06.04.1960
Efri deild: 55. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1957 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

111. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir lesturinn upp úr Alþýðublaðinu. Þessi hv. þm. hefur valið Alþýðublaðið sér að nokkurs konar stafrófskveri, og ég álít, að það sé mjög vel valið. Hitt þykir mér öllu leiðinlegra, að hann skuli alltaf lesa það sama. Þegar hann les upp úr Alþýðublaðinu næst, vildi ég mælast til, að hann læsi eitthvað nýtt. Þetta er sennilega í fjórða eða fimmta skiptið, sem hann les þessar sömu greinar, t.d. eins og hann gerði nú í sinni ræðu.

Það er alveg rétt, að forustumenn Alþfl. töluðu um að halda óbreyttu ástandi. En það kemur nú úr hörðustu átt frá framsóknarmönnum að vera að gagnrýna þetta, því að þeim fannst ástandið mjög slæmt, þegar stjórn Emils Jónssonar sat að völdum, og vildu breytt ástand. En nú virðast framsóknarmenn komnir á aðra skoðun, þeir virðast vilja halda því ástandi, sem þá var.

Það, sem er mergurinn málsins, er vitanlega það, ef við berum saman, hvað var gert í fyrra og hvað verið er að gera núna, að það er verið að leysa tvö mismunandi vandamál. Í fyrra var brýnasta vandamálið verðbólgan, og þá varð að halda uppi stöðvunarstefnunni.

Það, sem er brýnasta vandamálið núna, er að fást við gjaldeyrishallann, og til þess eru ekki önnur ráð heppilegri en gengisbreyting. Hún hefur náttúrlega óhjákvæmilega í för með sér verðhækkanir. En þegar þessar verðhækkanir eru komnar fram, verður auðvitað að taka upp stöðvunarstefnuna á ný, það er ósköp augljós hlutur.

Svo að dæmi sé tekið, ætti hv. þm. að skilja það, að ef sjúklingur kemur til læknis og er með tvo sjúkdóma og svo er reynt að lækna fyrri sjúkdóminn, þá þarf sama meðal alls ekki að eiga við seinni sjúkdóminn. Ég get alveg fullvissað hv. þm. um, að Alþfl. gengur nú til verka með svipuðu hugarfari og í fyrra, þ.e.a.s. að leysa þau vandamál, sem fyrir liggja, og hvika þar hvergi.

Þessi hv. þm. sagði, að það hækkaði allt jafnt við gengisbreytinguna. Ég er alveg hissa á því, að jafngreindur maður skuli láta sér aðra eins fjarstæðu um munn fara. Þetta hefði verið rétt, ef það hefði verið hér sama gengi fyrir. Það var breytilegt gengi, það voru mismunandi yfirfærslugjöld, eins og öllum er kunnugt, enda vita það allir menn, að vörur hafa hækkað misjafnt í verði. Þá sleppti líka hv. þm. alveg því, að nokkrar brýnustu lífsnauðsynjar, sem fluttar eru inn erlendis frá, eru greiddar niður. Þá hækka þær auðvitað ekki eins mikið og annað. (Gripið fram í: Þær hækka samt sem áður.) Þær hækka, en ekki eins mikið. Hann sagði, að allt hækkaði jafnt. Það voru hans óbreyttu orð. — Svo hefur líka leitt af þessum ráðstöfunum breytingar á aðflutningsgjöldum. Þá vita það líka allir menn, að við þessar efnahagsráðstafanir hefur innlenda varan hækkað minna en sú erlenda, og innlendu vörurnar eru yfirleitt, þegar á heildina er lítið, brýnni nauðsynjavörur en þær erlendu.

Þá vildi þessi hv. þm. halda því fram, að það væru svík hjá Alþfl. að afnema ekki tekjuskattinn alveg. Aftur á móti vildi flokksbróðir hans, sem á sæti í fjhn. og talaði við 1. umr. þessa máls, eiginlega halda því alveg gagnstæða fram. Orð hans lágu þannig, að þau var ekki hægt að skilja á neinn annan veg en það væri Sjálfstfl. að kenna, að það hefði verið lækkað svona mikið á hátekjumönnum, og Alþfl. hefði þar látið undan. Þannig prédika þeir sitt hvað, þessir flokksbræður, eftir því, hvaða umr. er um málið.

Þessi hv. þm. á að vita það, eins og svo margsinnis hefur verið sagt, að það verður haldið áfram að endurskoða þessa löggjöf, þetta er engin endanleg lausn á því máli, sem hér á að afgreiða. En það hlýtur þó öllum mönnum að vera ljóst, að þegar skattgreiðendunum fækkar úr 63 þús. niður í 15 þús., hlýtur eitthvað að sparast viðvíkjandi álagningu skattsins, það er óhjákvæmilegt.

Þá ætla ég að koma nokkuð að nál. hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK), það er í niðurlagi nál., það hefur reyndar borið hér á góma áður í umr., en ég vil lesa það hér, með leyfi hæstv. forseta, þar stendur svo:

„Enn er eitt, sem tekur þó fram úr öllu öðru í frv. þessu. 1. gr. frv. gerir ráð fyrir, að skattgjaldstekjur, sem eru fram yfir 110 þús. kr., séu algerlega skattfrjálsar. Skattlagningin á ekki að ná hærra en í 110 þús. kr. skattgjaldstekjur, þ.e.a.s. 110 þús. kr., þegar búið er að draga frá persónufrádráttinn. Sá gróðapeningur, sem er þar fyrir ofan, á að vera yfir skattlagningu hafinn. Hér má segja, að stjórnarflokkarnir nái sér fullkomlega á strik. Þarna er svo langt gengið, að ég á þrátt fyrir allt bágt með að trúa, að leiðrétting fáist ekki á því, og geri þess vegna tilraun til að flytja svofellda brtt.“ — sem er sem sagt á þá leið, að þar komi: 90 þús. og þar yfir.

Ég get varla ímyndað mér, að þetta nál. og sérstaklega þó þessi þáttur þess sé fluttur hér fram fyrir hv. d. til þess að vera tekinn alvarlega af alþm. Ég hugsa, að þetta sé fremur sniðið við það, að hv. þm. vænti þess, að þetta nál. hans verði lesið í þingfréttum útvarpsins, og þetta á þess vegna að koma fyrir landslýðinn. En ég hefði nú varla trúað því að óreyndu um hv. þm., að hann leyfði sér svona loddarabrögð. Hann veit það ósköp vel og hefur auðvitað vitað það frá því fyrsta, að hann rak augun í þessa vangá, að það hefur aldrei komið til orða, að hæstu tekjurnar væru skattfrjálsar, fjarri því. Fjhn. lét skattstofuna í Reykjavík reikna út fyrir sig, hverju skatthæðir næmu á ýmsum tekjubilum, og það var gert nú eftir að frv. kom fram með þessum agnúa, og skattstofan hefur hér reiknað langt yfir það tekjumark, langt yfir 90 þús. kr. Þetta plagg hafði þessi hv. þm. undir höndum. Í ýmsum útreikningum, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ), er með, hefur hann ekki gert ráð fyrir því, að hætt væri að leggja á við 90 þús. kr. Hann hefur vitað alveg, hvað hér var verið að fara, þetta var augljóslega villa í frv., sem sjálfsagt var að leiðrétta. En þá kemur þessi hv. þm., 1. þm. Norðurl. e., og segir, að hér megi segja, að stjórnarflokkarnir nái sér fullkomlega á strikið. Ég vil þó samt sem áður óska þessum hv. þm. til hamingju með það, að hann skyldi sleppa niður úr þessu nál. því dæmi, sem hann tók hér í ræðu sinni um spilamennsku, því að hann sagði í sinni ræðu, að þeir, sem spiluðu með léleg spil eða hefðu hrök á hendinni, þar átti hann við hæstv. ríkisstj., — væru alltaf að reyna að ná hrökunum aftur úr stokknum. Hvaða spilamaður hagar sér svona? Það var svei mér heppilegt, að hann upplýsti ekki fyrir útvarpshlustendum þessa fávizku sína í spilamennsku. Það væri kannske í eina tilfellinu, sem hægt væri að hafa eitthvert gagn af því, ef maður væri að spila framsóknarnóló.

Hv. 4. þm. Vestf. (SE) og reyndar fleiri af þm. Framsfl. hafa gert hér allmikið að umræðuefni þau ummæli mín, að ekki væri hægt að svíkja undan óbeina skatta. Þeir hafa þar helzt vitnað í söluskattinn. Nú geta óbeinir skattar verið margt annað en söluskattur. Ég vil í fyrsta lagi spyrja: Hvernig er hægt að svíkja undan söluskatti í tolli? Ég sé ekki, að það sé hægt. Í öðru lagi: toll- og aðflutningsgjöld yfirleitt, sem eru að vissu leyti ekkert annað en óbeinir skattar, ég sé ekki nein sérstök ráð, — það getur vel verið, að þeir hv. Framsóknarþm. þekki þau, — mér er það alveg ókunnugt, að það séu yfirleitt nokkur tök á að svíkja þau undan. Einn framsóknarmaður hélt því fram hér í d. fyrir nokkru, að hækkun á tóbaki og svo brennivíni líka væri skattar eða óbeinir skattar. Hvernig er hægt að svíkja það undan? Hvernig kemst maður hjá því, sem ætlar að kaupa sér eina flösku af brennivíni, að borga þessa hækkun, eða pakka af sígarettum? Hann kemst ekki hjá því. Það, sem þeir hafa helzt verið að tala um, er, að þeir, sem ættu að standa skil á söluskattinum, — það eru þá helzt kaupmenn og atvinnurekendur, — gætu svikizt um að skila. Nú hlýtur það að vera augljóst mál, að þessir aðilar í landinu eru svo fáir, — þeir eru mjög fáir samanborið við alla tekjuskattsgreiðendurna, sem voru yfir 60 þúsund, — það væru kannske til einhver örfá tilfelli, þar sem hægt væri að svíkja undan skatti, en það er svo lítilfjörlegt samanborið við heildina, og ég álít, að það sé vandalaust að koma því svo fyrir, að ekki sé svikið undan og að staðin séu skil á söluskatti. Það er a.m.k. ekki á nokkurn hátt sambærilegt við þau skattsvik, sem eiga sér stað með beina skatta.

Þá var þessi hv. þm. að skamma Alþfl. fyrir það, að nú yrðu útsvör frádráttarbær og þetta væri fyrst og fremst hátekjumönnum í hag. Ég get skýrt frá því hér, að einu sinni í vetur kom ég á fund þessarar n., sem útbjó útsvarslöggjöfina. Formaður þeirrar n. var framsóknarmaður, og á þessum nefndarfundi hélt hann langa ræðu um það, hvað þetta væri sanngjörn og eðlileg regla. Við Alþfl.-menn höfðum satt að segja engan sérstakan áhuga á þessu, en gátum fallizt á það. Svo kemur þessi hv. þm. hér upp og er að skamma Alþfl. fyrir að standa að þessu.

Þá var þessi sami hv. þm. enn fremur að tala um það, að Alþfl. hefði lagt einhverja gildru fyrir fólkið með því að hækka hátollavarninginn, því að það kæmi þannig út, að fólk hefði engin ráð á því að kaupa hátollavarning. Ef það er einhver gildra fyrir láglaunafólk að hækka hátollavarning, verð ég að segja, að það er ekki Alþfl., sem hefur lagt þá gildru fyrstur. Ég vildi álíta, að það væri Eysteinn Jónsson. Var það ekki einmitt eitt af helztu úrræðum vinstri stjórnarinnar að hækka hátollavarning? En svo miklu áherzlu leggur þessi hv. þm. á það að skamma Alþfl., að hann afneitar sínum flokksmönnum miskunnarlaust bara til þess eins. Ég skil þetta reyndar ekki almennilega. Ég veit ekki, hvort það á að vera þakklæti til Alþfl. fyrir það, að í eina skiptið, sem þessi hv. þm. náði kosningu í Barðastrandarsýslu, þá var það með aðstoð Alþfl., og að þetta þakklæti komi bara fram á svona einkennilegan hátt.

Einn þm. framsóknarmanna, það var hv. 1. þm. Vesturl. (ÁB), var að tala um, að hátekjumenn hefðu sömu fjölskyldubætur og láglaunamenn. Það er rétt. Þetta kemur líka fram, að mig minnir, í nál. hv. 5. þm. Norðurl. e. Ég get vel fallizt á, að það er álitamál, hvort hátekjumenn ættu að hafa fjölskyldubætur. En ég minnist þess ekki, að framsóknarmaður né Alþýðubandalagsmaður bæri fram till. um það, þegar tryggingafrv. var hér til afgreiðslu í þinginu, að afnema fjölskyldubætur hjá hálaunafólki, og þó var sannarlega ekki sparað tillöguflóðið í því máli.

Þessir flokkar hafa líka barizt fyrir því, að skerðingarákvæði almannatryggingalaganna varðandi ellilífeyri væru felld niður. Hvað mundi það þýða, ef þau væru felld niður, sem í sjálfu sér getur verið sanngirnismál? Það þýddi náttúrlega, að hátekjumenn fengju eftirlaun eins og aðrir. Þessir flokkar hafa barizt fyrir því. Það er ekki samræmi í þeirra málflutningi.

Framsóknarmenn hafa ekki treyst sér til að neita því, að það sé ábótavant eftirliti með framtölum og öðru slíku. En hvorki þeir né Alþýðubandalagsmenn koma fram með till. um það, hvernig eigi að bæta úr þessu: Í sjálfu sér hef ég sáralitla trú á því, að það sé hægt á raunhæfan hátt. En mér fyndist þetta einmitt ætti að standa framsóknarmönnum næst, því að það mun nú vera svo, að næstum því hver einasti skattstjóri á landinu er framsóknarmaður. Það ættu því að vera hæg heimátökin að fá tillögur, að þessi flokkur gæti komið með till. um það, hvernig ætti að bæta úr þessu. Nei, það er eins og vant er, það er rifizt og skammazt og snúið út úr, en það er ekki komið með neinar till., hvorki í þessu máli né öðru. Það er stefnan að vera alltaf á móti stjórninni, en geta ekki bent á neinar aðrar leiðir sjálfir.

Hv. 9. þm. Reykv. (AGI) talaði um það, að tekjurnar væru grundvöllur við álagningu tekjuskatts. Þetta er að mínum dómi ekki alveg rétt. Það eru ekki hinar raunverulegu tekjur, heldur eru það tekjurnar, sem taldar eru fram, og á þessu er allmikill munur, þannig að þessi grundvöllur er mjög vafasamur, elns og margoft hefur komið fram í þessum umr. Hitt kemur manni svo reyndar spánskt fyrir sjónir, þegar Alþýðubandalagsmenn eru að fordæma, að það eigi að fara að fella niður beina skatta, og óttast, að tekjuskatturinn allur verði felldur niður og jafnvel útsvör. Ég verð að játa, að ég tek þetta ekki mjög hátíðlega. Það, sem við erum að stefna að, er í raun og veru sovétskipulag í skattamálum. Þar eru yfirleitt engir tekjuskattar og ekki stighækkandi. Þar eru hins vegar háir söluskattar. Og þó er það svo, að þarna fyrir austan í sælunni er margfalt meiri tekjumunur hjá mönnum en hér á Íslandi, margfalt meiri. Manni kemur það þess vegna dálítið spánskt fyrir sjónir, þegar þessir menn eru alltaf að tala um hátekjumenn. Hvað mættu þeir þá segja þarna fyrir austan? Ég verð því að játa, að ég tek þetta skraf þeirra ekki mjög alvarlega.

Þessi hv. þm., 9. þm. Reykv., talaði um, að almenningur fengi felldan niður skatt, sem næmi yfirleitt nokkrum hundruðum, en hátekjumennirnir skatt, sem næmi tugum þúsunda. Hér er auðvitað farið með hinar mestu ýkjur. T.d. vísitölufjölskyldan hefur 68 þús. kr. í tekjur, og breytingin hjá henni yrði niðurfall á tekjuskatti um tæplega 2000 kr. Ég vil líka nefna sem dæmi, af því að þessir menn gera raunverulega alltaf of lítið úr tekjum verkamanna og almennra launþega, að á árinu 1958 voru meðaltekjur gjaldenda á Akranesi 88 þús. kr. Engum manni dettur í hug að halda, að þetta sé einhver sérstakur hátekjumannabær. Nei, fólkið, sem byggir Akranes, er fyrst og fremst verkamenn og sjómenn. Þar voru meðaltekjurnar 88 þús. kr. Og það er í raun og veru bara til útvarpslestrar eins og annað, þegar hv. 5 þm. Norðurl. e. segir í sínu nál., — hann er þar eitthvað að fara með tölur, — að það séu 2596 menn á skattskrá, sem fái samtals gefnar eftir 76 kr. á mann. Þetta er sjálfsagt tölulega rétt. En um hvers konar fólk ætli sé þarna að ræða? Það er um að ræða unglinga, nemendur, t.d. iðnnema, og fólk, sem einhverra hluta vegna, veikinda eða annarra hluta, hefur ekki unnið nema einhvern hluta úr árinu. Svo er þetta tekið sem dæmi um það, hvaða hagur mönnum yfirleitt sé að fá felldan niður tekjuskatt. Þetta er auðvitað algerlega fjarstætt dæmi. því að hér er um fólk að ræða, sem hefur ekki haft nema lítinn hluta að eðlilegum tekjum af einhverjum ástæðum.