07.04.1960
Efri deild: 58. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2041 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

113. mál, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða við 1. umr. þessa máls að minna á það, að þegar Alþ. og ríkisstj. eru farin að viðurkenna það, að sveitarfélögin og bæjarfélögin í landinu hafi það mikil útgjöld, að þau geti ekki sjálf risið undir þeim án þess að fá einhverja aðstoð frá hinu opinbera, þá hlýtur að sjálfsögðu um leið að vera um ýmsar leiðir að velja til að létta bæjar- og sveitarfélögunum byrðarnar, vegna þess að ég tel, að megnið af þeim útgjöldum, í það minnsta sem sveitarfélögin hafa, séu lögbundin. Þau eru til komin fyrir tilstilli Alþ., og því hefur Alþ. það í hendi sér að létta þær byrðar á þann veg að breyta þeim lögum, sem leggja þessar byrðar á. En í staðinn á að stofna til nýrrar skriffinnsku hjá hinu opinbera og endurgreiða bæjar- og sveitarfélögunum frá ríkinu til þess að létta undir með þeim, svo að þau geti betur risið undir þeim böggum, sem á þau hafa verið lagðir af Alþ. og ríkisstj. nú og að undanförnu. Og á ég þar sérstaklega við tvennt, sem er með stærstu útgjaldaliðum hjá bæjar- og sveitarfélögum, a.m.k. sveitarfélögunum. Það má vera, að framkvæmdir hjá ýmsum bæjarfélögunum séu stærstu útgjaldaliðirnir, ég hef ekki kynnt mér það, en ég veit um sveitarfélögin sem slík, að þar eru stærstu útgjaldaliðirnir til Tryggingastofnunar ríkisins og til sjúkrasamlaganna. Og ég álít, að það hefði verið miklu skynsamlegra, af því að nú hafa verið miklar breytingar gerðar á lögum um almannatryggingar og einnig að því er varðar sjúkrasamlagskostnað, að ríkið hefði tekið meiri þátt í kostnaði við þessa starfsemi og í gegnum það létt sveitarfélögunum byrðarnar án þess að stofna til nýrra fyrirtækja eða skrifstofu í því sambandi. Það hefði því mátt algerlega láta þann hluta af söluskattinum, eigi minna en 56 millj., ganga til að létta undir með sveitarfélögunum á þann hátt, í staðinn fyrir að fara að færa þetta út og inn, — ég held helzt hjá ríkinu sjálfu, því að ég hygg, að í fæstum tilfellum komi þessir peningar nokkurn tíma í hendur bæjar- eða sveitafélaganna. Þetta verður að mestu leyti tilfærsla á ríkisskrifstofunum sjálfum, þar sem verið er að færa úr öðrum vasanum og yfir í hinn og stofna til aukinnar vinnu og aukins kostnaðar, sem hægt hefði verið að spara sér, ef aðrar leiðir, sem hefðu náð sama árangri, hefðu verið farnar.

Með frv. þessu fara einnig, ef að lögum verður, mjög vaxandi afskipti þess opinbera af rekstri bæjar- og sveitarfélaga, og tel ég það miður farið, og það er áreiðanlegt, að það er hverju bæjar- og sveitarfélagi hollast að hafa sem mesta sjálfsstjórn, og hefði verið að sjálfsögðu mjög æskilegt, að aðrar leiðir hefðu verið farnar í þessum efnum, til þess að bæjarfélögin og sveitarfélögin ekki síður hefðu sjálf getað nokkurn veginn án íblöndunar frá Alþ. og ríkisstj. aflað þeirra tekna, sem þau þurfa til eigin þarfa, en ríkið hefði aftur tekið að sér að greiða meira af þeim hluta, sem það hefur til þessa lagt á bæjar- og sveitarfélögin í landinu.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast á þetta nú við 1. umr. þessa máls, vegna þess að ég tel hér um þýðingarmikið atriði og þýðingarmikið mál að ræða, þar sem hefði verið hægt að hafa miklu meiri sparnað í för með sér í þessu tilfelli og ná sama árangri, en hefur ekki verið látið neitt á bóla. En vera má, að þetta atriði verði tekið til endurskoðunar, þegar hagfræðideild fjmrn. tekur til starfa undir forsæti hæstv. núverandi fjmrh.

Að sjálfsögðu er margt annað, sem vert er að minnast á í sambandi við þetta frv., en á þessu stigi ætla ég ekki að ræða meira, en mun gera það við 2. og 3. umr.