07.04.1960
Neðri deild: 65. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1984 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

111. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð, sem ég vildi segja í sambandi við þetta mál, áður en það gengur til nefndar. Hér er á ferðinni frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt, sem er veruleg breyt. á þeirri löggjöf. Tekjuskattur mun hafa verið fyrst í lög tekinn hér, svo að hægt sé að telja það, árið 1921 og hefur á því tímabili síðan tekið verulegum breytingum. En að stofni til mun sú löggjöf, sem nú er í gildi, vera frá 1935, en á henni hafa einnig verið gerðar miklar breytingar.

Það er eftirtektarvert, að á árunum 1942–50 ganga flestar þær breytingar, sem á skattalögunum eru gerðar, í þá átt að hækka beinu skattana. Má í því sambandi nefna stríðsgróðaskattinn, sem settur var 1942, tekjuskattsviðaukann frá 1945. Þessir skattar eða viðaukar við tekjuskattslögin gengu mjög í þá átt að hækka beinu skattana í landinu, og hafa þeir aldrei verið hærri en á þessu tímabili. Hins vegar upp úr 1950 fer að sækja í þá áttina aftur að lækka skattana, og er á því ári lækkaður skattur á lágtekjum. 1954 voru gerðar verulegar breytingar á skattalögunum, og er þá í lög tekið að gera spariféð skattfrjálst, sérstakur frádráttur fyrir fiskimenn, og fleiri breytingar voru þá gerðar. Skattalækkun sú, sem þá var gerð, mun hafa verið um 29% á einstaklingum og 20% á félögum. 1956 var tekjuskattsviðaukinn hjá félögunum felldur niður, og 1957 eru skattar lækkaðir á lágum tekjum og aukin hlunnindi fiskimanna. 1958 eru ný lög sett um skattgreiðslu félaga, og á því ári eru einnig sett ný lög um lækkun skatts af lágum tekjum og skattamál hjóna, sérstaklega þeirra, sem bæði vinna utan heimilis að öflun skattskyldra tekna, og síðan lækkaður skattur á fiskimönnum. Allar þessar breytingar, sem gerðar eru á tímabilinu frá 1950–1958, ganga í þá átt að lækka beinu skattana í landinu, eins og ég hef þegar vikið að. En það er eftirtektarvert við þessar breytingar, að þær ganga yfirleitt í þá átt að lækka skattinn á þeim, sem lægst eru launaðir, og að veita sérstök hlunnindi þeim mönnum, sem stunda framleiðsluna í landinu. M.a. var skattlækkun á fiskimönnum við það miðuð að auka ásókn manna til að stunda sjóinn og framleiðslustörfin yfirleitt.

1958 gerðist það, að flutt var hér á Alþ. þáltill. um athugun á því að afnema tekjuskattinn með öllu. Þeir Alþfl.-þm., sem þá sátu hér á Alþ., voru allir flm. þessarar till. Tvö meginatriði voru talin fyrir því, að réttlætanlegt væri að afnema tekjuskattinn. Í fyrsta lagi var það, að kostnaður við að innheimta og leggja tekjuskattinn á væri svo mikill, og í öðru lagi, að skattsvikin í landinu væru svo mikil, að það væri óviðunandi, og var þá helzt til ráða að leggja skattinn alveg niður. Þessi till. er fyrsta sporið, sem sjáanlegt var hér á Alþ. um sameiningu þeirra hv. stjórnarliða, sem nú eru orðnir. Þeir sameinuðust um að samþykkja þessa þáltill. og munu þá hafa farið að sjá, að með þeim var nokkur skyldleiki. Þetta frv., sem hér er á ferðinni, er svo í framhaldi af því samstarfl, sem hófst hjá þeim þá.

Það ber að vekja athygli á því í upphafi, að það, sem talið var að væri ein undirstaðan undir því, að tekjuskattinn ætti að leggja niður, það væri, að innheimtan væri svo dýr. En það er ekki sjáanlegt, að úr kostnaði við skattálagningu í landinu dragi, þó að þessi breyting verði gerð. Að vísu má á það benda, að að því ráði hefur ekki verið horfið að afnema tekjuskattinn, en það er á engan hátt dregið úr kostnaði við innheimtu skatta, þó að þessi breyt. nál fram að ganga. Enn fremur er heldur ekkert gert til þess að fyrirbyggja það, að skattsvikum verði við komið eftir sem áður, og hefur verið bent á það fyrr á þessu þingi, að nýi söluskatturinn muni varla verða til þess, og hann mun ekki heldur verða til þess að draga úr kostnaði við álagningu skatta og innheimtu.

Þegar þessi þáltill. var til meðferðar hér á hv. Alþ. á vordögum 1958, lýstum við framsóknarmenn yfir því í nál., að við vildum sjá, hvað við ætti að taka, ef beinu skattana í landinu ætti verulega að lækka. Hins vegar lýstum við þá einnig þeirri skoðun okkar, að við teldum eðlilegt að létta sköttum af þurftarlaunum, en vildum hins vegar athuga málið frekar, áður en lengra væri gengið.

Það hefur sýnt sig á hv. yfirstandandi Alþ., að sú stefna, sem ríkisstj. fylgir í efnahagsmálum nú, er öll á annan veg en verið hefur til þessa. Þegar sérstakar ráðstafanir hafa verið gerðar í efnahagsmálum á undanförnum árum, hefur alltaf jafnhliða þeim, eins og við gengisfallið 1950 og við yfirfærslugjaldið 1958, verið sérstaklega lagt á þá, sem höfðu breiðu bökin og gátu borið meiri byrðar en almenningur í þessu landi. Í því sambandi má nefna eignaraukaskattinn frá 1950 og stóreignaskattinn frá 1958. Og á það skal minnt, að Sjálfstfl. stóð einnig að því með okkur framsóknarmönnum að leggja á eignaraukaskattinn 1950. Nú hefur hins vegar verið farið allt aðra leið í ráðstöfunum í efnahagsmálum heldur en áður var farið og nú sérstaklega að því stefnt að leggja byrðarnar á almenning í landinu. Fyrsti þáttur í aðgerðum hæstv. ríkisstj. á yfirstandandi þingi var gengisfallið. Það miðar að því, svo sem ekki þarf að skýra hér, að almennt vöruverð í landinu hækkar stórkostlega. Og sérstaklega verður þessi hækkun tilfinnanleg á þeim vörum, sem báru lægra yfirfærslugjald og minni tolla áður. Hlutfallsleg hækkun á þeim verður meiri en á hágjaldavörunum. Þess vegna kemur gengisfallið til með að verka meira á hinn almenna borgara í landinu en á þá, sem breiðari hafa bökin.

Vaxtahækkunin nær einnig til allra þegna þjóðfélagsins, og er hinn almenni borgari ekkert undanskilinn, nema það, að hann hefur minni möguleika til þess að velta vöxtunum af sér aftur, þar sem það er yfirleitt um beina vexti að ræða vegna eigin skulda, sem hann greiðir. Söluskatturinn er svo áframhald á þessari stefnu. Hann er lagður á brýnustu neyzluvörur, eins og kjöt og fisk, og verða því allir þegnar þjóðfélagsins að bera hann, og því stærri sem fjölskyldan er, því meiri þungi leggst á hana. Því mun hins vegar hafa verið haldið fram, að þeir, sem meira mættu sín, keyptu meira af hágjaldavörum, en þeir njóta þá einnig þess, sem þær hafa upp á að bjóða, og er þá miðað við það, að hinir geti ekki veitt sér þetta.

Hæstv. ríkisstj. hefur haldið því mjög á lofti, að hún mundi bæta almenningi í landinu þá kjaraskerðingu, sem hér hefði átt sér stað, og hefur hún mjög haldið þeim dæmum á lofti, að þetta yrði gert með fjölskyldubótunum og með því að afnema tekjuskattinn, og í öllum þeim útreikningum, sem hæstv. ríkisstj. hefur látið frá sér fara í sambandi við þessar bætur, meðan efnahagsmálin og fjárlögin voru hér til meðferðar á hv. Alþingi, þá miðar hún við tveggja barna fjölskyldu, sem hafði 90 þús. kr. hreinar tekjur, og það var alltaf verið að sýna fram á það, að þessi fjölskylda yrði nú tekjuskattslaus, og það sýndi sig, að hún nyti verulega bótanna. Hins vegar ræddi ríkisstj. ekki um það á því stigi málsins, hvers hinir nytu, sem hærri hefðu tekjurnar. Nú er það hins vegar ljóst, hvernig hæstv. ríkisstj. býr að þegnum þessa þjóðfélags.

Nýlega hafa verið afgreiddar hér breyt. á lögum um almannatryggingar, þar sem fjölskyldubæturnar eru ákveðnar. Þessar fjölskyldubætur ná jafnt til allra, hvort sem það eru hátekjumenn eða lágtekjumenn, svo að það er ekki hægt að halda því fram með neinum rökum, að tryggingarnar eða fjölskyldubæturnar verði til þess að bæta þeim efnaminni neitt frekar en þeim efnameiri. Allir fá þar jafnt, hvort sem þeir eru efnaðir, tekjuháir eða tekjulágir, þar er allt á einn veg og þeir tekjulágu fá þar ekkert fram yfir.

Þegar hins vegar frv. um tekju- og eignarskatt liggur hér fyrir og jafnhliða liggur fyrir annað frv, um útsvarsreglur, þá verður það nokkurn veginn ljóst, hverjir það eru, sem njóta bótanna, sem hæstv. ríkisstj. ætlar þegnunum til þess að mæta að nokkru álögunum, sem hún leggur á þjóðina. Það hefur nokkuð verið drepið á það, hvernig þetta skiptist. En ég vil þó því til viðbótar nefna hér nokkur dæmi um það, hvernig bæturnar koma til með að verka fyrir þá tekjulágu og þá tekjuháu, og þá vil ég taka hér nokkur dæmi.

Er það fyrst einhleypur maður, sem hefur 50 þús. kr. nettótekjur. Hann fær samtals lækkun á tekjuskatti og útsvari, miðað við Reykjavíkurútsvarsstigann, 3516 kr. Hins vegar ef hann hefur 75 þús. kr. tekjur, þá fær hann 7009 kr. Ef hann hefur 100 þús. kr. tekjur, fær hann 12345 kr. Ef hann hefur 150 þús., þá fær hann 21671 kr. Og ef hann hefur 200 þús., fær hann 30730 kr. Einhleypur maður með 200 þús. kr. tekjur fær 30730 kr., þegar maðurinn með 50 þús. kr. tekjurnar fær 3516 kr. Þetta er réttlætið, sem hæstv. ríkisstj. sýnir þegnunum í þessu þjóðfélagi: því hærri tekjur, því meira burðarþol, því minni álögur. Þannig er stefna ríkisstj. Þeim skal meira bætt, sem meira hafa burðarþolið.

Ef við svo lítum aftur á fjölskyldurnar, þá er sama sagan þar. Hjón með 2 börn og 50 þús. kr. tekjur fá lækkað útsvar og tekjuskatt um 1083 kr. Hjón með sömu fjölskyldustærð og 100 þús. kr. tekjur fá lækkað um 10703 kr. Með 150 þús. kr. tekjum er þetta 23766 kr., og með 200 þús. kr. tekjum er þetta 33111 kr. – Fjölskylda með 200 þús. kr. tekjur fær 33100 kr. til þess að mæta álögum hæstv. ríkisstj., þegar fjölskyldan með 50 þús. kr. tekjurnar fær 1000 kr. Og svo er því haldíð fram, að það sé verið að bæta almenningi í landinu upp álögurnar. Miklar bætur eru það nú fyrir fjölskyldu með 50 þús. kr. tekjur. Það er von, að menn brosi að slíku. En það er ekkert broslegt við það, þegar þeir, sem hafa 50 þús. kr. tekjur, fá 1000 kr., þegar hinir, sem hafa 200 þús. kr., fá 33 þús. Það er kaldhæðni, þegar menn geta leyft sér, á sama tíma sem er verið að leggja takmarkalausar álögur á þjóðina, að brosa að slíku óréttlæti.

Og ef við höldum þessu áfram og tökum hjón með 3 börn, þá fá þau 696 kr., ef þau hafa 50 þús. kr. tekjur. Ef þau hafa 100 þús. kr. tekjur, fá þau 9281 kr. En ef þau hafa 200 þús. kr., fá þau 32496 kr. Í staðinn fyrir 696 kr. koma 32496 kr. Og svo leyfir hæstv, ríkisstj. sér að halda því fram, að hún sé að bæta almennum borgara í landinu upp álögurnar –með 696 kr.!

Ég verð að segja það, að þetta er æðimikil breyting frá þeirri stefnu, sem hefur verið fylgt hér undanfarin ár, þegar fyrst og fremst hefur verið lækkaður tekjuskatturinn á láglaunafólkinu, þegar hefur verið um það hugsað að leggja ekki eins há yfirfærslugjöld á nauðsynjavörurnar og hinar. Nú er horfið frá þessu öllu saman. Við gengisfall er bætt söluskatti, vaxtahækkun, og ofan á þetta á svo að bæta þeim upp, sem mestar hafa tekjurnar, þegar hinir fá sama og ekki neitt. Hér er lengra gengið en góðu hófi gegnir, og hér er lengra gengið en er sæmandi hæstv. ríkisstj. og þeim flokkum, sem hana styðja.

Við skulum gera okkur grein fyrir því, að hæstv. ríkisstj. hefur á þessum fáu mánuðum, sem hún hefur stjórnað, gengið lengra í álögum á þjóðina en nokkru sinni hefur verið gert fyrr, og hún hefur lofað þjóðinni því, að hún skyldi fá þetta bætt að nokkru leyti aftur, með lækkuðum tekjuskatti og útsvörum, og útkoman er svo þessi. Ég held, að það hefði verið betra að tala ekki um bæturnar, fyrst framkvæmdin er á þessa lund.

Hæstv. ríkisstj. hefur haldið því fram, að vísu áður en söluskatturinn kom til, að kjararýrnunin væri aðeins 3%. En menn geta nú kannske farið að átta sig á því, að 3%, sem hæstv. ríkisstj. talaði um, þegar hún var að tala um kjararýrnunina, er miðað við það að taka meðaltöluna, þegar hálaunamennirnir eru búnir að fá verulegar bætur. Almenningur í landinu mun áreiðanlega betur mega átta sig á því, hvernig ríkisstj. hugsar kjararýrnunina, þegar hann sér, að það er búið að bæta breiðu bökunum upp, en lagt á þá, sem miður mega sín. Þetta frv. er kannske kórónan á þessa nýju stefnu, ofan á allt það, sem á undan er gengið.

Ég ætla ekki að tala hér langt mál, eins og ég gat um í upphafi, en vildi aðeins benda á þetta. Það var nauðsynlegt að létta skatti af venjulegum þurftartekjum, og aldrei meiri nauðsyn en nú eftir þær álögur, sem á almenning hafa verið lagðar, en það er langt á milli heilans og hjartans hjá ráðamönnunum, þegar í leiðinni eru teknar stórkostlegar bætur fyrir þá, sem mest mega sín.