22.03.1960
Efri deild: 45. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2052 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

75. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Ingólfur jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er um að ræða, er þannig, að það fer fram á að hækka jarðræktarstyrk til sandræktunar, en árið 1955 var jarðræktar lögunum breytt á þann veg að setja sandræktunina skör lægra en aðra jarðrækt. Við nákvæma athugun á þessu hefur komið í ljós, að þetta er ekki réttlátt. Enda þótt sandræktunin sýnist í fljótu bili vera auðveldari og þess vegna e.t.v. ódýrari en ræktun gróinnar jarðar, er það svo, að til þess að sandræktunin geti verið góð, þarf hún miklu meiri áburð en önnur jörð. Það hefur þess vegna verið talið af þeim, sem eru kunnugir þessum málum, eðlilegt að breyta l. í fyrra horf og láta jafnan styrk koma til sandræktunar og annarrar ræktunar.

Í þessu. frv. felst það einnig að framlengja lög frá árinu 1957, sem veita aukaframlag til þeirra býla, sem hafa minni túnstærð en 10 hektara. Landnámsstjóri hefur gefið yfirlit yfir það, hversu mikið er búið að vinna eftir l. í þau þrjú ár, sem þau hafa staðið, og gert áætlun um það, hversu mikið er eftir, og telur landnámsstjóri, að líklegt sé, að túnstærðin verði komin upp í 10 hektara á öllum býlum í árslok 1964. Þetta er þó vitanlega ekki hægt að fullyrða, og verður reynslan að skera úr því, hvort ástæða þykir til að framlengja þessi lög öðru sinni. En það sýnist vera réttlátt að framlengja lögin og gera þeim býlum mögulegt, sem enn hafa ekki fengið tiltekna túnstærð, að vinna að því á sama hátt og aðrir, sem hafa notið þessara laga undanfarin ár.

Ég vil svo mælast til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.