29.02.1960
Neðri deild: 39. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2066 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

69. mál, lækningaleyfi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Aðalefni frv. þessa er að lögfesta, að læknakandídatar, sem vinna við spítala, meðan þeir eru að ávinna sér fullt lækningaleyfi, fái almenn lögkjör opinberra starfsmanna og hámarkslaun samkv. 8. flokki launalaga. Með þessum ákvæðum er staðfest samkomulag, sem mun hafa verið gert á s.l. ári milli fulltrúa læknanna og ríkisstj. Hin föstu laun eru þau sömu og þessir menn hafa haft, en eðlilegast þótti, að það væri berum orðum fram tekið, að þó að þarna sé um eins konar bráðabirgðastörf að ræða, þá njóti þeir þó lögkjara opinberra starfsmanna.

Þetta er sem sagt kjarni frv. Í því eru jafnframt gerðar breytingar þess eðlis, að þetta framhaldsnám skal stunda hér á landi í íslenzkum spítölum. Það á að vera aðalregla. sem þó er hægt að víkja frá, með þeim skilyrðum, sem í frv. sjálfu segir. Áður mun hafa verið jöfnum höndum heimilt og er nú jöfnum höndum heimilt að ljúka þessu námi í erlendum spítölum. En talið er, að aðstæður hafi breytzt svo, síðan þau ákvæði voru sett, að nú sé eðlilegt, að þessi fræðsla sé öll veitt hér, en ef sérstaklega stendur á, er þó heimild til undantekninga, eins og ég gat um.

Loks er ákveðið, að landlæknir ráðstafi námsvist kandídata samkv. reglum, er hann setur í samráði við læknadeild háskólans og Læknafélag Íslands. Það er talið nauðsynlegt að hafa á þessu sameiginlega yfirstjórn.

Mér skilst, að það sé enginn ágreiningur varðandi sjálft meginefni frv. varðandi launakjör og lögkjör þessara manna. Hitt mun hafa komið fram, að sumir telja vafasama þá ráðstöfun að binda námið, jafnvel þó að undantekningar séu heimilaðar, við spítala hér á landi. Það er sjálfsagt, að það verði athugað í hv. n., þau rök annars vegar, sem eru færð þessu til styrktar af hálfu landlæknis og læknadeildar, og hins vegar gagnrök, sem þá væntanlega koma fram frá þeim, sem telja, að verið sé að leggja á óeðlilega þvingun. Ég treysti því, að n. athugi þær aths., er fram koma, og er reiðubúinn til samstarfs við hv. n. um frekari skoðun á þessum atriðum, ef þörf þykir.

Ég leyfi mér að leggja til, að málinu verði vísað til 2, umr. og hv. heilbr.- og félmn. til athugunar.