07.04.1960
Neðri deild: 63. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2037 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

113. mál, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég sagði hér áðan fáein orð um það, að allar líkur væru til þess, að útgjöld sveitarfélaganna vegna efnahagsráðstafananna mundu hvergi nærri hækka til jafns við hluta þeirra af söluskatti. Það leiðir að sjálfsögðu til þess líka, að fullyrðingar hv. 4. landsk. þm. (HV) um, að útsvör í landinu muni yfirleitt hækka á þessu ári, fá engan veginn staðizt. Ég tel allar líkur til þess, að útsvörin í landinu lækki yfirleitt. Ég veit með vissu, að þau lækka hér í Reykjavík frá því, sem var á s.l. ári, og sem sagt, það eru allar líkur til þess, að yfirleitt í sveitarfélögunum geti útsvörin lækkað.

Hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj) hugðist nú hrekja þetta allt saman. Hann segir: Í hlut Hafnarfjarðar koma 2.2 millj. af söluskattinum, og nú er Hafnarfjörður að kaupa togara og hann hækkar nú í verði um 15–20 millj. Þarna sjáið þið, hvort Hafnarfjörður skaðast ekki á þessu öllu saman. — Og hann segir enn fremur, að kostnaðurinn við hafnargerðina hækki verulega o.s.frv. Ég hafði ekki búizt við því af þessum reynda og greinda þm., sem fengizt hefur mikið við fjármál sem formaður og meðlimur fjvn., að hann skuli leyfa sér aðra eins rökvillu og þetta. Til þess að einhver hell brú væri í þessu, ætti það að liggja fyrir, að Hafnarfjörður ætlaði úr sínum sjóði, af sínum árlegu tekjum að borga út þennan togara, 40 millj., á þessu ári. Þá væri einhver heil brú í þessu. Þannig liggja nú málin alls ekki fyrir. Sá togari, sem Hafnarfjörður er að kaupa, er auðvitað að langsamlega mestu leyti fenginn fyrir lánsfé, og er þá spurningin aðeins þessi: Hve mikið þarf sá hluti, sem bæjarsjóður Hafnarfjarðar kann að ætla í sinni fjárhagsáætlun í þessu skyni, að hækka hlutfallslega vegna efnahagsaðgerðanna? Og í rauninni gegnir alveg sama máli um hafnarmannvirki. Það er ekki hægt að leggja dæmið þannig fyrir eins og hv. 6. þm. Sunnl. gerir, heldur er spurningin þessi: Sú fjárveiting, sem Hafnarfjarðarkaupstaður kann að hafa á fjárhagsáætlun sinni á þessu ári til hafnarmannvirkja, hvað þarf hún að hækka hlutfallslega vegna efnahagsaðgerðanna?

Hins vegar er eitt tilfelli alveg sérstaks eðlis, og kom hv. þm. aðeins inn á það, og það er Akraneskaupstaður vegna Akraneshafnar. Vegna þess, hve mikið erlent lánsfé hefur verið tekið vegna byggingar Akraneshafnar og að það eru lán til skamms tíma, hækka vegna gengisbreytingarinnar vextir og afborganir ákaflega mikið á þessu ári og allra næstu árum af þessum ástæðum. Það eru alveg óvenjulegar ástæður, sem ég ætla að enginn annar kaupstaður eigi við að búa: Af þeim ástæðum voru einnig við afgreiðslu fjárlaga gerðar alveg sérstakar ráðstafanir. Það var veitt í fjárlögum 11/2 millj. kr. til þess að koma til móts við þessar sérstöku þarfir.

Út í þessi mál skal ég svo ekki fara að öðru leyti en því, að það er náttúrlega ákaflega mikill fagnaðarboðskapur fyrir okkur, og ég hef alls ekki heyrt hann fyrr, sem hv. 4. landsk. þm. (HV) segir. Hann segir: Sveitarfélögin hafa eiginlega aldrei átt jafngott, haft jafngáða daga og á tímum vinstri stjórnarinnar, því að þá tók atvinnulífið allt fjörkipp og efnahagslífið allt var traustara en nokkru sinni fyrr eða síðar. — Ja, það var nú meiri traustleikinn. Traustleikinn á sjálfri stjórnarskútunni var þannig, að ég man ekki betur en að í lok ársins 1958 liðaðist hún sundur og brotnaði í spón. Af hverju? Vegna þess, eins og forsrh. lýsti yfir, að í þessari stjórn var traustleikinn ekki meiri en svo, að einmitt í efnahagsmálunum var ekki nokkur samstaða um eitt einasta úrræði til lausnar þeim. Það var svona mikill traustleikinn í efnahagsmálunum, stjórnin sprakk, brotnaði í spón. En einn meðlimur þessarar stjórnar rís svo hér upp hálfu öðru ári síðar og segir, að þetta hafi verið svo traust stjórn og efnahagslífið svo traust, að sveitarfélögin hafi aldrei í sögu Íslands átt jafngóða daga.

Út af ummælum, sem hér hafa fallið varðandi 4. gr. frv., þar sem segir, að framlag jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna skuli greitt missirislega eftir á fyrir 15. júlí og 15. jan. ár hvert, vil ég aðeins taka það fram, að þetta ákvæði að hafa tvo gjalddaga stafar eingöngu af, — ég veit ekki, hvort maður á að kalla það af tæknilegum ástæðum til að spara vinnu í því rn., félmrn., sem á að hafa þetta með höndum. Ráðuneytisstjórinn taldi, að það væri nokkur aukavinna að hafa 3 eða 4 gjalddaga. Mér sýnist hins vegar sjálfsagt að ganga til móts við þær óskir, sem fram hafa komið um þetta, og vildi því leyfa mér að flytja hér skriflega brtt. um það, að gjalddagar yrðu þrír í stað tveggja, þannig að 1. mgr. orðist svo:

„Framlag jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga samkv. 2. gr. skal greitt þrisvar sinnum á ári, fyrir 15. júlí, 15. október og 15. janúar.“