06.04.1960
Efri deild: 55. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

111. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Um þetta mál hafa nú þegar orðið alllangar umr. hér í d., og í þeim ræðum og nál., sem fyrir liggja, hafa komið fram mjög skýr rök í þessu máli, sem sýna, hvers eðlis þetta frv. er, og í nál. og ræðu 2. minni hl. fjhn. eru nefnd dæmi um áhrif þessa frv., miðað við tekjuhæð á ýmsum bilum, dæmi, sem eru óvefengjanleg. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. með því að fara að endurtaka þessi rök eða ræða meginefni þessa frv. að verulegu leyti. En ástæða þess, að ég kvaddi mér hljóðs, eru ummæli, sem fram hafa komið af hálfu þeirra, sem eru forsvarsmenn þessa frv., og eru þess eðlis, að ég tel rétt að láta koma í Alþingistíðindin nokkra leiðréttingu á þeim.

Hv. 9. landsk. þm. (JÞ) komst þannig að orði, að vandalaust væri að hafa óbeina skatta þannig, að þeir kæmu þyngst niður á þeim, sem hafa miklar tekjur. Það má segja, að fræðilega skoðað megi þetta til sanns vegar færa. En hitt er jafnaugljóst, að ráðstafanir hæstv. ríkisstj. og núv. þingmeirihluta í efnahagsmálum fylgja ekki þessari stefnu. Áhrifaríkustu ráðstafanirnar, sem gerðar eru að tilhlutun núverandi ríkisstj. í efnahagsmálum, eru gengisbreyting, en hún er þess eðlis, að við gengisbreytingu hækkar jafnt eða breytist jafnt erlendur gjaldeyrir, til hvers sem hann er notaður, hvort sem það er til kaupa á nauðsynjavörum eða annars, sem er miður þarfur varningur. Og hin ráðstöfunin, sem er mjög áhrifarík, er söluskattur, en hann er einnig þess eðlis, að hann leggst með jöfnum þunga á allar vörur, hvort sem þær eru nauðsynlegafi eða ónauðsynlegar. Svipað má segja um vaxtahækkunina. Þannig eru þær ráðstafanir, sem gerðar eru af núv. ríkisstj., ekki í samræmi við þessi orð eða þessa kenningu hv. 9. landsk. þm.

Hv. frsm. meiri hl. fjhn. gerði í ræðu sinni nokkurn samanburð á beinum sköttum og óbeinum, eðli þeirra og áhrifum. Mér virtist sumt af því, sem fram kom í ræðu hans, ekki vera rök fyrir því frv., sem hér er til meðferðar. Skal ég ekki rekja það nánar.

Hv. frsm. meiri hl. viðurkenndi, að af ráðstöfunum hæstv. ríkisstj. leiddi kjaraskerðingu. Þetta voru drengileg ummæli og réttilega sögð af hans hálfu. En hann tók jafnframt fram, að þjóðinni og þm. ætti ekki að koma þetta á óvart, að nú kæmi til framkvæmda kjaraskerðing, vegna þess að það hefði ekki verið dregin dul á það í sambandi við kosningabaráttu á s.l. ári, að svo hlyti að verða. Það er sérstaklega þetta, sem ég vil gera aths. við og láta koma fram leiðréttingu á.

Meðan Sjálfstfl. var í stjórnarandstöðu á árunum 1956–58, taldi flokkurinn fært að hækka kaup í landinu. Það kom greinilega fram í aðalmálgagni flokksins á þessu tímabili. Og þær kauphækkanir, sem þá urðu, munu ekki hafa verið Sjálfstfl. ógeðþekkar. En þegar vinstri stjórnin sagði af sér haustið 1958 og Sjálfstfl. fékk tækifæri til þess að mynda stjórn eða beita sér fyrir stjórnarmyndun, komst hann að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa athugað efnahagsmálin, að það þyrfti að koma á grunnkaupslækkun, sem næmi um 6%, að mig minnir, til þess að auðið væri að halda í horfinu. Þessi niðurstaða flokksins jafngilti í raun og veru yfirlýsingu um það að hann segði við fólkið: Ef ekki hefði verið viðhöfð kaupgjaldsbarátta á tímabilinu 1956–58 og farið eftir því, sem málgagn flokks okkar taldi fært, væri nú auðvelt að ráða fram úr efnahagsmálum þjóðarinnar. Það, sem er þá fyrsta verkefnið, er, að þið — almenningur — skilið aftur því, sem þið fenguð í ykkar hendur m. a. fyrir áhrif frá okkur.

Það mun hafa verið um svipað leyti og þessi skoðun flokksins kom opinberlega fram, að flokksráðssamþykktin, sem hv. frsm. meiri hl. fjhn. vitnaði til, var gerð. Og kosningastefnuskrá Sjálfstfl., myndskreyttur bæklingur, sem dreift var út fyrir kosningarnar í haust, ber fyrirsögnina: Leiðin til bættra lífskjara. Það mun nú hver maður sjá, að sá kjósandi, sem fékk þann bækling í hendur, þar sem lofað var leið til bættra lífskjara, hafi ekki getað skilið afstöðu flokksins þannig, að í þessu loforði fælist raunverulega yfirlýsing um kjaraskerðingu, svo sem nú er fram komið.

Allt þetta jafnast þó engan veginn á við það, sem fram kom af hálfu Alþfl., og hefur margt af því verið rakið hér áður í d., og ætla ég ekki nú að þessu sinni að tefja tímann með því að endurtaka það. Við þekkjum yfirlýsingarnar um að heimta óbreytt ástand, að ef kæmi til verðhækkana í landinu, þá skyldu aðrir flokkar standa fyrir því en Alþfl. Við þekkjum þetta allt saman. Við þekkjum það líka, að meira að segja einn af þm. Alþfl. leyfði sér fyrir kosningarnar í haust að kalla alla þrjá keppinautana verðbólguflokka, en Alþfl. væri sá eini, sem stæði trúlega vörð gegn vexti verðbólgunnar og ætlaði sér að fylgja stöðvunarstefnunni. En einna skýrast kom þetta þó fram í ummælum fyrrv. forsrh., sem fór með valdið í umboði Alþfl. og með stuðningi Sjálfstfl. Það var sama valdasamsteypan, sem fór með stjórn landsins raunverulega á árinu 1959 eins og nú, og forsrh., sem talar til þjóðarinnar, það er ekki hægt að komast hjá því að taka ummæli hans alvarlega. En 21. sept. hafði Alþýðublaðið þessi um mæli eftir þáv. forsrh., þegar það endursagði að nokkru leyti ræðu, sem hann hafði flutt:

„Emil sagði, að Alþfl. vildi halda niðri verðlagi og kaupgjaldi til að hindra dýrtíðarskrúfu, halda atvinnuvegunum gangandi, afgreiða greiðsluhallalaus fjárl. án nýrra skatta og afla útflutningssjóði nægra tekna án nýrra byrða á almenning.“

Frá þessum ummælum verður ekki hlaupið, þau eru opinberlega sögð, og þau eru skjalfest. Og í útvarpsumræðu 20. okt., rétt þegar kosningabaráttan var að ná hámarki, segir fyrrv. forsrh. þetta til allrar þjóðarinnar:

„Kosningarnar, sem nú fara í hönd, eru örlagaríkar. Þær eru það vegna þess, að þær skera úr um það, hvort freistað verður að leysa vandamál framtíðarinnar með svipuóu hugarfari og á sama hátt og gert hefur verið á þessu ári eða hvort látið verður undan hverjum goluþyt sérhagsmunahópanna og hann látinn feykja okkur fram af hengiflugsbrúninni.“

Þetta eru skýr ummæli, sem ekki er auðið að vefengja eða hlaupa frá, þau eru sögð í útvarp til allrar þjóðarinnar rétt fyrir síðustu kosningar af þáv. forsrh. landsins, að stefnan væri þessi: að leysa vandamál framtíðarinnar með svipuðu hugarfari og á sama hátt og gert hefur verið.

En það er jafnvel í sambandi við þetta frv., sem hér er til umr., að efndirnar reynast ekki í samræmi við loforð og yfirlýsingar Alþýðuflokksmanna, og get ég ekki látið hjá líða að benda á dæmi þess, fyrst forsvarsmenn þessa máls töldu ástæðu til að fara að beina umræðum inn á þessa braut. Í útvarpsumræðum fyrir kosningar, þ.e.a.s. 21. okt., gefur hæstv. viðskmrh. þjóðinni þetta fyrirheit:

„Og nú spyr ég ykkur, hlustendur góðir: Finnst ykkur ekki skynsamlegra að losna við tekjuskattsfarganið, framtölin, álagninguna, sem kostar vinnu 200 manna, innheimtuna, áþægindin, sem fylgja því að verða að greiða skattinn af tekjum, sem ef til vill er búið að eyða, og þá síðast, en ekki sízt, óánægjuna út af misréttinu og ranglætinu, sem hlýtur að fylgja þessari skattheimtuaðferð, þegar í staðinn þyrfti ekki að koma annað en 9% hækkun á óbeinum sköttum, sem við greiðum hvort eð er af öðrum vörum en brýnustu nauðsynjavörum?“

Nú virðist mér, að jafnvel þetta frv., sem hér er til umr., sé enn einn vottur þess, að efndir séu ekki í samræmi við loforð. Er horfið frá tekjuskattsfarganinu? Ég held ekki. Á að hætta að gera framtöl? Ég held ekki. Þvert á móti bendir ýmislegt til þess í frumvörpum hæstv. ríkisstj., að það þurfi jafnvel að leggja meiri alúð við það hér eftir en hingað til að gera framtölin vel úr garði, þar sem nú á að lögleiða útsvarsstiga og binda útsvarsálagninguna við framtölin, jafnvel meira en gert hefur verið. Og það er einnig í sambandi við tryggingalöggjöfina, sem óhjákvæmilegt er að gera framtöl úr garði í sambandi við skerðingarmarkið o.fl., eins og bent hefur verið á í nál., sem liggur fyrir í þessu máli.

Ég held, að farganinu, óánægjunni, jafnvel misréttinu, sem talað er um, og ranglætinu, því verði ekki útrýmt með þessu frv.

En að síðustu tók frsm. meiri hl. fjhn. það fram, að ætla mætti, að í kjölfar ráðstafana ríkisstj. mundu koma aukin framleiðsluafköst, sem bættu þjóðinni upp tekjurýrnunina og kjaraskerðinguna, sem ég og aðrir hafa gert hér að umræðuefni. Ég held, að þetta sé því miður of mikil bjartsýni. Lánasamdrátturinn, vaxtahækkunin, væntanlega minnkandi innflutningur samkv. áætlunum um þau efni, það verður ekki til þess að auka framleiðslustarfsemina í landinu. Og þær gífurlegu verðhækkanir, sem þegar hafa komið fram og fyrirsjáanlegar eru, m.a. á tækjum til atvinnurekstrarins, þær örva ekki til aukinnar framleiðslu, heldur þvert á móti vinna að því markvisst og á áhrifarfkan hátt að draga úr tækniþróun atvinnuveganna og draga úr einstaklingum kjark við það að bæta aðstöðu sína í því efni.

Þeir, sem þekkja til, m.a. úti á landsbyggðinni og hafa sambönd við fólkið þar, sem stendur í atvinnurekstri bæði til lands og sjávar, hafa þegar orðið þess varir, hver áhrif þessar ráðstafanir hafa í þessa stefnu.