06.05.1960
Efri deild: 71. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2072 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

76. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Með þessu frv. er lagt til, að 21 karli og 21 konu, eða samtals 42 mönnum, verði veittur íslenzkur ríkisborgararéttur. Allmargar umsóknir um ríkisborgararétt höfðu borizt dómsmrn. Af allshn. beggja þd. voru valdir 4 menn, tveir úr hvorri n., til að athuga og yfirfara þessar umsóknir og gera till. um, hverjir skyldu meðteknir og hverjum skyldi hafnað. Við það val var farið eftir reglum, sem birtar eru á þskj. 333 og óþarft er að rekja frekar, enda eru þær byggðar á reglum, sem áður hefur verið beitt, er settar voru af allshn. beggja þd. á árinu 1955. Frv. er reist á niðurstöðum þessara 4 manna. Fjallaði frv. upphaflega um 32 menn, en í meðförum Nd. var bætt við 10 mönnum samkvæmt umsóknum, sem bárust, eftir að frv. var lagt fram. Nær frv. því nú til 42 manna, en alls höfðu 50 manns sent umsóknir, og hefur því 8 manns verið hafnað.

Allshn. Ed. hefur athugað frv. og er sammála um að mæla með, að það verði samþ. óbreytt. Einn nm., hv. 11. þm. Reykv., hefur þó fyrirvara varðandi 2. gr. frv., en þar er það skilyrði sett eins og áður, að þeir, sem heita erlendum nöfnum, skuli þó ekki öðlast íslenzkan ríkisborgararétt með þessum lögum, fyrr en þeir hafa tekið sér íslenzk nöfn skv. lögum um mannanöfn. Meiri hluti n. vildi halda þessu ákvæði óbreyttu, svo sem gert hefur verið í samsvarandi lögum um mörg undanfarin ár.