því að þeir legðust á neyzlu manna án tillits til þess, hvort menn væru efnahagslega sterkir eða veikburða. Þá stóð í Alþýðublaðinu, að auðvaldið vildi hafa óbeina skatta til þess að komast hjá því að bera byrðar þjóðfélagsins í samræmi við getu sína. Þó að það makaði krók sinn á kostnað almennings í þjóðfélaginu, vildi það ekki gjalda til þjóðfélagsins í samræmi við gróða sinn, heldur vildi það, að goldið væri í óbeinum sköttum af neyzlunni, svo að gjöldin yrðu því næst nefskattar.

Nú er annað hljóð komið í strokkinn hjá Alþfl. Hann flutti á þinginu 1958, síðari hluta þings veturinn 1957–58, till. um afnám tekjuskatts, og frsm. þeirrar till. lagði á það höfuðáherzlu, ef ég man rétt, að ekki væri hægt að framkvæma álagningu tekjuskatts, svo að að gagni yrði, til þess að hann gæti talizt réttlátur skattur. Þetta væri ekki hægt nú orðið hérlendis vegna þeirra undanbragða í skattframtölum, sem ættu sér stað og ekki væri auðvelt að útrýma. Og enn fremur, að tekjuskatturinn væri svo dýr í framkvæmd, að ekki tæki nokkru tali, eins og nú væri komið með hann, að kosta til að viðhalda honum.

Nú er fram komið frv. það, sem hér liggur fyrir. Það má telja, að það sé fram komið vegna sinnaskipta Alþfl. En það er ekki um afnám tekjuskattsins í heild, heldur, eins og sagt hefur verið, afnám tekjuskatts af almennum launatekjum. Var það hjá því fólki, fólki hinna almennu launatekna, sem Alþfl. taldi að mest væri svikið undan skatti? Maður gæti haldið það af þessu frv., þegar miðað er við það, sem hann áður sagði.

Þá sést ekki heldur í þessu frv., að nokkuð sé dregið úr kostnaði við framkvæmd skattamálanna. Að vísu talaði hæstv. fjmrh. um, að það væri í athugun. En ef maður lítur til frv., sem liggur nú fyrir Nd. og útbýtt var í gærkvöld, um útsvör, verður ekki betur séð en að það sé enn meiri nauðsyn en nokkru sinni áður á því að leggja vinnu í að knýja fram rétt skattframtöl, því að nú skal byggt, að því er snertir útsvarsálagningar, meira en nokkru sinni áður var skylt, á framtölum, — upphafin að miklu leyti reglan um niðurjöfnun „eftir efnum og ástæðum“, sem gaf þó rýmindi til þess að binda sig ekki við skattframtöl, þegar útsvör voru á lögð.

En við skulum sleppa þessu. Við skulum heldur athuga hitt, að hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa í sambandi við gengisfellinguna miklu og skattahækkanir sínar boðað, að með breytingu á tekjuskattslögunum yrði stórkostlega hlynnt að almenningi. Þeir, sem harðast yrðu úti vegna gengisfellingar og skattahækkana á öðrum sviðum, fengju þar stórkostlega leiðréttingu mála sinna. Þar yrði ívilnað þeim, sem mest þyrftu þess með.

Í Morgunblaðinu í dag má Iesa stórar fyrirsagnir eins og þessa: „Auknir skattar hafa

ekki verið lagðir á þjóðina.“ Auðvitað á blaðíð við: þegar allt kemur til alls. „Hækkun söluskattsins aðeins til að mæta skattalækkunum.“ Og svo loksins, með allra stærsta letrinu: „Tekjuskattur af almennum launatekjum felldur niður.“ Það hljómar ákaflega vel, að felldur sé niður tekjuskattur af almennum launatekjum, og vissulega er það gott fyrir þjóð að geta komizt af án þess, að goldnir séu skattar af almennum launatekjum. En hvað er svo hér á ferðinni, þegar til kemur? Er það eitthvað stórkostlegt, sem gert er fyrir almenning? Vegur það á móti því, sem lagt hefur verið á almenning að undanförnu og samtímis? Við framsóknarmenn höfum spáð því, að fyrst og fremst mundi verða, svo að um munaði, með breyt. á tekjuskattslögunum tekið tillit til hinna tekjuhærri. Og þegar maður rennir svo augum yfir frv., það hefur vitanlega enn þá ekki unnizt tími til að fullprófa það, — þá virðist mér greinilega koma í ljós, að þessar spár hafi rætzt og það sé ekki aðeins svo, að Alþfl. hafi horfið frá fyrri skoðunum sínum á eðli tekjuskatts, heldur að hann hafi látíð þann flokk, sem hann kallaði fyrrum auðvaldsflokk — og ætti Alþfl. í raun og veru að eiga endurminningar um það heiti — koma því svo fyrir, að þegar breytt er tekjuskattslögunum að þessu sinni með samstarfi þessara flokka, séu það fyrst og fremst þeir, sem hafa breiðu bökin, sem létt er þunga byrðanna af.

Ef við nú tökum t.d. nettótekjur manns, 50 þús., en það er það hámark, sem fellt er niður hjá einhleypum manni; sést, að einhleypur maður, sem hefur haft 50 þús. í launatekjur, hefur borið í tekjuskatt 2131 kr. og ber nú ekkert. Af honum er létt 2131 kr. Víst er þetta léttir. En hins vegar munu flestir einhleypir menn fljótlega geta reiknað það, að þessi upphæð hrekkur ekki á móti því, sem þeir þurfa að greiða í söluskatt og verða að greiða vegna gengisfellingarinnar í lífskostnað.

Þá er það maður, sem giftur er, maður með konu og tvö börn, sem hefur 50 þús. kr. nettó tekjur. Þessi hjón greiddu, eins og lögin hljóða nú, 343 kr. í tekjuskatt. Það er létt af þeim 343 kr. Mikið munar þau um það! Það má segja, að tekið sé mikið tillit til þeirrar lífskostnaðaraukningar, sem á þau hefur verið lögð!

Og svo er maður og kona, sem hafa á framfæri sínu 4 börn, en 50 þús. í tekjur. Þau greiddu samkv. gildandi lögum 137 kr. Ætli þau telji, að það sé miklu af sér létt? Skyldi þeim draga þetta stórlega?

Þá skulum við taka næst til athugunar nettótekjur 60 þús. kr., en það munu vera venjulegar tekjur Dagsbrúnarmanns, sem hefur þó nokkra yfirvinnu, líklega meira en einnar stundar yfirvinnu á dag. Ef hann er einhleypur, greiddi hann í fyrra 3358 kr., en á nú að greiða 500 kr. Honum dregur þetta vitanlega mikið, 2800 krónurnar, á móti hækkun þeirri, sem hann verður fyrir!

Og þá eru það hjón með tvö börn. Þau greiddu í fyrra 1232 kr., en greiða nú ekkert.

Og loks eru það hjón með 4 börn. Þau greiddu í fyrra 331 kr., greiða nú ekkert. Mikið er gert fyrir þetta fólk með almennu launatekjurnar, þegar skattalögunum er breytt!

En svo skulum við taka hærri tekjur, nettótekjur, t.d. 110 þús.

Einhleypur maður greiddi samkv. gildandi lögum 15675 kr. í skatta af þessum 110 þús. Víst mundu flestir menn, meiri hluti manna í landinu, telja þann mann vel settan. Nú á hann að greiða samkv. þessu nýja frv. 7500 kr. Lækkunin á honum verður 8175 kr. Jú, það er nokkurt tillit tekið til hans. Skyldi það vera Sjálfstfl. eða Alþfl., sem ber hann fyrir brjósti meira en hina?

Þá eru það hjón, eins og ég nefndi áðan, með 2 börn, sem hafa 110 þús. kr. nettótekjur. Þau greiddu 9504 kr. í fyrra. Nú eiga þau að greiða 1500 kr. Lækkunin er 8004 kr. Vitanlega dregur þeim það. Þau tilheyra þeim, sem hafa breiðari bökin.

Og svo eru það hjón með sömu tekjur, sem þurfa að sjá fyrir 4 börnum. Þau greiddu í fyrra 6777 kr., eiga nú að greiða 500 kr. Lækkunin verður hjá þeim 6277 kr.

En svo skulum við taka líka 150 þús. kr. nettótekjur. Einhleypur maður, sem hefur þær tekjur, greiddi í fyrra 28971 kr., en á nú að greiða 17500 kr. Hann fær 11471 kr. til dýrtíðaruppbóta hjá sér. Mundi hann þurfa þess frekar með en hinn láglaunaði? Er ástæða til þess að létta svo miklu af honum, þegar ekki er létt af þeim, sem hafði 60 þús., nema 2800 kr.?

Þá eru það hjón með 2 börn, sem hafa 150 þús. kr. í tekjur. Þau áttu að greiða samkv. gildandi lögum 21876 kr., eru nú færð niður í 7500 kr. Þeim eru þarna réttar 14376 kr. Ekki er nú gerður munurinn á!

Og loks eru það hjón með 4 börn, sem hafa 150 þús. kr. nettótekjur. Þau greiddu samkv. gildandi lögum í fyrra 18412 kr., eiga nú að greiða 4 þús. kr. Það, sem er létt af þeim, eru 14412 kr.

Segi svo þessir flokkar, sem bera frv.- fram, að í frv. sé fyrst og fremst tekið tillit til þeirra, sem eru minni máttar. Nei, í þessu frv. er fyrst og fremst tekið tillit til þeirra, sem betur mega sín.

Eins og ég sagði í upphafi, tel ég mig hafa tækifæri til þess sérstaklega að athuga þetta frv. og gera við það athugasemdir í nefnd og ætla þess vegna ekki að tefja tímann nú með fleiri orðum. En ég þykist hafa sýnt fram á það, að frv. er alls ekki í samræmi við þá boðun, sem flokkarnir hafa haft, og þær stóru fyrirsagnir, sem a.m.k. eru í Mbl. í dag. — ég hef ekki séð Alþýðublaðið, mér þykir líklegt, að það séu þar vænar fyrirsagnir líka. Það er ekki í samræmi við þetta frv. Og ég held nú, að þessir flokkar ættu að athuga málið betur og a.m.k. breyta fyrirsögnum í blöðum sínum.