11.03.1960
Neðri deild: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2062 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

89. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta litla frv, er þess efnis að breyta til sama horfs og áður var reglum um það, hvernig menn, sem eru á hestum, skuli víkja fyrir annarri umferð. Um þetta voru settar nýjar reglur í umferðarlögunum. Þær hafa þótt reynast illa, og samtök hestamanna beittu sér fyrir áskorun um að breyta þessu. Það var síðan borið undir þá, sem kunnugastir eru umferðarmálum, og loks nú undir búnaðarþing, og allir þeir aðilar eru sammála um að mæla með þessari breytingu. Hygg ég því, að þetta mál geti ekki valdið miklum ágreiningi.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.