22.03.1960
Efri deild: 45. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

75. mál, jarðræktarlög

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil benda hæstv. ráðh. á, að það gegnir nokkuð öðru máli um jarðræktarframlagið nú eða 1958, vegna þess að þá hækkaði jarðræktarframlagið sjálfkrafa samkv. þar að lútandi vísitölu, sem um það gilti. En nú, þó að dýrtíðin stórhækki í landinu, er ekki, skilst mér, samkv. nýjustu efnahagsráðstöfunum leyfilegt að hækka jarðræktarframlagið, þar sem hvorki á að greiða kaup né annað samkv. vísitölu, það er búið að afnema hana sem kaupgreiðsluvísitölu og einnig gildir hún ekki varðandi önnur lög, sem eiga að inna af hendi framlög, sem við hana voru miðuð, svo að það gegnir allt öðru máli nú en 1958.

Hæstv. ráðh. var að tala um það, að núv. hæstv. ríkisstj. mundi taka landbúnaðarmálin allt öðrum tökum en nokkru sinni áður hefði verið gert. Það efast ég ekki um, að þau verða tekin allt öðrum tökum. En því miður er ég dálitið óttasleginn fyrir því, að þessi „allt önnur tök“ hjá hæstv. ríkisstj. á landbúnaðarmálum verði því miður ekki til góðs fyrir bændastéttina í landinu.

Af því að hæstv. landbrh. hefur mjög mikið talað um vinstri stjórnina og hennar þátt í landbúnaðarmálum, vil ég minna á það, að vinstri stjórnin, svo bölvuð sem hún var fyrir landbúnaðinn sem annað, eins og hæstv. ráðh. vill vera láta, þá stórbætti hún um fyrir öllum nýbýlamönnum í landinu, stórbætti fyrir þeim frá því, sem áður hafði verið, meira að segja mikið, eftir að hæstv. núv. landbrh. átti sæti í ríkisstj. og gat þar af leiðandi þá komið sínum málefnum á framfæri til hags og heilla fyrir bændastétt landsins. Þá sagði hæstv. ráðh., að mig minnir, þegar verið var að ræða frv, um nýbýlin og fleira, að þessi styrkur, sem þá átti að veita í fyrsta sinn, 25 þús. kr. á hús hjá nýbýlamanni, það væri ekki neitt. Þó var það þá strax sem svaraði 70–80 lambsverðum, og íslenzka bændur hefur stundum munað um það, sem minna er en það. En sjálfur hefur hæstv. ráðh. nú með þessum ráðstöfunum, sem núv. ríkisstj, hefur gert til þessa, gersamlega eyðilagt þetta framlag, eins og svo margt annað, fyrir þessum sömu aðilum, svo að það er sannarlega ekki vanþörf á því, að ríkisstj. sýni einhvern lit á því einhvers staðar að bæta um eða smyrja sárustu sárin, sem hlutaðeigandi aðilar verða fyrir.