03.12.1959
Neðri deild: 9. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég verð að lýsa undrun minni yfir svigurmælum hv. síðasta ræðumanns (EystJ) og raunar framkomu sumra fleiri þm. hér í kvöld og þá ekki sízt ávitum þeirra á hæstv. forseta d., sem í einu og öllu hefur fylgt bókstaf, anda og efni þingskapa, ekki notað einu sinni þær heimildir, sem hann hefur sjálfur til þess að stytta umræður, heldur látið það vera í valdi þingheims, hvort um það væri tekin ákvörðun eða ekki, og síðan farið eftir þeirri ákvörðun, sem tekin hefur verið.

Hitt er svo nokkuð annað, að það kemur úr hörðustu átt, þegar hv. 1. þm. Austf. fer að vita, að þessi þingskapaákvæði séu notuð, vegna þess að ég hygg því ekki fjarri, að þau hafi verið sett, einmitt þegar þessi hæstv. þáv. fjmrh. fyrst hófst hér til valda og áhrifa á þingi á tímabilinu frá 1934—1939, og þá var það síður en svo sjaldgæft, að slíkum ákvæðum væri beitt gegn stjórnarandstöðu, og töldu allir sjálfsagt að hlíta settum reglum, þótt mjög væri um það deilt, hvort breytingin á sínum tíma væri til bóta eða ekki.

Því fer svo fjarri, að hér hafi nokkuð verið gert, sem óvenjulegt er, að mörg dæmi þess, að umræður séu styttar, ef úr hófi fer, eru úr þingsögunni fyrr og síðar. Það, sem er óvenjulegt, er, að umræður skuli hafnar yfirleitt og þá alveg sérstaklega með þeim hætti um þessi mál, sem nú er verið að ræða. Frá því að ég kom á þing og eftir því sem ég hef blaðað í Alþingistíðindum, þá hygg ég, að það sé venja, að frv. slík sem þessi eru afgreidd oft á einum degi í báðum d. þings og með afbrigðum á afbrigði ofan það, sem allar þessar umr. nú í dag og undanfarna daga hafa snúizt um, eru ekki þessi sérstöku mál, heldur sjálf þingfrestunin, sem er eftir að koma til umr. og verður vitanlega rædd eins og þingsköp segja fyrir um. Hv. samþingismaður síðasta ræðumanns. 4. þm. Austf., játaði það beinlínis í einni af sínum ræðum, að það væri þingfrestunin, sem hann væri í raun og veru að tala um, en ekki sjálft málið. Það eru þessir þingmenn, sem í raun og veru hafa freklega misnotað umr. um önnur mál til þess að tala um það mál, sem þeim er efst í huga, sjálfa þingfrestunina. Ef hér er um nokkra misbeitingu að ræða, er það því sú að taka upp í sambandi við þessi hreinu afgreiðslumál, sem allir eru að efni til sammála um, þær almennu stjórnmálaumræður, sem hér hafa átt sér stað dag eftir dag. Jafnvel var komið svo langt í gær, að hv. 3. þm. Reykv. var þá farið að þykja fullnóg um, þó að hann hafi síðar bætt þar töluvert við með nokkuð margra klukkutíma ræðu í dag og svo þeirri sýningu, sem var haldin hér áðan og sérstakur ljósmyndari, ef ekki kvikmyndari, var til kallaður til þess að festa á sögunnar spjöld.

Það er heldur engin nýlunda, að ráðh. sitji hér ekki alla þingfundi. Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Austf. sagði, að oft eru ráðh. til kallaðir og eru við umr., þegar sérstaklega stendur á. Hitt er líka mjög oft, að þeir eru fjarstaddir. Yfirleitt er þó reynt að hyllast til þess, að einhver úr ríkisstj. sé við um meiri háttar mál. Oft er það þannig, að ráðh. sjáist ekki í þinghúsi, þó að fundir séu haldnir. Þetta vitum við allt ofur vel. Nú stendur þannig á, að hæstv. fjmrh. hefur beðið annan ráðh. um að fylgjast með málum fyrir sína hönd. Hér er um að ræða 2. umr. máls, 3. umr. er eftir. Ef einhverjar sérstakar aths. koma fram, þá hefur fjmrh. því, hvað sem þessari umr. liður, færi á því að taka til máls og svara þeim fsp., sem fram kunna að koma, ef nokkurt tilefni gefst til, ég segi, ef nokkurt tilefni gefst til. Það getur út af fyrir sig enginn lagt kapp á það, ef fram koma ákveðnar fsp. um tiltekin efni, sem er eðlilegt að ráðh. svari, að hindra, að honum gefist færi á því. Og þingið á vissulega rétt til þess, að hann svari, þegar svo stendur á, eins og hv. 1. þm. Austf. (EystJ) sagði. En það verður bara tilefni að gefast, og það dugir þá ekki að koma eins og hv. 1. þm. Austf, hefur gert undanfarna daga. Hann kemur hér og ber fram sömu spurningarnar dag eftir dag, jafnvel tvisvar, þrisvar sinnum í sömu ræðunni, þó að búið sé að svara honum alveg fullskýrt og um atriði, sem hann veit raunar svarið við fyrir fram. Það er engin ástæða til að vera að taka þátt í slíkum leikaraskap, því að þetta er ekkert annað en leikaraskapur. Og það er óvirðing við Alþingi, að það skuli talað um þess virðingu og samband stjórnar og þings í þeim tón, sem hv. þm. gerði, vegna þess að það var mælt af leikaraskap til þess að halda uppi málþófi, til þess að hindra eðlilega meðferð þingmála, en ekki af umhyggju fyrir réttum þingræðisháttum, sem þessi hv. þm. og hans fylginautar í þessum efnum hafa verið að misbjóða á hinn herfilegasta hátt undanfarna daga.

Forseti ákveður það auðvitað, hvort hann telur ástæðu til þess að fresta þessari umr. eða hefja hana ekki, ef fjmrh. kemur ekki, en eins og á stendur, sýnist mér sem þm. og ráðh. eðlilegast, að umr. hefjist og svo verði séð, hvort sérstök ástæða er til þess vegna ákveðinna fsp. eða atriða, sem fram koma, að fresta umræðunni vegna fjarveru ráðherrans. En þau eru mjög óviðurkvæmileg þessi stóryrði í garð hæstv. forseta, sem á þess ekki kost að taka þátt í umr. eins og við hinir. Þá eru ekki síður óviðurkvæmileg gífuryrði í garð hæstv. fjmrh. frá hv. 3. þm. Reykv. (EOl) áðan og 1. þm. Austf. nú, um hæstv. fjmrh., sem að vísu hefur ekki getað komið því við að vera hér í kvöld, eins og altítt er, en menn vita, að hægurinn er hjá að ganga í skrokk, þegar hann sjálfur er viðstaddur, og veit ég þá ekki, hvor líklegri er að bera sigur úr þeirri viðureign, ef þeir eigast allir við, þó að hægt sé að ráðast að mönnum með mikillæti, þegar þeir um sinn eru fjarstaddir. Ég veit, að þeir eru tölugir menn og málsnjallir, bæði hv. 3. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Austf., en hingað til hef ég ekkert séð til þeirra, sem gefi það til kynna, að hæstv. fjmrh. þurfi að vera hræddur við að standa fyrir svörum við spurningum þeirra né muni verða svaravant við árásum af þeirra hálfu.