07.04.1960
Neðri deild: 65. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

111. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Mér finnst rétt að vekja athygli á því strax í upphafi, bæði hvað snertir það frv., sem hér liggur fyrir, um breyt. á tekjuskattslögunum, og eins um frv. það, sem ríkisstj. hefur lagt fram um breyt. á útsvarslögunum, að af hálfu ríkisstj. er lögð áherzla á það í sambandi við bæði þessi mál, að hér sé um bráðabirgðabreytingu að ræða, en fyrir dyrum standi allsherjarbreyt. og endurskoðun á þessum lögum, og er gefið fyrirheit um, að niðurstaða þeirrar athugunar og endurskoðunar skuli verða lögð fram á næsta þingi. Þessi bráðabirgðabreyting á útsvarsl. og tekjuskattsl. er fyrst og fremst rökstudd með því af hálfu hæstv. ríkisstj., að þessar breyt. séu gerðar til þess að veita mönnum bætur vegna hinnar auknu dýrtíðar og verðbólgu, sem hefur leitt af öðrum ráðstöfunum ríkisstj., m.ö.o., að þessi frumvörp tvö, þetta, sem hér liggur fyrir, og frv. um breyt. á útsvarsl., séu fyrst og fremst frv. um dýrtíðarbætur vegna annarra ráðstafana ríkisstj. Og ég tel rétt í því, sem ég segi hér, að ræða þetta mál út frá því sjónarmiði, en ekki sem almennt skattamál eða skattalagabreyt., vegna þess að fyrir dyrum stendur að taka þau mál alveg sérstaklega til athugunar, og það er líka rökstutt af ríkisstj., að þessi bráðabirgðabreyting á umræddum lögum sé fyrst og fremst við það miðuð að veita mönnum dýrtíðarbætur.

Það er ekki ófróðlegt í þessu sambandi að rifja það upp í stuttu máli, hvaða ráðstafanir það eru, sem hafa haft aukna dýrtíð og verðbólgu í för með sér og hæstv. ríkisstj. telur rétt að bæta upp með þessum hætti. Það er þá í fyrsta lagi að nefna gengislækkunina, en samkv. því, sem segir í bókinni Viðreisn, sem ríkisstj. hefur gefið út, hefur gengislækkunin í för með sér 25% verðhækkun á öllum erlendum vörum, sem ganga inn í framfærsluvísitöluna, þ.e.a.s. þetta er mismunurinn á gengislækkuninni og þeim yfirfærslugjöldum, sem áður voru og runnu í útflutningssjóð og nú munu verða felld niður. Og enn fremur segir þar, að af sömu ástæðum muni verðlag á landbúnaðarvörum hækka um 12% . Nú er það hins vegar að koma á daginn, að sú verðhækkun, sem hlýzt af gengislækkuninni, ætlar að verða talsvert meira en þetta, sem segir í bókinni Viðreisn og mun vera byggt á útreikningum sérfræðinga hæstv. ríkisstj., þannig að verðhækkun af völdum gengislækkunar einnar verður meiri en 25% á þeim erlendu vörum, sem ganga inn í framfærsluvísitöluna. Og á sama hátt má líka búast við því, að verðhækkunin verði meiri á landbúnaðarvörum af völdum gengislækkunarinnar en þar var gert ráð fyrir eða um 12% . Þetta er einn liður þeirra dýrtíðaraðgerða eða dýrtíðaraukningar, sem ríkisstj. hyggst bæta með umræddu frv. og breyt. á útsvarslögunum.

Annað, sem ríkisstj. hefur gert til þess að auka dýrtíðina og verðbólguna, eru hinir stórauknu söluskattar. Söluskattur, sem leggst á innfluttar vörur, hefur verið aukinn úr 7% í 15%, og gefur þá auga leið, að sú hækkun á þessum skatti hlýtur að hafa verulega eða mjög aukna dýrtíð í för með sér. Þá hefur ríkisstj. enn fremur lagt á nýjan almennan söluskatt, sem nemur 3% og mun leggjast á svo að segja allar vörur og þjónustu og hlýtur þar af leiðandi að hafa mjög verulega aukna dýrtíð í för með sér. Þá hefur vegna þessara og annarra ráðstafana, sem ríkisstj. hefur gert, orðið mjög mikil hækkun á flestum eða öllum þjónustugjöldum í þjóðfélaginu. Póstgjöld hafa hækkað, símagjöld hafa hækkað, útvarpsgjöld hafa hækkað, sjúkrasamlagsgjöld hafa hækkað, hvers konar tryggingaiðgjöld hafa hækkað, fargjöld hafa hækkað o.s.frv. Og þetta hlýtur vitanlega að hafa mjög aukna dýrtíð í för með sér. Síðast, en ekki sízt, er svo að nefna vaxtahækkunina, sem er mjög stórkostleg og hlýtur að auka dýrtíðina mjög verulega og framfærslukostnað fjölmargra manna. Allar þessar ráðstafanir ríkisstj. hafa orkað því, að dýrtíð eykst nú meira og hraðar í landinu en nokkru sinni fyrr hefur átt sér stað á jafnskömmum tíma, og þjóðin hefur aldrei horft framan í aðra eins óðaverðbólgu og þá, sem á sér nú stað hér á landi þessa dagana. Og það er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að gerðar séu einhverjar ráðstafanir til að bæta fólki upp þá miklu kjaraskerðingu, sem af öllum þessum ráðstöfunum hefur hlotizt, og það segist líka hæstv. ríkisstj. m.a. vera að gera með því frv., sem hér liggur fyrir, og með því frv., sem fyrir liggur um breyt. á útsvarsl., og svo með þeirri löggjöf, sem hefur nýlega verið afgreidd frá Alþ. um almannatryggingar. Og þá er að athuga það í stuttu máli, hvernig þessar dýrtíðarbætur hæstv. ríkisstj, verka, að hvað miklu leyti þær verða til þess að bæta fólki upp hina stórauknu dýrtíð, sem ég hef rakið hér á undan að skapast af öðrum ráðstöfunum ríkisstj.

Til þess að fara fljótt yfir sögu í þessu sambandi, vegna þess að það er nú samkomulag um, að þetta mál gangi í gegnum þingið á tiltölulega stuttum tíma, eða áður en páskafríið verður veitt, þá skal ég láta mér nægja að draga upp mynd af þessu með því að nefna aðeins tvö dæmi. Og ég ætla þá að nefna það dæmi, sem ég hef áður vikið að hér á þinginu, og það er annars vegar verkamaður, sem hefur um 60 þús. kr. árstekjur, en til þess þarf hann að vinna a. m. k. eina klst. í eftirvinnu, hvern virkan dag, og þessi maður hefur 4 manna fjölskyldu, hann hefur konu og tvö börn á framfæri, sem eru á aldrinum frá 16–19 ára. Og það lítur þannig út, að samkv. þessum dýrtíðaruppbótum, sem ríkisstj. telur sig vera að gera, fær þessi maður engar fjölskyldubætur, engar auknar tryggingar, hann fær um 2000 kr. skattalækkun samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, og 1000 kr. lækkun á útsvari samkv. því frv. um bráðabirgðabreytingu útsvarslaganna, sem liggur fyrir þessari d., eða m. ö. o., hann fær samtals 3000 kr. í dýrtíðarbætur.

Svo skulum við taka annað dæmi, en það er maður, sem hefur 160 þús. kr. tekjur og hefur á framfærslu sinni konu og tvö börn, sem bæði eru innan við 16 ára aldur. Það, sem hann fær samkv. þessum dýrtíðarbótum ríkisstj., er í fyrsta lagi 16 þús. kr. skattalækkun samkv. þessu frv., hann fær 10 þús. kr. útsvarslækkun samkv. frv., sem fyrir liggur um bráðabirgðabreytingu útsvarslaganna, og hann fær rúmar 5 þús. kr. í fjölskyldubætur. M.ö.o.: þessi maður, sem hefur 160 þús. kr. árslaun, fær um 32 þús. kr. í dýrtíðarbætur. Dæmið lítur þá þannig út, að verkamaðurinn með 60 þús. kr. árslaunin, sem þýðir það, að hann þarf að vinna a.m.k. eina klst. á dag í eftirvinnu og hefur 4 manna fjölskyldu, fær samkv. þessu 3 þús. kr. í dýrtíðarbætur, en hinn, sem hefur 160 þús. kr. árslaun og hefur jafnstóra fjölskyldu, fær 32 þús. kr. í dýrtíðarbætur, eða nál. ellefu sinnum hærri upphæð. Ég held, að frekari dæmi þurfi ekki að nefna til að sýna, hve mjög misjafnlega þessar dýrtíðarbætur ríkisstj. koma niður og hvernig þær verka þannig, að þeir, sem hafa beztu aðstöðuna og hæstu tekjurnar, fá hlutfallslega miklu meiri bætur en hinir, sem eru lakar staddir.

Í tilefni af þessu vildi ég spyrja hæstv. fjmrh. og vænti þess, að hann svari því, hvort hæstv. ríkisstj. geri sér það ekki ljóst, að dýrtíðarbætur þær, sem hún er að veita, bæði samkv. breyt. á tryggingalöggjöfinni og skattalögunum, koma mjög misjafnlega niður og gera það að verkum, að þeir, sem hafa hæstar tekjur, fá mestar bætur, en hinir, sem hafa lágar tekjur, fá mjög lágar eða sama og engar bætur. Og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvort ríkisstj. áliti þetta réttlátt og hvort hún ætli að láta við svo búið standa, hvort hún telji ekki eðlilegt, að gerðar verði einhverjar aðrar ráðstafanir en þessar til þess að bæta hlut þeirra mjög mörgu manna, sem fá sáralitlar eða engar bætur samkv. þeim dýrtíðaruppbótum, sem ríkisstj. hefur þegar veitt og felast í frv. um almannatryggingar og þessum skattafrv., sem hér hafa verið til umræðu. Ég vildi fá það upplýst hjá hæstv. fjmrh., hvort ríkisstj. hefur ekki einhverjar sérstakar ráðstafanir á prjónunum til þess að bæta hlut þessa fólks, — ef það eru réttir útreikningar hjá ríkisstj., og ég skal ekkert vera að rengja þá á þessu stigi, að það sé nauðsynlegt fyrir mann, sem hefur 160 þús. kr. árslaun, að fá 32 þús. í dýrtíðarbætur, hvort ríkisstj. álíti þá ekki nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess, að maður, sem hefur jafnstóra fjölskyldu og hefur ekki nema 60 þús. kr. í árslaun, fái meira en 3 þús. kr. í dýrtíðarbætur. Ég held, að ef ríkisstj. reiknar þetta dæmi betur upp og athugar þessar staðreyndir, hljóti hún að komast að raun um, að ef hún ætlar að gæta einhvers jafnræðis og réttlætis í þessum efnum, þurfi hún að gera einhverja bragarbót á þessum dýrtíðarráðstöfunum sínum. Þess vegna vænti ég þess, að hæstv. fjmrh. svari því, hvort hann og ríkisstj. hafi ekki gert sér grein fyrir því, að þessar dýrtíðarbætur hennar komi mjög misjafnlega og ranglátlega niður og þess vegna sé þörf á endurbótum frá því, sem nú er, til þess að bæta hlut þeirra manna, sem fá sama og ekkert bættan hlut sinn, en þar í eru allir lágtekjumenn landsins, svo að segja allir þeir, sem stunda verkamannavinnu, og margir þeirra, sem tilheyra millistéttunum. Ef hæstv. ríkisstj. ætlar hins vegar að láta við það sitja, sem hér liggur fyrir, og framkvæma þessar dýrtíðarbætur sínar með þessum hætti, þá liggur þar með ljóst fyrir, að hún stofnar til mikils ranglætis og óréttlætis í þjóðfélaginu, og hún má gera sér ljóst, að það verður ekki hægt fyrir alþýðustéttirnar eða láglaunastéttirnar að taka þessu þegjandi. Þegar ríkisstj. sjálf reiknar það út, að maður með 160 þús. kr. árslaun þurfi 32 þús. kr. í dýrtíðaruppbætur, þá gefur það auga leið, að verkamenn og aðrir, sem hafa svipaðar tekjur og þeir, geta ekki unað við það að fá ekki nema 3 þús. kr. uppbætur og jafnvel minna en það. Og ég held; að hæstv. ríkisstj. hafi þess vegna gott af því að gera sér ljóst, að ef hún gerir ekki neitt til þess að bæta úr þessu misrétti og þessu óréttlæti, er hún að stofna til mjög háskasamlegra hluta í þjóðfélaginu og baráttu, sem mundi vera hægt að komast hjá, ef hún veitti þeim, sem lakari hafa aðstöðuna, meiri réttindi og meiri aðstoð en felst í þeim dýrtíðaruppbótum, sem hún hefur þegar gert tillögur um að verði gerðar.

Ég held, að það megi fullyrða, að allar ríkisstjórnir hér í nágrannalöndum okkar, jafnvel þó að íhaldsstjórnir séu, reyni að haga þannig sínum stjórnaraðgerðum, að þeim, sem hafa miðlungstekjur eða lágar tekjur, sé reynt að sýna hæfilegt réttlæti og gera ekki hlut þeirra verri, miðað við aðrar stéttir, en hann hefur áður verið, heldur vinna frekar að því að bæta hann. En með öllum þessum efnahagsaðgerðum ríkisstj., ef lítið er á þær í heild, er stefnt í alveg þveröfuga átt. Og ríkisstj. stofnar áreiðanlega til mjög áhættusamra og vafasamra hluta í þjóðfélaginu og baráttu, ef hún heldur þessari stefnu sinni til streitu.

Ég skal svo ekki á þessu stigi hafa það öllu lengra, sem ég segi um þetta frv. En ég vil aðeins að endingu endurtaka þessa fsp. til hæstv. fjmrh., hvort ríkisstj. hafi ekki á prjónunum aðrar dýrtíðaruppbætur en þær, sem hún hefur þegar gert grein fyrir, til að bæta hlut þeirra manna, sem lakast eru settir í þjóðfélaginu og fara mjög illa út úr þessum málum, ef ekki eru neinar sérstakar ráðstafanir gerðar aðrar en þessar.