26.04.1960
Neðri deild: 71. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2070 í B-deild Alþingistíðinda. (725)

76. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Allshn. hefur yfirfarið og athugað frv. til l. um veitingu ríkisborgararéttar, og eru nm. sammála um að leggja til, að það verði samþ. með þeim breyt., sem prentaðar eru á þskj. 334. Annars hafði n. þann hátt á um afgreiðslu málsins, að hún fór fram á það við allshn. Ed., að hún tilnefndi úr sínum hópi 2 menn til að vinna með 2 mönnum úr allshn. Nd. að þinglegri afgreiðslu málsins. Athuguðu síðan þessir 4 menn úr allsherjarnefndum beggja deildanna ásamt skrifstofustjóra Alþingis umsóknir um ríkisborgararétt frá þeim mönnum, sem teknir voru upp í frv., eins og það var lagt fyrir þingið, ásamt allmörgum öðrum umsóknum, sem borizt höfðu.

Á undanförnum þingum hafa mótazt í meðförum allshn. beggja deilda þingsins reglur um skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar. Eru reglur þessar að mestu byggðar á þeim skilyrðum, sem fram komu fyrst í nál. allshn. Nd. frá 17. marz 1955, en fulltrúar frá báðum deildum þingsins höfðu þá eins og jafnan síðan unnið saman að afgreiðslu þess frv., sem þá lá fyrir um veitingu ríkisborgararéttar, og því í sameiningu mótað og sett þau skilyrði, sem að mestu er enn byggt á. Þó hafa reglur þessar síðar verið gerðar nokkru fyllri í meðförum umræddra nefnda. Reglum þeim, sem eftir var farið að þessu sinni eins og á undanförnum þingum, er lýst í nál. á þskj. 333. Þær eru 6 og eru þannig:

1) Umsækjandi hafi óflekkað mannorð og sé að áliti tveggja valinkunnra manna starfshæfur og vel kynntur, þar sem hann hefur dvalizt.

2) Útlendingar, aðrir en Norðurlandabúar, skulu hafa átt hér lögheimili í 10 ár, Norðurlandabúar í 5 ár.

3) Maður eða kona, sem giftist íslenzkum ríkisborgara, fái ríkisborgararétt eftir þriggja ára búsetu frá giftingu, enda hafi hinn íslenzki ríkisborgari ekki haft ríkisborgararétt skemur en fimm ár.

4) Erlendir ríkisborgarar, sem eiga íslenzkan föður eða móður, fái ríkisborgararétt eftir þriggja ára búsetu, ef annað foreldri er Norðurlandabúi, annars eftir fimm ár.

5) Íslendingar, sem gerzt hafa erlendir ríkisborgarar, fái íslenzkan ríkisborgararétt eftir eins árs búsetu.

6) Íslenzk kona, sem misst hefur ríkisfang sitt við giftingu, en hjónabandinu er slitið og hún hefur öðlazt heimili hér, fái ríkisborgararétt á fyrsta dvalarári hér, enda lýsi hún yfir, að hún ætli að dveljast áfram í landinu. Sama gildir um börn hennar, sem ekki hafa náð 16 ára aldri og henni fylgja.

Þeir umsækjendur um íslenzkan ríkisborgararétt, sem upp eru taldir í frv., eins og það var lagt fyrir þetta þing, fullnægja að dómi n. þeim skilyrðum, sem lýst er hér að framan. Sama er að segja um þá, sem taldir eru í brtt. n. á þskj. 334. Ég tek það fram að þótt allshn. Nd. skili þessu nál. og flytji brtt. á þskj. 334, er hvort tveggja gert í samráði og samstarfi við allshn. Ed., eins og ég áður gat. um, og ætti það að verða til þess að greiða fyrir málinu í þeirri deild.

Ég tel ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um brtt. n., eins og þeim er lýst á þskj. 334. Fyrstu tveir liðirnir á þessu þskj. eru aðeins orðalagsbreytingar varðandi þá umsækjendur, sem lagt er til að fái íslenzkan ríkisborgararétt. Vil ég aðeins minnast á þrjá umsækjendur.

Í staflið c, tölulið 4, er lagt til, að Hedvig Ella Adelheid Langfeldt fái íslenzkan ríkisborgararétt, enda flutti hún hingað til lands í apríl 1950 og fullnægir því í þessum mánuði búsetuskilyrðunum, sbr. 2. lið reglnanna, en umsækjandinn er þýzkrar ættar. Umsókn hefur einnig borizt frá manni hennar, sem líka er þýzkur, en hann settist ekki að hér á landi fyrr en 13. júlí 1951 og fullnægir því ekki búsetuskilyrðinu fyrr en 13. júlí 1961. Sá n, sér því ekki fært að mæla með því, að hann fengi að þessu sinni borgararétt, þótt kona hans öðlist hann á þessu ári, en þau giftust á árinu 1952.

Í staflið c, tölulið 3, í brtt. allshn. á þskj. 334 er lagt til, að Guðna Erlendssyni verði veittur íslenzkur ríkisborgararéttur. Það, sem sérstakt er að segja um þennan umsækjanda, er, að hann er barn, tæplega tíu ára að aldri, fæddur 29. ágúst 1950 í Svíþjóð, sonur sænskra hjóna og er því nú sænskur ríkisborgari. Þann 24. júlí 1951 fluttist hann með íslenzkum hjónum hingað til lands, og ættleiddu þau drenginn með leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 21. júlí s.á., þ.e.a.s. 1951. Hefur hann dvalizt með kjörforeldrum sínum síðan óslitið hér á landi. Segja má að vísu, að hér sé um nokkuð sérstakt tilfelli að ræða, þar sem umsækjandinn er tæplega 10 ára gamalt barn, en allshn. hefur ekki getað komið auga á neitt í þeim reglum, sem eftir hefur verið farið um veitingu ríkisborgararéttar, sem banni það eða mæli gegn því, að drengur þessi fái íslenzkan ríkisborgararétt. Verður sjálfsagt að telja það sem meira tilfinningamál en raka, að kjörforeldrar drengsins sæki það fast, að hann, sem líta ber á sem þeirra eigið barn, hljóti sama ríkisfang og þau bæði eiga og hafa átt frá fæðingu.

Segja má að mestu leyti hið sama um telpuna Margaret Lilju Whiles í staflið c, 8. tölulið, í brtt. n. á þskj. 334. Hún er fimm ára að aldri, fædd 28. ágúst 1954 í Bandaríkjum Norður-Ameríku, dóttir íslenzkrar konu og amerísks eiginmanns hennar. Móðir hennar missti aldrei sitt íslenzka ríkisfang, vegna þess að hún dvaldist aðeins í nokkra mánuði í Bandaríkjunum, en var skilin frá manni sínum árið 1954 og hefur dvalizt hér á landi óslitið síðan í ársbyrjun 1955 ásamt dóttur sinni, sem hún hefur foreldraráð fyrir. Hins vegar öðlaðist telpan amerískt ríkisfang við fæðingu, þar sem hún er fædd í Bandaríkjunum, dóttir Bandaríkjamanns, og er það af þeim sökum, sem nú er sótt um, að telpan fái íslenzkan borgararétt, enda er hún, eins og ég áður gat um, undir foreldraráðum móður sinnar, sem er íslenzkur ríkisborgari og hefur jafnan verið það, og búsett hér á landi frá því á árinu 1955.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta öllu fleiri orð, en eins og ég gat um í upphafi máls míns, leggur allshn, einróma til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem á þskj. 334 er lýst.