22.04.1960
Neðri deild: 69. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2111 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Einar Olgeirsson [frh.]:

Herra forseti. Ég hafði þar komið máli mínu í umræðunni um þetta dagskrármál, að ég hafði rætt nokkuð um, hvernig þessar ráðstafanir ríkisstj. að mínu áliti mundu draga úr þeim viðskiptum, sem við hefðum haft við sósíalístísku löndin, að það væri nauðsynlegt að horfzt yrði í augu við þær afleiðingar, sem þetta frv. mundi hafa, ekki sízt þar sem ég hafði ætlað hæstv. viðskmrh. góðan vilja í þessum efnum, þannig að ég geng út frá, að í umr. um þetta mál verði það að koma fram, hvaða mótrök hæstv. ríkisstj. hefur, ef hún vill ekki láta það verða afleiðingarnar af þessu frv., að þau viðskipti séu smátt og smátt brotin niður. Og næst á eftir þeim ráðstöfunum eða afleiðingum frv., sem ég hafði talið upp, vil ég nú nefna nokkrar í viðbót, sem sé auk þeirra almennu áhrifa, sem pólitík ríkisstj. hlýtur að hafa.

Í sambandi við fjárfestingarvörurnar, almennu neyzluvörurnar og sérstöku ráðstafanirnar, eins og í sambandi við bilana, eru með þeim frílista, sem nú er fyrirhugaður og hæstv. viðskmrh. hefur verið svo elskulegur að lofa mér að sjá, beinlínis með þeim vörum, sem settar eru á frílistann, gerðar ráðstafanir til þess að draga úr þessum viðskiptum, alveg beinlínis, og ég skal nefna dæmi. Það er gengið út frá, að skófatnaður úr leðri, sem hefur verið eitt af því, sem við höfum alveg sérstaklega keypt frá Tékkóslóvakíu, sé nú settur á þann almenna frílista. M.ö.o.: það verður ekki lengur háð ríkinu og þess vilja, heldur þeim blindu lögmálum viðskiptalífsins, hvernig um þann innflutning fer. Enn fremur verkfæri, sem við höfum keypt allmikið frá Austur-Þýzkalandi og Tékkóslóvakíu, þau eru nú sett á þann almenna frílista. Enn fremur allar vélar, að undteknum trésmíða- og vélsmíðavélum, þær halda áfram að vera á hinum bundna lista fyrir jafnkeypislöndin, en allar aðrar vélar, og af slíkum vélum höfum við keypt allmikið frá bæði Austur-Þýzkalandi og Tékkóslóvakíu, og eins og hæstv. ríkisstj. er kunnugt, hafa Sovétríkin lagt alveg sérstaka áherzlu á það í sínum viðskiptasamningum, að skapaðir væru möguleikar á sölu slíkra véla, og ýmsar vélar hafa verið seldar þaðan. Nú eru þær allar saman settar á þann almenna frílista. Raflagnaefni, sem við höfum keypt sérstaklega frá Austur-Þýzkalandi og Tékkóslóvakíu, er sett á frílista nú. Hlutir eins og reiðhjól, reiknivélar og annað slíkt, það er sett á hinn almenna frílista. Við getum tekið líka sérstök dæmi, eins og t.d. í sambandi við eik, sem við höfum keypt frá Rúmeníu, sem líka er jafnkeypisland, með mjög góðum kjörum, bæði betri og ódýrari en í frjálsu gjaldeyrislöndunum, og jafnvel getað keypt hana fyrir vorsíld, sem við erum í miklum vandræðum með og ég veit satt að segja ekki, hvernig fer um núna, — ég sé, að hún er sett á frílista. Sama má segja um asfalt, sem hefur verið keypt með allgóðum kjörum frá Ungverjalandi og líka er möguleiki að kaupa fyrir fisk, það er sett á þann almenna frílista. M.ö.o.: það lítið sem ég hef farið í gegnum þennan frílista, þá er auðséð, að þarna er allmikið af vörum, sem hingað til hafa verið keyptar með mjög hóflegum skilmálum, að því er mér er bezt kunnugt, frá sósíalísktísku löndunum, en núna eru gerðar ráðstafanir til að setja á þann almenna frílista og draga þannig verulega úr því, sem við getum keypt frá þessum löndum, og því, sem við gætum þess vegna selt til þeirra.

Ég veit, að það kemur máske það svar í þessu sambandi, að þótt þetta sé sett á almennan frílista, þá sé mögulegt að kaupa þetta frá sósíalísktísku löndunum engu að síður. Þau rök duga bara ekki, vegna þess að þeir menn, sem sjá um innkaupin frá frjálsu gjaldeyrislöndunum og hafa sérstaka hagsmuni af þeim, eru venjulega um leið meira og minna umboðsmenn fyrir þá, sem selja í þessum löndum, fá frá þeim umboðslaun og sækjast sérstaklega eftir að fá þau umboðslaun í frjálsum gjaldeyri, hafa jafnvel stundum kannske umboðslaun, sem koma ekki fram, þannig að áhugi innflytjendanna á að flytja inn frá frjálsu gjaldeyrislöndunum, vegna þeirra sérstöku möguleika, sem þeir þannig hafa, er svo mikill, að þeir flytja inn frá þeim, jafnvel þó að það séu lélegri kjör en væru frá hinum, þar sem þeir hafa ekki samsvarandi möguleika. Svo framarlega sem ríkið vill sjá til þess, að þessi viðskipti séu, þá getur það ekki gert það öðruvísi en með því að halda þessu algerlega undir sinni stjórn. Það er ekki til neins að setja það á þann frjálsa lista.

Svo kemur það þar að auki alveg greinilega fram í þeim athugasemdum, sem með þessu fylgja, sem ég vona að sé ekkert leyndarmál, að stórir útflytjendur í þessum efnum, eins og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og SÍS, hafa gert þá athugasemd, að það minnki raunverulega, eftir því sem mér skilst, um 60 millj. kr., miðað við kaupin 1958, þau vöruinnkaup, sem við eftir hlutfallinu þá hefðum getað gert ráð fyrir, að ella héldust frá sósíalísktísku löndunum. M.ö.o.: á listann hafa eingöngu verið settar vörur, sem svo að segja eingöngu hafa verið keyptar frá sósíalísktísku löndunum, og meira að segja þær vörur minnka af þeim ástæðum, sem ég gat um í fyrri hluta ræðu minnar. En svo hvað snertir þær vörur, sem sumpart hafa verið keyptar frá báðum, beggja vegna járntjaldsins, ef maður má svo að orði komast, þá lendir það alveg sérstaklega þannig vegna þeirra almennu viðskiptahátta, að þegar slíkar vörur, sem að einhverju leyti hafa þarna skipzt, eru teknar einvörðungu á frílistann, þá lenda þær allar saman vestur fyrir vegna þessara sérstöku áhugamála innflytjendanna á Íslandi. Þess vegna eru sem sagt beinlínis í frílistanum, eins og hann er, gerðar beinar ráðstafanir af hálfu ríkisstj. til þess að draga úr þessum viðskiptum.

Svo eru enn fremur gerðar þær ráðstafanir með þessum lögum, að nú á Seðlabankinn að verða sá aðili, sem hefur eftirlit með útflutningnum, og það er Seðlabankinn, sem á að gefa leyfin til útflutnings, í staðinn fyrir ákveðna nefnd áður.

Nú vita allir þeir, sem þekkja eitthvað til um þessi mál, hvernig þetta hefur verið á undanförnum árum. Innflutningsskrifstofan hefur haft alveg sérstakan áhuga á því og venjulega verið lagt upp úr því af hverri ríkisstj., sem að völdum hefur setið, að hún reyndi að haga þannig til, að það væri fyrst og fremst keypt inn frá þeim löndum, þar sem við ýmist áttum gjaldeyri eða vorum öruggir með að geta aflað okkur gjaldeyris, þannig að innflutningsskrifstofan hefur haft það sjónarmið, að við reyndum að reka þjóðarbúskap, sem eitthvert jafnvægi væri í gagnvart útlöndum, að við reyndum sem sé að hagnýta okkur og skapa okkur markaði, þar sem þeir væru til, og kaupa okkar vörur með tilliti til útflutningshagsmunanna. Og innflutningsskrifstofan hefur haft alveg sérstaklega mikla þekkingu til að bera í þessum efnum, og innflutningsskrifstofan hefur hvað eftir annað ráðlagt þeim mönnum, sem við viðskipti fást á Íslandi, þegar þeir hafa óskað eftir vörum: Ja, það er nú hægt að fá þessa vöru frá þessu og þessu landi, þar sem við eigum gjaldeyri eða þar sem við eigum hægt með að afla okkur markaða. — Innflutningsskrifstofan hefur þannig hlutazt til um, að menn reyndu að kaupa frá þeim löndum, þar sem við komumst ekki í skuldir, og bankarnir hafa fram að þessu rekið þá pólitík, að þó að það hafi verið frílisti, þá hafa bankarnir ekki álitið sig eiga að nota þá litlu peninga í frjálsum gjaldeyri, sem til væru, nema því aðeins að þeir væru svo að segja alveg til neyddir af lífshagsmunum útflutningsins og atvinnurekstrarins á Íslandi. Þeir hafa jafnvel neitað um gjaldeyri, eins og við vitum allir, þeir hafa líka jafnvel ýtt því að mönnum að verzla þá við lönd, þar sem bankarnir áttu sjálfir inni eða þar sem þeir gátu eignazt nægar inneignir. Með því að innflutningsskrifstofan verður lögð niður og bankarnir hafi ekki lengur þetta aðhald, heldur á Seðlabankinn einn að stjórna þessu, þá hverfur út úr utanríkisviðskiptum Íslands allt aðhald um að reka þjóðarbúskap Íslendinga af einhverju viti og af einhverri ábyrgð á því, að við Íslendingar séum menn til að borga það, sem við kaupum inn til landsins. Seðlabankinn — eða meiri hluti stjórnar hans — er kunnur að því að vilja reka pólitík, sem miðast einvörðungu við svokölluð frjáls gjaldeyrisviðskipti. Og þegar hann nú hefur til umráða kredit upp á 20 millj. dollara, þá er það vitað, enda gengið út frá því með þessum lögum, að hann eigi að hugsa einvörðungu um það, að ef menn komi til hans og vilji fá keyptan gjaldeyri, þá eigi að selja hann alveg án tillits til þess, hvort Ísland geti nokkurn tíma borgað slíka skuld eða ekki. M.ö.o.: Seðlabankanum er ætlað með þessum lögum að vera gersamlega ábyrgðarlaus um alla hagsmuni íslenzks útflutnings og allt sjálfstæði íslenzks þjóðarbúskapar og allan heiðarleika í viðskiptum Íslands við önnur lönd. Og það er vitanlegt, að meiri hluti stjórnar Seðlabankans er reiðubúinn til þess að gegna þessu hlutverki. Hann hefur sýnt það, að hann hefur algert ábyrgðarleysi í þessum efnum, þannig að með þessu er beinlínis verið að stíla að því að slíta sambandið á milli útflutnings og innflutnings á Íslandi og skapa þær aðstæður, að við getum staðið uppi einhvern daginn með margfalt neikvæðari verzlunarviðskipti við þau frjálsu gjaldeyrislönd en við höfum haft núna. Við höfum enga vissu fyrir sölunni til þeirra landa, og hæstv. ríkisstj. hefur ekki í sambandi við sínar umr. um þessi mál lagt neitt fyrir, sem bendi á, að hún hafi neina víssu um slík viðskipti, þannig að hér er farið, að því er virðist, bara eftir blindri trú á, að e.t.v. kunni að takast að skapa þarna markaði, sem nú eru ekki til, m.ö.o. alveg ábyrgðarlaust farið að hvað snertir efnahagslegt sjálfstæði Íslands og hvað snertir aðstöðu Íslands til að standa í skilum með skuldir, borga sín lán.

Hæstv. viðskmrh. sagði, um leið og hann lýsti því yfir, að það væri tilgangurinn með þessu, eins og fram gengur með lagafrv., að leggja innflutningsskrifstofuna niður, að nú ætti að fela þetta eftir því sem mér skildist, hlutlausum embættismönnum, nú ætti að taka þetta undan umsjá þeirra pólitísku flokka og þeirra afskiptum, og ýmislegt hefði verið slæmt á undanförnum 20 árum í sambandi við innflutningsskrifstofuna og fjárhagsráð og gjaldeyrisskrifstofuna og öll þau ótal nöfn, sem þessi stofnun hefur gengið undir á síðustu 20-25 árum. Og ég skal ekkert draga úr því. Ég skal ekkert draga úr því, að það hafi verið slæm Stjórn á þessu. Ég hef sjálfur gagnrýnt þetta það mikið, að ég skal ekki draga úr því. En það, sem við erum að gera nú, er í staðinn fyrir, að þegar maður hefur slæma stjórn, þá á í raun og veru að búa til góða stjórn, en það, sem hæstv. ríkisstj. virðist vera að gera, er, að í staðinn fyrir slæma stjórn ætlar hún að skapa stjórnleysi og ábyrgðarleysi, og það er enn þá verra. Það er jafnvel stundum betra að veifa röngu tré en engu.

Hvað svo snertir hitt að láta Seðlabankann fá þetta; þá vil ég segja það, að því fer fjarri, að verið sé að taka þetta með því undan áhrifum t.d. stjórnmálaflokka. En það er verið að setja það undir lokaðri og svo að segja innilokaðri áhrif einstakra klíkna í þjóðfélaginu en innflutningsskrifstofan nokkurn tíma hefur verið, nema kannske á verstu tímum helmingaskiptanna. Við skulum ekki fara í neinar grafgötur um, hvað bankavaldið þýðir. Við höfum oft deilt hér út af innflutningsskrifstofunni og ýmsum hlutum, sem standa í sambandi við stjórnmálaflokkana, sérstaklega þegar helmingaskiptareglan var þar tekin upp. En eitt skulum við þó muna, að á meðan svo er, að einhver aðili hér innanlands fylgist með innflutningi og útflutningi, þá er það kostur, að það sé aðili, þar sem það opinbera vald í landinu, Alþingi, hefur aðstöðu til að fylgjast með. Þegar t.d. allir hinir pólitísku flokkar þingsins hafa sina aðstöðu til þess að líta eftir hlutum eins og þessum, þá er ekki hægt að misnóta þetta eins og mundi vera ella. Ég vil þess vegna taka það fram, að með því að leggja þetta undir Seðlabankann og þá framkvæmdastjórn, sem þar er, er verið að draga þessa hluti undan eftirliti almennings og koma þarna á í staðinn embættismannavaldi. Þetta embættismannavald er raunverulega ábyrgðarlaust gagnvart Alþingi og eftirlitslaust. Og reynslan er meira að segja sú, og það held ég jafnvel að hæstv. viðskmrh. geti sjálfur viðurkennt, að það vill vera fullerfitt fyrir ríkisstjórnirnar í þessu landi, ekki sérstaklega þessa, sem nú situr að völdum, heldur allar. sem ég hef þekkt á undanförnum árum, jafnt þær; sem ég hef stutt, eins og aðrar, að hafa einhverja stjórn á bönkunum hér í landinu. Það hefur reynzt eins mikið þannig, að þessir bankar hafa stjórnað ríkisstjórnunum. Og reyndin varð sú alveg sérstaklega, eins og við þekkjum bezt, sem höfðum einhver afskipti af stjórnmálum Íslands 1930–40, að þá eru það einmitt Landsbankinn og landsbankavaldið, eins og við kölluðum það þá, þá er það einmitt það vald, í beinu sambandi við þá erlendu lánardrottna Íslands, sem þá var Hambros Bank, sem stjórnar ríkisstj. Íslands, — beinlínis gefin fyrirmæli um, hvernig hún skuli haga sinni pólitík, — og það má hæstv. viðskmrh. manna bezt vita, vegna þess að það voru þær köldu kveðjur, sem Alþfl. fékk í fyrsta skipti, sem hann tók þátt í ríkisstj., ríkisstj. Framsóknar og Alþfl. 1934, þegar í febrúarlok 1935 komu skilyrðin frá Hambros Bank um, hvers konar pólitík sú ríkisstj. skyldi reka, þveröfuga við það, sem hún hafði ætlað sér um framkvæmdir og annað slíkt, vegna þess að við vorum þá svo skuldugir ensku bönkunum, að þeir gátu sett okkur stólinn fyrir dyrnar og gátu meira að segja tafið og gert okkur erfitt um stórframkvæmdir, eins og við þá vorum að undirbúa að leggja í, bæði hitaveituna og Sogsvirkjunina fyrstu, þó að það tækist á endanum að komast fram hjá þeim.

Við skulum þess vegna gera okkur ljóst, að með því að leggja nú þetta í vald Seðlabankans og gera um leið Seðlabankann raunverulega að fulltrúa þeirra stofnana, Alþjóðabankans og gjaldeyrisstofnunarinnar í París, sem við höfum tekið stór lán hjá, þá er verið að skapa sams konar svipu á Ísland og á krepputímabilinu, og það verður kannske ekki langt þangað til jafnvel ríkisstj. sjálf fer að kippa sér upp, ef hún vill ekki beygja sig alveg í auðmýkt, undan því valdi, þannig að það er bezt að gera okkur það alveg ljóst frá upphafi, hvað verið er að gera með því.

Ég hef sjálfur átt í baráttu við þetta landsbankavald, undir þeim kringumstæðum, þegar við þó áttum nóga peninga, Íslendingar, og þegar stofnun, útnefnd af ríkisstj., önnur en bankaráðin, gat ráðstafað þeim peningum, nýbyggingarráðið 1945, og ég hef minnt hér á áður og skal ekki rifja það upp nú, hvers konar slag við urðum að standa í við þetta landsbankavald þá til þess að fá að koma í eigu bæjarfélaga og einstaklinga á Íslandi þeim togurum, sem við vorum búnir að kaupa til landsins fyrir peninga, sem við þurftum ekki að spyrja þessa banka um, til hvers við ættum að nota, af því að við réðum yfir útlendu peningunum. Þvergirðingshátturinn. skilningsleysið, þröngsýnin hjá þeim embættismönnum, sem ráða oft þessum bönkum, eru slík, — og venjulega því valdameiri sem þeir eru, því meira er skilningsleysið, — eru slík, að sporin ættu sannarlega að hræða menn frá því að fara að gefa slíkum embættismönnum það vald, sem lagt er til með þessu. Ég veit um það, þegar útvegsmenn, sem hafa viljað vera að gera út hér á þeim tíma, sem það hefur verið erfitt, hafa komið í slíka banka og fengið þær kveðjur hjá bankastjórum: Hver fjandinn er að biðja þig um að gera út? — Þetta eru bankarnir, sem taka allan gjaldeyrinn af útvegsmönnunum. Og sé ég ekki, að það séu neinar till. um það í öllum þessum frelsisóð, sem hér er verið að syngja, að það eigi að gefa gjaldeyrinn frjálsan, þannig að útvegsmennirnir eigi þá sjálfir að ráðstafa honum. Það væri þó það eina rökrétta, út frá öllu því, sem hér er verið að boða viðvíkjandi frelsi. En það á að haldast, það gamla, að verzlunarauðvaldið á Íslandi á að þjóðnýta gjaldeyrinn frá útgerðinni, taka hann til sín, einoka hann til sín, til þess að ráðstafa honum í samráði við embættismenn bankanna. Og svo eru þetta kveðjurnar, sem þeir menn, sem eru að brjótast í því að gera út, eiga að fá: Hver fjandinn biður ykkur um að gera út? — þegar það er þjóðin, sem ætlast til þess, að menn dragi fisk úr sjónum, til þess að hún geti lifað. En svona hefur skilningurinn stundum verið hjá þeim mönnum, sem hafa ráðið í þessum bönkum. Þess vegna hefði verið nauðsyn, að þessu hefði nú þegar verið breytt. Og þetta vildi ég aðeins segja, ef menn væru út af misjafnri reynslu af innflutningsnefnd og öðru slíku búnir að gleyma því, hvernig seðlabankavald eða landsbankavald getur verið, ef það er gert drottnandi og einrátt í þessu.

Mér sýnist vera farið út í þetta ævintýri, þetta hættulega ævintýri, sem hér er lagt út í, í barnalegri trú, sem styðst ekki við neinar staðreyndir, en getur orðið okkur dýrt, að þessu sinni vegna þess, að útlendir aðilar veita þeirri ríkisstj., sem leggur út í þetta, stórt lán, 800 millj. kr. lán, sem ég veit til að verður ætlazt til þess að við eigum að borga á eftir, þegar þetta hefur mistekizt, eins og það gerir. Þá eigum við að þurfa að þræla í því, Íslendingar, að takmarka þannig innflutning og annað slíkt og reyna að auka þannig útflutning, að við getum staðið undir að borga kostnaðinn við þetta ævintýri. Þess vegna, áður en lagt er út í þetta ævintýri, sem hrynur saman á nokkrum mánuðum, þá er rétt að sé varað við, svo að menn geri sér ljóst, að þetta ævintýri er hættulegra en það, sem lagt var út í 1950, því að þá höfðu menn ekki peninga til þess að borga kostnaðinn við það, og bankarnir urðu frá upphafi að spara útlenda gjaldeyrinn og frílistinn varð aldrei raunverulegur. Nú á að gera hann raunverulegan á kostnað framtíðarinnar. Ég vil þess vegna spyrja einmitt nú viðvíkjandi frílistanum: Hefur ríkisstj. sjálf alveg fullt og ótakmarkað vald og þarf hún ekki að neinu leyti að spyrja sína erlendu lánardrottna um það í fyrsta lagi, ef almenn nauðsyn krefst þess, að við breytum þessum frílista, svo að segja fyrirvaralaust? Getum við þá gert það án þess að spyrja um nokkur leyfi í Washington eða París, þ.e. hjá okkar lánardrottnum? Í öðru lagi, ef sérstök nauðsyn er fyrir hendi, við skulum segja ef það er ekki meiningin að láta vorsíldina synda hérna fram hjá núna án þess að veiða hana, ef við gætum selt hana í vöruskiptum undireins, er þá möguleiki að taka t.d. ákveðna vöruflokka undireins út af frílistanum og gera ráðstafanir til þess að hagnýta þannig þessa möguleika? Erum við bæði hvað snertir almennar breyt. og hvað snertir sérstakar breytingar á frílistanum alveg frjálsir um að geta fyrirvaralaust og án þess að spyrja nokkra lánardrottna eða þurfa að eiga í nokkrum samningum við þá gert breytingar á þessu? Eða mundi, ef slíkt kæmi fyrir, ríkisstj. svara okkur því, að það væru heildsalarnir, sem kaupa inn, sem ættu að ráða þessu? Við skulum taka dæmi, svo að ég taki eitthvað út í bláinn, eins og þetta, sem ég minntist á áðan viðvíkjandi vorsíld til Rúmeníu og eik, — ég veit ekki, hvernig þær aðstæður eru núna, ég veit, að þeir möguleikar hafa einu sinni verið til, en ef eitthvað þess háttar kemur fyrir, er þá hægt fyrirvaralaust að gera þetta? En þá kemur um leið annað: Þótt þessi möguleiki væri til lagalega séð og ríkisstj. hefði þá aðstöðu, að hún þyrfti ekki að spyrja neina lánardrottna um þetta, er þá máske ekki búið að eyðileggja möguleikana með því að gefa út þennan frílista, svona víðtækan, vegna þess að t.d. þeir heildsalar, sem vildu flytja inn í þessu tilfelli eik, gera sínar ráðstafanir, við skulum segja núna, þegar frílistinn er gefinn út, kaupa þetta inn, og það er búið að kaupa þetta inn og ekki hægt að breyta því neitt meir og þar með farinn möguleikinn á að selja vorsíldina? Ég vil vekja athygli á því, að hver dagur, sem stendur þannig, að þessi frílisti tekur gildi og þeir peningar eru látnir í té, eins og nú er meiningin að gera, sem þarf til að koma honum í framkvæmd, hver slíkur dagur vinnur Íslandi tjón, því að hann eyðileggur innanlandsmarkað, sem hingað til var það eina, sem við gátum treyst á til þess að geta selt okkar vöru, innanlandsmarkaðurinn á Íslandi var þetta góður.

Ég vil í þessu sambandi fá að vita, hvort við séum alveg frjálsir með þetta eða hvort heildsalarnir meira eða minna eiga að ráða einhverju sjálfir, hvort við þurfum að hafa einhverja samninga við lánardrottnana í París eða Washington. Ég bað um það, þegar gengislækkunarlögin voru hér til umr., bað um, það í fjhn. að fá þá samninga, sem gerðir hefðu verið. Ég mun ítreka þá beiðni nú, þegar þetta mál fer til fjhn., að fá þá samninga, sem gerðir hafa verið við lánastofnanirnar, til þess að Alþingi geti alveg gengið úr skugga um, hvernig þeir eru. En sem sé, þrátt fyrir það þótt þeir kynnu að vera þeir hagstæðustu hvað slíkt snertir, að við hefðum mjög mikla möguleika til þess að geta notað okkur slíkt í framtíðinni, þá vil ég vekja athygli á því, að við eyðileggjum þá möguleika að meira eða minna leyti með því að gefa þennan frílista út.

Mér er kunnugt um það, að bara umtalið um þennan frílista, bara umtalið og þessir þrír mánuðir, sem liðnir eru, síðan því var fullkomlega lýst yfir, hvað við mundum þarna fara út i, er byrjað að hafa sín áhrif í þá átt, að markaðirnir í sósíalísktísku löndunum eru að brotna saman. Mér er kunnugt um, að Tékkóslóvakía hefur nýlega gert fiskinnkaup í Noregi, og ég veit, að það er hætta á ferðum í þessum efnum. Ég hef sjálfur haft mikinn áhuga fyrir þessum málum frá upphafi vega, sjálfur haft fyrir ríkisstjórnir tvívegis það hlutverk að reyna að brjóta braut þessum viðskiptum, og ég hef, sérstaklega vegna þeirra hagsmuna, sem verkalýðurinn á Íslandi og íslenzka þjóðin almennt á undir því að halda þessum viðskiptum, viljað vinna að því að reyna að hafa þau sem víðtækust. Mér þykir þess vegna ákaflega hart, að það skuli nú vera farið inn á braut, sem þýðir það að brjóta þessi viðskipti niður. Og það er máske því sorglegra að fara inn á þetta sem ég efast ekki um, að innan ríkisstj. eru menn, sem vilja gjarnan viðhalda þessum viðskiptum, en vita bara ekkert, hvað þeir eru að gera með því að leika þann ljóta leik, sem hér er verið að leika. Mönnum er ekki sjálfrátt, þegar þeir eru að fara inn á þetta gamaldags verzlunarkerfi hinnar svokölluðu frjálsu verzlunar, menn sjá ekki, hvernig þeir eru að vega að lífshagsmunum Íslendinga. Að vísu veit ég, að það eru til aðrir, sem er alveg ljóst, hvað þetta er. Hæstv. viðskmrh. er það líka ljóst, enda hefur það komið greinilega í ljós. Það þurfti ekki annað, svo að maður minni á eitthvað, en að lesa t.d. Félagsbréfin frá Almenna bókafélaginu í fyrra, þegar viðskiptasamningurinn var gerður við Sovétríkin til þess að reyna að bjarga síldveiðunum, til þess að sjá andann, sem ríkir hér í herbúðum heildsalanna í Reykjavík. Það er hatazt við þessi viðskipti. Og við skulum alveg gera okkur það ljóst, að með því að fara inn á þessa pólitík, sem hér er verið að fara inn á, er verið að láta undan vilja harðvitugasta hluta verslunarauðvaldsins á Íslandi og að nokkru leyti undan vilja stórkapítalsins á Vesturlöndum, sem vill geta innlimað Ísland í sitt kreppukerfi og geta losað Ísland við það efnahagslega sjálfstæði, sem við höfum getað öðlazt í krafti þess að geta verzlað á báða bóga, bæði við þau sósíalísktísku og kapítalísktísku lönd. Og þeim mönnum, sem í París og Washington leggja nú fram stórlán til Íslands með því skilyrði, að það verði að vera eyðslulán, þeim er alveg ljóst, hverjar afleiðingarnar af þessu verða. Þeir reikna þetta nákvæmlega út, þeir þekkja lögmál viðskiptalífsins, þeir vita, hvernig þetta kemur til með að brjóta niður smátt og smátt viðskiptin austur á bóginn, því að þau byggjast á vilja íslenzkra stjórnarvalda til þess að viðhalda þeim.

Þetta er nú viðvíkjandi því sérstaklega, sem snertir almennt viðskiptin austur á bóginn og hættuna, sem felst í þeirri stefnu, sem tekin er upp með þessu frv.

Hæstv. viðskmrh. kom inn á ýmsa aðra hluti í sinni ræð u, sem ég mun nú líka ræða nokkuð um. Hann talaði um það, að ríkisstj. vildi enga kauphækkun nú fyrst um sinn, og mér skildist á honum, að það væri vilji ríkisstj. að reyna að koma í veg fyrir slíkt. Og mér sýndist hann setja þetta í samband við allt þetta fjármálakerfi, sem hér væri verið að byggja upp. Þar langar mig til þess að fá skýrari svör um, og ég held, að ég hafi minnzt á það í fyrri hluta ræðunnar, hvort hæstv. viðskmrh. eigi við það, þegar hann talaði um þær ráðstafanir, sem ríkisstj. mundi gera viðvíkjandi að draga ekki að lækka gengið, — hann mun hafa sagt það sérstaklega í sambandi við verzlunarjöfnuðinn og slíkt, — en ég vildi sérstaklega vita og held, að ég hafi spurt að því seinast, hvort hann ætti þar líka við innkaupsverð, og ég minnti þar á, hvernig verið hefði í fyrsta frv. frá 1950 um gengislækkun. Það, að hann sagði, að kaupgjald mætti ekki hækka, veldur því, að mig langar til þess að ræða það ofur lítið hreint þjóðhagslega.

Í fyrsta lagi náttúrlega frá sjónarmiði verkalýðsins, þá þýðir þetta, eins og ég skal nú koma að betur, að þetta er talsvert hagsmunaatriði fyrir hann. Það er beinlínis með þeim ráðstöfunum að hindra kauphækkanir, sem þegar hafa verið gerðar, verið að taka allmikið af því, sem verkalýðurinn vinnur sér inn, og fá það atvinnurekendunum í hendur. En fyrir utan þann þátt í því, þá skulum við nú athuga hinn: Er það frá þjóðhagslegu sjónarmiði rétt, meira að segja út frá þeirri stefnu, sem hæstv. ráðh. er að boða, að standa á móti kauphækkunum? Kauphækkanirnar eru frá þjóðfélagslegu sjónarmiði og hreinu þjóðhagssjónarmiði alveg bráðnauðsynlegar vegna framfaranna í okkar atvinnulífi. Kauphækkanir verkalýðsins eru einn aðalkrafturinn, sem knýr atvinnurekendurna til þess að koma á framförum í sínum atvinnurekstri. Atvinnurekandi stendur frammi fyrir því, þegar verkalýðurinn fær hækkað kaup hjá honum, að hann verður annaðhvort að borga af sínum gróða, ef hann hefur hann einhvern, til verkamannsins, eða þá að hann verður að reka sin fyrirtæki betur, praktískar, slá þeim saman, minnka kostnaðinn hjá sér, minnka eyðsluna hjá sér. Þegar hann stendur frammi fyrir þessu og tekur náttúrlega í öllum tilfellum, þegar hann mögulega getur, síðari kostinn, þá þýðir það um leið, að hann er að vinna þjóðhagslega nýtilegt verk. Hann er að skipuleggja atvinnureksturinn betur. Það þýðir: Kauphækkanir verkalýðsins eru aðhaldið, sem atvinnurekandinn þarf að fá til þess að koma á framförum í sínum atvinnurekstri. Það, að ríkisstj. segir nú við verkamenn: Þið eigið ekki að hækka kaupið, — það er sama sem að segja við atvinnurekendur: Þið skuluð viðhalda öllum þeim slæma og vitlausa rekstri, sem þið hafið núna. Þetta getur allt saman gengið, bara gerið þetta á kostnað verkalýðsins, hann fær ekki að hækka sitt kaup. — Þetta er algerlega röng stefna — og röng stefna frá því sjónarmiði, sem ríkisstj. sjálf er að prédika. Hver einasti amerískur, kapítalískur hagfræðingur viðurkennir, að kauphækkanirnar hjá ameríska verkalýðnum, — og lengi vel síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu er hann með hæstlaunuðu verkamönnum í þeim kapítalíska heimi, — þá eru kauphækkanirnar hjá verkalýðnum beinlínis stórkostleg hvöt fyrir kapítalistana í Bandaríkjunum til að skipuleggja sinn atvinnurekstur miklu betur. Það er þess vegna frá því sjónarmiði, sem hér er verið að innleiða, algerlega rangt að baða það, að kaupgjald eigi ekki að hækka, og algerlega rangt frá sjónarmiði þeirrar prívatkapítalísku hagfræði, sem hér er verið að kenna, að hóta með ríkisvaldinu, svo framarlega sem slíkt sé gert. Ef ríkisvaldið ætlar að kippa sér frá þessum afskiptum, þá á það bara að segja: Atvinnurekendur verða sjálfráðir um þetta. Þeir um það, hvort þeir hækka.

Þess vegna er það allt annað. sem þarna er um að ræða, þegar ríkisstj. gefur svona yfirlýsingu. Hún er að gefa yfirlýsingu um það, að hún ætli raunverulega að láta ríkisvaldið vera eins og tæki í höndum atvinnurekendanna, ekki aðeins á móti verkalýðnum, heldur líka á móti framförunum í atvinnurekstrinum, bókstaflega til þess að viðhalda stöðnun í þjóðlífinu.

Svo minntist hæstv. viðskmrh. á það, að raunverulega væri þetta í fyrsta skipti, sem frílisti væri raunverulegur, og það er rétt. Hingað til, eins og t.d. 1950, þegar frílisti var settur á, þá hefur það verið svo, að þegar menn hafa ætlað að framkvæma hann, maður hefur komið í banka og ætlað að kaupa gjaldeyri, þá hefur ýmist verið sagt af hálfu bankanna: Gjaldeyririnn er ekki til, — og þá hefur hann ekki fengið hann, eða það hefur verið sagt: Ja, þú getur keypt þessa vöru hjá jafnvirðiskaupalöndunum, — eða þá að menn hafa fengið hann. M.ö.o.: fram að þessu hefur ríkt einhver ábyrgðartilfinning í þeim stofnunum, sem með þetta fóru. Með því kerfi, sem nú á að innleiða, hverfur öll sú ábyrgðartilfinning burt. Nú er þessum mönnum bara fenginn mikill sjóður erlendis og þeim er sagt: Þið megið vísa á þetta, þangað til hann er búinn. Og ekki nóg með það, hæstv. viðskmrh. sagði hér líka: Og þegar hann er búinn, þá skulum við jafnvel fá meira. Við ætlum ekki bara að steypa Íslandi í skuldir upp á 20 millj. dollara erlendis, sem má ekki nota til þess að gera okkur mögulegt að standa undir þeim skuldum. Við erum reiðubúnir til þess að setja Ísland í meiri skuldir á eftir. — Það er stjórn þess ótakmarkaða ábyrgðarleysis, sem þarna virðist vera að taka við. Það var sagt um Lúðvík XV, að hann hefði sagt: Syndaflóðið kemur eftir okkar dag. Og mér sýnist það vera frá upphafi það, sem ætli að einkenna þessa stjórn í hennar afstöðu, að skilja landið eftir í þeirri ægilegustu skuldasúpu, sem það hefur nokkurn tíma verið sett í.

Svo talar hæstv. viðskmrh. um, að með þessu sé verið að koma á frelsi. Hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) kom nú dálítið inn á þau mál hér áðan. Mig langar til að benda á eitt í sambandi við þetta. Þetta frelsi á nú auðsjáanlega fyrst og fremst að vera frelsi fyrir yfirstéttina til þess, hvernig hún hagnýtir sitt fé. En ég vil spyrja: Hvernig stendur á, að hæstv. ríkisstj. gerir svona mikið upp á milli manna innan yfirstéttarinnar? Það frelsi, sem hér er verið að innleiða, er frelsi fyrir heildsalana, þeir fá frelsi til að eyða lánum, sem tekin eru erlendis og þjóðin á seinna meir að borga. Þeir fá frelsi til þess og ótakmarkaðar ávísanir á þau. En hvernig er svo með útvegsmennina? Hvernig er með hraðfrystihúsin og annað slíkt, þann hluta yfirstéttarinnar? Hvað mikið frelsi fær hann? Og mig mundi nú langa til þess að fá upplýsingar um það, hvort frelsispostularnir frá París og Washington hafa aldrei minnzt á það við hæstv. ríkisstj., að þeir ættu nú að fá frelsi líka, þeir væru kapítalistar eins og hinir. Hafa þeir aldrei minnzt á, að það ætti að afnema þá skyldu, að menn ættu endilega að vera að skila gjaldeyri á Íslandi? Hvaða verzlunarfrelsi er í því út frá því teoretíska hugtaki verzlunarfrelsi, að menn séu skuldbundnir til þess að skila gjaldeyri? Mér sýnist það vera gert nokkuð harðvítuglega þarna upp á milli þessara tveggja hluta yfirstéttarinnar. Og það vekur eðlilega þann grun hjá manni, að þessi ríkisstj. sé fyrst og fremst ríkisstj. eins hluta af verslunarauðvaldinu á Íslandi, en á móti öllum öðrum hlutum íslenzku þjóðarinnar, ekki aðeins á móti verkalýðnum, því að það er svo fjarri lagi, að hann fái nokkurt frelsi í sambandi við þetta, að þvert á móti er tekið það frelsi af honum, sem hann hafði áður. Meira að segja löglegir samningar, sem hann hefur gert, eru skertir með lagavaldi, þegar verið er að gefa heildsölunum sérstakt frelsi, einvörðungu fyrir þá, og taka stórfé erlendis, sem verkamenn eiga svo að borga seinna. Til þess að leyfa þeim nú að finna það, að þeir séu frjálsir, þá er tekinn af verkamönnum sá samningsréttur, sem þeir hafa haft fram að þessu, að fá greitt kaup samkvæmt vísitölu. Það eru skertir löglegir samningar.

Það væri æskilegt að vita, hvernig á því stendur, að ríkisstj. gerir svona upp á milli sinnar eigin yfirstéttar, sem hún þykist vera að þjóna þó. Annan hlutann leggur hún undir alræði Seðlabankans, sem sé útvegsmennina, og segir: Skilið þið öllu, sem þið fáið, í hít Seðlabankans. — Við hina segir hún aftur á móti, verzlunarauðvaldið hérna í Reykjavík: Takið þið eins og þið viljið út úr Seðlabankanum, bara komið þið með ávísanirnar og peningana, við skulum borga ykkur gjaldeyrinn. — Það er farið dálítið ólíkt að.

Hvernig stendur á því, að þetta er gert? Hefur ríkisstj. eitthvað að dylja í þessum efnum? Við vitum, að hvað snertir útflutninginn ríkir mjög mikil einokun, það er allsterkt hringavald í þeim útflutningi. Vill ríkisstj. ekki, að það sé skapað almennt frelsi fyrir landsmenn til þess að mega selja sínar vörur? Hverju ætlar ríkisstj. að svara, ef hér er spurt f.h. sjómanna og útvegsmanna, sem afla fisks á Íslandi: Hvernig stendur á því, að við erum ekki frjálsir að því að mega selja okkar fisk hvert sem við viljum fyrir það verð, sem við getum fengið? Vegna hvers er okkur bönnuð frjáls verzlun? Vegna hvers erum við lagðir í fjötra eins og á tímum dönsku einokunarinnar? Af hverju megum við ekki selja okkar fisk án þess að spyrja Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, SÍF eða einhverja aðra slíka? Og hæstv. ríkisstj. veit, að það hafa verið kvartanir á þessum sviðum, það hafa verið kvartanir um þá verzlunarhætti, sem ríkt hafa, ekki aðeins hjá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda bæði fyrr og síðar, enda hneykslin orðin sögufræg, heldur líka hvað snertir Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Og ég er hræddur um, að það væri fróðlegt fyrir okkur í sambandi við þessi mál nú að fá alla reikninga þess fyrirtækis lagða hér á borðið hjá okkur og gramsa í þeim. Hæstv. ríkisstj. er það ljóst, að tveir þriðju af öllum hraðfrystum fiski Íslendinga eru seldir til sósíalistísku landanna. Henni hlýtur líka að vera það ljóst, að á undanförnum árum hafa verið teknir tugir milljóna, allt andvirði fisksins, sem fór til sósíalistísku landanna, til þess að borga af fjárfestingu, eyðslu, auglýsingar og stjórnarkostnað fyrir Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna í kapítalísku löndunum. Ég leyfi mér að staðhæfa það, að á undanförnum árum hafi verið teknir tugir milljóna af andvirði þess fisks, sem fengizt hefur frá sósíallstísku löndunum, sem sitja nú fastir í þeim fyrirtækjum, sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur komið sér upp í Bandaríkjunum, í Englandi og er að koma sér upp í Hollandi núna. Og ég er hræddur um, að í öllum þeim kostnaði, sem reiknaður hefur verið fyrir Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, hafi allmiklu af þeim kostnaði verið jafnað jafnt niður á allan fisk, sem seldur hefur verið, án tillits til þess, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur svo að segja aldrei litið við því að gera nokkurn skapaðan hlut til þess að efla markaðinn í tveim þriðju þeirra landa, sem fiskurinn er seldur til. Það hafa verið íslenzk stjórnarvöld fyrst og fremst, sem hafa orðið að vinna það verk og stundum íslenzkir áhugamenn. Og sá maður, sem hefur verið aðalframkvæmdastjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, hefur jafnvel varla látið svo lítið sem að heimsækja þessi lönd, hvað þá nokkurn tíma að gera nokkurn skapaðan hlut til þess að auglýsa þessa vöru þar eða vinna nokkurn skapaðan hlut að því að gefa út leiðbeiningar eða annað slíkt um, hvernig ætti að fara með hana, eða hafa venjulega verzlunarlega hætti í frammi um, hvernig ætti að selja hana, þannig að núna, þegar ríkisstj. gerir ráðstafanir til þess að brjóta þessi viðskipti niður, þá veit ég, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna mun víst ekki gera mikið til þess að halda þeim uppi. En þá á auðsjáanlega að binda alla þá, sem vildu vinna að því að halda þessum viðskiptum uppi, þannig, að það sé ekki hægt, það sé ekkert frelsi til á Íslandi til þess að halda þessum viðskiptum við. M.ö.o.: frelsið, sem hæstv. ríkisstj. er að boða, það er frelsi fyrir heildsalana til þess að kaupa inn, en það er einokun og bann gagnvart útflytjendunum og þeim, sem vildu vera útflytjendur. Þetta er rétt að komi hér fram. Og þegar búið er smátt og smátt að brjóta niður markaðina þar austur frá, ef þetta kerfi fengi að standa eitthvað dálítið, þá veit ég, hverjar afleiðingarnar verða. Þá koma þeir í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eða öðrum slíkum stofnunum og segja: Nú verðum við að reikna okkur svona mikinn kostnað við að selja í þessum kapítalistísku löndum og reikna svona mikið af, þess vegna verðum við að fá fiskinn svona mikið lækkaðan, þess vegna verður kaupið að lækka svona mikið. En það er bara ekki til neins að koma þá til verkalýðsins á Íslandi og segja þetta, vegna þess að við vitum betur. Við vitum, að það er hægt að halda viðskiptunum við í þessum sósíalistísku löndum. Við vitum, að það er hægt að auka þau. Við höfum jafnvel hugmynd um, að það sé hægt að auka þau í kapítalistísku löndunum líka, en það þarf ekki að gerast með því móti að brjóta hitt niður um leið.

Þetta vil ég aðeins segja viðvíkjandi þeim þætti, sem viðheldur einokuninni á útflutningnum, og benda á, í hve hrópandi mótsetningu hann er við þá stefnu, sem ríkisstj. lýsir yfir, og hvað það er, sem þarna býr á bak við.

Þarna á sem sé einokunin að haldast við. Sjómenn og útvegsmenn á að svipta öllu frelsi í þessum efnum. Þeir eiga ekkert verzlunarfrelsi að hafa. Þeir eiga að verða að horfa á, hvernig brotnir séu niður þeirra dýrmætu markaðir. En heildsalarnir eiga að hafa viðskiptafrelsi til þess að eyða.

Svo sagði hæstv. viðskmrh., að nú ætti öll fjárfestingin að verða frjáls. Hins vegar mundi Framkvæmdabankinn fylgjast með því og jafnvel með fyrirætlunum manna. En mér skilst, að samkvæmt 9. gr. og þeim lögum, sem afnumin eru með þessum lögum, verði fjárfesting á Íslandi frjáls, — ég held, að það sé rétt skilið hjá mér, — verði algerlega frjáls. Nú vil ég minna á einn hlut í þessu sambandi, sem ég hef raunar gert hér að umtalsefni áður: Er hæstv. ríkisstj. það ljóst, að svo vitlaust sem fjárfestingareftirlitið hefur verið á Íslandi á undanförnum áratugum, svo neikvætt sem það hefur verið, — og ég býst við, að það séum við hæstv. viðskmrh, sammála um, — að það, sem hefur verið gallinn í sambandi við það fjárfestingareftirlit yfirleitt, er, að það hefur ekki nema á einu litlu tímabili orðið skapandi, þannig að það væri verulega jákvætt? En þrátt fyrir það, þótt það hafi lengst af verið svona neikvætt, hefur þó af því hlotizt eitt gott. Það hefur verið erfitt að leggja í að stofna hérna fyrirtæki, þar sem önnur fyrirtæki voru fyrir, sem fullnægðu þeim íslenzka markaði og sinntu honum sæmilega og okruðu ekki sérstaklega á honum. Það hafa verið erfiðleikar á því að setja íslenzka fjármuni í hreinni vitleysu í fjárfestingu í sömu greininni, þannig að íslenzku þjóðarbúi væri bókstaflega stórtjón að því. Þessu aðhaldi, Sem verið hefur fram að þessu, er burt kippt. Ég skal nefna hugsanlegt dæmi: Segjum, að t.d. fyrirtæki eins og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem nú á áfram að hafa þá einokun, sem hér er, vildi setja upp, svo að ég taki bara eitthvað út í bláinn, — segjum, að hún vildi setja upp t.d. kassagerð til þess að búa til umbúðir utan um sinn hraðfrysta fisk. Hér er starfandi fyrirtæki og hefur verið um nokkurt skeið, sem framleiðir slíkt á Íslandi og mun fullnægja þeirri eftirspurn. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna kaupir sjálf svo að segja allar umbúðirnar, sem þarna er um að ræða, og kannske Sambandið eitthvað líka. Ef t.d. þessi tvö fyrirtæki taka sig saman eða jafnvel bara annað þeirra, Sambandið eða Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, og ákveða: Ég ætla að koma upp kassagerð, — þá hafa þau náttúrlega fullt frelsi til þess. Það er hægt að byggja hér aðra kassagerð í Reykjavík á morgun; það er hægt að kaupa nýjar vélar til hennar, og þessi fyrirtæki eins og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eða SÍS gætu sagt: Ég framleiði þetta handa sjálfum mér, ég kæri mig ekkert um að vera háður neinum öðrum um það, og ég er ekki einu sinni að spyrja að því, hvað þetta kostar, því að smátt og smátt borgar þetta sig hjá mér, og ég vil bara eiga þetta. Ef það skyldi nú verða eitthvert tjón af því, þá kemur það bara niður á fiskinum eða sjómönnunum. Og með því væru gerðar þær ráðstafanir, að íslenzk fyrirtæki, sem fyrir eru þarna og gætu vel fullnægt þessu, eru sett út úr spilinu, þeirra vélar óbeint eyðilagðar, vegna þess að aðrir aðilar hafa þarna einokunaraðstöðu í þessum efnum. Ég tek þetta sem dæmi. Svona geta ótal aðilar farið hér að.

Þjóðarbúskapur Íslendinga er svo lítill, hann er svo smár í sniðum, að við höfum engin efni á svona stjórnleysi. Það er vissulega rétt, að út frá almennu sjónarmiði frjálsrar samkeppni mundi það máske vera langheppilegast, að það gætu verið ótal fyrirtæki, sem kepptu um framleiðsluna. Það væri máske betra út frá því sjónarmiði, fræðilega séð, að það væru hundrað súkkulaðigerðir í Reykjavík, en ekki bara tíu. En bara þessi fræðilegu sjónarmið frjálsrar samkeppni eru hrein tæknileg vitleysa fyrir þjóð, sem telur upp undir 200 þús. manns. Það borgar sig aldrei, hún fær aldrei að njóta þeirra kosta, sem frjáls samkeppni hefur, með því að fara tæknilega svo vitlaust að, að fara að koma þarna upp mörgum fyrirtækjum í staðinn fyrir eitt eða tvö stór. Og svo framarlega sem eitt eða tvö stórfyrirtæki í þessum efnum ætluðu að fara að nota sína aðstöðu til þess að okra á almenningi, þá verður ríkisvaldið bara að grípa þar í taumana. Við höfum enga aðra aðstöðu. 200–300 milljóna þjóð eða jafnvel 40–50 milljóna þjóð, hún getur ósköp vel gert þessa hluti, hún getur leyft sér t.d. í þessu tilfelli að hafa margar kassagerðir og margar súkkulaðigerðir og allt mögulegt slíkt, og það kemur henni að vissum notum, ein fyrir þjóð, sem hefur ekki nema 150–200 þúsund manns, er þetta ökonómísk vitleysa, tæknileg della. Og ég veit, að slík hætta er yfirvofandi hér og hefur verið á undanförnum árum. Ég veit, að hér hafa á undanförnum áratugum stundum verið gefin út leyfi í pólitísku skyni fyrir vélum til ákveðinna verksmiðja hér, til þess að slást við ákveðna menn og ákveðin fyrirtæki, og kannske hafa slík leyfi verið notuð á eftir þannig, að viðkomandi fyrirtæki hafa keypt leyfin upp, vegna þess að ökonómískt gat það aldrei borgað sig að vera að hafa tvenn fyrirtæki í slíku. Við verðum að gá að því, að smæð Íslands krefst þess, að við höfum tæknilega háttstandandi búskap í þessu, og það þýðir venjulega, að við höfum bara eitt eða tvö fyrirtæki, sem framleiða fyrir innanlandsmarkaðinn ákveðna hluti, og þetta hlýtur að verða sjónarmið á Íslandi, á meðan við ætlum að vera sem einn íslenzkur þjóðarbúskapur, sjálfstæður. Ef við erum hluti úr Englandi, Frakklandi, Hollandi og Belgíu og slíku, þá getur verið hagkvæmt að hafa þetta, en þá erum við farnir að gefa upp sjálfstæðan íslenzkan þjóðarbúskap, það skulum við gera okkur ljóst.

Þetta, sem ég minntist á, dæmið, sem ég tók þarna viðvíkjandi Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Kassagerðinni, er bara hugsanlegt dæmi, glöggt dæmi um, hvaða afleiðingar það hefur að afnema fjárfestingareftirlit, að afnema fjárfestingarvaldið hjá ríkisstj., og ég vara við að gera það. Þó að mér sé jafnljóst og hæstv. viðskmrh., hvað þetta hefur verið óhöndugt og neikvætt á undanförnum árum, þá hefur það meira að segja haft sína kosti sem slíkt, þó að maður hafi þurft um tíma að vera að slást fyrir að brjóta það niður á vissum sviðum, þar sem það var alveg hringavitlaust. En þó að þetta fjárfestingareftirlit og fjárfestingarvald væri slæmt, þá var það atriði, sem mátti gera við, gera það gott, gera það skapandi, sjá til þess, að mennirnir,' sem hefðu þetta vald, störfuðu með ákveðna áætlun fyrir augum, sem lögð væri fyrir ríkisstj. og Alþingi og unnið væri eftir að framkvæma. En það átti ekki að fara út í hitt, að afnema þetta og skapa stjórnleysi í íslenzkum þjóðarbúskap, — stjórnleysi, sem hlýtur að þýða það að búa til margfalda hluti, margföld framleiðslutæki á ýmsum sviðum, sem verða ópraktísk fyrir þjóðina og lækka þannig hennar lífsstandard.

Nú vil ég segja það, ekki sízt út af því sögulega yfirliti, sem hæstv. viðskmrh. var að gefa, að um leið og þessi stefna nú er tekin upp, sem þetta frv. markar, og mér sýnist þar með vera stefnt að því að skipuleggja það ægilegasta hrun, sem nokkurn tíma hefur orðið á Íslandi, stofna til að láta okkur standa uppi með þá ægilegustu skuldasúpu, sem við höfum nokkurn tíma lent í, þá er rétt að leggja þá spurningu um leið fyrir okkur, þegar á að innleiða verzlunarfrelsið á þennan máta: Er þetta einhver ný tilraun, sem ríkisstjórnin er að gera? Hafði hún enga reynslu af þessum málum áður? Ég vil meina, að sporin hefðu átt að hræða hana frá því að leggja út í þetta. Mér sýnist, að að svo miklu leyti sem hún er að leggja út í þetta, þá sé hún að breyta eftir þeim gömlu kenningum Manchesterskólans, með því tilliti, sem taka verður nú 100 árum siðar, en það, sem hún miði við, sé, að verzlunin, frjáls verzlun, skapi sjálfkrafa betra framleiðsluástand í þessum efnum. Þetta er teoría, sem er orðin úrelt og á sér enga stoð lengur í veruleikanum, en þar að auki er þetta tilraun, sem búið er að gera svo oft á Íslandi, að það er óþarfi þess vegna til að fá reynslu af henni að fara að gera hana einu sinni enn þá. Þetta verzlunarfrelsi, sem nú er verið að boða, var líka á Íslandi og jafnvel enn þá víðtækara 1920–30, og þó að hæstv. viðskmrh. væri að rekja það, að það hefðu ekki verið gerðar nægar ráðstafanir þá til ýmissa hliðarráðstafana til þess að tryggja það, var það þó í ríkara mæli á þeim árum en stundum áður. En hann vildi meina, að útlánapólitík Íslandsbanka ein hefði eyðilagt það. En hann reiknar bara alls ekki með þeim öðrum þáttum, sem komnir eru þarna inn í, sem ég geng út frá að mundu að hans áliti geta breytt í miklu ríkara mæli og ríkisstj. ræður ekkert við, við skulum segja t.d. verkalýðssamtökin sjálf og þeirra kauphækkanir. Við reyndum þetta fyrirkomulag á árunum 1920–30, og þetta fyrirkomulag leiddi til viðskiptakreppunnar 1930, alls þess ástands, sem þá skapaðist. Við skulum gera okkur ljóst, þegar við erum að rekja þjóðhagslega þróun Íslands þannig, að við erum búnir að gera þessar tilraunir og þær hafa mistekizt, hafandi verið í meir en 25 ár að basla við meira eða minna fjárfestingareftirlit, verzlunareftirlit og annað slíkt, vegna þess að þetta kerfi frjálsrar verzlunar varð gjaldþrota og hefði ekki leitt annað og mundi ekki leiða annað en kreppu og eyðingu yfir Ísland.

Hins vegar hefur, eftir að þetta skipulag var búið að sýna sitt gjaldþrot á árunum eftir 1930, öðru hvoru verið reynt að hverfa frá því, og við skulum taka einmitt þau tvö dæmi, sem hæstv. viðskmrh. kom inn á. 1945, í nýsköpunarstjórninni, kom líka upp þessi kenning og var haldið sérstaklega sterkt fram af hálfu Sjálfstfl., að það væri óhjákvæmilegt að gefa verzlunina að mestu leyti frjálsa. Ég átti einmitt alveg sérstaklega í höggi við Sjálfstfl., mína ágætu samstarfsmenn þar, út af þessu. Þeirra hugmynd var þessi: Nú þegar við eigum yfir 500 millj. kr. erlendis í inneign, getum við ekki viðhaldíð skömmtun á Íslandi og við getum ekki neitað mönnum um að selja þeim gjaldeyrinn. Ég hélt því fram og skammast mín ekkert fyrir það, að einmitt af því að við ættum þessa peninga erlendis, ættum við að hagnýta þessa peninga alla, allar 580 milljónirnar, til að kaupa framleiðslutæki fyrir þær og til þess að setja þannig sterkan grundvöll undir íslenzkan þjóðarbúskap. Við fengum þetta ekki fram, vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn sagði: Mér er ekki stætt á því. Hér er almenningur í landinu, hér eru verzlunarmennirnir í landinu, sem standa með sína peninga í höndunum og vilja fá að verzla frjálst og vita, að við eigum nógan gjaldeyri. Okkur er ekki stætt á því að neita þessu.

Hver var afleiðingin af þessum þrýstingi öllum? Afleiðingin varð sú, að það fékkst ekki að nota nema um 300 millj. kr. til þess að byggja grundvöllinn, þann þjóðhagslega grundvöll að búskapnum, sem við stöndum á enn í dag. Hitt fór — ja, hvað eigum við að kalla það — í frjálsa verzlun. Hitt fór í það að láta undan þeim sömu tilhneigingum, sem ríkisstj. er að láta undan í dag, þessi helmingur af inneignunum, sem fór í eyðsluna, elns og það oft hefur verið kallað. Sú stjórn, nýsköpunarstjórnin, hefur verið skömmuð fyrir það fram á þennan dag að hafa eytt þessum peningum í þetta. Af hverju eytt þeim? Jú, vegna þess að Íslendingar hugsa um búskap sinnar þjóðar sem heildar, og frá sjónarmiði þjóðarbúskaparins sem heildar og alls framtíðargrundvallar var þetta eyðsla. Það var eyðsla að kaupa hér kannske dýr og fín húsgögn, á sama tíma og maður þurfti að byggja sér sitt hús og koma sér upp sínum bát eða sínu fjárbúi eða sinni verksmiðju til þess að geta lifað.

Það, sem ríkisstj. er að fara inn á núna undir forsæti sama forsrh, og þá var, er að eyða skuldum, sem við erum að skapa erlendis, lánum, sem við getum fengið erlendis, á þann vitlausa hátt, sem helmingnum af okkar inneignum var eytt 1945. Þess vegna vil ég vara við að gera þetta núna. Það var réttilega vítt sem óforsjálni, og held ég þó, að Þjóðviljinn hafi verið eina blaðið, sem skrifaði þannig á þeim tíma, þegar meira að segja brauðskömmtunin og slíkt var afnumið á Íslandi, að það hefði ekki átt að afnema hana, og var þó ekki vinsælt að ætla að viðhalda skömmtun.

Ég vil vara ríkisstj. við. Ríkisstj., sem þá var undir stjórn sama forsrh., hefur verið álasað fyrir það í 15 ár að hafa eytt þessum 300 millj. Landið átti þó þessa peninga, þjóðin átti þó þessa peninga, við höfðum þetta í vasanum þá. Nú aftur á móti á að eyða því, sem við eigum ekki. Nú eigum við að taka lán erlendis til þess að eyða því láni, og það er þó sitt hvað, hvort maður eyðir því, sem hann á, eða hvort hann fer í bankann og tekur lán til þess að eyða því. En ég skal viðurkenna eitt, það er höfuðspurningin í þessu öllu saman: Ef það er meiningin að gefa upp sjálfstæði íslenzks þjóðarbúskapar og hætta að hugsa út frá því, hvort Ísland hafi sjálfstæðan þjóðarbúskap, þá eru rök í öllu því, sem hæstv. viðskmrh. segir, — ef Ísland á síðan að fara að vera hreppur í Frakklandi eða Ítalíu eða Hollandi eða Belgíu og íslenzkur þjóðarbúskapur á ekki að vera nein sjálfstæð heild, þá eru það rök. Þá var það líka tóm vitleysa að vera að kaupa þessa togara 1944. Ef við ætluðum að hafa þetta sem einn lítinn hrepp, áttum við náttúrlega að treysta á landsforsjónina í því stóra landi, þar sem við ætluðum að innlimast. Ef við ætlum að halda okkar efnahagslega sjálfstæði, verðum við að hugsa fyrir Ísland eins og góður heildsali mundi hugsa um sína verzlun, eins og góður bóndi mundi hugsa um sitt bú, eins og góður útgerðarmaður eða frystihússeigandi mundi hugsa um sitt fyrirtæki. Sem sé, það eru engin rök í þessari stefnu hæstv. ríkisstj. nema út frá því sjónarmiði að gefa upp sjálfstæði íslenzks þjóðarbúskapar og hætta að reka íslenzkan þjóðarbúskap sem heild.

1945 áttum við að slást við þessa stefnu, hún var þveröfug við alla nýsköpunarstefnuna, og Sjálfstfl., sem var skiptur í þessu máli, lét að vísu undan okkur hvað snertir nýsköpunina, en hann lét undan öðrum hvað snerti eyðsluna. Nú virðist fara lítið fyrir þeim helming, sem þá skóp nýsköpunina, ef á að fara inn á þessa stefnu núna.

Næsta tilraun var gerð 1950. Þá var aftur gerð tilraun samsvarandi því, sem verið er að gera núna, líka í þessu sama trausti, að einstaklingarnir á Íslandi, þeir einstöku atvinnurekendur, mundu sjá um fjárfestinguna, og með því að allt yrði frjálst, mundi þetta allt saman vera í lagi, og það var gerð tilraun með frjálsa verzlun þá. Hver var afleiðingin af þeirri tilraun? Jú, það er klassískt. Þegar okkar góðu kapítalistar á Íslandi fara sjálfir að ráða sínum peningum, hvað kaupa þeir þá? Þeir kaupa sér bíla og ýmislegt annað náttúrlega. En þeir kaupa sér ekki togara eða báta. Ég veit að vísu, að það mundi vera hægt að fá eyðslulán til að kaupa togara eða báta. Það mundi vera hægt að fá heildsala til að kaupa togara eða báta, ef þeim væri sagt: Þið fáið engan gjaldeyri nema þann, sem þið aflið. Það er ráð til þess að þvinga þá til þess. Þá mundu þeir margir fara að gera út eða standa í sambandi við útflutningsfyrirtæki. En það sé ég nú í þessu frv., að það spor þorir ríkisstj. ekki að stíga, þó að það væri ef til vill ekki heldur heildsölunum að skapi og ég hefði líka sitt hvað út á það að setja.

En afleiðingin af þessari tilraun, sem gerð var 1950, var sem sé, að það dró úr framleiðslunni á Íslandi. Meginið af fjárfestingu kapítalistanna á Íslandi fór í neyzlu, hverfandi lítið í framleiðslufjárfestingu, og ríkið varð sjálft að sjá um höfuðfjárfestinguna, sem einkennir það tímabil, sem þá hófst, eins og sementsverksmiðjuna og áburðarverksmiðjuna. M.ö.o.: þegar við höfum þjóðhagslega gert þessa tilraun, að fara inn á þessa frjálsu verzlun, þá hefur það gefizt bölvanlega fyrir okkur, og það liggja engin rök fyrir því núna, að það ætti að takast betur nú. En tilraunin, sem nú er gerð, verður dýrari en nokkur tilraun, sem áður hefur verið gerð, vegna þess að það er látið í té fé til þess að standa undir henni.

En það vildi ég segja einmitt út af þeim hugleiðingum um verzlunarfrelsið, sem hæstv. viðskmrh. var með, að það er náttúrlega ákaflega takmarkað, sem þetta frelsi er, og sérstaklega er hjákátlegt að tala um þetta sem nokkurt verulegt viðskiptafrelsi, á sama tíma sem bankarnir eru látnir af hálfu ríkisvaldsins sjálfs ákveða 12% vexti á fé og annað slíkt. En það, sem við verðum að muna eftir í sambandi við þetta, er, að það almenna verzlunarfrelsi, eins og það var fyrir 50–100 árum, er almennt ekki lengur til í heiminum, hvorki okkar kapítalíska heimi né hinum sósíalistíska. Það, sem gerzt hefur raunverulega með þróun síðustu 50–60 ára, er, að þessu frelsi þess einstaka atvinnurekanda hefur verið útrýmt. Það, sem er í dag í auðvaldsheiminum, eru voldugir auðhringar. Það, sem einkennir viðskiptalíf, við skulum segja Bandaríkjanna, Bretlands eða slikra landa, er ekki frelsi, það er einokun. Yfir 90% af öllum viðskiptum og framleiðslu í þessum löndum er sameinað í höndunum á hringavaldi, sem minna en 1% af þjóðinni ræður yfir. Þróun kapítalismans á síðustu 50–60 árum hefur verið þróun þessara risavöxnu auðhringa, sem í skjóli stórkostlegra framfara tækninnar og yfirburða stórfelldrar skipulagningar yfir allan smárekstur hafa drepið niður algerlega þann smáa, frjálsa atvinnurekanda, sem einu sinni í fyrndinni var til.

Heimurinn í dag hefur annars vegar þær voldugu einokunarstofnanir auðhringanna í kapítalismanum og hins vegar þjóðnýtingu hjá ríkinu mestmegnis í þeim sósíalistísku löndum. Því er barnaskapur af okkur Íslendingum að láta okkur detta í hug, að það verði eitthvað til, sem heiti sá frjálsi atvinnurekandi, sá frjálsi, smái atvinnurekandi, því að enginn atvinnurekandi á Íslandi — ég undantek engan — er stór á þann mælikvarða, sem heimsmarkaðurinn er. Við höfðum einu sinni einn nokkuð stóran atvinnurekanda á því sviði, það var Kveldúlfur, forðum daga. Hvernig fer hann í kreppunni? Kveldúlfur og Alliance, sem eru búin á grundvelli þeirrar frjálsu samkeppni að leggja undir sig milli 80 og 90% af fiskútflutningnum á Íslandi 1929 og orðin með voldugustu fyrirtækjum í sinni grein, þau fara alveg um koll, strax og þau eiga að fara að standast fyrstu kreppuna, sem þjóðin lendir í hjá kapítalismanum. Hér á Íslandi yrðu með svokölluðu verzlunarfrelsi engir sjálfstæðir íslenzkir atvinnurekendur til. Því meira sem við yrðum innlimaðir í auðvaldsheiminn, því meira yrði þeim útrýmt. Þeir yrðu í hæsta lagi leppar, umboðsmenn eða annað slíkt fyrir volduga erlenda auðhringi, nema við séum að baslast við einhver smáfyrirtæki, sem gefi svo lítinn gróða, að engum auðhring þyki taka að líta við þeim. Þess vegna er ekkert annað til fyrir Ísland, ef það ætlar að reka sinn þjóðarbúskap sjálfstætt, heldur en að reka þennan þjóðarbúskap frá þjóðfélagsins sjónarmiði í heild. Síðan ákveðum við það sjálfir, Íslendingar, að hve miklu leyti við höfum það ríkisfyrirtæki, samvinnufyrirtæki, einstaklingsfyrirtæki eða annað slíkt, og þá getum við meira að segja verndað okkar prívatkapítalista gegn því, að útlendir auðhringir gleypi þá. Við höfum meira að segja gert það. Við höfum komið á hér á Íslandi vissum afskiptum ríkisins á vissum tímum til þess að forða íslenzkum atvinnurekendum frá því að verða t.d. bara leppar Svía, heldur verða sjálfstæðir atvinnurekendur.

Sjálfstæði atvinnurekenda og annarra aðila á Íslandi, sjálfstæði þeirra er ekki hugsanlegt, nema með því að íslenzka ríkinu sé beitt sem þeim aðila, sem verndar íslenzkan þjóðarbúskap, hvort sem hann innan vébanda okkar þjóðarbúskapar er prívatkapítalistískur, samvinnurekstur eða ríkisrekstur og bæjarrekstur. Þetta held ég að við verðum að gera okkur ljóst. Ég held, og það var sú hugmynd, sem ég fékk af ræðu hæstv. viðskmrh., að allur grundvöllurinn, sem hann byggir sínar hugmyndir á, sé rangur.

Hæstv. viðskmrh. trúir á prívatkapítalismann og möguleika þess að hafa ríkisvaldið sem eins konar stilli í hendi prívatkapítalistanna og ríkisstjórnarinnar til þess að tryggja prívatkapítalistunum þannig gróða á kostnað launþega, eins og ríkisstj. nú er að gera.

Hæstv. viðskmrh. er það ljóst, að ríkisstj. sjálf er núna að beita ríkisvaldinu í þágu prívatkapítalistanna á Íslandi með því að taka hluta af þeim launum, sem verkalýðurinn á að fá, og fá hann í hendur atvinnurekendunum, með beinum kúgunarráðstöfunum, sem nú hafa verið gerðar með lögum, með gengislækkuninni, með vaxtahækkuninni hjá bönkunum og öðru slíku. Og það er þessi grundvöllur, sem er rangur. Prívatkapítalisminn á nú ekki rétt á sér á Íslandi sem ráðandi þjóðfélagsfyrirkomulag. Ekki vegna þess, að ég sé út af fyrir sig á móti honum, — það er ég að vísu, af því að ég mundi álíta, ef hann væri hér til sem raunveruleg staðreynd, þá ætti að afnema hann, — en það eru staðreyndir, sem við getum ekki gengið fram hjá, að prívatkapítalisminn er ekki til sem sú ráðandi staðreynd í þjóðarbúskap Íslendinga, það er ekki til það mikið einkafjármagn í höndum einstakra manna, einstakra atvinnurekenda á Íslandi, að það setji höfuðmarkið á íslenzkan þjóðarbúskap eða geti gert það.

Hér á Íslandi höfum við alltaf — og það liggur bókstaflega í okkar sögu sem arðrændrar, fátækrar nýlendu — orðið að beita ríkinu og samtökum þess opinbera, ríkinu, bæjarfélögunum og öðrum slíkum, til þess að skapa atvinnurekstur á Íslandi. Hæstv. viðskmrh. ætti að vera það kunnugt, hvernig meira að segja einmitt bæirnir á Íslandi hafa orðið að skapa sér atvinnufyrirtæki, af því að prívatkapítalistarnir hafa gefizt upp, farið á hausinn, flúið burt. Við höfum komið upp ríkisbönkum á Íslandi. Það hafa ekki verið aðrir bankar starfandi á Íslandi að heita má en ríkisbankar, vegna þess að ríkið hefur orðið að útvega það fjármagn, sem þurfti til þess að reka fyrirtæki á Íslandi eða koma upp atvinnurekstri. Það hefur fyrst og fremst verið ríkisbúskapur, sem hefur einkennt Ísland. Það, sem ríkisstj. er að gera með því, sem hún er að gera nú, er að reyna að skapa prívatkapítalisma á Íslandi og neyða upp á okkur Íslendinga prívatkapítalismanum sem höfuðkerfi. Og það, sem ríkisstj. er að gera með sínum aðgerðum, eins og launalækkuninni núna, það er að taka nokkur hundruð milljónir með lögum úr vasa launþeganna og afhenda það prívatkapítalistunum og segja raunverulega: Heyrið þið, getið þið nú ekki orðið ríkir með þessu? Getið þið nú ekki komið hér upp dálitlu auðvaldsfyrirkomulagi? — Þið eruð þannig að reyna að þvinga upp á okkur einkaauðvaldi. Þið eruð að reyna með lögum að stela af launþegunum á Íslandi og taka peninga af þeim til að gefa kapítalistunum til að vita, hvort þið getið ekki komið fótunum undir kapítalistana.

Við skulum gera okkur þetta alveg ljóst, vegna þess að þjóðarbúskapurinn á Íslandi hefur verið að það miklu leyti ríkis-, bæja- og samvinnubúskapur, að hann kallar raunverulega á að þróast í þá átt áfram, áfram til sósíalismans, að eðli okkar þjóðarbúskapar er slíkt, öll nauðsyn okkar, bæði af okkar smæð og af afstöðu Íslendinga til atvinnulífsins. Það er t.d. rykkjandi skoðun hjá yfirgnæfandi meiri hluta Íslendinga, að það eigi að sjá um, að atvinnulifið gangi. Ég get fullvissað hæstv. viðskmrh. um það, að svo framarlega sem þessar ráðstafanir leiða til þess að stöðva atvinnulífið, þá heimtar svo að segja allt fólkið hér á Íslandi, að ríkið verði að sjá um, að þetta gangi.

Það er ekki til neins fyrir ríkisstj. að ætla að setjast upp eins og 1950 og segja: Mér kemur ekkert við atvinnulífið. — Almenna skoðunin hjá íslenzku þjóðinni er, að það eigi að reka atvinnureksturinn á Íslandi til þess, að þjóðinni geti vegnað vel, til þess að þjóðin hafi atvinnu og til þess að það sé hægt að komast sæmilega af. Þetta er skoðun, sem er ekki í neinu samræmi við þá stefnu, sem ríkisstj. er að innleiða. Ríkisstj. er að reyna að innleiða þá stefnu, að það eigi að reka búskap á Íslandi út frá því sjónarmiði, að það sé gróði af honum. Sá grundvöllur er alls ekki virtur á Íslandi. Ríkisstj. er að reyna að þvinga hann upp á Íslendinga. Gróðasjónarmið prívatkapítalismans á ekki stoð í meiri hluta Íslendinga. Við höfum þess vegna stundum kallað þetta okkar á milli, það sem ríkisstj. er að gera í þessum efnum, eins konar gagnbyltingu einkaauðvaldsins á Íslandi. Það einkaauðvald, sem varð gjaldþrota í kreppunni. er að láta þessa ríkisstj. þvinga sér upp á þjóðina aftur og taka fé úr vösum alþýðunnar á Íslandi og helzt úr bönkunum og annars staðar líka og stórfé erlendis til þess að reyna að gera það aftur allsráðandi; sem sé gefa prívatkapítalistunum auð á kostnað almennings og ríkisins. Og öll skilgreining hæstv. viðskmrh., eins rétt og margt var í henni, var byggð á þeim grundvallarmisskilningi, að það bæri að taka þetta og gagnrýna þetta einvörðungu út frá því sjónarmiði, hvort það hefði verið við haldið í fjármálastjórn á Íslandi, bæði af hálfu banka og annarra, þeirri sjálfvirkni, sem væri eðlileg fyrir prívatkapítalísktískt þjóðfélag. Það er alveg rétt hjá hæstv. viðskmrh., að það hefur ekki verið gert. Íslandi hefur aldrei verið stjórnað eftir lögmálum prívatkapítalismans, nema á þessum árum eftir 1920, og þá var þessi prívatkapítalismi yfirleitt alveg að syngja sitt síðasta vers í heiminum, og það væri þess vegna hreinasta hörmung, ef við færum að reyna að stjórna núna eftir slíkum teoríum.

Að svo miklu leyti sem efnahagsmálum Íslands hefur verið stjórnað vitandi vits, hefur verið stjórnað út frá allt öðru sjónarmiði. Þeim hefur verið stjórnað út frá því sjónarmiði: Hvernig getum við, sem lifum á Íslandi á þessari öld, byggt okkar land upp, útrýmt þeirri fátækt, þeim skorti á framleiðslutækjum og öðru slíku, sem var, þegar við og okkar feður tóku við þessu landi um aldamótin? Landinu hefur verið stjórnað, að svo miklu leyti sem því hefur verið stjórnað vitandi vits, út frá því sjónarmiði, hvernig væri hægt að byggja það upp. Því hefur alls ekki verið stjórnað út frá því hagfræðilega sjónarmiði, sem þeir sérfræðingar, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt svo sérstaklega mikið upp úr, hafa fyrst og fremst lært í sínum skólum, út frá þeim prívat-kapítalistísku sjónarmiðum, sem eru jafnt ráðandi í Bretlandi og Bandaríkjunum og í háskólum þeirra og hagfræði þeirra. Íslandi hefur verið stjórnað út frá hyggjuviti manna, sem tóku við fátæku og arðrændu landi og ætluðu að gera það að góðu landi. Það hefur gengið mismunandi vel og gengið stundum böksulega og stundum verið tekin stór spor áfram. En þetta hefur verið hugsunarhátturinn, sem alltaf öðru hverju hefur einkennt stjórnmálaflokkana á Íslandi, og svo að ég sé jafnsanngjarn og hæstv. viðskmrh., ég skal engan þeirra þar undanskilja, það hafa allir þeirra á víssu tímabili lagt fram sinn hluta til slíks átaks og hafa til allrar hamingju ekki verið allt of kreddubundnir í sínum afskiptum. Þetta hefur oft verið gert þannig, að það hefur hlotizt verðbólga af, það er alveg rétt. En það má ekki vera eina sjónarmiðið, sem allt er dæmt út frá, hvort verðbólgu verði afstýrt, hvort peningagildi haldist. Ég skal vissulega viðurkenna, að það á ekki að láta koma til verðbólgu og að peningagildi á að haldast, en meira að segja á sérstökum tímum getur það verið betra fyrir þjóðfélagið á vissum sviðum, að það séu gerðar ráðstafanir, þó að verðbólga, hæg verðbólga hljótist af þeim, heldur en að þær ráðstafanir séu ekki gerðar.

Ég skal fyllilega taka undir alla þá gagnrýni, sem fram kemur á allt það neikvæða í sambandi við verðbólguna. En hins vegar skulum við líka gera okkur ljóst, að ýmislegt af því, sem gert hefur verið, — við skulum bara taka þær miklu húsbyggingar, sem unnar hafa verið, þær hefðu ekki verið unnar í svona ríkum mæli, svo framarlega sem verðbólga hefði ekki verið. Við skulum viðurkenna það. Við erum víst allir saman sammála um það, að menn hafa litið á húsbyggingar sem eins konar sparifjársöfnun á þeim tíma, sem sparifjársöfnunin sjálf var slæm. Þetta er slæmt fyrirkomulag, en til þess að sleppa við þetta og sleppa við þessa verðbólgu er ekki eina ráðið að fara út í þá spekúlasjón, sem nú er verið að fara út í, að skapa það efnahagslega hrun, sem nú er að byrja, sem að vísu getur gert peninga dýrmæta, en mannlega vinnu og verðmæti lítils virði. Það, sem á að gera, þegar maður tekur eftir, að verðbólga skapast, er að herða á stjórninni í þjóðfélaginu, þannig að hún verði af meira viti, fjárfestingin sjálf, henni sé stjórnað vitandi vits og af meira viti en gert hefur verið á undanförnum árum, en ekki sleppa henni.

Hæstv. viðskmrh. setti fram í sinni ræðu eina staðhæfingu, sem ég er honum algerlega ósammála um, og það var sú, að hann sagði, að það mundu hafa orðið meiri framfarir á Íslandi, svo framarlega sem þessi stjórn á undanförnum áratugum hefði — ef ég skildi hann rétt — tekið meira tillit til þeirra sjónarmiða, sem hann nú boðar og ríkisstjórnin. Ég held, að það sé alveg þveröfugt. Við skulum gá að því, að sérstaklega þessi síðustu 20 ár, sem ýmislegt hefur gengið böksulega út frá þessu sjónarmiði., t.d. verðbólgan og annað slíkt, — þetta tímabil hefur um leið verið stórkostlegasta framfaratímabilið í íslenzkri sögu, þrátt fyrir það, þó að við höfum á þessu tímabili t.d. ekki getað komið á áætlunarbúskap, heldur aðeins gert smátilraunir til þess, en viðurkennda sjónarmiðið þó alltaf að meira eða minna leyti verið það, að þjóðarbúskapur Íslendinga ætti að vera sjálfstæður þjóðarbúskapur og að ríkinu bæri að gera sem mest að í þess valdi stæði til þess að efla efnahagslíf landsmanna. Ég er alveg viss um, að þær framfarir sem orðið hafa á Íslandi, hefðu alls ekki orðið, svo framarlega sem hér hefði ríkt prívatkapítalistískt skipulag, eins og talað er um að koma á hér í dag.

Ég skal segja hæstv. ráðh., hvað ég álít að mundi hafa orðið í þessum efnum. Ég álít, að mjög mikið af því fólki, sem nú byggir Ísland, væri þá búið að flýja land. Afleiðingin af því að ætla að meira eða minna leyti að innlima Ísland í kerfi prívatkapítalismans í Vestur-Evrópu og Ameríku verður sú, að fólkið flyzt burt af landinu. Um leið og hér fer að skapast atvinnuleysi, eins og er í þessum löndum og mundi vera strax og prívatkapítalisminn fengi að njóta sín hér, þá er svo og svo mikið, sérstaklega af okkar duglegasta fólki, sem fer burt. Ef Ísland er orðið eins og hreppur í stóru ríki þannig, þá er ekkert, sem heldur mönnum sérstaklega að því að búa hér. Ísland er núna gott land að lifa í, en Ísland getur líka verið erfitt land að lifa í. Við vorum á tímabilinu t.d. 1930–40 að miklu leyti alveg undir áhrifum brezka kapítalismans. Það er þá brezka bankavaldið, sem segir okkur fyrir um, hvað við megum gera, svo að segja, og hvað við megum ekki gera: Við erum eins og innlimaðir í brezka bankavaldið, og það arðrænir okkur á allan mögulegan hátt, og við erum skuldskeyttir því. Og fólkið flýr land bókstaflega, og og það er það, sem mundi vofa yfir, svo framarlega sem frjáls prívatkapítalismi fengi aftur að ryðja sér til rúms hér og við ættum að heyra þannig undir sömu viðskiptalögmál og lönd eins og Frakkland, England eða slík. Það, að fólk byggir þetta mikið á Íslandi, helzt hér, stafar af því, að landinu hefur verið betur stjórnað en löndunum í kringum okkur. Og af því að þjóðin er ákaflega dugleg og ef henni er gefið tækifæri til þess að vinna eins og hún hefur fengið á undanförnum árum, þá er hún reiðubúin til þess að vinna mikið til þess að skapa sér góð lífskjör. Og það er það, sem verið er að svipta hana með þeim ráðstöfunum, sem nú er verið að gera. Þess vegna er þetta kerfi, sem nú er verið að koma á, að öllu leyti skaðlegt fyrir Ísland og íslenzkan þjóðarbúskap.

Í sambandi við þann grundvöll, sem hæstv. viðskmrh, og ríkisstj. byggir á, trúna á prívatkapítalismann, þá vil ég beina einni fsp. til hæstv. ráðh. Þegar nú, eins og gert er með ráðstöfunum ríkisstj., að teknar eru af launþegum — ja, hvað eigum við að segja — 300 –400 millj. kr. af árstekjum allra launþega á Íslandi, tekið beinlínis úr þeirra vasa og fengið prívatkapítalistunum í hendur, þá hlýtur þetta að vera gert í þeirri trú, að þessir prívatkapítalistar muni verja svo og svo miklu af þessu fyrst og fremst til fjárfestingar, sem þjóðinni sé nauðsynleg, til þess að efla atvinnulífið. Ég get ekki ætlað ríkisstj. svo illt, að ég álíti, að hún vilji taka 300–400 millj. kr. frá öllum launþegum á Íslandi og fá prívatkapítalistunum í hendur, til þess að þeir geti eytt meira, þó að hún að vísu sé að gera þær ráðstafanir gagnvart fjölmörgum efnamönnum að létta á þeim sköttum, á sama tíma sem tekjur minnka hlutfallslega hjá almenningi. Ég held, að hún hljóti að gera það í þeirri trú, að um leið og slíkar 300–400 millj, fara frá launþegunum til einkaatvinnurekendanna og bætast við þann gróða, sem þeir hafa fyrir, þá verji þeir þessu til nytsamra fyrirtækja, sem þeim sjálfum og þjóðinni séu til góðs. Þessi trú ríkisstj., ef hún er fyrir hendi, er röng. Reynslan er, að þegar okkar einkaatvinnurekendur fá fé í hendur, þá fara þeir verr með það en nokkur kapítalistísk stétt í okkar nágrannalöndum, — ekki vegna þess, að þeir séu neitt verri menn en hinir, geta jafnvel verið heldur skárri, heldur af hinu, að þeir eru það smáir, að hver þeirra um sig, þegar hann fær 100–200 þús. kr. gróða eða eitthvað meira, getur ekki keypt togara fyrir það, ekki einu sinni mótorbát, og hann hefur ákaflega mikla tilhneigingu til þess að kaupa sér kannske bíl, kannske góða íbúð, ef hann á hana ekki fyrir, eða eitthvað slíkt. M.ö.o.: af því, hve okkar kapítalistastétt er stór, en hver í henni tiltölulega smár á útlendan mælikvarða, þá eyða þeir meira í neyzlufjárfestingu en í framleiðslufjárfestingu heldur en kapítalistastéttir annarra landa, og ég skal ekki rifja það upp nú. Ég hef gert það hér áður. Hagskýrslur allra landanna í kringum okkur, frá Noregi til Bretlands, sýna það, að fjárfestingarhlutfallið á Íslandi, sem er meira en í nokkru þessara landa, er verra hvað þetta snertir en í nokkru öðru landi. Hlutfallið milli neyzlufjárfestingar hjá Norðmönnum er t.d. þannig, að það er 75% til framleiðslufjárfestingar og 25% til neyzlufjárfestingar. Á Íslandi er meiri hlutinn til neyzlufjárfestingar. Og svona kemur þetta til með að verða, þegar okkar prívatkapítalistar eiga að stjórna þessu. Og hvar eru rökin fyrir því, að þetta breytist?

Efnamaður, hálaunamaður, sem fær 30 þús. kr. eftir gefnar í skatti og útsvari núna, —það þarf enginn mér að segja, að hann fari að leggja það í hlutabréf í togara. Nei, hann ver því á ýmsan hátt, sem honum persónulega þykir gaman að eða hans fjölskyldu.

Þetta er reynslan, sem við höfum. Og hvað er það hjá hæstv. ríkisstj., sem gefur henni trú á einhverju öðru? Þess vegna kemur þetta til með að líta þannig út frá okkar sjónarmiði, frá alþýðunnar sjónarmiði, að ríkisstj. er að taka, t.d. í þessu tilfelli með launakúguninni, 300—400 millj. kr. frá alþýðu manna, fá það einkaatvinnurekendunum, til þess að einkaatvinnurekendurnir geti sett meira í sína neyzlufjárveitingu, eytt meira og alþýða manna búið við verri kjör en áður, sem sé verið að taka peningana, sem alþýða manna þarf nauðsynlega á að halda til að framfleyta sér, og fá þá auðmönnunum, til þess að þeir lifi í vellystingum praktuglega. M.ö.o.: ríkisvaldið er gert að kúgunartæki í höndum prívatkapítalistanna, sem arðrænir almenning og gefur hins vegar prívatkapítalistunum meiri gróða. Þannig lítur það blákalt út. Og meðan hæstv. ríkisstj. sýnir ekki fram á, að einhver slík gífurleg breyting hafi orðið á afstöðu prívatkapítalistanna, að þeir ætli sér allt í einu að fara að leggja þarna heilmikið í þjóðnytsamleg fyrirtæki, þá höfum við ekki ástæðu til þess að búast við neinu öðru en þessu, því að reynslan sýnir okkur þetta.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að það hefði á þessu undanfarna skeiði, sem hann rakti þetta, verið ófullkomin stjórn. Já, frá hans sjónarmiði hefur þetta verið ófullkomin stjórn á þessu 20 ára tímabili, af því að hún hefur verið að hafa þessi afskipti af uppbyggingu þjóðarbúskaparins. En skilur hann, hvað þetta raunverulega þýðir, þegar hann er að tala um, að nú eigi að verða ströng stjórn á þessum hlutum? Það þýðir, með öðrum orðum, að það eigi að verða eins konar harðstjórn í þágu prívatkapítalistanna, til þess að koma upp þeirra skipulagi, skapa og viðhalda þeirra gróða. En til þess að koma á slíkri harðstjórn, skapa og viðhalda slíkum gróða, þarf eitt af tvennu: annaðhvort það sterk lýðræðisleg áhrif ríkisstj. á samtök almennings í landinu, að hann beygi sig undir það, og það kemur hann aldrei til með að gera, nema hann sé sannfærður um, að þetta sé honum til góðs, og ríkisstj. hefur enn þá ekki sett fram ein einustu rök, sem neinn launþegi á Íslandi gæti tekið gild, um, að þetta yrði honum til góðs. Það hefur verið sagt, að hann geti losnað við leiðinlega innflutningsskrifstofu upp á Skólavörðustíg gegn því að fá því meira vald í hendur Seðlabankanum niðri í Austurstræti, og annað slíkt. Þó að það kunni að vera skemmtilegt fyrir heildsala í Rvík, þá snertir það ákaflega lítið sjómanninn, sem dregur fiskinn úr sjónum; svo að heildsalinn geti notað peningana, eða verkamanninn, sem er að hugsa um, hvar hann eigi að fá atvinnu. Og hæstv. ríkisstj. þarf að koma fram með rök, þar sem hún sýni fram á eitthvað annað en trú á prívatkapítalismann, til þess að almenningur taki eitthvert tillit til þess og vilji einhverju fórna fyrir hana. Slík rök hafa ekki komið fram enn þá. Annaðhvort þarf að sannfæra sérstaklega alþýðusamtökin á Íslandi um þetta eða að svona harðstjórn í atvinnulífinu verður aðeins við haldið með harðstjórn á stjórnmálasviðinu, sem sé harðvítugu einræði prívatkapítals, ef almenningur er á móti því, sættir sig ekki við það, — ekki við haldið þá með öðru en einræði í stjórnmálalífinu líka.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að höft hafi ekki getað skapað jafnvægi. Það er rétt hjá honum. Þýðir það, að það hefði átt að afnema höftin? Nei, það þýðir það ekki að mínu áliti. Það þýðir, að þau hafi verið allt of takmörkuð og allt of neikvæð. Sem sé, í staðinn fyrir að hafa algeran áætlunarbúskap og hafa algert eftirlit með allri okkar utanríkisverzlun, sem var eina rökrétta ályktunin, sem við áttum að draga af því, að þessi takmörkuðu og kákkenndu höft gátu ekki skapað jafnvægi, þá er nú farið út í það að sleppa öllum þessum afskiptum.

Þá sagði hæstv. viðskmrh., að það hefði orðið dráttur á gengislækkun, nú mundi, skilst manni, eiga að flýta henni. Er það sem sé meiningin hjá ríkisstj., að það eigi nú, og á það að Verða hennar pólitík, að það eigi tvímælalaust, ef henni finnst eitthvað raskast í viðskiptunum, að grípa til gengislækkunar aftur? T.d. ef viðskiptin austur á bóginn fara að brotna niður, eins og ég var að sýna fram á áðan, er það þá skilningur ríkisstj., að það eigi bara að lækka gengið, vegna þess að okkar viðskiptaaðstaða fari að verða verri? Ég vil benda hæstv. ríkisstj. á, að í slíkri rökleiðslu er rangur hugsunarháttur frá hennar eigin sjónarmiði. Útflutningsverzlunin er ekki frjáls. Hæstv, ríkisstj. getur ekki lagt neinar sannanir fyrir alþýðu manna um það, þó að hún með sinni einokunarafstöðu og einni vitlausu stjórn á Seðlabankanum brjóti niður viðskiptin austur á bóginn, að það hafi þurft að brjóta þau niður, og ég vil segja það við hæstv. ríkisstj., að það er enginn grundvöllur fyrir gengislækkun, þó að hún kunni með sínum klaufalegu afskiptum af þessum málum að eyðileggja þetta. Ef hún ætlar að reyna þessa hluti algerlega, þá skora ég á hana að stiga þá sporið fullt og gefa alla verzlun á Íslandi frjálsa, útflutning og innflutning, algerlega frjálsa. A.m.k. vil ég ekki, að hún komi hér, eftir að hafa gert þá tilraun, sem hún gerir með þessu, og ætli að segja við okkur: Þetta var allt saman kák hjá okkur, og við verðum nú að reyna betur.

Alþýða manna mun ekki viðurkenna það sem nein rök fyrir nýrri gengislækkun, þó að ríkisstj. og þeir, sem nú eiga að njóta frelsis, sem sé heildsalarnir, haldi svo asnalega á þessum málum, að þessi grundvöllur brotni undan.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að stjórnin hefði. ekki verið góð á efnahagsmálunum. Það er hverju orði sannara, það var ósköp slæm stjórn oft á þeim. En hvað verður nú? Mér sýnist, að það, sem nú sé stefnt að, sé, að það verði engin stjórn á þeim. Og annaðhvort hættir ríkisstj, að skipta sér af þessum hlutum eða þá að hún ætlar að gerast eins konar harðstjórn prívatkapítalistanna og beita ríkisvaldinu í þeirra þágu í þessu sambandi, og ég vil frábiðja mér að taka slíkt sem eitthvert frelsi.

Ef á að vera frelsi í þessum málum á Íslandi, því mega þá ekki verkalýðssamtök Íslands og t.d. samvinnusamtök Íslands fá að gera það, sem þau vilja, í þessum efnum og ríkisstj. komi hvergi þar nærri, — sjómenn fái sjálfir að ráða því og útvegsmenn, hvernig þeir fara með sinn fisk, og ríkisstj. skipti sér ekkert af því? Það verða ekki heldur tekin sem nein gild rök, að ríkisstj. hafi notað ríkisvald í þágu prívatkapítalista, þess vegna eigi menn að beygja sig fyrir þessu og það hafi ekkert annað verið mögulegt.

Ég skal fullyrða, að það er hægt að margfalda framleiðsluna á Íslandi frá því, sem nú er, svo framarlega sem það er höfð almennileg stjórn á þessum hlutum.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að verði samt verðfall á íslenzkum afurðum, þá á ekki að skjóta á frest nauðsynlegum aðgerðum. Hvað meinar hæstv. viðskmrh.? Það er verið að skapa nú af hálfu ríkisstj. og vissra atvinnurekenda og Seðlabankans verðfall á íslenzkum afurðum, sem ekki þurfti að koma og þessir aðilar voru varaðir við og skeyttu engu. Eins og alþýða manna taki því með glöðu geði að eiga að borga fyrir slíkt. Ég hef staðið frammi fyrir því á þeim 30–40 árum, sem ég er búinn að hafa afskipti hér af stjórnmálum og atvinnumálum, að okkar braskarar hér á Íslandi, ef þetta hefur verið allt saman frjálst, hafa spilað þessum hlutum alveg út úr höndunum á sér, af því að þeir hafa ekki notað þá möguleika, sem til voru, og ætla síðan að láta verkalýðinn borga brúsann í atvinnuleysi og kauplækkun, En það er ekki til neins, að ætla að stilla okkur frammi fyrir því sem einhverri náttúrlegri nauðsyn. Það var engin þörf á neinni verðlækkun á síldarmjöli og síldarolíu, það var hægt að selja þetta í fyrrasumar með góðu verði, en það var beðið, eins og braskaranna er siður hér á Íslandi, og vegna þess að Seðlabankinn rak á eftir að selja það frekar vestur frá en austur frá. Það er ekki til neins að ætla að boða okkur verðfall sem einhvern alveg óhjákvæmilegan hlut.

Ég skal fullvissa hæstv. ríkisstj. um, að það væri orðið nokkuð ægilegt verðfall á hraðfrysta fiskinum á Íslandi, svo framarlega sem það hefðu ekki verið skapaðir og opnaðir þeir markaðir, sem við njótum núna fyrir hann. Þess vegna vil ég vara hæstv. ríkisstj. við svona fullyrðingum, að það eigi ekki að skjóta á frest nauðsynlegum aðgerðum. Gengi íslenzkrar krónu er ekki neinn hlutur til þess að leika sér með. Við fáum fullvel að þreifa á því núna, hvað það kostar það, sem við erum búnir að byggja hér upp fyrir nokkru, eins og áburðarverksmiðjuna, sementsverksmiðjuna, Sogsvirkjunina, að verða nú vegna gengislækkunarinnar að borga stórfé og hækka allt þetta í verði, bara vegna þessarar vitlausu gengislækkunar, sem nú var framkvæmd.

Hugmyndin um að stjórna þessu með genginu er ekki rökrétt nema frá sjónarmiði þjóðfélags, þar sem prívatkapítalisminn ríkir í fullum blóma. Hún er ekki rökrétt öðruvísi, og það á ekki að beita svona vopnum, eins og hæstv. viðskmrh. lætur í veðri vaka að eigi að gera það, — og þegar hann svo bætir við, að það sé ekki nóg með, að við höfum 20 millj, dollara núna að láni, við getum fengið meira. Hvað á þetta að þýða? Og hvernig stendur á, að þessir aðilar eru til í að lána okkur svona mikið, sömu aðilarnir, sem segja við okkur: Þið megið ekki taka lán hjá okkur núna til þess að byggja upp fyrirtæki hjá ykkur, þið megið ekki nota þessa peninga til þess að byggja upp fyrirtæki, sem gefa gjaldeyri, en þið megið nota þá til þess að kaupa vörur? Eru þessir bankar af einhverjum undarlegum ástæðum og stofnanir reiðubúin til þess að gera endalaust slíka tilraun, slíka efnahagslega tilraun með íslenzka þjóðfélagið? Og ætlum við að láta nota okkur sem tilraunadýr á þennan máta og þegar tilraunin mistekst að verða síðan að sveitast í blóðinu í áratug máske til að borga upp þessar skuldir? Ja, mér finnst ekki skemmtilegt að horfa upp á það, ekki sízt þegar ég er búinn að fá þær ásakanir hér, t.d. út af nýsköpunarstjórninni í 15 ár, að við skyldum ekki geta haft hemil á því, að helmingurinn af fénu, sem þá var til í stríðslok í inneignum Íslendinga erlendis, skyldi hafa verið notaður til meiri eða minni eyðslu. Mér finnst ekkert gaman að horfa upp á 800 millj. kr. notaðar núna til tómrar eyðslu þannig. Ég verð að segja, að ég hef meiri ábyrgðartilfinningu gagnvart íslenzku þjóðfélagi en það, og ég vil ekki hafa íslenzka þjóðfélagið að slíku tilraunadýri, að það sé verið að prófa, hvort prívatkapítalisminn geti nú ekki passað fyrir okkur. Það eru nokkuð dýrar sprautur að gefa okkar þjóðfélagslífi. Þess vegna finnst mér ægileg tilhugsun og hættuleg þessi barnalega trú hjá hæstv. viðskmrh.

Hæstv. viðskmrh. sagði líka í sinni ræðu, að fjárfestingin hefði beinzt inn á rangar brautir. Já; vissulega. Ég er alveg sammála honum um það. En hvernig í ósköpunum dettur honum í hug, að með þeim ráðstöfunum, sem nú er verið að gera, sé verið að beina fjárfestingunni inn á réttari brautir? Hvar eru rökin fyrir því? Á hverju byggist von hans um það, að íslenzkir prívatkapítalistar beini sinni fjárfestingu inn á réttari brautir núna? Hvaða rök getur hann fært fram fyrir því? Við höfum ekki heyrt þau enn þá.

Ég held, að það sé engin leið að beina fjárfestingu inn á réttari brautir á Íslandi, nema með því að hið opinbera stjórni því vitandi vits. Það þarf þó nokkuð stranga stjórn til þess, það er alveg rétt, og það þarf umfram allt góða stjórn og viturlega stjórn. Á það hefur skort á undanförnum árum. En það verður að bæta úr því með því að setja upp góða og reglulega stjórn, jafnvel þó að hún verði að vera ströng, en ekki að gefa þetta frjálst á þennan máta.

Mér sýnist, að ríkisstj. byggi í sinni stefnu allt á einu einasta atriði, trúnni á, að það sé hægt að skipuleggja fátækt á Íslandi, m.ö.o., að með því að taka þetta mikið frá launþegunum og gefa þetta til prívatkapítalistanna, þá muni þjóðin sætta sig við það að verða fátæk, til þess að nokkrir voldugir menn hér í Reykjavík geti verið ríkir og eftir trú hæstv. viðskmrh. sett sitt fé í rétt fyrirtæki. Ég hef haft oft ýmislegt að athuga við þau lán, sem tekin hafa verið á Íslandi á undanförnum áratugum, en það er í fyrsta skipti nú í sögu landsins, sem lán hefur verið tekið til þess að skipuleggja fátækt á Íslandi, — skipuleggja fátækt, — og það er ljótasti leikurinn í öllu atferli ríkisstj.

Afleiðingin af þessum ráðstöfunum, sem nú er lagt til að gera, verða atvinnuleysi. Þegar markaðirnir fara að minnka, þá mun atvinnuleysið koma í ljós. Það man hæstv. viðskmrh., að strax eftir 1950 kom það í ljós, og hér í, Reykjavík töldu verkalýðsfélögin þá alls innan sinna vébanda upp undir 2000 manns, þegar verst var. Það þýðir, að með þessari frelsisverzlunarstefnu er beinlínis stefnt að því að vega að afkomuöryggi manna og stofna efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í voða. Það verður ekki hægt að viðhalda fátækt hjá almenningi, ekki hægt að viðhalda kaupráninu, nema máske með atvinnuleysi og harðstjórn. Og þó er það nú mín trú, að hvort tveggja mundi bila, meira að segja strax innan ríkisstj. sjálfrar. Það þarf það mikla harðneskju, það mikla harðstjórn í það slæmum tilgangi til að framfylgja slíkri pólítík prívatkapítalistanna, að ég hef ekki trú á, að Alþfl. og Sjálfstfl. standi sem heild að því að reyna slíkt, þó að það kynnu að vera innan þeirra beggja menn, sem væru reiðubúnir til þess að reyna að framfylgja henni. Og ég vil segja það, að Alþfl. er með því að taka þátt í svona pólitík að bregðast allri sinni stefnu, eins og hún hefur verið frá upphafi vega, og Sjálfstfl. er með því að bregðast því litla góða, sem hann hefur gert í íslenzkum þjóðarbúskap, þegar hann tók þátt í því að reyna með áætlunarbúskap að nokkru leyti að byggja okkar þjóðfélag upp, sem við búum að enn. Þess vegna álít ég, að það væri bezt, ef hægt væri að koma svo vitinu fyrir hæstv. ríkisstj., að hún stöðvaði þetta strax, vegna þess að hver mánuður, sem þessar tilraunir eru gerðar, og hvert ár, það er glataður mánuður og glatað ár fyrir Ísland og þess þróun og þess framfarir.

Hæstv. viðskmrh. lauk ræðu sinni með því að reyna að verja þessa pólitík frá sjónarmiði Alþfl., alveg sérstaklega frá sjónarmiði hans. Mér fannst það allmikil bíræfni. Alþfl. er með því að taka þátt í þessu að fórna atvinnuöryggi þjóðarinnar fyrir ævintýrakennda tilraun til þess að þjóna hagsmunum samvizkulauss braskaralýðsins á Íslandi eða erlendu auðvaldi, sem hann hefur ánetjazt. Það er ekkert í stefnu Alþfl., eins og hún hefur verið, sem þetta getur stuðzt við.

Hæstv. viðskmrh. var með mér í baráttunni á móti gengislækkuninni 1950. Hann sagði þá í sínu nái., með leyfi hæstv. forseta:

„Að öðru leyti er það um þetta að segja, að ég tel það ekki eiga að vera höfuðmarkmið þeirrar stefnu, sem fylgt er í efnahagsmálum, að hægt sé að halda uppi svonefndri frjálsri verzlun. Ég tel höfuðmarkmiðið eiga að vera það, að haldið sé uppi fullri atvinnu og full hagnýting allra framleiðslutækja tryggð.“

Þetta var hans skoðun þá, og þessari skoðun verður aldrei framfylgt með þeirri stefnu, sem nú á að taka upp.

Alþfl. hefur á Íslandi gengið fram fyrir skjöldu, einmitt þegar hann hefur verið að ryðja sér til rúms og unnið sína mestu kosningasigra, eins og 1934, í baráttunni fyrir áætlunarbúskap, “í baráttu fyrir því að útrýma algerlega öllum glundroða þeirrar frjálsu verzlunar á Íslandi, þjóðnýta eða taka a.m.k. alveg yfirstjórn á utanríkisverzluninni, og stefnuskrá Alþfl. er enn þá um þjóðnýtingu og þar með á utanríkisverzluninni og atvinnurekstrinum og öðru slíku. Hún er alveg óbreytt frá því 1938. Þetta er í algerri mótsetningu við alla hans stefnu frá upphafi vega. Ég vil leyfa mér að spyrja: Hvað er það, sem veldur þessari algeru breytingu, sem þarna er orðin?

Ég hef tekið eftir því, að hæstv. ríkisstj. hefur gefið yfirlýsingu viðvíkjandi afstöðu til sexveldanna, þar sem mér skilst, að ríkisstj. raunverulega sýni meiri samúð viðleitni sexveldanna heldur en sjöveldanna í sameiningarmálum þessara tveggja flokka í þeirri kapítalistísku Evrópu, og ég hef orðið var við það hjá hæstv. viðskmrh., líka meðan við störfuðum saman að ríkisstj., sem við báðir studdum, að hann hefur haft miklar tilhneigingar til þess að vilja innlima Ísland, ef það væri mögulegt, án þess að glata alveg viðskiptunum austur á bóginn, í fríverzlunarsvæði, ef það yrði myndað sameiginlega af þeim ríkjum Vestur- og Norður-Evrópu, sem voru klofin. Við höfum deilt um það áður, og ég skal ekki ítreka það hér. Ég álít alla slíka stefnu stórskaðlega Íslandi. Ég álít, að pólitík Íslands geti aldrei orðið önnur en sú, ef við ætlum að halda okkar sjálfstæði, en að við rekum okkar þjóðarbúskap sem sjálfstæðan íslenzkan þjóðarbúskap og beitum okkar aðstöðu út á við gagnvart hvers konar blokkum, hvað sem þær kunna að heita og hvers kyns sem þær kunna að vera, og öðrum löndum, að við reynum að hafa okkar þjóðarbúskap sem allra bezt rekinn frá því sjónarmiði að geta hagnýtt okkur allar þær aðstæður, sem okkur opnast, hvar sem er í veröldinni, en allt sem snertir að einhverju leyti að innlima Ísland í eitthvert fríverzlunarkerfi eða eitthvert slíkt kerfi, hvert sem það væri, sósíalistískt eða kapítalistískt eða hvaða kapítalistískt kerfi sem það væri, allt slíkt álít ég hættulegt. Og það er aðeins hægt að skilja þessa pólitík og breytingu á afstöðu Alþfl. og hæstv. viðskmrh. frá því sjónarmiði, að það sé stefnt að slíkri innlimun Íslands, jafnvel þó að það kosti það, að afleiðingarnar verði að brjóta niður viðskiptin austur eftir, gera Ísland þannig svo að segja hlekk í slíku fríverzlunarsvæði. Og mér finnst á ræðu hæstv. viðskmrh., að það sé eins og hann vilji helzt ekki sjá, hverjar afleiðingarnar af þessu yrðu, en sé hins vegar það trúaður og það hrifinn af og hafi það miklar hugmyndir um möguleika Íslands á þessu sviði, að hann vilji vinna að þessu, alveg eins og hægt sé. Og ég vil vekja athygli hans á því, að þarna álít ég hann vera að leggja inn á glæfrabraut, hreina glæfrabraut. Það er að vísu gott að hafa mikla trú á því, sem maður er að vinna að. En það er því aðeins bezt, að menn vakni ekki upp einhvern daginn og staðreyndirnar eins og komi mönnum að óvörum. Þess vegna ver ég nú svona miklum tíma til þess að reyna að tína fram allt, sem ég sé af göllum við þetta, að ég hef þá trú, svo að ég endurtaki það, að hæstv. viðskmrh. sé að breyta í góðri trú, og þess vegna vegna vil ég, ef þess er nokkur kostur, gagnvart honum og hæstv. ríkisstj. reyna að sannfæra þá um, hvaða ófæru verið er að fara með Ísland út í.

Það er nauðsynlegt, þegar svona hlutir eru gerðir, að menn geri sér alveg ljósa sína persónulegu ábyrgð í þessu sambandi. Þeir menn, sem taka lán upp á 20 millj. dollara erlendis, ég trúi því ekki, að það sé nokkur maður svo ábyrgðarlaus að gera slíkt án þess að gera sér einhverja hugmynd um, hvernig á að borga það til baka. Er það meiningin, ef við stöndum uppi eins og 1952 með lokaða markaði meira eða minna í Englandi og þessum löndum, er það meiningin, að við eigum kannske að fara til Sovétríkjanna og segja: Viljið þið lána okkur peninga til þess að borga þessar skuldir, sem við erum komnir í, af því að við höfum verið svo óforsjálir? Er það meiningin að fara að eins og þá, þegar búið var að asnast út í að eyðileggja okkar markað austur frá og Bretarnir settu á okkur viðskiptabannið, að þáv. ríkisstj. varð að fara til Sovétríkjanna og biðja þau um að taka upp viðskipti og forða sér úr klónum á Bretanum? Eða hafa menn einhverjar hugmyndir varðandi þetta? Ef menn t.d. hefðu þær hugmyndir, að menn vissu af ákveðnum amerískum auðhringum, sem byðust til þess að setja stórfé í stórvirkjanir og stóriðju á Íslandi, sem gætu gefið mikið fé og gert okkur mögulegt að keppa, þá væru það þó prívatkapítalistísk rök, sem ég að vísu mundi ekki beygja mig fyrir, vegna þess að ég væri á móti því að hagnýta slíkt, en ég gæti þó skilið frá sjónarmiði kapítalismans. Þess vegna lýsi ég eftir rökum og hvaða vonir það eru, sem þessi trú byggist á.

Ég álít, að þetta kerfi, sem nú er verið að innleiða, þýði að brjóta niður sjávarútveginn á Íslandi. Ég álít, að núna, þegar okkar sjómenn hamast við að draga fiskinn á land, gæftirnar betri en verið hefur um langt skeið og aflinn meiri, okkar sjómenn þræla lengur, þá hamist hæstv. ríkisstj. við að eyðileggja þeirra verk, — ég álít, að þetta muni þýða að brjóta niður sjávarútveginn á Íslandi. Og ef hæstv. ríkisstj. gæti sagt mér frá útgerðarmönnum, sem væru núna að gera ráðstafanir til þess að kaupa nýja báta og skip, en ekki bara frá því, sem enn þá er að koma eða enn þá er í smíðum fyrir tilstilli frá tímum vinstri stjórnarinnar, þá væri mér gleðiefni að heyra það. Ég álít í öðru lagi, að með þessu sé verið að skapa atvinnuleysi á Íslandi ofan á kaupránið og þá fátækt, sem það þýðir. Þess vegna stend ég algerlega á móti þessari stefnu.

Hæstv. viðskmrh. sagði í sínum hugleiðingum út af Alþfl. og hans pólitík, að afskipti ríkisins væru látin ganga svo langt, að frelsi einstaklinganna væri hætta búin. Þetta eru nokkuð almennar bollaleggingar. Öll stjórn einstakra atvinnurekenda á fyrirtækjum skerðir frelsi einstaklinga. Það, að einn maður skuli verða daglega að selja sitt vinnuafl á svokölluðum frjálsum vinnumarkaði, það er auðvitað skerðing á hans frelsi, að hann skuli ekki getað lifað á annan hátt. Það, sem sósíalisminn, jafnaðarstefnan frá upphafi hefur stefnt að, er að afnema það fyrirkomulag, að verkalýðurinn og launþegarnir og þeirra vinnuafl væri eins og vara, sem seld væri á frjálsum markaði. Stefnan hefur verið að tryggja þeim afkomu, þannig að þeir gætu alltaf verið öruggir með atvinnu, það væri skylda þjóðfélagsins að tryggja það algerlega.

Stefna Alþfl. hefur verið þjóðnýting og er það enn, eftir því sem mér er bezt kunnugt. Hæstv. viðskmrh. talaði um þjóðnýtingu í þeim löndum, þar sem kommúnistaflokkar stjórna eða hafa forustu um stjórn, og það sé bara hægt að framkvæma fullkomna þjóðnýtingu með flokkseinræði. Það er rangt. Það er hægt að framkvæma þjóðnýtingu í algeru samræmi við allar okkar lýðræðisreglur. Við verðum að gá að einu, þegar við tölum um lýðræði. Það merkir tvennt. Það merkir ekki aðeins stjórnmálalegt lýðræði, það merkir líka efnahagslegt lýðræði. Það merkir, að jafnt eins og fjöldinn eigi að geta ráðið stjórn í einu ríki með sínu atkv., eins eigi hann að geta ráðið atvinnufyrirtækjunum líka, jafnvel í krafti atkvæða, vegna þess að þjóðfélagið eigi þau. Hvar sem einstakur atvinnurekandi á fyrirtæki og hefur svo og svo marga menn í sinni þjónustu, þá hefur hann þannig visst atvinnulegt einræði yfir þeim, þó að öll viðleitni verkalýðshreyfingarinnar hafi gengið út á það að reyna að takmarka þetta einræði atvinnurekandans sem mest og verkalýðshreyfingunni hafi orðið þar ákaflega mikið ágengt. En fullkomið lýðræði fæst ekki, fyrr en slík stór atvinnufyrirtæki eru orðin sameign þjóðarinnar á einn eða annan máta, getur verið með samvinnurekstri, með bæjarrekstri, með ríkisrekstri og öðru slíku, það eru mörg lýðræðisformin fyrir því. En eitt hefur þó alltaf verið höfuðatriðið og það meira að segja að svo miklu leyti sem við líka getum hugsað okkur einstaklingsbúskap í sósíalistísku þjóðfélagi, það er, að það sé fullkominn áætlunarbúskapur, að það sé gerð áætlun um þjóðarbúskapinn, um hans framleiðslu, um, hvað mikið fer til neyzlunnar, :hve mikið fer til framleiðslunnar, í fjárfestingu í henni, þannig að þjóðfélagið sé alveg öruggt um sínar framfarir, um síbatnandi lífskjör, og það er a.m.k. á stefnuskrá Alþfl. enn sem komið er, og engar yfirlýsingar neinna ráðh. geta breytt því.

Hæstv. viðskmrh. sagði í hugleiðingum sínum um afskipti ríkisvaldsins, að ríkisvaldið ætti að örva framtak einstaklingsins. Jú, vissulega. En heldur hann, að hann sé að örva framtak einstaklinganna með 12% vöxtunum núna? Mér sýnist það ganga frekar út á að stöðva framtak einstaklinganna, að svo miklu leyti sem það enn þá vildi vinna í þjónustu almennings. Hann sagði, að ríkið héldi sinni forustu. Þá komum við að einu spursmáli í því sambandi, þ.e. hvers konar ríki. Hann fór allmikið inn á afskipti ríkisvaldsins og hélt, að það væri höfuðágreiningurinn á milli sósíalismans annars vegar og kapítalismans hins vegar, hvort ríkið skipti sér af þessum hlutum eða ekki. Það er alveg rétt hjá honum, að það eru fáir borgaraflokkar lengur svo afturhaldssamir, að þeim detti í hug, að ríkið eigi ekki að skipta sér af atvinnurekstri. Sú gamla afturhaldsstefna er yfirleitt dauð, þó að það séu til afturgöngur, sem enn þá eru að tala um slíkt. En það, sem gerzt hefur á okkar tímum, er, að ríkið, ríkisvaldið, hefur í svo og svo mörgum löndum orðið tæki sjálfrar auðmannastéttarinnar til afskipta í hennar þágu af atvinnulífinu. Það, sem skilur milli okkar sósíalista og kapítalismans, er ekki, hvort við viljum afskipti ríkisins eða afskipti ríkisins ekki, heldur hitt, hvort við viljum beita afskiptum ríkisins í þágu alþýðunnar, til þess að henni geti vegnað betur, m.a. með því móti, að þjóðfélagið verði betur skipulagt, hagsmunum verkalýðsins betur borgið og annað slíkt, eða hvort við viljum afskipti ríkisvaldsins í þjónustu einkaatvinnurekendanna, í þágu þeirra, þannig að þeim vegni betur, en alþýðunni verr. Prívatkapítalistar hafa ekkert á móti því, ég held meira að segja, að nafni minn, hv. 3. þm. Austf., hafi ekkert á móti afskiptum ríkisins af atvinnurekstrinum öðru hvoru, ef það er bara í þjónustu auðmannastéttarinnar. Mér sýnist t.d. allur Sjálfstfl. og öll auðmannastéttin hér í Reykjavík standa þó nokkuð ákveðið um það, a.m.k. auðmannastéttin, að afskipti ríkisins til þess að minnka laun verkamanna, eins og ríkisstj. nú hefur gert, það séu mjög góð afskipti ríkisvaldsins af atvinnulífinu. Það er þetta, sem okkur greinir á, og Alþfl. hefur aldrei fyrr í allri sinni pólitík gengið inn á að gera þá hluti, sem hann gerir nú í þessum efnum. Alþfl. hefur áður farið út úr ríkisstj., þegar svona hlutir hafa verið gerðir, eins og 1942, þegar gerðardómurinn er settur, eða 1950, þegar gengislækkun er skellt á. Alþfl. virðist hafa alveg gersamlega skipt um stefnu þarna nú, og það, sem er að gerast nú, er, að ríkisvaldið er notað sem miskunnarlaust kúgunarvald af hálfu einkaauðmannastéttarinnar á Íslandi á móti launþegunum á Íslandi og Alþfl. tekur þátt í því. Það er það, sem hefur gerzt. Spurningin er ekki um að hagnýta ríkisvaldið, hvort menn vilja láta ríkisvaldið hafa afskipti af þessum málum eða ekki. Spursmálið er: Hverjum til góðs hefur ríkisvaldið afskipti, hverjum í hag, í hvers þágu? Hvaða stétt er það, sem heldur á ríkisvaldinu og beitir því? — Það er auðmannastéttin, sem er að beita ríkisvaldinu núna, og jafnvel hæstv. viðskmrh. segir, að það verði að vera ströng stjórn og það megi ekki biða með nýjar gengislækkanir, svo framarlega sem ríkisstjórninni finnist það nauðsynlegt. Það er sama ákvæðið, sem Alþfl. m.a. fékk tekið út úr gengislækkunarlögunum 1950, hótanir um gengislækkanir og kauplækkanir þá, þær hótanir virðast vera á lofti nú.

Ég gekk í Alþfl. fyrir tæpum 40 árum, og ég held, að ég hafi alla tíð reynzt trúr þeirri stefnu, sem hann þá barðist fyrir, þeirri stefnu að vilja útrýma fátækt á Íslandi, þeirri stefnu að vilja koma á lýðræði í þjóðfélaginu og atvinnulífinu, þeirri stefnu að vilja koma á sameign almennings, hvort heldur væri með ríkisrekstri, bæjarrekstri, samvinnufélögum, og láta sérrekstur gilda, en undir yfirstjórn almennings í landinu, og sem höfuðatriði í þessu öllu saman, innsta kjarnanum í allri jafnaðarstefnunni, í öllum sósíalismanum: frelsi verkalýðsstéttarinnar. Móti öllu þessu er Alþfl. að berjast nú. Hann er að koma á fátækt, þar sem okkur hafði tekizt að skapa bjargálnir með áratuga baráttu verkalýðsins. Hann er að skapa og koma á einræði auðmannastéttar yfir atvinnulífinu, og það er harðstjórn. Hann er að hjálpa prívatkapítalistunum til þess að fara svo að segja að koma á einkaeign atvinnufyrirtækja, þar sem var ríkiseign áður, eins og vitað er að stór hluti Sjálfstfl. stefnir að núna og hefur ekki farið neitt dult með. Og Alþfl, er beinlínis að skerða frelsi verkalýðssamtakanna og rjúfa þeirra samninga með þeim lögum, sem hann hefur látið samþykkja á Alþ, nú, þannig að öll þessi stefna er þveröfug við jafnaðarstefnuna og við sósíallsmann, og beiting ríkisvaldsins, sem Alþfl. hefur í frammi nú með Sjálfstfl., er einkaauðvaldinu á Íslandi til góða, og meira að segja ríkisstofnanir, sem hér hafa verið skapaðar, eins og bankarnir og annað slíkt, er látið bókstaflega í þjónustu einkaatvinnurekendanna á Íslandi með þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru. Ég er á móti þessu og álít, að Alþfl. hafi stigið með því þau spor, sem séu að setja hann út úr verkalýðshreyfingunni, og hann sé að kasta með því síðustu leifunum af sinni sósíalistísku stefnu, ef hann ekki snýr við á þessari braut. Og það er ekki vegna þess, að ég hafi ekki trú á, að það sé hægt að koma á sósíalisma á Íslandi og ætla að stjórna Íslandi sem sósíalistísku landi öðruvísi en með flokkseinræði. Ég álít, að Ísland geti verið fyrirmyndarland í veröldinni um að koma á sósíalisma með því að viðhalda öllu því lýðræði, sem við höfum í landinu núna, og öllu okkar þingræði, og ég álít, að Ísland geti verið brautryðjandi land í þessum efnum, — með þeim lífskjörum, sem við þrátt fyrir allan okkar böksulega búskap höfum skapað á Íslandi, sé hægt að gera þetta land að fyrirmynd fyrir önnur lönd veraldar um stjórnarfar, bæði ökonómískt og pólitískt, ef við aðeins reynum að læra af þeim mistökum, sem við höfum gert, ef við reynum að hafa góða stjórn á okkar þjóðarbúskap í staðinn fyrir slæma stundum og tvístígandi. En ég álít, að það, sem verið sé að gera með því, sem ríkisstj. nú er að fara inn á, sé að hverfa burt frá öllum þeim tilraunum, sem allir stjórnmálaflokkarnir, sem nú sitja á Alþ., hafa tekið meira eða minna þátt í á síðustu 20 árum, að reyna að stjórna íslenzku þjóðarbúi sem heild með hagsmuni íslenzku þjóðarinnar fyrir augum, með sjálfstæði íslenzks þjóðarbúskapar að takmarki, með velferð alþýðunnar alveg sérstaklega að aðalhugsjón. Ég álít, að það sé verið að gefast upp við þetta, fleygja allri þessari viðleitni fyrir borð, gerast meira eða minna stjórnlaust rekald undir áhrifum einkaauðvalds í París og Washington, undir misvitrum ráðleggingum þeirra sérfræðinga, sem ríkisstj. nú tekur allt of mikil tillit til. Ég álít hörmulegt og dýrt fyrir okkar þjóð og okkar þjóðarbúskap, ef inn á þetta er farið. Ég verð að segja hreinskilnislega: Mig hálfhryllir við, að alþýða manna þurfi að fara að taka við á eftir og borga fyrir þetta, sem við sjáum alveg, hvernig muni fara, og menn gætu sloppið við, ef menn fengjust til þess að taka rökum í þessum málum og ef menn væru þá ekki búnir að binda sig of mikið á þann erlenda skuldaklafa, sem Ísland er nú að komast á, þannig að þeir geti ekki snúið til baka. En ef þess er nokkur kostur, þá vil ég biðja hæstv. ríkisstj., ef hún hefur nokkra ábyrgðartilfinningu fyrir því, sem hún er að gera, og ef hún er sjálfráð verka sinna, að athuga sinn gang, áður en lengra er farið.