20.04.1960
Neðri deild: 68. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2100 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. hefur nú lagt þetta frv. ríkisstj. fyrir í ýtarlegri ræðu, og það er ekki nema von, að um það verði allýtarlegar umræður, því að í þessu frv. kemur raunverulega stefna ríkisstj. hvað skýrast fram af öllum þeim frv., sem hér hafa verið flutt á hennar vegum, frá því að hún tók við völdum. Ég vil um leið lýsa því yfir, að að mínu áliti er þetta frv. harðvítugasta og ljótasta frumvarpið, sem hún hefur flutt, og með þessu frv. er reitt hæst til höggs á móti alþýðu landsins. Með gengislækkunarfrv. stefndi hún að því að koma fátæktinni á aftur á Íslandi og hafði tekið til þess stórlán erlendis, í fyrsta skipti í sögu okkar lands, til þess að skipuleggja fátækt, og með þessu frv. stefnir hún að því að koma á atvinnuleysi, gera ráðstafanir, sem munu leiða af sér atvinnuleysi, til þess að viðhalda fátæktinni, sem hún ætlar að skapa. Þannig er þetta frv. raunverulega hámark þeirrar kúgunarstefnu, sem ríkisstj. beitir sér fyrir gagnvart almenningi landsins. Og það er nauðsynlegt, að það sé rætt frá upphafi út frá því.

Það vaknar sú spurning hjá manni undir ræðu hæstv. viðskmrh., hvort það sé velferð almennings, sem sé tilgangurinn með afskiptum stjórnmálamanna af þjóðlífinu, eða hvort verzlunarfrelsi auðugustu heildsalanna eigi að verða skurðgoð, sem eigi að tigna þannig, að það skuli fórna á altari þess velferð almennings. Mér heyrðist hæstv. viðskmrh. ræða þannig um þetta mál, eins og þetta verzlunarfrelsi heildsalanna, sem hér er um að ræða, væri slíkt skurðgoð, að það bæri fyrst og fremst að tigna, hvaða afleiðingar sem það hefði, hvað sem það þýddi fyrir fólkið. Og svo framarlega sem það væri svo, að almenningur hér í landi vildi ekki sætta sig við að fórna velferð sinni fyrir þetta svokallaða verzlunarfrelsi heildsalanna, þá bæri að slá niður þau samtök almennings, sem reistu sig upp gegn slíku.

Ég gat ekki betur skilið ræðu hæstv. viðskmrh. hér áðan, þegar hann sagði, að á undanförnum áratugum, þegar hann var að rekja efnahagssöguna, þá hefði það stundum dregizt of lengi að breyta skráningu gengisins, en það væri verið að tilkynna, að svo framarlega sem almenningur á Íslandi hækkaði sitt kaup, þá ætlaði núv. ríkisstj. ekki að láta það dragast lengi að lækka gengið, m.ö.o., að gengisskráning af hálfu ríkisvaldsins ætti að fara að verða vopn á móti verkalýðssamtökunum í landinu. Þetta var reynt 1950. Það var sett inn í 2. gr. gengislækkunarfrv., eins og Sjálfstfl. lagði það fyrir þá, að Landsbankinn skyldi skrá gengið, en ekki Alþingi, og að í hvert skipti sem almennt kaupgjald breyttist í landinu, skyldi Landsbankinn taka þetta til endurskoðunar um gengisskráninguna. Það lá í því, að ef almennt kaupgjald breyttist, þá átti að lækka gengið. Þetta var afnumið úr gengislækkunarfrv., ekki aðeins fyrir okkar tilstilli, sem þá vorum hér fulltrúar Sósfl., heldur líka fyrir tilstilli Alþfl. og hans formanns þá, Stefáns Jóh. Stefánssonar. En mér heyrðist það bókstaflega liggja í orðunum hjá hæstv, viðskmrh. nú, að það mætti ekki dragast eins lengi og það hefði gert á undanförnum árum, ef aðstæður breyttust innanlands, að breyta gengisskráningunni, rétt eins og það ætti að flýta sér með slíkt, svo framarlega sem kaupgjald hækkaði hjá almenningi. Og ég vil spyrja: Hvað er þá orðið eftir af samningsfrelsinu í landinu, ef verkalýðssamtökin og atvinnurekendur hafa ekki lengur frelsi til þess að semja um kaupgjaldshækkun, án þess að ríkið ætli að fara að beita því á eftir að lækka gengið þess vegna? Ég er hræddur um, að þessar yfirlýsingar, sem voru nokkuð óljósar, þó að margt væri ljóst í ræðu hæstv. ráðh., — ég er hræddur um, að þær verði að koma nokkru skýrar fram í þessum umr., sem nú verða um þetta mál, til þess að það sé alveg greinilega ljóst, hve langt og til hverra frelsið á að ná.

Hæstv. viðskmrh. lauk sinni ræðu með því, að það væri ýmislegt, sem orðið væri sameiginlegt hjá Alþfl. og ýmsum borgaraflokkum í því, hvernig beita skyldi ríkisvaldinu. En ég vona, að hann geri sér ljóst, að svo framarlega sem meiningin er að fara að beita svo ríkisvaldinu á þennan hátt, eins og raunverulega nú þegar er byrjað, með því að afnema vísitöluna, með því að skipuleggja þann samdrátt, sem verið er að skipuleggja með vaxtahækkun og lánabanni, þá er þar með verið að skipuleggja beitingu ríkisvaldsins í þjónustu samvizkulausasta hlutans af auðmannastéttinni, verstu braskaranna á landinu, og til þess að þeir geti fengið fullt verzlunarfrelsi, á þá að koma á fátækt hjá almenningi og halda almenningi síðan undir oki þeirrar fátæktar.

Þetta kom mjög greinilega fram í ræðu hæstv. ráðh., þegar hann talaði um, að ekki mætti gera breyt. á kaupgjaldi frá því, sem nú væri, um nokkurn tíma. Það var orð, sem Katrín Thoroddsen, það var setning, sem hún mælti í kosningabaráttunni 1949, þegar þá var talað um að gefa frjálst og mikið reynt að gylla það fyrir mönnum, hún talaði um, að það væri til verri skömmtunarstjóri en Elís, fátæktin væri versti skömmtunarstjórinn, sem til væri. Og mér sýnist, að það, sem nú sé stefnan, sem skin út úr ræðu hæstv. ráðh., og er inntakið í þessu frv. og allri stefnu ríkisstj., sé að gera fátæktina aftur að skömmtunarstjóra á Íslandi, eins og við þekktum um allmarga áratugi, og það var strangur skömmtunarstjóri. Og þeir ungu menn, sem nú vaxa upp og hafa komið inn í stjórnmálin á þessum síðustu 15–20 árum, mættu gjarnan minnast þess, að það var til þess að berjast á móti þeirri fátækt, að það ástand hefur verið skapað á Íslandi, sem hefur gert það að verkum á síðustu tveim áratugum, að menn hafa ekki þurft að svelta. Og þó vil ég minna hæstv. ráðh. á, vegna þess að honum þótti ekki hafa tekizt nógu vel 1950, að 1951 og 1952 var farið að sjá á börnum alþýðumanna hér í Reykjavík, af því að þau höfðu ekki nóg að borða. Og ef hæstv. ráðh. og ríkisstj. kynnir sér hagskýrslur um sölu mjólkur í Reykjavík frá því í marz 1950 og fram til janúar 1953, þá geta þeir séð, hvernig almenningur í Reykjavík hefur meira að segja orðið að spara við sig mjólkurkaupin, hvað þá annað. Það tókst þá um tíma að leiða skortinn þannig inn á alþýðuheimilin, að börnin sultu. Og það er alveg rétt að gera sér ljóst, ekki sízt fyrir þá, sem tala af mikilli hagspeki, að þegar kemur að þessum málum, þá er ekki lengur spurt um verðbólgu eða aðra slíka hluti. Þá er spurt um það, hvort menn hafa í sig og á og hvort menn þurfa að neita börnum sínum um brauðbita eða mjólkursopa. Og það er ekki til neins að halda neina fallega hagfræðilega fyrirlestra, hvorki lærða né ólærða, gagnvart þeim staðreyndum, sem blasa við, þegar fátæktin og skorturinn eru á hinn bóginn. Þess vegna er mönnum bezt að gera sér ljóst, þegar þeir nota orð eins og kaupgetu og annað slíkt, sem virðast vera ákaflega hlutlaus orð og þægileg að nota, að það er miklu, miklu harðvítugra, það sem á bak við þau býr. Kaupgetuleysi finnst mönnum kannske vera laglegt orð að nota og enginn broddur í því, en það sem það þýðir, það er fátækt, það sem það þýðir, það er skortur, skortur fyrst og fremst á alþýðuheimilunum, á þeim heimilunum, sem dýrtíðin með nefsköttum ríkisstj. nú kemur til með að koma þyngst niður á, á sama tíma sem það er höfuðatriði ríkisstj. í allri hennar pólitík að gera hálaunamönnum auðveldara fyrir og auka þeirra tekjur. Þetta vil ég nú aðeins segja almennt viðvíkjandi afstöðunni til þessa máls, því að það er ekki hægt að halda þessu máli á grundvelli hreinna hagfræðilegra bollalegginga, þó að ég skuli vissulega vera reiðubúinn til að taka nokkurn þátt í þeim. Þetta mál er um leið þáttur í lífsbaráttu fólksins í landinu, lífsbaráttu, sem íslenzk alþýða upphaflega skóp Alþfl. til þess að skipuleggja. Og þess vegna verður uppgjörið í sambandi við þá stefnu, sem Alþfl. nú hefur tekið í þessum málum og hæstv. ráðh. kom inn á, þá verður það uppgjör, sem gerist ekki bara með hagfræðilegum hugleiðingum, heldur líka bæði með harðvítugum pólitískum deilum hér á Alþingi og með hörðum átökum í öllu okkar þjóðlífi, því að það var alveg rétt hjá hæstv. viðskmrh., að það frv., sem hér liggur fyrir, er og felur í sér eina stórfelldustu breyt., sem lagt er til að gera á íslenzkum efnahagsmálum, og um leið að mínu áliti einhverja hættulegustu breyt., sem nokkurn tíma hefur verið farið út í.

Því var lýst yfir, þegar ríkisstj. tók við störfum, og hæstv. viðskmrh. ítrekaði það mjög nú, að eitt af því, sem Íslandi væri nauðsynlegt til þess að geta verið efnahagslega sjálfstætt og ráðið dálítið betur við sín verzlunarmál, væri að eignast gjaldeyrisvarasjóð, og hæstv. ráðh. sagði, að það væri einn tilgangurinn með þessu frv. að leggja grundvöll að því að eignast slíkan gjaldeyrisvarasjóð í frjálsum gjaldeyri og það í fyrsta skipti í sögu landsins. Og hann sagði frá því, að einmitt nú í sambandi við þetta frv. og stefnu þess hefði verið gerð af hálfu ríkisstj. ráðstöfun til þess að taka stórlán erlendis, til þess að við ættum nú þegar nokkurn slíkan gjaldeyrisvarasjóð, áður en við mynduðum annan, sem við ættum sjálfir, og hann bætti við, ef ég tók rétt eftir, að ef sá gjaldeyrisvarasjóður, sem við hefðum fengið að láni núna, þær 20 millj. dollara, ef þær skyldu ekki hrökkva til að gera þessar ráðstafanir og koma upp þeim gjaldeyrisvarasjóði, sem við ættum sjálfir, þá mundi vafalaust vera hægt að fá enn þá meiri lán til þess að undirbúa þannig stofnun gjaldeyrisvarasjóðs. Ég verð nú að segja, að það er vissulega undarleg aðferð, þegar við ætlum nú að fara að safna í sjóði og eignast sjálfir digra sjóði erlendis og það í frjálsum gjaldeyri, að byrja þá með því að stofna til skulda, og ég á eftir að fá skýringu á því, hvernig á því stendur, að þessi aðferð er upp tekin.

Hvernig stendur á því, að við höfum engan gjaldeyrisvarasjóð? Hvernig stendur á því, að við eigum ekki inneignir í frjálsum gjaldeyri erlendis? Í okkar viðskiptum við sósíalísktísku ríkin ríkja að mestu leyti jafnvirðiskaup. Það þýðir, að í viðskiptunum við þau ríki kaupum við yfirleitt jafnmikið og við seljum, þannig að við þau verður nokkurn veginn jöfnuður, ýmist um vöruskipti eða þá um greiðsluskipti. Það, að við erum í milli 400 og 500 millj. kr. neikvæðum verzlunarjöfnuði út á við hvað snertir vöruinnflutning og vöruútflutning, stafar fyrst og fremst af því, t.d. nú síðasta ár, að aðeins við sex nágrannalönd okkar, Bretland, Danmörku, Holland, Noreg, Vestur-Þýzkaland og Bandaríkin, erum við í yfir 360 millj. kr. neikvæðum verzlunarjöfnuði, m.ö.o., það eru einmitt þessi frjálsu gjaldeyrislönd svokölluðu, sem hafa þannig verzlunarviðskipti við okkur, að þau eru neikvæð, að við kaupum af þeim miklu meira en þau kaupa af okkur. Hins vegar er það einmitt til viðskiptanna við þessi lönd, sem við viljum mynda gjaldeyrisvarasjóð, sem við eigum sjálfir. Hver hlyti nú að vera sú eðlilega aðferð til þess að mynda slíkan gjaldeyrisvarasjóð í frjálsum gjaldeyri, sem við eigum sjálfir? Orsökin til þess, að við eigum hann ekki, er sú, að viðskipti við þessi lönd eru neikvæð, þannig að við seljum miklu minna til þeirra en við kaupum af þeim. Hvernig væri þess vegna eðlilegast að skapa sér svona sjóð? Það væri eðlilegt að skapa hann með því að minnka það, sem við kaupum af þessum löndum, en reyna að auka það, sem við seljum til þessara landa. Það mundi virðast a.m.k. liggja nokkurn veginn í augum uppi, að það væri eina ráðið, sem hægt væri að beita af viti út frá íslenzkum þjóðarbúskap, ef við gætum minnkað innkaupin frá þessum löndum, þá jafnvel aukið á meðan viðskipti við þau lönd, sem við getum keypt jafnmikið hjá og við seljum til, en reyndum svo að herða á sölu á okkar útflutningsafurðum til þessara frjálsu gjaldeyrislanda. Og nú efast ég ekki um, að að ýmsu leyti hafi verið reynt að vinna vel að því að selja til þessara frjálsu gjaldeyrislanda, en þó ekki enn sem komið er með meiri árangri en þessum. M.ö.o.: ef það væri verið að hugsa um hagsmuni okkar þjóðarheildar, ef það væri verið að hugsa um skynsamlegan þjóðarbúskap hjá okkur, þá mundum við draga úr viðskiptunum við þessi lönd, á meðan þau keyptu ekki meira af okkur, en gera hins vegar allt, sem við gætum, til þess að auka söluna til þeirra. Af hverju gerir nú hæstv. ríkisstj. ekki þetta? Af hverju fer hún þveröfugt að? Hún stofnar til skulda hjá þessum ríkjum, — skulda, sem hún hefur sjálf ekki hugmynd um í dag, hvernig hún ætlar að borga. Og ef hún hefur einhverja hugmynd um það, þá vil ég biðja hæstv. viðskmrh: að segja okkur frá því, og þegar hún stofnar til svona skulda, hvaða vonir hún hafi um aukinn markað í þessum löndum, sem gæti gert okkur mögulegt að borga þessar skuldir með því að afla okkur gjaldeyris í þessum löndum sjálfum.

M.ö.o.: ríkisstj., sem lýsir því hér yfir seinast í ræðu hæstv. viðskmrh., að hún ætli að skapa gjaldeyrisvarasjóð, byrjar á því, sem er alger andstæða við það, að stofna til skulda og gerir um leið engar ráðstafanir til þess að tryggja sölu okkar afurða til þessara landa eða aðra myndun inneigna þar, — ekki neina, — en gerir hins vegar með þessu frv. ráðstafanir til þess að auka stórum innflutninginn frá þessum löndum með því að gefa hann nú frjálsan, eins og hæstv. viðskmrh. réttilega tók fram, í fyrsta skipti raunverulega frjálsan, þannig að komi menn með íslenzka peninga og heimti vörur, sem verða nú á frílista, eiga þeir viðstöðulaust að fá gjaldeyri, sem hingað til hefur ekki verið, af því að frílistar hafa, eins og hæstv. ráðh. tók fram, fram að þessu verið bara að nafninu til.

Ég fæ ekki séð, að það geti verið rétt og satt hjá hæstv. ríkisstj., að það vaki fyrir henni að skapa gjaldeyrisvarasjóð erlendis og það sé tilgangurinn með þessum ráðstöfunum, með þessari skuldasöfnun. Ég held, að þetta hljóti að vera yfirvarp og það sé annað og slæmt, sem býr á bak við. Ég fæ ekki séð nema tvennt, sem sé hugsanlegt sem ástæða til þess, að hæstv. ríkisstj. fer inn á þessa braut, inn á þetta verzlunarfrelsi og inn á þessar ráðstafanir að fá þessi stórlán erlendis til eyðslu, sem hún sjálf eg enginn hér hefur reynt að sýna fram á, hvernig eigi að borga, — það geti ekki verið nema eitt af tvennu: Annars vegar hagsmunir stærstu innflytjendanna og fyrst og fremst stærstu heildsalanna, sem heimta svokölluð frjáls viðskipti, það þýðir viðskipti við auðvaldslöndin, þar sem stærstu heildsalarnir hér á Íslandi eru umboðsmenn fyrir mikið af þeim auðhringum og auðfélögum, sem selja sinar vörur hingað, fá hjá þeim allmikil umboðslaun og oft og tíðum álagningu erlendis á vörurnar, og hafa þess vegna, bæði af heiðarlegum og óheiðarlegum ástæðum, sérstakan áhuga á að beina viðskiptum Íslands til þessara landa, eins og þau spillingarmál, sem uppi eru hjá þjóðinni núna; greinilega sýna, — beina þeim þangað, hvað sem þjóðarhagsmunum Íslendinga líður. Ég fæ ekki betur séð en annaðhvort sé hæstv. ríkisstj. að láta að vilja þessa braskaralýðs, framfylgja hans pólitík, með því að gefa allan innflutning, sem hann hefur mestan áhuga á, frjálsan og gefa honum aðgang að þeim gróðalindum, sem hann sækist mest eftir, — eða hins vegar, að ríkisstj. er, með því að ætla að innleiða það svokallaða verzlunarfrelsi eða innflutningsfrelsi, sem á að veita með þessu frv., ef að lögum verður, að framkvæma skuldbindingu, sem ríkisstj. hefur tekið sér á herðar gagnvart útlendum aðilum, m.ö.o.: ríkisstj. hafi skuldbundið sig til þess, um leið og hún tók 20 millj, dollara lán í París og Washington, að gefa svo og svo mikið af innflutningnum frjálsan, t.d. um 60%, sem hæstv. ráðh. talaði um. Það er alkunna og ekkert leyndarmál, að hér hafa verið á ferðinni sérfræðingar frá efnahagsstofnununum í París og Washington, sem hafa athugað og að því er ég bezt veit jafnvel undirbúið með ríkisstj. þau frv., sem lögð hafa verið fram í vetur, bæði gengislækkunarfrv. og þetta, og ég fæ ekki betur séð en þarna hljóti að vera einhver tengsl á milli. Og ég óska eftir því að fá upplýsingar um það við þessa umr. nú, hvort ríkisstj. hefur undirgengizt einhverja skuldbindingu í sambandi við það 20 millj. dollara lán, sem hún tók, um að gera að einhverju leyti verzlun á Íslandi frjálsa, eða hvort ríkisstj. og hvaða ríkisstj: hér sem væri sé algerlega óbundin, þannig að það væri hægt þess vegna á morgun eða hvenær sem væri að koma á aftur hvers konar höftum, sem hér skyldu vera, án tillits til þessara lána og skuldbindinga, sem ríkisstj. hefði undirgengizt. Ég spyr að þessu vegna þess, að mér sýnist það liggja svo í augum uppi, að ef það væri tilgangur ríkisstj. að skapa gjaldeyrisvarasjóð í frjálsum gjaldeyri, sem Íslendingar réðu yfir sjálfir, þá hlyti fyrsta og eðlilega aðferðin að vera sú, að draga úr kaupunum með frjálsum gjaldeyri, að auka hins vegar söluna á íslenzkum afurðum í frjálsum gjaldeyri og láta þá koma í ljós, hvort hægt sé að skapa slíkan gjaldeyrisvarasjóð, en brjóta ekki brýrnar að baki sér, áður en þessi tilraun er gerð.

Það er eðlilegt, að það komi upp í huga manns, þegar maður sér ríkisstj. fara þveröfuga leið til þess að skapa okkur gjaldeyrissjóð erlendis, þegar maður sér hana byrja á því að safna skuldum og það miklum skuldum, hvort hún sé þegar orðin skuldbundin erlendis, því að það sjáum við fram á, sem fylgzt höfum með og tekið þátt í baráttu Íslands fyrir efnahagslegu sjálfstæði á þessum síðustu áratugum, að við höfum aldrei verið í annarri eins hættu að verða skuldaþrælar erlendra aðila eins og eftir þau lán, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú tekið í Washington og París, 20 millj. dollara lán til eyðslu.

Ég vil þess vegna mælast til þess, að hæstv. viðskmrh. í þessari umr. nú gefi alveg ótvíræða yfirlýsingu um það, hvort ríkisstj. hafi undirgengizt nokkra skuldbindingu í þessu efni. Ég álít, að Alþ. eigi kröfu á því að fá að vita þetta, hvort Alþ. sé að nokkru leyti skuldbundið til þess að samþ. þetta frv. í sambandi við þær skuldir, sem ríkisstj. hefur stofnað til. Og ég segi þetta vegna þess, að ég er búinn að fá það mikið að vita af bakreikningunum fyrir þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið á undanförnum áratugum, að mig langar ekki til að fá fleiri, — bakreikningunum í sambandi við eignarréttinn á áburðarverksmiðjunni og þeim kröfum, sem gerðar hafa verið viðvíkjandi henni út af lánum, sem veitt hafa verið, bakreikningnum, sem stóð byggingu sementsverksmiðjunnar fyrir þrifum um nokkurt árabil, meðan ameríska auðvaldið var að reyna að pína íslenzku ríkisstj, í krafti skuldanna og lánardrottinsaðstöðunnar til þess að gera sementsverksmiðjuna að hlutafélagi, — að ég óska eftir að fá að vita það nú, hvort það sé enn einu sinni verið að binda hendur okkar með skuldbindingum, sem ríkisstj. sé að gangast inn á erlendis.

Ég vil líka í því sambandi spyrja að því, hvort það sé meiningin, til þess að reyna að auka viðskipti Íslands við frjálsu gjaldeyrislöndin, að pína útflytjendur til að selja íslenzkar útflutningsvörur, eins og t.d. síldarmjölið og síldarlýsið, á lægra verði á Vesturlöndum en kynni að vera fáanlegt fyrir það í sósíalísktískum löndum, m.ö.o., hvort tilgangurinn með því að gefa Seðlabankanum valdið yfir útflutningnum, að láta það vera háð hans leyfum, hvert varan er flutt, eigi að vera sá að pína íslenzka útvegsmenn og sjómenn og þær stofnanir, sem fá þeirra afurðir til sölu, til þess að selja á hrynjandi mörkuðum auðvaldslandanna þær vörur, sem þeir gátu selt og geta e.t.v. enn selt betra verði til sósíalísktísku landanna. Mér er alveg kunnugt um þá stefnu meiri hl. núverandi seðlabankastjórnar að ætla að reyna að pína slíkt í gegn að selja íslenzku útflutningsvöruna þeim auðhringum, sem hafa reynt að arðræna Ísland og tekizt það öðru hverju á síðustu 30-40 árum. Og okkur, sem þekkjum til, hvernig aðstaðan var hér á Íslandi 1930-110, á meðan brezku bankarnir í samráði við Unilever-hringinn ætluðu að ráða verðinu á íslenzka síldarlýsinu og knýja Íslendinga til að selja það með sílækkandi verði, — okkur er kunnugt um, hvernig Landsbankinn þá var tækið, sem brezka bankavaldið og brezka auðhringavaldið notaði til þess að arðræna okkur Íslendinga. Og síðan var svo sagt við alþýðuna hér heima: Þið megið ekki gera kröfur um að hafa fulla vinnu, og þið megið ekki gera kröfur um að fá hækkað kaupgjald, vegna þess að atvinnuvegirnir bera það ekki. — Þá var það, eins og þá var oft kallað, landsbankaklíkan hér á Íslandi í samráði við fiskhringinn og í samráði við Unilever-hringinn og bankavaldið brezka, Hambros Bank, sem skipulagði fátæktina hér heima, skipulagði það, að við gátum ekki einu sinni aflað okkur nýrra framleiðslutækja. Og það er ekki vert að sleppa þeirri mynd nú, þegar verið er að ræða um, hvern aðbúnað við höfum haft í okkar efnahagsmálum á undanförnum áratugum. Og ég álít að það eigi ekki að innleiða þá kúgun á ný. Ef Seðlabankinn á að gerast erindreki fyrir Alþjóðabankann eða Efnahagssamvinnustofnunina í París til þess að hafa eftirlit með útflutningi Íslendinga og stjórna honum, þá er verið að gera okkur Íslendinga að þegnum í þeim stóra auðvaldsheimi, sem við höfum þó verið að reyna að vera sjálfstæðir í á undanförnum áratugum. Og það er rétt, að menn geri sér þetta alveg ljóst. Það var vakin eftirtekt á því hér áðan, að það er haldið í einokun viðvíkjandi útflutningnum. Af hverju? Einokun á útflutningnum hefur löngum verið áhugamál íslenzkra auðmanna, af því að þar eru venjulega hringar starfandi, og einokunin á útflutningnum er líka áhugamál þeirra alþjóðlegu viðskiptastofnana, sem við höfum með að gera, vegna þess að þær vilja gjarnan fá að ráða því, hvert við seljum okkar afurðir. Og það, sem hefur verið eins og fleinn í holdi þessa alþjóðlega auðvalds undanfarið, er einmitt það, að við höfum ráðið því sjálfir, hvert við seldum þessar afurðir, og við höfum selt þær í eins ríkum mæli og við höfum gert til sósíalísktísku landanna með hagstæðum kjörum fyrir okkur. Það er þetta, sem það alþjóðlega auðvald vill stöðva.

Ég spyr þess vegna að því, hvort ríkisstj. sé að fela Seðlabankanum valdið til að ráða yfir, hvert flutt sé út, í því skyni, að hann noti það til þess að pína íslenzka útflytjendur til að selja fyrir lægra verð en þeir ella gætu fengið, til Vestur-Evrópulandanna til þess að afla okkur þannig frjáls gjaldeyris upp í skuldirnar. Eða, ef það er ekki meiningin, er þá meiningin að skapa þennan gjaldeyrisvarasjóð í frjálsum gjaldeyri einvörðungu á kostnað íslenzkrar alþýðu, einvörðungu með því að koma á fátækt hjá almenningi á Íslandi? Á gjaldeyrisvarasjóðurinn erlendis að vera þeir peningar, sem alþýðufjölskyldurnar vantar jafnvel til þess að kaupa brauð og mjólk, eftir að ríkisstj. skipuleggur dýrtíðina yfir alþýðuheimilin og brottnemur vísitöluna úr lögum, til þess að engin vörn sé hjá alþýðuheimilunum önnur en kaupdeilurnar til þess að bæta sinn hag?

Ég verð að segja það, að ef hæstv. ríkisstj. reiknar með því að skapa sinn gjaldeyrisvarasjóð í frjálsum gjaldeyri einvörðungu á kostnað þess, sem íslenzka alþýðu á að skorta, eingöngu með því að skipuleggja fátækt á Íslandi, þá reiknar hún skakkt. Almenningur á Íslandi ætlar sér ekki að borga þann brúsa, og það er bezt, þegar við ræðum þetta mál, að við gerum okkur það frá upphafi ljóst. Auðmennirnir á Íslandi, heildsalarnir á Íslandi, ef þeir vilja fá gjaldeyrisvarasjóð í frjálsum gjaldeyri, þá geta þeir fengið hann á sinn kostnað sjálfir, ekki bara með því fé, sem þeir eiga erlendis núna, sem ríkisstj. kannske vildi sýna einhverja gangskör að því að reyna ná til, heldur með því að fara þá að selja eitthvað dálítið af sínum eignum hér heima. Það er ekki víst, að alþýða manna láti fyrst og fremst bjóða sér það að taka af henni þær íbúðir, sem hún nú á, í skjóli kauplækkunar og atvinnuleysis. Það getur verið, að hún verjist gegn því. Og ef ríkisstj. þá ætlar sér að halda þessari stefnu áfram, þá er bezt fyrir hana að gera sér það ljóst, að hún verður að gera það á kostnað auðmannastéttarinnar sjálfrar. Og eigur hennar eru vissulega ekki svo litlar, að það væri óhugsandi að koma upp nokkrum gjaldeyrisvarasjóði á hennar kostnað. Ef ég man rétt, voru það aðeins 30 ríkustu einstaklingarnir á Íslandi, sem áttu um 250 millj. kr. eftir gamla genginu í skuldlausum eignum. Áður en farið er að fyrirskipa með lögum fátækt hjá almenningi á Íslandi, er hægt að byrja með því að láta þá auðugu leggja fram til að skapa þá gjaldeyrisvarasjóði, sem á að skapa erlendis.

Ég held þess vegna, að sú yfirlýsing hæstv. ráðh. og sá tilgangur, sem hæstv. ríkisstj. lýsti yfir um sköpun gjaldeyrisvarasjóðs, þurfi allýtarlegra upplýsinga og athugunar við.

Þá lýsti hæstv. viðskmrh. því yfir í öðru lagi, að það væri tilgangur ríkisstj. að vernda viðskiptin við sósíalísktísku löndin. Ég veit, að hæstv. ráðh. gefur þessa yfirlýsingu vafalaust sjálfur í góðri trú, en ríkisstj. sem heild gefur hana fyrst og fremst vegna þess, að hún veit, að alþýðu manna á Íslandi er ljóst, hver líftrygging henni eru þau viðskipti, hver trygging þau eru fyrir hennar atvinnuöryggi og fyrir hennar afkomuöryggi, og að almenningur á Íslandi mundi ekki sætta sig við það, að þessi viðskipti væru brotin niður. Ég vil hins vegar lýsa því yfir og óska eftir, að það sé rætt alveg af fullri hreinskilni í þessum,umr., að með þessu frv. og þeirri stefnu, sem það markar, er ríkisstj. að brjóta þessi viðskipti niður. Afleiðingin af framkvæmd þeirrar stefnu, sem í þessu frv. felst, er að brjóta niður viðskipti Íslands við sósíalísktísku löndin. Og einmitt vegna þess, að ég held, að hæstv. viðskmrh. sé í góðri trú í þeirri yfirlýsingu, sem hann gaf, þá óska ég sérstaklega eftir því nú þegar við þessa umr., að þetta atriði sé rætt ýtarlega og af fullri hreinskilni, þannig að þegar þau viðskipti brotna niður, eftir að farið verður að framkvæma þessa stefnu, þá sé það ekki eitthvað, sem komi aftan að mönnum, heldur sé mönnum frá upphafi ljóst, að með því að stíga þetta spor eru þeir vegna afleiðinganna, sem það hefur, að brjóta þessi viðskipti niður. Hve fljótt, hve skrykkjótt það gangi eða annað slíkt, það er annað mál, en menn geri sér frá upphafi ljósar afleiðingarnar. Hvort slíkt er gert að yfirlögðu ráði, eins og ég veit að er af sumra hálfu og skal koma áð nánar, eða hvort það er gert af stórkostlegu gáleysi, það er í þessum lögum lagt nokkurn veginn að jöfnu. Þannig er hæstv. ríkisstj. nauðsynlegt að gera sér það frá upphafi ljóst, að ef hún í gáleysi setur þessa löggjöf á og hefur ekki gert sér fulla grein fyrir afleiðingum hennar, þá er hún jafnvítaverð fyrir eins og ef hún gerði það að yfirlögðu ráði. Þess vegna er óhjákvæmilegt að reyna að reikna út alveg nákvæmlega lið fyrir lið afleiðingarnar af þessari viðskiptastefnu, og það mun ég nú fara inn á.

Í fyrsta lagi: Hæstv. ríkisstj, gerir ráð fyrir því að minnka fjárfestinguna á Íslandi stórum. Í öllum hennar ráðstöfunum viðvíkjandi bankaútlánum, bankavöxtum og öllum hennar afskiptum af fjárfestingarmálum er það ein höfuðstefnan að minnka fjárfestinguna. Á sama tíma hefur hæstv. ríkisstj. gert samning við Sovétríkin, það land af jafnvirðiskaupalöndunum, sem hún þó samkvæmt yfirlýsingu hæstv. viðskmrh. fyrst og fremst vill reyna að vernda gegn því, að þessi viðskiptapólitík hennar gæti orðið til þess að draga úr viðskiptum við. Hún hefur gert viðskiptasamning við Sovétríkin, þar sem m.a. er alveg sérstaklega samið um allmikil viðskipti einmitt á fjárfestingarvörum eins og járni og timbri, sem hafa verið með stærstu vöruflokkum, sem við höfum flutt inn frá þessum löndum. Það er alveg óhjákvæmilegt, ef fjárfesting minnkar á Íslandi, að þá minnki líka innkaupin á þessum hlutum. Það þýðir m.ö.o., að þeir samningar, sem ríkisstj. hefur,gert um innkaup á þessum fjárfestingarvörum, það mun vera mjög tæpt, að þeir komi til með að standa, og því meira sem dregur úr fjárfestingunni, því meira sem fátækt manna eykst hér á Íslandi, vanmegni manna til þess að byggja sér t.d. íbúðarhús, því meira dregur úr þessum viðskiptum og þá um leið viðskiptum Sovétríkjanna við okkur. Við skulum gera okkur það ljóst, að þegar við minnkum innkaupin þar, þá verður óhjákvæmilega svarið hjá öllum þessum löndum að minnka innkaupin frá okkur. Og hvernig er það með sumt af þessum vörum? Eru ekki jafnvel þegar gerðir beinir sölusamningar við t.d. Sovétríkin eða útflytjendurna í því ríki? Og er ekki jafnvel nú þegar hætta, að slíkir sölusamningar verði að einhverju leyti að áliti þeirra þar eystra rofnir, þegar innflytjendurnir hér á Íslandi fara að reka sig á það, að innanlandsmarkaðurinn á Íslandi minnkar. En það er innanlandsmarkaðurinn á Íslandi, sem hingað til hefur verið einn öruggasti grundvöllurinn fyrir öllum viðskiptum okkar við jafnvirðiskaupalöndin, af því að innanlandsmarkaðurinn á Íslandi hefur gert okkur mögulegt að geta alltaf selt eins mikið til þessara sósíalísktísku landa og við gátum keypt frá þeim, og við gátum keypt frá þeim :fyrst og fremst í krafti þess, hve mikill okkar innanlandsmarkaður var.

Í öðru lagi, hvað snertir þær vörur, sem við kaupum frá sósíalísktísku löndunum og almenningur notar til sinnar neyzlu, þá hefur ríkisstj. gert ráðstafanir til þess að draga úr kaupgetu almennings á Íslandi á slíkum neyzluvörum. Við skulum taka sem dæmi vörur, sem hæstv. ráðh, nefndi, eins og bómullarvörurnar, sem eru mikill þáttur í okkar viðskiptum víð jafnvirðiskaupalöndin. Hæstv. ríkisstj. hefur gert sérstakar ráðstafanir til þess að hækka allar slíkar bómullarvörur stórkostlega í verði með gengislækkunarfrv. og samtímis gert ráðstafanir til þess að halda niðri kaupgetu almennings, m.ö.o. gert alveg sérstakar ráðstafanir til þess að draga úr kaupgetu almennings á bómullarvörum. Það þýðir, að minnkandi kaupgeta hér heima gengur út yfir vörurnar frá þessum sósíalísktísku löndum, sem síðan kemur til með að þýða minnkandi markaði fyrir fiskinn þar.

M.ö.o.: bæði hvað snertir fjárfestingarvörurnar og neyzluvörurnar eru þær ráðstafanir, sem ríkisstj. gerir hér heima, þess eðlis, að þær draga úr viðskiptunum við þessi lönd, þær almennu ráðstafanir ríkisstj., svo að segja stefna hennar í þessum málum.

Í þriðja lagi: Þar að auki gerir ríkisstj. alveg sérstakar ráðstafanir, að því er virðist, til þess að draga úr viðskiptunum við þessi lönd. Það mun t.d. vera samið í viðskiptasamningnum við Sovétríkin um innflutning á 500 bílum, ef ég veit rétt. Samtímis því, sem þessi sölusamningur er gerður við Sovétríkin, gerir ríkisstj. sérstakar ráðstafanir til þess að leyfa mönnum að nota gjaldeyri erlendis til að flytja inn bila til landsins án þess að þurfa sérstaklega að gera grein fyrir, hvernig gjaldeyrisins sé aflað. Í staðinn fyrir að reyna nú að fá slíkan gjaldeyri í þennan fyrirmyndar frjálsa gjaldeyrissjóð, þá er mönnum sérstaklega leyft að kaupa bíla, fólksflutningsbíla, fyrir slíkan gjaldeyri, og jafnvel er mér ekki fjarri að halda, að það sé leyft að nota í ríkara mæli en verið hefur alls konar undanþágur og leyfi, sem tíðkazt hafa á undanförnum árum, til þess að flytja inn bíla á alls konar sjómannagjaldeyri og öðru slíku. Samtímis því, sem þetta er gert, gerir svo ríkisstj. ráðstafanir til þess að minnka stórkostlega kaupgetu almennings í landinu, þannig að almenningur á eftir ráðstafanir ríkisstj. helmingi erfiðara með, ef menn vilja t.d. veita sér þann lúxus að kaupa bíl, heldur en áður hefur verið. Og ekki nóg með það, samtímis gerir ríkisstj. þær ráðstafanir að láta bankana koma á harðvítugra lánabanni en áður hefur tíðkazt, sem m.a. hefur þær afleiðingar að draga úr möguleikum á slíkum kaupum. Og mér er sagt, að þessar samfelldu ráðstafanir ríkisstj. á öllum þessum sviðum hafi nú þegar þau áhrif, að það sé t.d. miklu erfiðara að selja bila en verið hefur, og það mun ekki aðeins gilda um bíla, mér er sagt um jeppa, dráttarvélar og annað slíkt, að svo og svo mikið af öllum þeim pöntunum, sem gerðar hafa verið á slíkum hlutum að undanförnu, hafi verið kallað til baka eftir þær ráðstafanir ríkisstj. að hækka verðið á öllum þessum hlutum, en halda um leið niðri kaupgetu almennings, þannig að beinir sölusamningar, sem gerðir hafa verið, beinir kaupsamningar á vörum frá þessum sósíalísktísku löndum, valdi nú þegar okkur vandræðum út af þessum ráðstöfunum, og er þetta þó ekki nema rétt byrjunin. Ég vil spyrja: þegar svona ráðstafanir eru gerðar, hvað skyldi hæstv. ríkisstj. hugsa til síldarvertíðarinnar í sumar? Mér er enn í minni síðasta síldarvertíð. Í fyrsta skipti um allmörg ár höfðum við fengið góða síldveiði, — og hvað kom þá á daginn? Voru markaðirnir í vestrænu löndunum, í frjálsu markaðslöndununum, svo miklir fyrir síldina, að menn biðu þar eftir því að fá hana héðan frá Íslandi? Og heldur hæstv. viðskmrh., að lánsstofnanirnar, sem voru að lána okkur núna 20 millj. dollara, ætli sér, ef gæfan yrði með okkur og við fengjum næga síld í sumar, að taka mikla síld upp í greiðslurnar á þeirri skuld? Eða er það til í hugskoti hæstv. ríkisstj., að það geti komið til þess sama og gerðist í fyrra, að ef gæfan gefur okkur næga síld, þá verðum við aftur í vandræðum með hana, hvar við eigum að selja hana? Og á þá með þeim ráðstöfunum, sem nú er verið að gera, að vera búið að spilla að meira eða minna leyti þeim möguleikum, sem við gátum hagnýtt okkur þá og voru okkur dýrmætir þá? Ég er hræddur um, að við séum með þessum ráðstöfunum, sem nú er verið að gera, og afleiðingarnar af þeim eru rétt að byrja að koma í ljós, — ég er hræddur um, að við séum að eyðileggja fyrir okkur að geta bjargað síldarvertíð, eins og við gerðum á siðasta sumri. (Forseti: Ég hefði gjarnan viljað, að hv. þm. gæti lokið máli sínu, þótt eitthvað færi fram yfir venjulegan fundartíma, en ef langt mál er eftir, þá held ég, að það sé ekki um annað að gera en fresta umr.) Það er alllangt. [Frh.]