08.04.1960
Efri deild: 59. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2042 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

113. mál, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur fjallað um frv. það, sem hér liggur fyrir, og orðið sammála um að leggja til, að það verði samþ. með einni breyt„ eins og frá greinir í nál. á þskj. 314. Sú breyt. er við b-lið 3. gr. frv. Í frv., eins og það nú liggur fyrir, er í b-lið 3. gr. vitnað til ákveðinnar greinar, sem er í frv. til laga um bráðabirgðabreyt. á útsvarslögunum, en það frv. er nú til meðferðar í hv. Nd. Alþ. og hefur ekki enn verið lögfest. Bæði þessi frv., það frv., sem hér er til meðferðar, og frv. um bráðabirgðabreytingu á útsvarslögunum, voru samin af einni og sömu nefnd og samtímis, og nefndin hafði vitanlega ekki aðstöðu til þess að vita, hvort frv. yrði fyrr afgr. sem lög frá Alþ. En nú má hins vegar telja, að það sé öruggt, að þetta frv., sem hér er til umr., hljóti fullnaðarafgreiðslu á undan útsvarslagafrumvarpinu, og því telur heilbr: og félmn., að breyta beri niðurlagi b-liðar 3. gr., sem vitnar, eins og ég áður sagði, í grein, sem enn þá liggur aðeins fyrir í frumvarpsformi, og leggur n. því til, að b-liður 3. gr. orðist svo: Að greiða aukaframlag til þeirra sveitarfélaga, sem ekki fá nægileg útsvör á lögð samkv. lögum um útsvör.

Þegar nú hefur verið lögfest, að hluti af söluskatti skuli renna til sveitarfélaganna, og þar með verið komið til móts við ítrekaðar óskir þeirra í því efni, þótti óhjákvæmilegt að breyta gildandi ákvæðum um jöfnunarsjóð sveitarfélaga og fella jafnframt niður ákvæði framfærslulaganna um jöfnun framfærslukostnaðar, sem þegar eru orðin úrelt. Er með frv. þessu lagt til, að þetta verði gert, sem sé að breytt verði ákvæðum um jöfnunarsjóðinn og afnumin ákvæði framfærslulaga um jöfnun framfærslukostnaðar.

Í grg., sem frv. fylgdi, segir enn fremur, að þótt með því sé lagt til, að sett verði sjálfstæð löggjöf um jöfnunarsjóð sveitarfélaganna, sé þó gert ráð fyrir, að ákvæði frv. verði felld inn í löggjöfina um sveitarstjórnarmál, sem nú er í endurskoðun. Og einnig segir í grg., að líta beri á frv. sem bráðabirgðalausn, sem ætla megi, að ýmsar breytingar verði gerðar á í sambandi við lokatillögur um þessi efni.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um frv. eða einstakar greinar þess.