07.04.1960
Neðri deild: 63. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2014 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

113. mál, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Frv. til l. um jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem hér liggur fyrir til 2. umr., hefur inni að halda þá merku nýjung fyrir sveitarfélögin, að þeim er nú í fyrsta skipti séð fyrir tekjustofni, sem um munar, öðrum en útsvörum og fasteignagjöldum, þ.e.a.s. 56 millj. kr. af söluskatti skv. 1. gr. frv.

Sú hefur lengi verið ósk sveitarstjórnarmanna, að ríkisvaldið léti ekki við það eitt sitja að lögbjóða sífellt aukin útgjöld sveitarfélaga, án þess að sjá þeim fyrir tekjum á móti, en þær óskir hafa jafnan hlotið daufar undirtektir þar til nú, að umrætt frv. er fram borið. Við hverja nýja fyrirskipun frá Alþ. um hækkuð útgjöld bæjar- og hreppsfélaga hafa þau ekki haft önnur ráð tiltæk en að hækka útsvör. Þetta hefur stundum leitt til alvarlegra vandræða fyrir sveitarfélögin og jafnvel til greiðsluþrota, því að takmarkað er, hversu langt er hægt að ganga á þeirri braut að hækka útsvör, t.d. þegar atvinna er stopul eða svipaðir örðugleikar steðja að, sem gera hvort tveggja að torvelda álagningu útsvara og innheimtu þeirra.

Þannig var ástand þessara mála víða um land um og eftir 1950. Þá höfðu aflabrestur og stopul atvinna valdið ýmsum sveitarfélögum svo miklum örðugleikum, að þau voru að sligast undan lögboðnum útgjöldum. Var þá boðað til fundar allra bæjarstjóra á landinu til þess að ræða erfiðleikana og finna ráð til úrbóta. Þessi fundur var haldinn í október árið 1951, og bar hann m.a. fram kröfu um, að sveitarfélögin fengju helming þess söluskatts, sem þá var innheimtur, og sömdu bæjarstjórarnir frv. til l. um, hvernig þeim hluta söluskattsins skyldi úthlutað til sveitarfélaganna.

Þetta frv. fluttu síðan menn úr öllum flokkum á Alþ. árið 1951, en ekki náði það þó fram að ganga í það skiptið. Flm. frv. voru alþm. Karl Kristjánsson, Jóhann Þ. Jósefsson, Hannibal Valdimarsson og Finnbogi R. Valdimarsson. Frv. hafði inni að halda mjög svipuð ákvæði og það frv. um jöfnunarsjóð, sem hér er til umræðu. Samkvæmt því átti helmingur söluskatts að renna til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, tekjum sjóðsins af söluskatti skyldi skipt milli bæjar- og hreppsfélaga eftir fólksfjölda, miðað við næstliðið ár, þó þannig, að ekkert sveitarfélag gat fengið meiri greiðslur en sem nam 50% af útsvörum næsta árs á undan. Ákvæði var í frv. á þá leið, að ef ábyrgðarskuldbindingar féllu á ríkissjóð vegna sveitarfélaga, skyldi félmrh. heimilt að ákveða, að hluti af söluskattinum gengi til greiðslu á slíkum kröfum. Loks var ákvæði um, að ríkissjóður skyldi greiða jöfnunarsjóði hans hluta eigi síðar en mánuði eftir að innheimtumenn skattsins hefðu gert fjmrn. skil. Skipting til sveitarfélaganna átti að fara fram tvisvar á ári, 1. apríl og 1. október.

Allt er þetta eins eða hliðstætt í frv. því um jöfnunarsjóð, sem nú er til umr., en auk þess er í 3. gr. frv. ákveðið, að sjóðurinn hafi jafnframt það hlutverk að greiða fram úr fjárhagserfiðleikum sveitarfélaga skv. III. kafla laga nr. 90/1940, um eftirlit með sveitarfélögum, og að greiða aukaframlag til þeirra sveitarfélaga, er fá ekki nægileg útsvör á lögð skv. lögum um bráðabirgðabreytingu á útsvarslögum, er væntanlega verða afgreidd af þessu þingi.

Einhver kynni nú að spyrja, hvaða peninga jöfnunarsjóði væri ætlað að nota í þessu skyni. Því er til að svara, að reiknað er með, að skerðingarmarkið í bráðabirgðaákvæðinu muni þýða, að eftir verði í sjóðnum á þessu ári 11/2–2 millj, kr. Komið hefur til álita að úthluta ekki úr sjóðnum nema 95% af árlegum tekjum, en horfið var frá því ráði að svo stöddu. Þykir rétt að fá nokkra reynslu af því, hver útkoman verður, bæði varðandi skerðingarákvæðið og einnig það, hvort til þess kemur, að veita þurfi aukaframlög eða ekki. Fyrirhugað er að fella síðar ákvæði þessa frv. inn í heildarlöggjöf um sveitarstjórnarmál, eins og fram er tekið í athugasemdum, og gefst þá tækifæri til að lagfæra þau ákvæði, sem reynslan sýnir að þurfi að breyta, eða bæta við nýjum ákvæðum, ef ástæða þykir til.

Þá er þess að geta, að með frv. þessu, ef að lögum verður, á að fella úr gildi II. kafla laga nr. 67 1945, um jöfnunarsjóð sveitarfélaga, og VII. kafla framfærslulaga, nr. 80 1947, um jöfnun framfærslukostnaðar. Þau lagaákvæði hafa hin síðustu ár alls ekki náð upphaflegum tilgangi, sem mun hafa verið sá að létta undir með fátækustu sveitarfélögunum. T. d, skiptust greiðslur úr sjóðnum til jöfnunar á framfærslukostnaði þannig árið 1958:

Reykjavík .. ...................... 1735698

Aðrir kaupstaðir .. . .. . , .. 244014

Kauptún með yfir 500 89118 íbúa

.........

Samtals kr. 2068830

Þannig hefur höfuðborgin undanfarið fengið bróðurpartinn af þessu fé, en aðrir staðir hafa sumir ekkert fengið á sama tíma, og fær það engan veginn staðizt, að slíkt sé réttlátt, þegar tillit er tekið til þess, að Reykjavík hefur algera sérstöðu umfram önnur sveitarfélög til tekjuöflunar. Einnig má ætla, að auknar almannatryggingar létti bæjunum framfærslukostnaðinn, og er af þessum ástæðum lagt til að fella niður þær reglur, sem gilt hafa um jöfnunina milli sveitarfélaga. Tekið var tillit til þessa við afgreiðslu fjárlaga nú fyrir skemmstu og niður fellt framlag til jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga af 17. gr. fjárlaga, en það nam 3 millj. kr. í fjárlögum s.l. árs.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða nánar um einstök atriði frv. Ef sú áætlun stenzt, sem í því felst, ættu greiðslur út jöfnunarsjóði að miðast við hér um bil 330 kr. á hvern íbúa. Kaupstaðir og stærri hreppsfélög mundu fá 10–12% auknar tekjur, miðað við útsvör s.l. árs, en önnur sveitarfélög geta fengið á þessu ári allt að 35% tekjuauka, miðað við útsvör í fyrra, og eftir það allt að 50%, sbr. 2. gr. frumvarpsins.

Hv. alþm. hefur orðið tíðrætt um sjálfstæði sveitarfélaganna undanfarna daga, og er vissulega þakkarvert, að menn láti sér annt um þær gagnmerku stofnanir og sjálfstæði þeirra. En í þeim umr. hefur mér fundizt að hjá sumum hv. alþm. gætti harla lítils skilnings á því; hvað nauðsynlegast er til þess, að sveitarfélögin geti haldið áfram að gegna sínu þýðingarmikla hlutverki í þjóðfélaginu sem sjálfstæðar stofnanir. Að mínum dómi er það þýðingarmest, að horfið verði frá þeirri stefnu að rýra tekjuöflunarmöguleika sveitarfélaganna með því að gera þeim að greiða síhækkandi framlög af óbreyttum tekjustofnum, en sú stefna hefur fram til þessa ráðið mestu í sölum Alþingis. Slík vinnubrögð leiða til þess, að sveitarfélögin komast í greiðsluþrot og vanskil og verða efnahagslega ósjálfbjarga og ósjálfstæð.

Fyrir nokkrum árum kom fram sú hugmynd í milliþingan. í skattamálum að láta sveitarfélögin fá 1/4 hluta af söluskatti, eins og hann var þá, en afnema jafnframt veltuútsvör. Þáverandi bæjarstjóri í Siglufirði, Jón Kjartansson, boðaði af þessu tilefni til fundar fulltrúa frá kaupstöðum á Vestur-, Norður- og Austurlandi til þess að athuga þessa hugmynd. Í ljós kom við þá athugun, að af 8 kaupstöðum á þessari ráðstefnu hefði aðeins einn fengið lítið eitt auknar tekjur við þessa breytingu. Hinir hefðu allir tapað verulega, og þannig átti í þetta skipti að taka meira af sveitarfélögunum en boðið var fram. Þessi hugmynd komst ekki til framkvæmda vegna andstöðu sveitarfélaganna og samtaka þeirra, og ég geri hana að umtalsefni hér eingöngu sem dæmi um, hvernig á ekki að vinna að lausn þessara mála.

Annað tveggja eða hvort tveggja þarf að gerast: að sveitarfélögin fái nýja tekjustofna eða að af þeim verði létt lögboðnum útgjöldum, svo að um muni. Með stofnun 56 millj. kr. jöfnunarsjóðs er gert myndarlegt átak samkvæmt fyrri leiðinni, og þar er lagður grundvöllur, sem síðar verður hægt að byggja á. Ég er þess einnig fullviss, að síðari leiðin verður tekin til vandlegrar yfirvegunar af hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar við áframhaldandi endurskoðun þessara mála. Ég tel, að betur þurfi að gera til að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaganna, en ég fagna þessum áfanga og þeim aukna skilningi, sem málefni sveitarfélaganna eiga nú að mæta hjá handhöfum ríkisvaldsins. Þar hafa orðið mikil umskipti til hins betra frá því, sem verið hefur að undanförnu, eins og þetta mál ber gleggstan vott um.

Brtt. sú, sem heilbr.- og félmn. flytur á þskj. 286, þarfnast ekki frekari skýringa en þar koma fram. Hv. 4. þm. Reykn. (JSk), sem sæti á í n., hafði fyrirvara við nál., eingöngu vegna ákvæðis 1. mgr. 4. gr. frv. um það, að framlög jöfnunarsjóðs til sveitarfélaganna skuli greidd missirislega. Annar nm., hv. 4. landsk. þm. (HV ), undirritaði nál. með fyrirvara, en að öðru leyti var enginn ágreiningur um það í n, að mæla með samþykkt frv. og brtt. n. Fyrir hönd n. legg ég til, að málinu verði vísað til 3. umr.