09.05.1960
Neðri deild: 78. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2069 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

69. mál, lækningaleyfi

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Hv. Ed. hefur gert þá breytingu eina á þessu frv., að hún hefur fellt niður 3. efnismálsgr. 1. gr., en í þeirri málsgr, var svo kveðið á, að ráðh. væri heimilt að setja reglur um ráðstöfun námsvistar kandídata á sjúkrahúsum. Þannig hljóðaði ákvæðið, þegar frv. fór héðan úr hv. þd., en í hinu upprunalega frv. var lagt til, að landlæknir ráðstafaði námsvist kandídata samkvæmt reglum, er hann setti í samráði við læknadeild háskólans og Læknafélag Íslands. Þessu ákvæði breytti hv. þd. hér á þá lund, sem ég gat um áður.

Heilbr.- og félmn. d. hefur haft tækifæri til þess að athuga málið, eins og það kemur nú frá hv. Ed., og telur ekki miklu máli skipta þá breytingu, sem gerð hefur verið á frv. Þetta ákvæði um ráðstöfun námsvistar kandídata var ekkert aðalatriði í frv., þegar það var upprunalega lagt fram, og ekki heldur eftir þá breytingu, sem þessi hv. þd. samþykkti.

Heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. leggur því til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kemur frá Ed.