22.03.1960
Efri deild: 45. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2055 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

75. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er náttúrlega ástæðulaust að vera að karpa við hv. 1. þm. Vesturl, um þessi mál, vegna þess að hann virðist vera alveg lokaður og alveg blindur á það, sem hann er að fullyrða. Hann segir nú, að það sé allt öðru máli að gegna nú en 1958 með jarðræktarlögin og framlag til jarðræktar. Það er vitanlega allt öðru máli að gegna, vegna þess að nú gerir hann kröfur til annarra, nú gerir hann kröfur til þeirrar stjórnar, sem hann styður ekki, en áður gleymdi hann að gera kröfur, á meðan hann studdi ríkisstj.

Hann segir, að vinstri stjórnin hafi bætt ákaflega mikið fyrir nýbýlingum. Ég býst við því, að ýmsir af þeim, sem stóðu að því að breyta löggjöfinni þá, hafi ætlazt til þess, að það gæti orðið nýbýlingum til hagnaðar og til góðs. En hver varð niðurstaðan? Hvað varð úr þessum 25 þús. kr., sem hv. ræðumaður minntist á? Hvað hækkaði vinstri stjórnin mikið byggingarkostnaðinn og rekstrarkostnaðinn á þessum stutta tíma, sem hún starfaði? Og hvað varð nýbýlingunum úr þessu fé? Ég held, að hv. þm hefði ekki þurft að minnast á þetta og að þetta hafi ekki getað orðið hans málstað til styrktar, vegna þess að ósjálfrátt reikar hugurinn að því, hvernig ástandið var, þegar vinstri stjórnin tók við, og hvernig það var, þegar hún skilaði af sér. Ef vinstri stjórnin hefði getað haldið í horfinu eins og sú stjórn, sem var næst á undan, og hefði farið að einhverju leyti eftir ráðum þeirrar stjórnar og stöðvað dýrtíðina, en ekki látið hana snúast og hlaupa í kapp við allt annað, hefði þessi löggjöf nýbýlingunum til handa getað orðið að einhverju gagni. En það varð bara ekki, vegna þess að það leystist allt upp í dýrtíðarflóði, og einmitt vegna þess, hvernig fór á þessu tveimur og hálfu ári, sem vinstri stjórnin sat, erum við nú að glíma við margs konar erfiðleika og setja efnahagsmálalöggjöf, sem hlýtur um sinn að leiða til verðhækkana og til þess á ýmsan hátt að þrengja kosti allra landsmanna í bili. Ef ekki hefði allt farið úr skorðum á valdatíma vinstri stjórnarinnar, værum við ekki í dag að glíma við alla þá erfiðleika, sem nú er við að stríða, og þetta hélt ég að hv. 1. þm. Vesturl. vissi.