26.04.1960
Neðri deild: 71. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2066 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

69. mál, lækningaleyfi

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Í frv. þessu, sem flutt var af hæstv. ríkisstj., felast fyrst og fremst þrjár breytingar. Í fyrsta lagi, að til þess að læknakandídatar geti fengið lækningaleyfi, skuli þeir hafa lokið framhaldsnámi við sjúkrahús hér á landi. Í öðru lagi, að gerðar eru sérstakar ráðstafanir um námsvist kandídata. Og í þriðja lagi, að settar eru í lög reglur um kjör kandídata við framhaldsnám.

Meginástæða þess, að lög eru sett um þetta efni, er sú, að á s.l. ári kom til kaupdeilu milli læknakandídata annars vegar og hins opinbera hins vegar. Þessari deilu lauk með samkomulagi, þannig að ákveðið var, að kandídatar skyldu taka laun samkvæmt 8. flokki launalaga. Lögfesting þessa samkomulags er í raun og veru aðalatriði þessa frv. En í leiðinni voru tekin upp í frv. hin tvö atriðin, sem ég nefndi, nefnilega að læknakandídatar skyldu skyldaðir til þess að ljúka námsvist sinni við sjúkrahús hér á landi, og enn fremur, að lagt var til, að landlæknir ráðstafaði námsvist kandídata samkvæmt reglum, er hann setti í samráði við læknadeild Háskóla Íslands.

Heilbr.- og félmn. leitaði umsagnar margra aðila um frv., og er frá því greint í nál., hverjir það voru, þ.e. landlæknir, Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur, læknadeild Háskóla Íslands, félag læknanema, og enn fremur barst n. umsögn frá stúdentaráði Háskóla Íslands. Allir þessir aðilar mæla mjög eindregið gegn því að læknakandidatar verði skyldaðir til þess að ljúka námsvist sinni hér á landi. Enn fremur voru skoðanir mjög skiptar um annað atriðið, hverjum bæri að ráðstafa námsvist kandidata. Landlæknir sjálfur var því mjög mótfallinn, að honum væri falið þetta, og aðrir aðilar voru því einnig mótfallnir.

Niðurstaðan í n. varð sú, að hún leggur einróma til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., að niður sé felld skyldan til þess að ljúka námsdvöl kandidata hér á landi og í staðinn verði sú mgr. 1. gr. frv., sem um þetta fjallaði, orðuð á þessa leið: „Framhaldsnámi þessu skal lokið hér á landi eða erlendis við sjúkrahús, sem fullnægir skilyrðum til þess að dómi heilbrigðisstjórnar, að fengnum tillögum læknadeildar háskólans.“

Í öðru lagi leggur n. til, að 3. mgr. frv. orðist þannig, að ráðh. sé heimilt að setja reglur um ráðstöfun námsvistar kandídata á sjúkrahúsum.

Ég hygg, að þetta mál liggi ljóst fyrir, og tel ég ekki þörf á því að fara um það fleiri orðum. Mér er kunnugt um það, að þeir aðilar, sem þetta mál snertir fyrst og fremst, þ.e.a.s. heilbrmrn. annars vegar og hins vegar læknakandídatar, geta felt sig við þá afgreiðslu, sem n. leggur hér til.

Fyrir hönd heilbr.- og félmn. leyfi ég mér því að ítreka, að n. leggur til, að frv. verði samþ. með fyrrgreindum breytingum.