08.04.1960
Efri deild: 59. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2043 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

113. mál, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og nál. hv. heilbr.- og félmn. ber með sér, kemur þar fram fyrirvari frá minni hendi og einnig frá hendi hv. 9. þm. Reykv. um það, að við mælum með samþykkt frv. sem bráðabirgðalöggjafar.

Ég vil nú gera lítils háttar grein fyrir því, hvaða afbrigði það er í frv., sem ég tel að ekki megi vera nema til bráðabirgða. Ég er fullkomlega meðmæltur, að sveitarfélögin fái nýjan tekjustofn, þeim veitir sannarlega ekki af því. Ég tel eðlilegt, að þau fái hlutdeild í söluskatti, sem ríkið leggur á og innheimtir, og ég tel, að það hefði átt fyrr að vera.

Að vísu tel ég athyglisverðar þær aths., sem hv. 1. þm. Vesturl. gerði við 1. umr. hér í gær, þegar hann benti á það, að spara hefði mátt skriffinnsku og létta þó undir með sveitarfélögunum með því að fella niður framlög sveitarfélaga, sem ríkið hefur gert þeim að skyldu að inna af höndum, t.d. til almannatrygginganna og sjúkrasamlaga. Þá hefði ekki þurft að setja upp þá skriffinnsku, sem alltaf hlýtur að verða í sambandi við jöfnunarsjóðinn. Og það er rétt, sem hann sagði, að meginþungi í álögum sumra fámennra sveitarfélaga og sveitarfélaga, sem hafa litla umsetningu, liggur í því að inna af hendi gjöld til Tryggingastofnunar ríkisins og sjúkrasamlagsins heima fyrir. Nefna má líka í þessu sambandi kostnað við skólahald. Öllu þessu hefði mátt létta af og leggja þannig lið getulitlum sveitarfélögum, en sá annmarki er þó þar á, að með því að upphefja þátttöku sveitarfélaganna í starfsemi trygginganna og sjúkrasamlaganna og skólahaldsins með framlögum, þá væri líka í raun og veru létt af þeim áhyggjunum af því, að þetta þyrfti að bera sig sem bezt, og það er alls ekki lítils vert, að heima fyrir hjá þessum aðilum sé ráðdeildarsjónarmiðið haft í fullum heiðri.

Ég hef þess vegna hallazt að því og verið því fylgjandi, að sveitarfélögunum væri veittur nýr tekjustofn og það með hlutdeild í söluskatti, og því til sönnunar er það, að á Alþ.1951 var ég fyrsti flm. að frv. til l. um, að sveitarfélögin fengju hluta af söluskatti. Ég hugsa, að það sé sú fyrsta till., sem komið hefur fram á Alþ. í því efni. Meðflm. mínir að þessari till. voru Jóhann Jósefsson, Hannibal Valdimarsson og Finnbogi R. Valdimarsson. Við fluttum þarna frv., sem stjórn sambands sveitarfélaganna hafði samið og beðið að flytja hér á Alþ. Við fluttum það þó ekki óbreytt, eins og það kom frá stjórn sambandsins. Ég beitti mér fyrir því, að sú breyt. var gerð á, að skerðingarákvæðið, sem sveitarfélagasambandsstjórnin setti inn í frv., væri ekki 40% , heldur 50%. Lengra komst ég ekki með samkomulag. Og þaðan er þetta skerðingarmark komið, sem sett er inn í það frv., sem hér liggur fyrir.

Nú er það skoðun mín, að skerðingarmark þetta sé of lágt, og það byggist á því, að ég tel, að lítil sveitarfélög víðs vegar um land verði ranglega fyrir skerðingu á framlaginu af söluskatti af þessum ástæðum. Og ég hef aflað mér upplýsinga um það, að n. sú, sem vann að því að semja frv., sem hér liggur fyrir, gerir líka ráð fyrir því, að það séu einmitt þau sveitarfélögin, sem verði fyrir skerðingunni, og þar tel ég að niður komi frádráttur, sem sízt skyldi. Ég heyrði það áðan á fulltrúaráðsfundi Sambands ísl. sveitarfélaga, að n. hefði áætlað, að það mundu verða einar 2 millj., sem féllu til jöfnunarsjóðsins sjálfs til þess að framkvæma fyrirmæli, sem lögð eru honum á herðar samkv. 3. gr., með þessari skerðingu, og þannig á að aura saman hjá þeim, sem ég tel að sízt ættu til þess að leggja. Og ég byggi þessa skoðun mína á því, að fjölmennari sveitarfélög og þá sérstaklega þéttbýlissveitarfélög gera svo miklu meira fyrir meðlimi sína en hin fámennu útskagasveitarfélög og dalasveitarfélög. Það, sem sveitarfélögin gera í ýmsum efnum, hækkar náttúrlega útsvarsfúlguna, en eykur um leið gjaldgetu fólksins. Og svo kemur enn það til greina, að þéttbýlið hefur miklu fleiri stóra gjaldendur, sem lyfta fúlgunni, svo að skerðingarákvæðið nær ekki til þeirra. Ýmis hin fámennu hafa engan stóran gjaldanda. Og þegar ég tala um það, að gert sé fyrir fólkið ýmislegt, sem auki gjaldgetuna hjá því, en hækkar útsvarsfúlguna og fjarlægir það, að skerðingarákvæðin nái til þess fólks, þá á ég t.d. við, að ýmis bæjarfélög og kauptúnasveitarfélög hafa útgerð, og þau þurfa að leggja á útsvör til þess að bæta halla þessarar útgerðar. Það hækkar útsvarsfúlguna. En með útgerðinni er aukin atvinna í þorpinu og tekjuöflun almennings, og fyrir það getur almenningur greitt hærri útsvör.

Það má nefna annað dæmi. Í kaupstöðunum eru t.d. verkamannabústaðir, sem sveitarfélögin leggja fé til að komist upp. Þetta er til þess að gera það að verkum, að ýmsir þeir, sem húsanna njóta, fá húsaleigu með vægum kjörum. Þar af leiðandi verða þeir betri gjaldendur.

Ég nefni nú ekki ýmiss konar þægindi, sem fólkið í þéttbýlinu fær og kannske ekki hægt að segja að geri það gjaldsterkara, en eykur álögur sveitarfélaganna, svo sem gangstéttir og alls konar samveitur. Þetta er ekki gert í dreifbýlinu, og þetta getur ekki orðið gert í dreifbýlinu, en samt sem áður hvíla útsvörin eins þungt á atvinnulífi sveitarfélaganna og oft þyngra, eins og kemur greinilega líka í ljós, þegar litið er á frv. um útsvör og þá útsvarsstiga, sem þar er lagt til að upp verði teknir í Reykjavík, í öðrum bæjum og í sveitum. Það er einmitt blátt áfram gengið út frá því, að tekjuöflunin úti um landið sé örðugri fyrir sveitarfélögin en í bæjum. Ég álít þess vegna, að það sé rangt, alveg rangt, að skerða hlut hinna fámennu og atvinnurýru sveitarfélaga. En það á að gera, eins og frv. er nú upp byggt.

Og ég tel enn annað athugavert við þetta. Þó að ég telji þetta nóg til þess að gera það að verkum„ að út af fyrir sig er ég á móti skiptingarreglunum á söluskattinum, þá er annað, sem er líka stórt atriði í þessu sambandi og lá ekki fyrir, eins og málin stóðu, þegar við lögðum fram frv. 1951. Þá var gengið út frá því að vísu, að jöfnunarsjóður tæki við fénu og dreifði því, en það er gert ráð fyrir því, að hann hafi aðrar tekjur en söluskattstekjur og starfi með þeim tekjum að því að jafna á milli sveitarfélaga framfærslukostnað og hlaupa undir bagga með þeim, sem örðugast eiga. Nú er þannig gengið frá, að jöfnunarsjóður á ekki að fá neinar aðrar tekjur en skerðingartekjurnar til þeirra verka, sem honum eru falin, til þess að hjálpa þeim, sem erfitt eiga, og hlaupa á ýmsan hátt undir bagga. Það er tekið fram í 3. gr., að þar eru töluverð verkefni, sem hann því aðeins getur unnið, að skerðingartekjurnar, tekjurnar frá fámennu sveitarfélögunum, komi inn. En þegar þannig er upp sett, að sveitarfélögin eiga ekki að fá fulla hlutdeild, miðað við mannfjölda, nema mannfjöldaskiptingin verði ekki hærri fúlga en svo, að helmingur eða minna af útsvörunum greiðist með þeim, þá er enginn vafi á því, að þau sveitarfélög, sem verða fyrir skerðingunni, fara að hagræða sínum útsvarsmálum þannig, að skerðingarákvæðin nái ekki til þeirra. Það er í fleiri efnum, sem menn hagræða hlutunum en við framtal tekjuskatts. Þau fara ýmist kannske að taka upp ýmsa eyðslu, sem þau annars hefðu forðazt, og það er ekkert æskilegt að ýta undir slíka þróun, og þau fara líka blátt áfram — ég er viss um það — að stunda það að færa milli gjaldandans og sveitarsjóðsins, til þess að útsvarsfúlgan sé nógu há, til þess að þau fái fulla hlutdeild miðað við höfðatölu úr jöfnunarsjóði. Og hvernig fer þá um tekjur jöfnunarsjóðs til þess að standa straum af þörfunum, sem 3. gr. gerir ráð fyrir? Það er enginn vafi á því, að innan stundar fer þannig, að sú tekjulind þornar.

Ég tel þess vegna, að frv., eins og það er, reglurnar, eins og þær eru settar upp, beri það mein í sjálfum sér, sem eyðileggi framkvæmdina innan stundar, og þetta geti því alls ekki orðið nema til bráðabirgða, að þessar reglur gildi. Og ef þetta bráðabirgðatímabil yrði dálítið, er það búið að skemma töluvert, vegna þess að það er búið að kalla fram þá þróun í sveitarfélögunum, hagræðingarþróun, sem ég tel óheppilega.

Ég tel, að það hefði átt að byggja þessa löggjöf þannig upp, úr því að jöfnunarsjóðurinn á að hafa hlutdeild beint sjálfur til starfsemi sinnar í söluskattstekjunum, að ætla einhverja vissa prósentu af óskiptu til þeirrar starfsemi. Ef það eru 2 millj., sem gert er ráð fyrir að komi inn af skerðingarfé nú, þá er það tæplega 4%. Við skulum segja, að það væru tekin 5% eða jafnvel 10% til þarfa sjóðsstarfseminnar samkv. 3. gr. Ég hef nú ekki frv. fyrir mér, en ég held, að það sé rétt, að það sé samkv. 3. gr., þar sem segir, að greiða eigi fram úr fjárhagserfiðleikum sveitarfélaga samkv. III. kafla laga nr. 90 14. maí 1940, um eftirlit með sveitarfélögum, að leggja út greiðslur þær á milli sveitarfélaga, sem ríkissjóður ber ábyrgð á samkv. framfærslulögunum. Til þess þarf sjóðurinn vitanlega að hafa fé, þótt hann fái það endurgreitt, og fé til að greiða aukaframlag til þeirra sveitarfélaga, sem fá ekki nægileg útsvör á lögð samkv. útsvarslögum, og að styrkja eftir ákvörðun ráðh. tilraunir til þess að koma betra skipulagi og meira samræmi í framkvæmdir sveitarmálefna og samstarf sveitarfélaga. Til þessa tel ég að hefði átt að taka vissa prósentu af óskiptri fúlgu, en skipta síðan hinu eftir höfðatölu milli sveitarfélaganna. Ég er viss um, að þetta stenzt ekki, eins og það er hér upp sett, nema til bráðabirgða. En af því að málið er nú komið á síðasta stig hér á Alþ., þegar það kemur til okkar, og það er sett í þá afgreiðslukreppu, sem það er sett, með því að það á að afgreiðast í dag vegna páskaleyfisins, sem á að byrja í kvöld, fer ég ekki út í það að flytja brtt., sem ég hefði gert, ef málið hefði nú verið t.d. á fyrsta stigi, en mun greiða því atkv., þó með þessum fyrirvara, að ég tel, að þessi löggjöf geti ekki staðizt nema til bráðabirgða.