28.04.1960
Neðri deild: 72. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2166 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér hefur því miður ekki unnizt tími enn sem komið er til þess að ljúka mínu nál., en vonast til að geta gert það í kvöld, þannig að það ætti að geta legið fyrir við frh. þessarar umr, á morgun.

Mín afstaða í fjhn. var sú, að ég lagði til, að þetta frv. væri fellt. Ég setti fram við 1. umr. þessa máls nokkrar spurningar til hæstv. ráðh., en sökum þess að hann þá þurfti að flýta sér af landi burt, gafst honum ekki tími til þess að svara þeim, og ég mun reyna að endurtaka þær ekki hér, vegna þess að ég býst við, að hann muni a.m.k. að einhverju leyti svara þeim í þeim umr., sem nú koma til með að fara fram.

Það, sem þess vegna verður höfuðatriði fyrir mér að ræða nú, eru annars vegar í raun og veru prinsipatriðin í sambandi við þetta mál og hins vegar að svara nokkru því, sem hv. frsm. meiri hl. vék að.

Ég álít að það sé ekki rétt að gera of lítið úr því, að ríkisstj. sé að breyta um frá þeirri stefnu, sem verið hefur, þó að samsvarandi skilyrði hafi verið til í lögum áður og samsvarandi stefnuyfirlýsing um vilja til frjálsrar verzlunar. Munurinn er sá, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur í fyrsta skipti af þeim ríkisstj., sem hér hafa setið að völdum í 30 ár, máske að nokkru leyti að undantekinni nýsköpunarstjórninni, eins og ég kom inn á í minni fyrstu ræðu, — hún hefur í fyrsta skipti möguleika á miklu erlendu lánsfé til þess að gera svokallaða frjálsa verzlun raunverulega, í staðinn fyrir t.d., að ríkisstj. 1950, sem tók upp sams konar pólitík, hafði raunverulega enga möguleika til þess að gera þá stefnu raunverulega. Þó að sú lagalega breyting í 1. gr. frá þeim yfirlýsingum, sem þá voru, eins og hv. frsm. 1. minni hl. var að koma hér inn á áðan, sé ekki mikil frá stjórn Framsóknar og íhaldsins 1950 þar til núna, þá eru raunverulegu aðstæðurnar til þess að framkvæma stefnuna miklu meiri hjá núv. ríkisstj. og þess vegna um leið hættulegri. Það, sem bjargaði Íslandi 1950, var, að ríkisstj. þá hafði ekki möguleika til þess að steypa þjóðinni í mörg hundruð millj. kr. skuldir erlendis með ævintýramennsku, en það hefur núv. ríkisstj. Í því liggur þess vegna það, að þetta frv. er að mínu áliti höfuðmál ríkisstj„ hættulegasta málið, sem hún hefur flutt, og það prinsip, sem þarna er farið inn á, sem stundum hefur að vísu verið reynt að fara inn á af undanförnum ríkisstj., það hefur ekki verið hægt að fara inn á það undanfarið af tilliti til hagsmuna og aðstöðu Íslands. En nú í fyrsta skipti er ein ríkisstj. birgð að erlendu fé til þess að að geta farið út í þá fjárglæfra, sem hér er verið að fara út í. Höfuðreglan, sem miðað er að með þessu frv., er að opna Ísland og heimamarkað þess fyrir samkeppni erlendra aðila hvar sem er og að stofna erlendum mörkuðum Íslands í stórhættu, í þá hættu að vera eyðilagðir, og þess vegna verður afstaðan gagnvart þessu frv. alltaf um þetta höfuðprinsip. Það, sem við verðum að gera okkur ljóst, og það, sem er sérstaklega nauðsynlegt að hæstv. ríkisstj. sé alveg ljóst og hennar stuðningsmönnum, það er aðstaðan, sem er í veröldinni. Það eru tvö viðskiptakerfl í veröldinni. Annars vegar er viðskiptakerfi sósíalismans, sterkasta viðskiptakerfi, sem nú er í heiminum, viðskiptakerfi, sem nær til um 1000 millj. manna, kerfi, þar sem áætlunarbúskapur er grundvöllur, þar sem vald ríkisins á utanríkisverzluninni er ótvírætt og 100% í öllum þessum ríkjum, þar sem þess vegna frjáls samkeppni er ekki lengur til sem form fyrir sölu á vöru, þar sem þess vegna fyrirframsamningar á vörum eru regla og þar sem frjáls samkeppni á vissum auðvaldsmörkuðum er aðeins undantekning. Ef við ætlum að hagnýta okkur viðskipti við þetta kerfi, verðum við að hafa aðstöðu til þess. Það þýðir m.ö.o., að við verðum að geta ráðið sjálfir það mikið við okkar eigin útflutnings- og innflutningsverzlun, að við getum hagnýtt okkur þá markaði, sem þarna eru, með viðskiptum, sem að vissu leyti hlíta lögmálum viðskiptanna í því landi, sem sé sem eru fyrirframsamningar til lengri eða skemmri tíma um ákveðnar upphæðir, ákveðið magn af vörum til og frá þessum löndum. M.ö.o.: við getum ekki, svo að neitt verulegt sé, hagnýtt okkur viðskipti við þetta heimskerfi sósíalismans öðruvísi en með því að hafa að mjög miklu leyti áætlunarbúskap á okkar utanríkisverzlun og gera allstóra fyrirframsamninga, til eins eða fleiri ára, um viðskiptin við þau. Það þýðir að vísu ekki, að það geti ekki verið ofur lítill partur af þessu, sem við látum vera tilviljuninni háð. En ef við ætlum að njóta þess öryggis og þeirrar festu, sem einkennir þessi viðskipti í heimskerfi sósíalismans, þá verðum við að hafa sjálfir það kerfi á okkar útflutningsverzlun, að við séum í aðstöðu til þess.

Hins vegar, hvað snertir þann kapítalistíska heim, sem óðum fer minnkandi og skreppur saman með hverju árinu sem líður, þá ríkja þar svokölluð frjáls viðskipti, þ.e.a.s. viðskipti, sem að mestu leyti eru háð þeim voldugu auðhringum, sem ríkja í þeim löndum.

Ég skal koma að því síðar, að það er þar ekki um nein frjáls viðskipti að ræða, en um víssa, takmarkaða möguleika til þess að berjast með vöruframboðum, svo framarlega sem við höfum aðstöðu til þess að slást við þá aðila, sem eru á þessum mörkuðum, sem sé ef við sem Davíð getum slegizt við þá miklu Golíata, auðhringana, sem ráða á þessum sviðum. Til þess hins vegar að við Íslendingar getum hagnýtt okkur þessi tvö heimskerfi, þá verðum við að hafa yfirstjórn á okkar eigin utanríkisverzlun, þannig að við annars vegar með stórum fyrirframsamningum getum gert viðskiptin við sósíalistísku löndin og að við hins vegar getum með vægðarlausri samkeppni á mörkuðum kapítalistísku landanna reynt ,að komast þar inn. Og reynslan mun sýna það, eins og ég mun koma að síðar, að við verðum oft og tíðum að skipuleggja okkar eigin útflutning allharðvítuglega, jafnvel með hringum, hvað svo sem við viljum um það segja, og kannske ríkishringum, til þess að komast að.

Það, sem mér finnst að vaki fyrir hæstv. ríkisstj., og sérstaklega þóttist ég verða var við það í þeim viðtölum, sem fram fóru í fjhn. í sambandi við þessi nýmæli, sem nú séu tekin upp, þessa nýju stefnu, og það sé raunverulega það eina lofsverða, sem í þessu sé hjá hæstv. ríkisstj., — það virðist vaka fyrir henni að nokkru leyti, að hún vilji skapa harðvítugt aðhald, annars vegar að útflytjendum, hins vegar innflytjendum, í sambandi við vöruval og vöruvöndun, og segja við þá: Nú verðið þið að passa ykkur. Við hendum okkur út á þennan svokallaða frjálsa markað, og þið verðið að gera svo vel að sjá um, að þið drepizt ekki og að þið verðið ekki undir þar.

Það er rétt, að það þarf að sýna vissa festu og tryggja vissa vöruvöndun í sambandi við útflutning Íslands og að reyna að einhverju leyti að gera það líka, að svo miklu leyti sem möguleikar eru á, í sambandi við innflutninginn. En það væri glæfraspil að ætla að henda Íslandi út í þá villtu samkeppni milli voldugra aðila, sem á sér stað á heimsmörkuðum kapítalismans, og segja bara við okkar litla land og okkar smáútflytjendur: Þið verðið að gera svo vel að standa ykkur þar. Það væri næstum því eins og að segja ungbarni að ganga hér út á götuna í mestu umferðinni og það verði sjálft að passa sig fyrir bílunum. Reynslan er, að það er engin von til þess, að íslenzkir atvinnurekendur bjargist, sízt af öllu sem smáir einstaklingar í því frumskógalífi, sem á sér stað á þessum svokölluðu samkeppnismörkuðum, sem eru raunverulega einokunarmarkáður auðhringanna að mestu leyti. Hitt er aftur á móti rétt, að það þarf að skapa aðhald að okkar útflytjendum og aðhald að okkar innflytjendum, en það verður þá ríkisvaldið sjálft að gera og þarf að gera það betur en það hefur gert á undanförnum árum.

Til þess þess vegna að ná þessum eina lofsverða tilgangi, sem ég hef getað fundið að hæstv. ríkisstj. og stjórnarlið vilji stefna að með þessu, sem sé að skapa visst aðhald þarna, sem víssulega er þörf, ekki sízt gagnvart t.d. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, þá er þessi aðferð, sem hér er notuð, allt of glæfraleg. Hún er næstum því eins og að ætla að stofna óþekkum krakka í þá hættu að fara sér að voða, þegar móðirin væri leið á því að fást við hann, af því að hann vildi ekki hlýða hennar fyrirmælum.

Nei, við verðum að laga okkur að þeim kringumstæðum, sem eru í veröldinni, og við verðum sjálfir, ríkisvaldið, að skapa það aðhald með gerbreytingu á matinu á fiskinum og sjálfstæði fiskmatsmannanna og miklu meiri festu í þeim málum, til þess að skapa það aðhald, sem allt of ægileg samkeppni, eins og ríkisstj. leggur til, mundi ella máske kenna okkur, en líka um leið hálfdrepa okkur. Ég álít þess vegna, að höfuðatriðið í viðskiptamálum Íslands sé að hafa kerfi á okkar útflutningsverzlun, þar sem við getum hagnýtt okkur hvort tveggja í senn: öryggi heimsmarkaða sósíallsmans með miklum fyrirframsamningum við þau sósíalistísku lönd og hins vegar skapað okkur aðstöðu til þess að berjast í þeim kapítalistísku löndum um þá frjálsu markaði, sem þar eru, eiga að vísu alltaf þar heilmikið á hættu, en eiga ekki allt á hættu. Það, sem ríkisstj. stefnir að með þessu og mundu verða afleiðingarnar af hennar tillögu, ef þetta frv. gengi fram, það er að eiga allt á hættu, því að eins og ég sýndi fram á við 1. umr. og ekki hefur verið hrakið, þá verður öllum viðskiptunum við sósiallstísku löndin stofnað í hættu með þessu kerfi, sem nú er verið að taka upp.

Það er þess vegna glæfraspil að leggja út í slíkt, sem við höfum ekki leyfi til gagnvart hagsmunum okkar þjóðar. Hitt er rétt, að við verðum að leggja í það að eiga nokkuð á hættu. Ég álít, að það sé ein þægilegasta aðstaða, sem við getum haft, ef við getum selt, eins og við gerum núna, kannske frá þriðjungi og allt upp undir helming af okkar afurðum til hinna sósíalistísku ríkja, tryggt okkur þar með sölu á svo og svo miklu magni, en eiga svo 2/3 eða kannske niður í helming, sem við verðum að selja í Afríku, Suður-Ameríku, Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu, en það veit hver aðili, sem stýrir stóru fyrirtæki, að stóri kosturinn er venjulega að geta haft framleiðsluna eins mikla og mögulegt er, geta þess vegna losað sig við svo og svo mikið af henni á öruggum mörkuðum, — oft og tíðum gera þeir stóru hringar það á sínum heimamörkuðum, — en skellt hinu út í þá frjálsu markaði, þar sem baráttan er harðvítug. Það er gefið, að ef okkar freðfiskframleiðsla er 75 þús. tonn, — og hún er jafnvel meiri nú seinast, ég man það ekki nákvæmlega, — þá stöndum við miklu betur að vígi til samkeppni á þeim kapítalistísku mörkuðum, vegna þess að ef eðlileg framleiðsluskilyrði eru hér heima, þá á framleiðslukostnaður á hvert tonn að geta verið minni fyrir okkur heldur en ef okkar framleiðsla á hraðfrystum fiski væri aðeins t.d. 29 þús. tonn, eins og hún var 1952, því að þá náttúrlega hlyti, ef eðlileg framleiðsluskilyrði eru, framleiðslukostnaðurinn á hvert tonn að vera meiri og þess vegna okkar samkeppnisaðstaða lakari. Við stöndum þess vegna betur að vígi með að keppa með hraðfrystan fisk á kapítalistískum mörkuðum, þegar við getum selt 50 þús. tonn til þeirra sósíalistísku ríkja með stórum fyrirframsamningum, en verðum svo að berjast með 25–30 þús. tonn á þeim kapítalistísku mörkuðum. Þess vegna álít ég, að þessi aðstaða, sem við höfum skapað okkur á undanförnum árum, sé sú ákjósanlegasta aðstaða, sem Ísland getur haft í veröldinni, og þess vegna megi ekki gera neitt til þess að spilla henni. Og ég ákæri hæstv. ríkisstj. fyrir það að vera með þessum ráðstöfunum, réttara sagt með þessu frv. og þeim afleiðingum, sem það kemur til með að hafa, ef það verður að lögum, — ég ákæri hana fyrir að vera að stofna því, að vissu leyti takmarkaða afkomuöryggi Íslands og atvinnuöryggi almennings, sem skapað hefur verið, í voða með því að taka upp þetta kerfi, vegna þess — og það ætla ég ekki að endurtaka, vegna þess að ég álít, að afleiðingarnar af þessu kerfi verði að brjóta smátt og smátt niður viðskiptin austur á bóginn og afleiðingarnar af því séu nú þegar að koma í ljós í þeim verðlækkunum, sem nú eru að dynja yfir, þegar við eigum að fara að vera einvörðungu háðir þeim kapítalistíska heimi og verðsveiflunum á þeim mörkuðum. Ég álít þess vegna, að með því að stofna þessu afkomuöryggi í hættu sé nú þegar verið að leiða atvinnuleysi yfir Ísland, og fái þetta kerfi að standa til næsta árs, þá mun það sýna sig.

Ég ákæri hæstv. ríkisstj. í öðru lagi fyrir það að vera með þessu kerfi að stofna efnahagslegu sjálfstæði Íslands í voða. Hún tekur 800 millj. kr. lán erlendis til vörukaupa, lán, sem hún sjálf hefur lýst yfir að hún ætlar ekki að nota til þess að koma upp fyrirtækjum hér innanlands, sem geri okkar aðstöðu til samkeppni betri, og fyrirtækjum, sem auki okkar framleiðslu. Ég ákæri hana fyrir að taka þetta 800 millj. kr. lán og stofna efnahagslegu sjálfstæði okkar í voða og hef auglýst eftir því, hvort hún hefur nokkra vissu og raunverulega nokkra von um að geta borgað þetta, og ég hef spurt að því líka í fjhn., og því hefur aðeins verið svarað, að það kynni að vera möguleiki að geta selt meira á þeim kapítalistísku mörkuðum. Ef við getum selt meira á þeim kapítalistísku mörkuðum, þá er það vissulega gott, en þá eigum við bara að framleiða meira, og það hefur ekki staðið á því, að við framleiddum ekki nóg undanfarið. Hvað eftir annað hefur það vofað yfir hérna, að framleiðslan hafi verið stöðvuð. Það hættulega við að taka þetta lán erlendis er, að þetta lán er þar að auki tekið í frjálsum gjaldeyri, einmitt þeim gjaldeyri, sem við þurfum hvað mest á að halda, af því að okkur vantar hann alltaf. Við erum einmitt hvað snertir viðskipti við frjálsu gjaldeyrislöndin í 400–500 millj. kr. neikvæðum viðskiptajöfnuði eða a.m.k. verzlunarjöfnuði á síðustu árum eftir gamla genginu, og sú pólitík ríkisstj. að taka nú 800 millj. kr. lán erlendis, er pólitík af því tagi, sem vitlausast var í fari gömlu vinstri stjórnarinnar, að taka lán í frjálsum gjaldeyri, vitlaust út frá því sjónarmiði, að við höfum alltaf átt erfiðast með að borga til baka lánin, sem eru tekin í frjálsum gjaldeyri, og við höfum alltaf þurft mest á að halda því fé, sem við getum fengið í frjálsum gjaldeyri. Við áttum þess vegna frá sjónarmiði íslenzks þjóðarbúskapar að nota þann frjálsa gjaldeyri, sem við gátum fengið inn fyrir okkar vörur, til þess að kaupa vörur fyrir í þeim frjálsu markaðslöndum, en ekki að setja okkur í þá aðstöðu að þurfa að nota peninga, sem við fáum fyrir sölu í frjálsu gjaldeyrislöndunum, til að borga vexti og afborganir af skuldum þar. Það dregur úr viðskiptunum við þau lönd. Þess vegna álít ég það alltaf hafa verið rangt hjá vinstri stjórninni að taka lán t.d. í Ameríku, sem við þurfum svo að borga aftur með því fé, sem við fáum fyrir okkar fiskútflutning til Ameríku, sem er takmarkaður, í staðinn fyrir að taka lán, sem við gátum fengið þá í Sovétríkjunum, líka með betri kjörum, þar sem við erum öruggir um að geta borgað þau lán til baka í okkar fiski, en gátum þá aftur á móti notað það fé, sem við nú komum til með að nota til vaxta- og afborgunargreiðslna til frjálsu gjaldeyrislandanna, til innkaupa á vörum frá þeim löndum, sem við alltaf þurfum, og við þurfum alltaf á fé að halda til þess. Þess vegna heldur ríkisstj. áfram því, sem vitlausast var í pólitík vinstri stjórnarinnar hvað þetta snertir. Það sést bezt á því, að það kom fram hjá okkur t.d. í fjhn., að ein af ástæðunum fyrir því, að menn vildu hafa þetta frjálst, væri, að við fengjum ekki nógu góða og fallega skó handa okkar kvenfólki í Tékkóslóvakíu eða þessum löndum og þess vegna þyrftum við að flytja þetta inn frá öðrum löndum. Með því að láta það vera að taka lán í frjálsu gjaldeyrislöndunum hefðum við einmitt haft peninga afgangs til þess að kaupa skó handa okkar fögru konum, þannig að það hefði verið skynsamlegt af vinstri stjórninni strax að taka þar upp aðra pólitík og væri skynsamlegt líka af núverandi hæstv. ríkisstj. að gera, en hún er að gera þar þveröfugt. Ég vil bara benda hæstv. ríkisstj. á, að ráðstafanirnar, sem hún er að gera í þessum efnum núna, koma til með að þýða, að þegar þetta hrynur eftir nokkra mánuði allt saman, þá stöndum við uppi, verðum að borga 800 millj. kr. skuld við frjálsu gjaldeyrislöndin, sem þýðir, að við verðum að takmarka allan innflutning frá þeim löndum, bara til þess að geta verið heiðarlegir menn, af því að það er búið að steypa okkur í þessa vitleysu, og stöndum helmingi verr að vígi með að kaupa kvenskó og annað slíkt. Jafnvel þó að menn vilji gjarnan kaupa ýmsa fallega vöru og tízkuvöru, þá verða menn að hafa einhverja ofur litla forsjálni fyrir sér, þegar menn stjórna búskap þjóðar eins og okkar Íslendinga.

Í þriðja lagi ákæri ég ríkisstj. fyrir það að vera að stöðva atvinnuþróunina á Íslandi með þessum ráðstöfunum, og ég vek eftirtekt hennar á því, að bara strax lántakan upp á 800 millj. kr., sem má ekki verja til þess að koma upp atvinnutækjum á Íslandi og ekki er skipulagt af hálfu ríkisstj. að verja til þess að koma upp atvinnutækjum á Íslandi, sem geri okkur efnahagslega sjálfstæðari, það þýðir beinlínis að draga úr atvinnuþróuninni hér heima og stöðva hana og hindra okkur í því að geta nýtt okkar auðlindir.

Ég vil spyrja hæstv. ríkisstj. að gefnu tilefni. Það er nú sem stendur samkvæmt yfirlýsingum þeirra manna, sem bezt þekkja til um síldarmagnið hér í sjónum í kringum okkur, þá eru síldartorfurnar svo að segja frá Vestmannaeyjum til Vestfjarða, og ég held, að ég megi fullyrða, að það hafi verið lóðaðir raunverulega heilir fjallgarðar af síld í sjónum hér suðvestur af Vesturlandinu, — og hvernig ætlar hæstv. ríkisstj. að tryggja hagnýtingu á þessum auðlindum? Hvar eru rökin fyrir því í þessu frv., að það hjálpi til þess að að nýta þessar auðlindir? Sjálfur undirbúningurinn að þessu frv., flutningur þess og samþykkt þess, ef hún fer fram, þýðir að eyðileggja þessi verðmæti og hindra Íslendinga í því að nota þau. Ég spyr hæstv. ríkisstj.: Ætlast hún til þess, að hugsanlegir saltendur hér við Faxaflóa fari að Salta hundruð þúsunda tunna af síld, fari að frysta hundruð þúsunda tunna af síld án þess að hafa hugmynd um að selja þetta? Hefur ekki sjálf þessi hæstv. ríkisstj. og aðrar slíkar undanfarið haft þá reglu, að jafnóðum sem svo og svo mikið væri framleitt af síldinni, þá væri hótað að stöðva framleiðsluna, ef ekki væru skapaðir fyrirframsamningar fyrir meiru, — og hvar eru fyrirframsamningar ríkisstj. til þess að tryggja hagnýtingu þeirra síldartorfa, sem hér bíða fyrir utan núna? Hvar eru þeir? Hvar er forsjálni ríkisstj. í þessu? Ætlar hún bara að segja: Einkaframtakið á að sjá um þetta?

Ég vil vekja eftirtekt á því, hvaða glæfraspil þarna er verið að spila, og strax núna með flutningi þessa frv, er verið að eyðileggja verðmæti upp á tugi og hundruð milljóna króna, í staðinn fyrir að hafa undið bráðan bug að því, undireins og þessi ríkisstj. tók við völdum, að reyna að gera stóra fyrirframsamninga um að tryggja, að þegar síldin kæmi og ef hún kæmi, þá gætum við selt nógu mikið af henni. Ríkisstj. hefur sýnt algert sinnuleysi, algert ábyrgðarleysi gagnvart þjóðarbúskap Íslendinga í þessum efnum, og ég vonast til þess, að hæstv. ráðh. gefi svör við þessu, þegar hann kemur til með að svara því, og ég vil minna hann á í því sambandi, hvernig var síðasta sumar hjá okkur, þegar hann líka var ráðherra og þegar síldin var þá fyrir Norðurlandi og þegar átti að fara að stöðva alla síldveiðina. Það er jafnsárt að stöðva síldveiði eða hindra hana á Suðurlandi eins og á Norðurlandi. Og hvernig var þá? Var þá treyst á einkaframtakið? Eða þótti honum skynsamlegra að reyna að treysta á fyrirframsamninga? Og af hverju vill hann það ekki núna? Af hverju er hann að fara inn á það glæfraspil að taka upp þessa stefnu, sem þetta frv. markar?

Ég var að heyra það í dag, að fiskimjölsverksmiðjan Klettur væri að leigja enn eina skemmuna til þess að geyma fiskimjöl í, sem hrúgast upp hér óselt. Af hverju? Af því að það fékkst ekki selt með góðu verði til vöruskiptalandanna í fyrra. Þess vegna liggjum við með miklar birgðir frá því í fyrra, af því að þessi fjandskapur á móti því að selja til þessara landa réð gerðum ríkisstj. og hindraði hana í því.

Hv. frsm, meiri hl., hv. 6. landsk. (BK), talaði um það, að ég hefði verið eitthvað bitur í þeirri ræðu, sem ég hélt hér við 1. umr. málsins, og hefði ekki aðeins rætt þetta almennt frá pólitísku sjónarmiði. Það er vafalaust rétt hjá honum, og ég get vel sagt bæði honum og öðrum hv. þm., hvernig á því stendur, að ég er bitur, þegar rætt er um þessi mál. Það er ekki aðeins spursmálið þarna um hagsmuni alþýðunnar, velferð og efnahagslegt sjálfstæði okkar íslenzku þjóðar, sem ég þó náttúrlega fyrst og fremst ber fyrir brjósti í þessu, heldur skal ég alveg hreinskilnislega segja það, að mér finnst það persónulega ákaflega sárt að sjá til þess, að öllum lærdómum, sem maður hefði átt að draga út af reynslu síðustu 30–40 ára á Íslandi, skuli raunverulega vera kastað fyrir borð af mönnum, sem virðast enga ábyrgðartilfinningu hafa fyrir velferð íslenzku þjóðarinnar. Frá því að ég fyrst fór að hafa nokkur kynni sem ungur maður af atvinnulífi hér á Íslandi, hefur mér sárnað það, sem ég hef upplifað. Eitt af því fyrsta, sem ég lenti í af slíku, er 1927. Eftir að ég hafði þá um veturinn ráðizt allharkalega á ýmsa síldarútflutningsmenn á Norðurlandi fyrir þeirra sinnuleysi um öflun síldarmarkaða, þá stóð ég frammí fyrir því sumarið 1927, að þeir komu til mín, sem var algerlega óreyndur í öllum verzlunarmálum og öllu slíku, hafði aldrei komið nærri neinu slíku, og sögðu, að ef ég áliti þá svona slæma og fyrirhyggjuleysi í þessu öllu saman, þá skyldi ég nú sýna, að ég gæti bjargað þeim, og settu mig í að fara að selja síld til Rússlands og sögðu: Svo framarlega sem ekki er hægt að selja þessa síld til Rússlands, þá fellur allt verð á síldinni, þannig að það verður hrun hér á Norðurlandi. — Það var kreppa á Síldarmarkaðinum yfirvofandi, síldin var bjargræðisvegur okkar Norðlendinga. Við urðum að lifa af því allt árið, sem hún gaf að sumrinu, venjulega á þessum árum, og það þýddi fátækt og skort og sult á heimilunum, svo framarlega sem þetta brást, og líka ef það varð hrun eins og 1919, vegna þess að síldarmarkaðirnir féllu. Og ég man alltaf eftir því, þegar ég tók þessari áskorun þeirra og fór með einum síldarbát Ásgeirs Péturssonar, þess gamla brautryðjanda í síldveiðunum á Íslandi, frá Siglufirði til Akureyrar, og þegar við vorum að koma út fyrir Siglunes og Ásgeir Pétursson fór upp úr lúkarnum, af því að það var eitt af hans skipum öðrum, — hann átti fleiri en eitt, — að koma inn, til þess að kíkja á, hvort það væri með síld. Og þegar hann kom niður aftur, sagði hann: Guði sé lof, það er ekki með neina síld. — Þetta var ástandið, og þetta orð hefur brennt sig inn í mig, þegar svo er komið, að það, sem er bjargvætturinn, eins og síldin fyrir okkur Norðlendinga, að mennirnir, sem leggja mikið á sig og sýna dugnað og framtakssemi í því að afla skipa og gera þau út, þeir segja: Guði sé lof, það er engin síld, — af því að þeir eru hræddir um, að með hverjum síldarfarminum, sem við bætist, fari allt, sem fyrir er og þeir eru búnir að veiða, til fjandans, af því að verðið fer niður. Þeir mundu allir eftir 1919, þegar það endaði með því, að það varð að keyra síldina í sjóinn. Það er þetta að upplifa þá frjálsu samkeppni, sjá, hvernig það kapítalistíska stjórnleysi er hættulegra fyrir okkur en jafnvel skorturinn á fiskinum og síldinni, að jafnvel aflaleysisárin voru skárri en þegar yfirdrifið veiddist af síld, meðan við vorum einvörðungu háðir þeim kapítalistísku mörkuðum, Svíunum og öðru slíku. Ég hef aldrei gleymt því, þessu viðhorfi, þessu að þurfa að hræðast það að fá síld, þessu að þurfa að hræðast það, að auðlindirnar væru gjöfular við okkur, — og ég strengdi þess heit þá að reyna að sjá til þess, þar sem ég mætti vinna, að Íslendingar gætu notað sínar auðlindir, og þess vegna sárnar mér í hvert skipti sem ég finn, að stjórnarvöldin fara inn á þá leið að eyðileggja auðlindir Íslands og hindra okkar þjóð, hindra okkar verkamenn, sjómenn og aðra í því að geta notað þessar auðlindir, eins og hæstv. ríkisstj. er nú að gera viðvíkjandi síldartorfunum, sem bíða í sjónum hér fyrir utan núna.

Það var erfitt að selja til Rússlands þá. Það tókst að selja og tókst að forða því, að síldarverðið færi niður fyrir allt. Sovétríkin voru fátæk. Það varð að selja gegn 12 mánaða víxlum, sem enginn á Íslandi vildi kaupa og bankarnir létu liggja hjá hálfgjaldþrota útgerðarmönnum í heilt ár og þeir héldu að aldrei yrðu innleystir. Það er öðruvísi að eiga viðskipti núna. En það er eins og menn hræðist þau núna. Það er þess vegna, þegar síldin og allt, sem gæfan gefur okkur, kemur, þá kemur kapítalisminn hins vegar og kemur í veg fyrir, að við getum hagnýtt þetta. Þess vegna er það, sem ég hatast við, að það sé farið að innleiða þennan prívatkapítalisma aftur á Íslandi, af því að ég veit, hvað það þýðir, og þekki það betur en þeir yngri menn, sem aldrei hafa kynnzt þessu af eigin raun. Ég hef síðan reynt að gera, hvaða stjórnir sem hér hafa setíð að völdum á Íslandi, allt, sem ég hef getað, til þess að tryggja Ísland gegn þessum vágesti, vágesti kapítalismans. Hvort sem Magnús Guðmundsson hefur verið ráðh. hér eða Haraldur Guðmundsson 1936, þá hef ég reynt að vinna að því fyrir þá að koma á þessum viðskiptum, þó að það hafi fyrst tekizt til langframa í nýsköpunarstjórninni 1945. Þessi viðleitni þeirra flokka, sem ég hef starfað í, hvort það hefur verið Alþfl„ Kommúnistaflokkurinn eða Sósíalistaflokkurinn eða nú þingflokkur Alþýðubandalagsins, þessi viðleitni hefur miðað að því að reyna að bjarga Íslandi og íslenzkum almúga undan fargi kapítalismans, undan þeim skelfingum að horfa á auðlindirnar frammi fyrir sér og geta ekki notað þær. Og það hafa aldrei verið til svo vitlausir ráðherrar á Íslandi, að þeir hafi ekki reynt að hagnýta sér þetta. Það er þess vegna hart, að það skuli vera núna lagt fram frv., sem beinlínis stefnir að því að gera þeim ráðherrum, sem mundu kannske vilja slíkt, miklu erfiðara að hagnýta sér slíka möguleika. (Forseti: Ég vil biðja hv. ræðumann um að gera svo vel að gera hlé á máli sínu. Nú verður fundi frestað, til kl. 5.) Ég skal gera það. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég hafði í því, sem af er ræðu minni, rætt nokkuð um reynsluna viðvíkjandi síldarsölunni í sambandi við hina svokölluðu frjálsu verzlun og þá reynslu, sem við Íslendingar hefðum haft á því sviði. En það er ekki aðeins um síldina að ræða í þessu sambandi og þau vandræði, sem við komum til með að lenda í út af síldarsölu, svo erfið sem þau kunna að verða, og ég vona, að það fari ekki svo með alla þá síld, sem hér er fyrir utan núna, að hæstv. ríkisstj. ætti til að segja eins og útgerðarmaðurinn, sem ég var að vitna í áðan: Guði sé lof, það er engin síld, — vegna þess að það angraði hann svo, að síldin skyldi vera svona mikil, vegna þess kerfis, sem hún er nú að koma á. En við skulum bara líta á fiskinn líka, annan fisk en síldina. Það er nákvæmlega sama að verða upp á teningnum viðvíkjandi vissum hlutum af fiskútflutningnum núna eins og er viðvíkjandi síldinni. Ég vil t.d. nefna eitt atriði. Við höfum verið að reyna að fikra okkur ofur lítið áfram með niðursuðu, Íslendingar, gengið nokkuð erfiðlega. En eitt af því öruggasta, sem við höfum þó haft á undanförnum árum í slíku, hefur verið nokkur niðursuðumarkaður í Tékkóslóvakíu, og eitt fyrirtæki hér, Matborg, hefur framleitt hinn svokallaða sjólax, sérstaklega tilreiddan fyrir tékkóslóvakiskan markað. Nú hefur ríkisstj. tekið ákvörðun. Og ég vona, að hæstv. viðskmrh. sé það ljóst, þegar talað er um að minnka innflutninginn jafnvel niður í 77% frá löndum eins og Tékkóslóvakíu og Austur-Þýzkalandi, þá er þar með sagt, að raunverulega sé stefnt að því að minnka útflutninginn frá Íslandi um 77%, vegna þess að það eru ekki önnur viðskipti örugg við þessi lönd en þau, sem eru gerð með kaupum og sölum og fyrirframsamningum um leið, vegna þess að þeirra kerfi er ekki miðað við svokallaða frjálsa samkeppni. Mér er sagt, að verksmiðjan Matborg liggi nú með verðmæti niðursuðuvöru upp á 21/2 millj. kr. og það sé sem stendur enginn samningur við Tékkana um þetta. Það er vitað, að kaupmenn á Íslandi, heildsalar á Íslandi hafa á undanförnum mánuðum vegna umtalsins um frjálsa verzlun minnkað sín viðskipti við Tékkóslóvakíu. Við Íslendingar höfum fyrir ráðstafanir ríkisstj. minnkað viðskipti við Tékkóslavakíu, sem þýðir, að inneignir okkar hjá Tékkum eru allmiklar, og Tékkar kæra sig ekki um að skulda okkur neina verulega stóra upphæð, sem þýðir, að þeir aftur draga úr viðskiptunum. Og nú er mér spurn: Er hæstv. ríkisstj. kunnugt um það, að verðmæti upp á 21/2 millj. kr., sem verksmiðjan Matborg hefur framleitt, liggi nú óseld í augnablikinu og að engir samningar hafi komizt á enn sem komið er? Ég skal segja um leið: Ef ríkisstj. á morgun kaupir vörur frá Tékkóslóvakíu fyrir 21/2 millj. og lætur þessar 21/2 millj. fara þangað, þá verður þessu vafalaust bjargað um leið, vegna þess að við höfum nægan markað fyrir þessar vörur í Tékkóslóvakíu. En kerfið er miðað við, að innflutningur og útflutningur standist á, það eru svokölluð jafnvirðiskaup, og þó að íslenzka ríkisstj. vilji gjarnan skulda 800 millj. kr. í París eða Washington, þá virðist ríkisstj, í Prag ekki vera sérstaklega umhugað um að skulda. Það er dálítið misjafnt, hvers konar hugmyndir menn hafa um það að skulda. Gamall sparisjóðsstjóri var nýlega að segja það við einn ungan mann, að hann væri alveg hissa á, hvernig þróunin væri að verða hjá fólki, það væri eins og enginn hefði áhuga á að borga sínar skuldir. Og það er kannske orðið dálítið landlægt hjá okkur Íslendingum, hvað okkur þykir gott að skulda. En það er ekki víst, að öllum þyki það.

Við höfum byggt allmikið á þessum markaði í Tékkóslóvakíu, og ég held, að það sé verið að fara af stað núna með að byggja verksmiðju á Akureyri, sem á að nota loðnuna þar, sardínurnar, raunverulega eins og þær eru, til þess að leggja niður og selja út, og við höfum líka markaði í Tékkóslóvakíu fyrir þær, og við erum að byggja verksmiðju núna til þess að gera þetta. En um leið og framtaksmenn á Íslandi eru að leggja grundvöll að því að byggja verksmiðju til þess að gera þetta, þá er ríkisstj. að kippa grundvellinum undan verksmiðjunni, vegna þess að menn vilja vita fyrir fram um það, hvort þeir geta selt þessa hluti, og það dugir engin afsökun í þessum efnum. Það er ekki til neins fyrir hæstv. ríkisstj. að heimta endilega, við skulum segja af Tékkum í þessu tilfelli: Þið eigið að fara að keppa hérna. Þið getið verið fullsamkeppnisfærir. — Spurningin er ekki um það. Spurningin er um, að þeirra kerfi segir: Við ætlum ekki að skulda neinum neitt. Við seljum og við kaupum jafnmikið, og kaupi ríkisstj. á morgun vörur fyrir 21/2 millj. frá Tékkóslóvakíu, þá selur hún sjólax fyrir 21/2 millj um leið. — Það er þetta kerfl, sem ríkisstj. verður að læra og ætti að vera búin að læra. Og það er ekki til neins fyrir hana að ætla að þvinga sínu úrelta, frjálsa samkeppniskerfi upp á einhverjar aðrar þjóðir. Við Íslendingar verðum að laga okkar þjóðarbúskap að því að geta verzlað annars vegar við þessar þjóðir, sem hafa annað kerfi, og hins vegar við hinar þjóðirnar, þær kapítalistísku þjóðir, sem aftur á móti hafa þetta frjálsa samkeppniskerfi. Þess vegna er þarna hætta á ferðum, og þegar við höfum byggt upp búskap á þennan máta, þá höfum við verið með vissan áætlunarbúskap. Ég veit t.d., að þessi litla verksmiðja hérna, Matborg, hefur framleitt hvert af síðustu árunum fyrir 41/2 millj. kr., og hún hefur framleitt fyrir um 10 millj. kr. á undanförnum tveimur árum á gamla genginu fyrir utan uppbætur. Það er ekki svo lítið verðmæti, og þetta hefur verið góð vara og ein af fyrstu niðursuðuvörunum frá Íslandi, sem virkilega hefur unnið sér markað og líkar ágætlega þarna. Það vinna við þetta milli 25 og 40 manns. Það hefur verið unnið þarna mikið til í tveim vöktum. Þetta hefur verið sem sé mjög praktískt að láta vinna. Hins vegar þola þessar vörur yfirleitt ekki geymslu. Ég vil vekja athygli hæstv. ríkisstj. á þessu, vegna þess að þetta kerfi, sem hún er að innleiða, er hengingaról á íslenzkt atvinnulíf. Hér er verksmiðja í Reykjavík, sem getur stöðvazt út af þessu. Ég er ekki að segja þar fyrir, að þessi verksmiðja geri ekki eins mikið og hún getur til þess að selja t.d. í Vestur-Þýzkalandi og annars staðar, sem hægt væri að selja þetta. En mér er ósköp vel sjálfum kunnugt um, hvað Vestur-Þjóðverjar framleiða sjálfir mikið af sjólaxi. Ég er hræddur um, að með þessu kerfi, sem ríkisstj. er að byrja á, brjóti hún þetta allt saman niður og komi í veg fyrir það, sem hún er nú að reyna að byrja á, eins og með nýjar verksmiðjur í þessum efnum. Þarna er sem sé hætta á ferðum. Við verðum að hafa einhvern áætlunarbúskap í þessu. Við byggjum ekki nýja verksmiðju, sem við ætlum að byggja upp á Akureyri, á öðru en því, að við höfum einhverja vissu um markað fyrir framleiðslu hennar.

M.ö.o.: hvort sem við lítum á fisk eða síld, þá er verið með þessum ráðstöfunum, sem ríkisstj. er að gera, að innleiða Ísland og innlima það í hringa- og kreppukerfi auðvaldsins. Það er hægt að kalla það hvaða nafni sem við viljum, frjálst viðskiptakerfi eða hvað sem er, það er hringa- og kreppukerfi. Og afleiðingin af þessu verður atvinnuleysi og hrun.

Ég var nýlega staddur á Selfossi. Það er, eins og þið vitið, þorp, sem mikið byggir á landbúnaðinum, í miðju stærsta bændahéraði Íslands. Fólkið á Selfossi er að byrja að finna afleiðingarnar af pólitík ríkisstj. Hv. frsm. meiri hl. fjhn. sagði hér áðan, að nú fengju menn frelsið, nú væri mönnum heimilað að byggja eftir getu. Í fyrra um þetta leyti sóttu 40 menn um að byggja íbúðir á Selfossi og byggðu þær allir. Hvað margir heldur hæstv. ríkisstj. að sæki um núna? Mér var tjáð, að það væru tveir að hugsa um að sækja um það. Það er heimilað að byggja eftir getu. Þetta er afleiðingin. Og þetta er byrjunin, áður en frelsiskerfið er komið í fullan gang. Eftirvinnan er þar svo að segja horfin, hjá öllum nema einu fyrirtæki þar. Uppsagnir eru orðnar tíðar, atvinnuleysi vofir yfir bráðum. Og það er ekki vert fyrir ríkisstj. að fara í neinar felur með það.

Verðlækkanirnar, sem leiðir af þessu kerfi, eru þegar byrjaðar. Hæstv. viðskmrh. veit, að það var hægt að selja í fyrra til Tékkóslóvakíu, snemma árs í fyrra, síldarmjöl. Það var ekki gert. Það var beðið, af því að Seðlabankinn og aðrir ráku á eftir, að það fengist frjáls gjaldeyrir fyrir það, og það var beðið og beðið, þangað til allt var að hrynja. Það eru engin ný fyrirbrigði, þó að það komi atriði eins og sardínuframleiðslan í Suður-Ameríku. Slíkir hlutir eru alltaf að gerast í auðvaldsheiminum. Það þýðir, að ef maður er einvörðungu háður öllum verðsveiflunum þar, þá er ekki til neins að bera sig upp undan því, eins og undan einhverjum náttúruhamförum. Maður er að velja þetta, þennan trölladans.

Fyrst farið var að minnast á síldarmjölið og síldarlýsið, þá er það kannske ljóst dæmi um, hvers konar frelsi það er, sem við eigum við að búa í þeim kapítalistíska heimi. Við Íslendingar þekkjum það. Við höfum nú fengizt við það að selja síldarlýsi í 3–4 áratugi, og hvert hefur frelsið verið? Frelsið hefur verið það, að fram til 1945 hefur það verið einn einasti aðili, sem hefur keypt af okkur allt síldarlýsi, og það er Unileverhringurinn brezki, sá hringur, sem hefur átt allar herzluverksmiðjur á Norðurlöndum, í Þýzkalandi, Hollandi, Englandi, öllum þessum löndum yfirleitt, inn í Tékkóslóvakíu, eins og hún var þá, einn einasti hringur, sem ræður þessu öllu saman, sami hringurinn sem þá átti margar millj. í Vestur-Þýzkalandi eða þáverandi Þýzkalandi, helminginn af hlutabréfunum í öllum þýzka togaraflotanum, sá hringur, sem átti verksmiðjurnar í Noregi, sá hringur, sem hafði eftirlit með síldariðnaði og hvalveiðiflota Norðmanna og réð markaðsverðinu á hvallýsi og síldarlýsi í heiminum. Ég gæti rakið hér verðið fyrir hv. stjórnarliði, eins og það var alveg frá því 1949, hvernig þeir skömmtuðu okkur skít úr hnefa, hvernig þeir felldu í sífellu verðið og hvernig þeir sögðu okkur fyrir á stríðsárunum og skömmtuðu okkur þá líka skít úr hnefa fyrir okkar síldarlýsi. Þessi sami hringur hefur allan tímann okrað á okkur í krafti einokunaraðstöðu á þessum svokölluðu frjálsu mörkuðum. Og þessi sami hringur endaði sinn feril með því, að eftir að Alþ. var búið að samþykkja 1942 að koma upp lýsisherzluverksmiðju á Íslandi, sem yrði honum óháð, og við keyptum inn vélarnar til slíkrar verksmiðju 1945, þá kom hann því í gegn í íslenzku ríkisstj., sem tók við 1947, að vélarnar voru ekki notaðar til að koma upp lýsisherzluverksmiðju, og voru, þegar áburðarverksmiðjan var stofnuð, seldar til hennar, vegna þess að tök þessa hrings voru svo sterk á viðskiptunum við Ísland, að hann gat ráðið því, hvers konar verksmiðjur væru byggðar hér. Þetta er frelsið, sem er verið að bjóða okkur upp á. Það er rétt eins og þeir menn, sem tala um þetta, hafi ekki hugmynd um, hvað gerzt hefur síðustu 30–40 árin í heiminum. Ef menn halda, að það sé eitthvert frelsi á þessu sviði, þá ættu þeir bara að kynna sér, hvernig hefur verið að verzla með þetta. Ég átti þátt í að brjóta einokun þessa hrings á síldarlýsi, þegar hann var búinn að setja bann á Tékkóslóvakíu, af því að þeir höfðu þjóðnýtt verksmiðjurnar, og ég veit ósköp vel, hvað við fengum að heyra frá Bretlandi þá, af því að við áttum þátt í ríkisstj. hér, fyrir að hafa brotið bandaríska auðhringinn og selt síldarlýsið fyrir þrefalt hærra verð en það hafði gefið okkur allt stríðið út í gegn. Maður hefur fengið að kynnast, hvers konar frelsi þetta er: svívirðilegasti okurhringur heimsins. Unilever er sjötti stærsti hringur veraldarinnar, á meginið af framleiðslulindum Mið-Afríku fyrir utan öll þau tök, sem hann hefur á Norðvestur-Evrópu, þar sem hann framleiðir kókosfeitina og allt annað slíkt. Það hefur verið algert einræði í þessum efnum, sem hefur kæft framfarir þjóðar eins og okkar, komið í veg fyrir, að við gætum verið óháðir, komið í veg fyrir, að við ynnum sjálfir úr okkar síldarlýsi tólgarskildina, til þess að geta selt þá til hvaða smjörlíkisverksmiðja í Evrópu sem væri. Þess vegna er alveg rétt að gera sér það ljóst frá upphafi, þegar verið er að ræða um þetta, að það er verið að innlima Ísland í hringa- og kreppukerfi, og ekki vera að fegra það með neinum orðum um hina frjálsu samkeppni. Þess vegna er einmitt það, sem ég mælti hér áðan viðvíkjandi því aðhaldi, sem ríkisstj. hefur viljað skapa á ýmsan hátt, sem ég auðvitað vildi telja það eina lofsverða í hennar viðleitni, þá verður meira að segja það aðhald ekki skapað í þessum svokallaða frjálsa viðskiptaheimi, vegna þess að þessir íslenzku atvinnurekendur eru sem einstaklingar engir menn til þess að fást við þessa voldugu hringa, ekki vegna þess, að þeir væru kannske ekki jafnskynsamir og duglegir og hver þeirra stjórnenda sem væri, en bara vegna þess að þeir eru litlir og fátækir, samanborið við þá. Við erum trampaðir niður, við erum slíkir dvergar í viðskiptunum við þessi risavöxnu fyrirtæki. Við höfum á síðustu áratugum verið að heyja okkar frelsisbaráttu á þessu sviði við þessa hringa. Danska einokunin var slæm, en þessir hringar eru margfalt sterkari en nokkur dönsk einokun hefur verið nokkurn tíma. Og þegar við erum að tala um, hvernig við eigum að standa okkur og hvers konar viðskiptakjör við eigum að geta gefið okkar þjóð, þá fer það eftir því, hvað vel við skipuleggjum okkar eigin framleiðslu til þess m.a. að geta háð okkar frelsisbaráttu gegn þessum hringum. Afleiðingarnar af þessu frv., ef að lögum yrði, yrðu þær að gera okkur undirorpna þeim, stöðva okkar framkvæmdir, láta þá geta fyrirskipað okkur, hvað við eigum að byggja hér og hverju við eigum að koma upp og hverju við megum ekki koma upp.

Þá er ein vörn ríkisstj., sem hv. frsm. meiri hl. fjhn. lagði mikið upp úr í þessu sambandi, og það er, að þessar ráðstafanir, sem nú ætti að gera, væru eina ráðið gegn verðbólgu. Ég skal viðurkenna, að það getur verið ráð gegn verðbólgu í þessu. Það eru rétt rök, að með því að framfylgja til hins ýtrasta og alveg vægðarlaust í öllum tilfellum þeirri pólitík, sem ríkisstj. hefur farið inn á, með vaxtahækkunum, lánatakmörkunum og öllu slíku, þá getur hún komið í veg fyrir verðbólgu. En þó að við höfum þjáðst undir verðbólgu á s.l. 20 árum, þá skulum við gá að því, að það er ekki eina meinið í veröldinni. Verðbólga er slæm út af fyrir sig, og ef hún er mjög hröð,

þá getur hún drepið menn alveg. Ég þekki það sjálfur, ég hef upplifað slíka verðbólgu. Sú verðbólga, sem verið hefur á Íslandi, er slæm. En hún er ekki steindrepandi fyrir þjóðfélagið. Hún gereyðileggur okkur ekki, hún hefur ekki verið það hröð. En hún er slæm, það er alveg rétt. En við skulum ekki einblína svo á hana, að við sjáum ekki neitt annað. Ég skal viðurkenna, að sú pólitík, sem ríkisstj. fer inn á, getur verið ráð gegn verðbólgu með því móti, að ríkisstj. þá í staðinn skipuleggi hrun, og það er það, sem hún er að gera, ef hún framfylgir sinni pólitík. Ríkisstj. er að fara inn á hrossalækningu gegn verðbólgu. Og nú vil ég bara beina einni fsp. til ríkisstj. Hún hefur lýst því yfir, að hún ætli að takmarka útlánaaukninguna alveg ákveðið í ár án tillits til, hvernig allt gengur á Íslandi. Nú vil ég bara spyrja hana, og hér eru menn, sem geta gefið upplýsingar um það. Við stöndum frammi fyrir vertíðarlokum, 11. maí eru vertíðarlok. Nú skulum við segja, að í einhverjum af okkar verstöðvum, t.d. eins og stærstu verstöðvum, í Vestmannaeyjum, þá sétt erfiðleikar hjá útgerðarmönnum. Það er vitanlegt, að það hefur verið heldur lakari útkoma nú í Vestmannaeyjum, þó að hún hafi verið góð hér við Faxaflóa, og nú þarf að gera upp fyrir 11. maí. Við skulum segja, að útgerðarmennina í Vestmannaeyjum vanti svo og svo mikið, þá vanti kannske 7, 8, 9 eða 10 millj. kr. til þess að geta gert upp. Og við skulum bara segja, að nafni minn hérna þyrfti einn að fá helminginn af þessu, af því að það hafi gengið erfiðlega með hans fyrirtæki. Ég spyr hæstv. ríkisstj.: Hvað ætlar hún að gera? Ætlar hún að láta bankana auka útlánin, þannig að þeir standi í skilum? Ætlar hún það? Eða ætlar hún að láta alla þá fara á hausinn, sem vantar peninga? Á að fara að ganga að útgerðarmönnum? Á að fara að ganga að hraðfrystihúsunum, af því að þau standa ekki í skilum? Það hafa verið yfirlýsingar, að það eigi að banna bönkunum að auka útlánin. Er þá meiningin að fara að setja menn á höfuðið, jafnvel þótt þeir séu milljónamæringar, af því að þá vanti veltufé? Við höfum varazt þetta á undanförnum árum, og það hefur verið ráðizt jafnvel á menn fyrir, að það er enginn settur á hausinn, það eru engin gjaldþrot. Er meiningin núna að setja menn á hausinn? Ég skal viðurkenna, ef ríkisstj. fer inn á það, að hún fari að láta bjóða bátana upp núna af því, að útgerðarmaður hefur ekki getað staðið sig við bankann, að láta bjóða hraðfrystihúsin upp núna og slær þau hæstbjóðanda, eins og var um daginn með Vött, þó að jafnvel hlutirnir fari fyrir hálfvirði, ef það eru einhverjir, sem geta borgað út, — ég skal vissulega viðurkenna, að það er hægt að vinna gegn verðbólgu með slíku. Þetta er stundum gert gagnvart einstaklingum, sem eiga íbúðir og geta ekki staðið í skilum. Þeir verða kannske að selja þær og selja þær fyrir miklu lægra verð en þær hafa kostað, af því að það eru ekki til menn, sem geta borgað út. Með svona aðferðum, hinum venjulegu gamaldags kapítalistísku aðferðum er vissulega hægt að vinna gegn verðbólgu, með því að skapa efnahagslegt hrun, gera peningana ákaflega dýrmæta, vegna þess að menn geti keypt eignir, sem eru margfalt meira virði en sem samsvarar þeim peningum, sem þeir greiða fyrir þær. En þorir ríkisstj. að eiga við svona pólitík? Þorir hún að standa við þær yfirlýsingar, sem hún hefur gefið, þær heimskulegu öfugyfirlýsingar, sem hafa verið gefnar um að takmarka, hvað Seðlabankinn megi lána viðskiptabönkunum hérna, þær vitlausu yfirlýsingar, sem ef þær væru framkvæmdar eru fjötur um háls íslenzkrar framleiðslu og fyrst og fremst íslenzkrar útgerðar? Það reynir á um, hvort hún þorir að standa við þetta, skapa sams konar fjötur á peningasviðinu og hún hefur verið að skapa á framleiðslusviðinu með sjálfri verzlunarpólitíkinni, sem hún er að leggja til að taka upp í þessu frv. Það er ekki nokkur þörf á því að fara út í svona asnalega pólitík á móti verðbólgu.

Það er hægt að stöðva verðbólgu, þó að sé það fyrirkomulag, sem nú er, ég tala nú ekki um áætlunarbúskap. E.t.v. gerir hæstv. ríkisstj. sér ljóst, að það er mjög fjarri því, að sósíalistískur búskapur skapi verðbólgu, heldur þvert á móti. Aðferðin við kauphækkanir núna, t.d. í sósíalistísku löndunum, er mestmegnis sú að lækka verðið á vörunum, láta sem sé kaupgjaldið kannske standa í stað eða jafnvel hækka það, en lækka verðið á vörunum, þannig að það er alveg þveröfugt. Með þessu móti hefur skapazt traust á peningunum, og menn vita jafnvel, þegar sífelldar verðlækkanir eru að gerast, að svo framarlega sem þeir spara sína peninga, þá fá þeir enn þá meira, með því að kaupa sér útvarpstæki næsta ár í staðinn fyrir í ár, þá fæst það víst enn þá ódýrara. Það er hægt að koma í veg fyrir verðbólgu líka með ráðstöfunum í okkar þjóðfélagi. Alþb. beitti sér alveg sérstaklega fyrir slíkri verðstöðvunarstefnu. Það voru hins vegar Framsfl. og Alþfl., sem knúðu það fram, að horfið var frá henni í vinstri stjórninni á móti okkar vilja. Það er m.ö.o. hægt að vinna gegn verðbólgu með því fyrirkomulagi, sem hér hefur verið á undanförnum árum. Það, að það hefur ekki alltaf verið gert, stafar af allt öðru, og ég hef lýst þeim orsökum hér. Ég hef lýst þeim sameiginlegu hagsmunum voldugustu viðskiptaaðilanna í þessu þjóðfélagi, þeirra manna, sem skammta sér lánin út úr ríkisbönkunum, að þeir hafa áhuga á því að lækka alltaf gengið á krónunni til að hagnast á verðbólgunni, og vegna þess að þessir sameiginlegu hagsmunir þeirra hafa ráðið á undanförnum áratugum, hefur verðbólgan verið skipulögð. Reykjavíkurauðvaldið og Sambandið sem stærstu aðilarnir sem viðskiptamenn Landsbankans og Útvegsbankans og slíkra, þeir hafa haft hagsmuni af verðbólgunni. Þess vegna hafa þeir skipulagt hana. Þeir hafa grætt á henni, grætt stórkostlega á henni. Þeir hafa strikað sínar skuldir út, margfaldað verð sinna fyrirtækja: Þetta er ákaflega einfalt reikningsatriði: Stöðvið þetta, látið þið þessa stærstu skuldunauta bankanna hér og þessi ríkustu félög þjóðfélagsins hætta að hafa þessa aðstöðu, að geta grætt á því að skulda, og þá stöðvið þið verðbólguna. Auðvaldið á Íslandi hefur skipulagt verðbólguna og enginn annar, og auðvaldið á Íslandi hefur grætt á verðbólgunni og enginn annar.

Ég hef margsinnis sett það fram hér, hvernig hægt væri með slíku sterku aðhaldi ríkisvaldsins að stöðva og hindra alla verðbólgu, segja við atvinnurekendurna: Þið getið hækkað kaupið við verkamenn, en þið gerið það því aðeins að þið berið þetta sjálfir. — Það er ekki verkalýðurinn, sem hefur hagsmuni af verðhækkunum.

Ég skal láta þetta nægja í svipinn, nema að því leyti sem ég kæmi aftur að því í þeim hluta minnar ræðu, þar sem ég svara hv. frsm. meiri hl. um sjálft verzlunarfrelsið.

Þá er viðvíkjandi fjárfestingareftirlitinu, sem nú skal afnema. Þar hafði ég lýst eftir svari og bíð eftir því í sambandi við það, sem ég nefndi hér sem hugsanlega möguleika, eins og t.d. viðskipti Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og t.d. fyrirtækis eins og Kassagerðarinnar, hvaða öryggi eigi að skapa þarna Íslendingum. Það er talað um, að það sé verið að skapa Íslendingum fjárfestingarfrelsi með þeirri ráðstöfun, sem nú er verið að gera hér. Það eru undarlegar hugmyndir, sem menn gera sér um frelsi. Ef það er frelsi til fjárfestingar að koma á banni á lánveitingar ríkisbankanna til þeirra í þjóðfélaginu, sem vildu festa féð, og setja 12% vexti á það fé, sem menn gætu með erfiðismunum krækt út úr þessum bönkum, þá er það undarlegt frelsi. Höft innflutningsnefndarinnar eru afnumin, höft bankavaldsins eru margfölduð. Og ég hef bent á, að það er hægt í skjóli þessa einokunarvalds, sem er látið haldast í skjóli bankavaldsins og ríkisvaldsins, og með einokunarvaldi útflytjendanna er hægt að beita þeirri lúalegustu misnotkun á því valdi gagnvart fyrirtækjum hér á Íslandi. Ég skal hins vegar ekki fjölyrða um það, vegna þess að ég vonast eftir því, að hæstv. viðskmrh. svari þeim fsp. í sinni ræðu. Ég ítrekaði þetta í fjhn., þannig að ég geng út frá því, að það verði gert, og mun þess vegna ekki að sinni fjölyrða meira viðvíkjandi fjárfestingarmálinu, nema þá ég komi kannske inn á það í svarhluta af minni ræðu.

Þá er það viðvíkjandi útflutningnum. Í útflutningnum á að halda við einokun. Í útflutningnum eru hringar nú þegar að verki og hafa verið um langt árabil á Íslandi. Um leið og talað er um verzlunarfrelsi, þá er m.ö.o. ákveðið, að hvað útflutning Íslendinga snertir, þá skuli vera einokun. Og þessi einokun er tvöföld. Þessi einokun er annars vegar prívatkapítalistísk einokun þeirra samtaka, sem þarna eru fyrir, og hins vegar einokun ríkisvalds og í skjóli þess. Og þessu einokunarvaldi hefur verið beitt þannig undanfarið, að hafi menn leitað eftir því við Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna að fá að selja fisk, t.d. til Bandaríkjanna, til annarra aðila en þeirra, sem Sölumiðstöðin selur til núna, þá neitar Sölumiðstöðin að láta slíkan fisk í té, og hún getur neitað þessu í krafti þess valds, sem hún veit á bak við sig, sem sé ríkisvaldsins.

Ég álít, að það sé mótsögn í þessu frv. að vera að tala þessi ósköp um frelsi og verzlunarfrelsi og þora svo ekki eða vilja ekki fara inn á það að gefa frelsi í útflutningi. Og ég vil lýsa því yfir, að ég álít það stórhættulegt, fyrst á að að skapa frelsi um innflutninginn, að viðhalda einokuninni, sem nú er í útflutningnum.

Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur vafalaust á sínum tíma unnið ýmislegt gagn, og slíkt fyrirtæki er ekki óeðlilegt. En ég álít, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hafi gert sig seka um hirðuleysi í sambandi við þá útflutningsmarkaði, sem hafa þó jafnvel verið henni hvað drýgstir. Mér er kunnugt um, að t.d. aðalforstjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna hefur ekki haft svo mikið við að heimsækja þau lönd, sem kaupa meiri hluta af öllum okkar freðfiski, fyrr en máske einu sinni núna í ár. Og mér er kunnugt um, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem setur milljónir í fyrirtæki til þess að afla markaðs í Bandaríkjunum, Bretlandi og Hollandi og gerir þar vafalaust mikið að því að auglýsa slíkt með öllum nýtízkuhætti, hefur ekkert gert, ekki nokkurn skapaðan, hrærandi hlut til þess að leiðbeina um notkun fisksins í stærstu markaðslöndum okkar. Sem sé, það hefur verið algert hirðuleysi um að reyna að tryggja og festa þann markað, sem okkur hefur tekizt að vinna þarna. Það hefur, að því er virðist, verið ætlazt til þess, að yfirvöldin í landinu, stjórnarvöldin, sæju bara um að útvega þessa markaði og halda þeim við, en sem verzlunarfyrirtæki hefur Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna ekkert gert til þess að tryggja þessa markaði og efla þá, — og ofan á það hefur jafnvel verið sendur þangað verri fiskur en annað og löndin stundum notuð eins og ruslakista. Það er þess vegna mjög hættulegt að láta þá einokun viðhaldast, ef á að fara að innleiða svokallað frelsi í innflutningi, svo takmarkað sem það er, og er það eitt enn, sem getur orðið til þess að eyðileggja samböndin við þetta.

Ég hef rætt mikið um þá ofsatrú og þá glæfra, sem felast í því að ætla að fara inn á þessa svokölluðu frjálsu samkeppni. Þegar farið er inn á einhverja svona hluti, þá er venjulega betra að hafa eitthvert samræmi í vitleysunni, eitthvert „system í galskabet“, eins og Danskurinn mundi segja, og það væri þá nær, að þeir, sem eru að káka með þessa hluti núna, gæfu þá útflutninginn frjálsan líka. Það mundi þó skapa eitthvert aðhald. Það mundi þó skapa það aðhald, að menn hefðu ekki aðra peninga að verzla með heldur en þá, sem menn gætu aflað sér með útflutningi, og það þýddi, að það yrði þá eftirsóknarvert að skapa markaði fyrir fisk og framleiða fisk.

Ég veit ekki, hvort útflytjendurnir — þeir eiga nú sína fulltrúa hér líka — eru svo mjög ósammála mér um þetta, og mér heyrðist jafnvel frsm. hv. meiri hl. fjhn. ekki vera alveg fjarri þessu. En hví í ósköpunum er það þá ekki gert? Það mundi þýða, að menn yrðu að sýna áhuga og dugnað í því að afla markaða og viðhalda þeim, og menn hefðu ekki úr öðru að spila en því, sem þeir fá fyrir sinn fisk, og það mundi skapa áhuga á því að auka fiskframleiðsluna á Íslandi og auka markaðina og samkeppni um það, það mundi, eins og hv. frsm. meiri hl. orðaði það, jafnvel leiða til þess, að það yrði heill her manna, sem væri að vinna að því erlendis að skapa markaði, koma upp mörkuðum.

Nú aftur á móti á að viðhalda einokun á þessu, þegar ríkið er þó annars að sleppa hendinni af þessum hlutum. Ég satt að segja skora á ríkisstj., ef hún ætlar sér á annað borð að fara út í þá glæfra, sem þessi svokallaði frjálsi innflutningur er, að skapa þá það aðhald um leið, því að heildsalarnir hér í Reykjavík hefðu gott af því, að þeir vissu það, að þeir fengju ekki annan gjaldeyri en þann, sem aflað væri með því að flytja út úr landinu. Þar væri þó aðhald. Það mundi þó þýða, að þjóðfélagið yrði ekki sett á annan endann og okkur stefnt í voðalega skuldasúpu, sem við gætum ekki borgað. En ég er nú hræddur um, að það kæmi nokkuð fljótt upp, að það yrði að setja nokkuð margs konar skorður, bæði viðvíkjandi eftirliti með því, að menn skiluðu þá gjaldeyrinum einhvern tíma, og eins með því, að það yrði eitthvert lágmarksverð á vörunni, sem út væri flutt, og annað slíkt, svo að ég held, að það sýni sig yfirleitt, hvað rökrétt sem menn vildu fara í það að koma á svokallaðri frjálsri verzlun, að það séu engir raunhæfir möguleikar til þess hér á síðari hluta 20. aldar að ætla að koma upp þessu fyrirkomulagi afturgangnanna.

En ég vil benda á eitt. Ef á að gera innflutninginn frjálsan og halda útflutningnum í fjötrum, vilja menn þá hugleiða, hvað það þýðir? Það þýðir, að sjómennirnir og smáútvegsmennirnir á Íslandi fá ekki frelsi til að selja sinn fisk. Þeim er ekki leyft að selja fiskinn sinn. Það eru Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, skreiðarsamlagið og saltfiskhringurinn, sem ráða því með ríkisstj. að baki sér. Nú skulum við segja, að fulltrúar sjómanna og smáútvegsmanna segðu: Við getum selt okkar fisk með góðu verði og keypt vörur fyrir hann og keppt með þær á Íslandi. því megum við það ekki? — Og svo kemur fiskhringurinn á öllum þessum sviðum og segir: Það er ómögulegt að selja betur en þetta og þetta, þú verður að láta þér það lynda, — útgerðarmaðurinn eða annar slíkur. Og við höfum jafnvel þegar deilu um það, að hraðfrystihúsin eru að skammta útgerðarmönnum og sjómönnum lægra verð en þeir vilja við una. Þá eru sjómenn og útvegsmenn á Íslandi sviptir því frelsi að mega sjálfir reyna að selja sinn fisk sem bezt og skapa sér sin eigin samtök.

Ég vil minna á, að við höfum í 30 ár orðið að berjast við hneyksli út af svona meðferð. Við höfum haft sannanirnar á borðinu fyrir því, að útvegsmenn hafa getað selt fiskinn sinn, t.d. til Ítalíu, dýrar en Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda gat selt hann. Við höfum haft sannanir fyrir því, að fulltrúar fiskhringsins hér heima hafa farið út til Ítalíu til að múta fiskkaupendum þar, þannig að þeir byðu ekki í fiskinn á Íslandi. Þetta eru dæmi, sem eru komin í okkar sögu sem staðreyndir um, hvernig þessir fiskútflutningssvindlarar haga sér. Ég hef dæmin í dag um, að menn vilji gjarnan selja til vesturstrandar Bandaríkjanna hraðfrystan fisk og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hindri það, að hægt sé að fá nokkurt tilboð í hann á Íslandi. Sem sé, fiskeinokunin hér heima heldur þessu í sínum heljarklóm, og ef hún ætlar svo að koma á eftir og segja við sjómenn og verkamenn: Það er ekki hægt að borga hærra kaup en þetta hérna, það er ekki hægt að borga hærra fiskverð en þetta hérna, — þá ætlast menn sem sé hér á Alþingi til þess, að sjómenn og verkamenn trúi þessu. Við gerum það ekki, og ég skora á þá, sem ætla að koma til okkar og segja slíkt, að gefa þetta allt saman frjálst þá, ef þeir ætla að fara að gera innflutninginn frjálsan, lofa sjómönnum og útvegsmönnum á Íslandi að berjast eins og öðrum við að útvega sér markaði, en þurfa ekki að horfa upp á það, að nokkrir skeytingarlausir braskarar kæfi þessa markaði þeirra og eyðileggi þá.

Það, sem er sem sé meiningin viðvíkjandi útflutningnum, er að viðhalda hringaeinokun í krafti ríkisvalds. Hvað þýðir það raunverulega? Það þýðir raunverulega, að það er verið að gera þannig upp á milli, að það á að þjóðnýta gjaldeyrinn, sem sjómenn og útvegsmenn framleiða, handa heildsölunum í Reykjavík til þess að braska með.

Ég held það sé bezt að setja þessa heildsala frammi fyrir því, að þeir fái því aðeins gjaldeyri, að það séu einhverjir, sem framleiða fisk og selja hann. Það gerir ekkert til, þó að heildsalarnir hér í Reykjavík yrðu að hafa meiri áhuga á fiskframleiðslu en þeir hafa haft. Þeir hafa nú í 30 ár setið í því, að gjaldeyririnn hefur verið tekinn af útvegsmönnunum og sjómönnunum og afhentur þeim, afhentur verzlunarauðvaldinu til þess að fara með eins og því þóknaðist meira eða minna. Og þessi einokun verzlunarauðvaldsins í Reykjavík er ekki afnumin með þessu hérna, henni er viðhaldið, og það kemur engin rödd fram frá verzlunarauðvaldinu í Reykjavík um frelsi útvegsmannanna til þess að ráða sínum gjaldeyri. Þar koma takmörkin, því að þar koma stéttahagsmunirnir til. Heildsalarnir hafa hagsmuni af því, að gjaldeyririnn sé tekinn af útvegsmönnunum og sjómönnunum og afhentur þeim.

Ég vil því taka það fram, að það er á ábyrgð hæstv. ríkisstj., allt það, sem ekki kann að vera hægt að selja af íslenzkum afurðum nú, allt saman, því að hún viðheldur með þessu kerfí og sérstaklega með því, sem nú er að koma upp, prívatkapítalistískum hringum innanlands hvað útflutninginn snertir og gerir okkur háðari og háðari prívatkapítalistískum hringum erlendis, með því að gera okkur háðari og háðari þeim kapítalistíska markaði. Ef ríkisstj. hefur slíka ofsatrú á frjálsri samkeppni sem hún segist hafa, þá skora ég á hana að sýna það í verki með því að gefa útflutninginn algerlega frjálsan líka og hætta þá að skipta sér af þessu. Annaðhvort er fyrir hana að bera ábyrgð á þessu eða þá að lofa þjóðinni sjálfri að bjarga sér sem bezt hún getur.

Ríkisstj. er með þessum lögum að neyða skipulagi einkaauðvaldsins upp á Ísland, skipulagi innlends og erlends einkaauðvalds. Það er rétt hjá hv. frsm. meiri hl. fjhn., að það eru raunverulega ekki nema tvær leiðir til í þessu. Það er annaðhvort að stefna í þá áttina, sem nú á að stefna, að endurreisa, að svo miklu leyti sem það hefur verið til, einkaauðvald á Íslandi og alræði erlends og innlends einkaauðvalds á Íslandi, eða stefna í áttina til áætlunarbúskapar. Og allar framfarir á Íslandi eru undir því komnar, að það síðara sé gert, eins og allar framfarir, sem orðið hafa á þessum undanförnum árum, eru því að þakka, að það hefur öðru hverju verið sýnd einhver ofur lítil viðleitni í þá átt, þó að hún sé ósköp lítil.

Afleiðingin af því, sem nú er stílað upp á hér á Íslandi, verður landflótti. Það verður stöðvun á fyrirtækjunum, og það verður landflótti að lokum. Það kemur til með að þýða það, að fleiri og fleiri menn á Íslandi missa trúna á það, að hér sé hægt að búa, og fari burt, og það er þegar að byrja að kræla á því.

Ísland verður því aðeins æ byggilegra fyrir þá þjóð, sem það byggir, ef því er stjórnað betur en öðrum löndum, stjórnað af meiri fyrirhyggju, meiri stórhug og meira viti. Okkar land vantar ýmislegt í auðlindum, sem aðrar þjóðir hafa. En við verðum að bæta úr því með því, að stjórnarfarið á Íslandi miðist meira við það en í öðrum kapítalistísku löndum, að stjórnarvöldin hafi velferð almennings og afkomuöryggi hans fyrir augum, þegar verið er að gera þær efnahagslegu ráðstafanir, sem gerast. Ég skal láta þetta nægja viðvíkjandi því, sem ég almennt vil segja viðvíkjandi því nál. mínu, sem útbýtt verður á morgun.

En hv. frsm. meiri hl, fjhn. kom hér inn á ýmis atriði, sem ég rétt þarf að minnast á. Ég tók eftir því í hans ræðu og raunverulega var öll hans ræða gagnþrungin af heitri trú á þá stefnu, sem þetta frv. að nokkru leyti boðar. Og einmitt vegna þess, að ég er viss um, að þessar miklu vonir, sem hann gerir sér, eftir því sem hann talaði, reynist tálvonir, þá vil ég fara nokkuð inn á hans ræðu, af því að það er nauðsynlegt fyrir okkur og sérstaklega nú við þessa 2. umr. að ræða þetta mál það ýtarlega, að við vöðum ekki í villu og svima um, hvað við séum að gera, og göngum alveg úr skugga um þessa hluti.

Hv. 6. landsk. þm. lýsti þeirri trú sinni, að þessi stefna, sem hér væri farið inn á, þýddi viðreisn í okkar atvinnulífi, hún þýddi batnandi lífskjör, þýddi aukna framleiðslu. Ég er alveg viss um, og það er nú þegar að byrja að koma fram, að þessi stefna þýðir ekki viðreisn, heldur hrun. Og það er að byrja nú þegar. Það er þegar verið að kippa stoðum og jafnvel grundvelli undan mörkuðum, sem við höfum haft, og þar með undan fyrirtækjum, sem hafa starfað blómlega undanfarið. Þessi stefna þýðir ekki batnandi lífskjör, heldur versnandi lífskjör, og ríkisstj. hefur sjálf byrjað að framkvæma þessa stefnu sína með því að rýra lífskjörin meira en nokkur önnur ríkisstj. hefur gert í 20 ár. Þessi stefna þýðir ekki aukningu framleiðslunnar, heldur stöðvun á framleiðslunni. Og það hefur ekki verið hægt í þessum umræðum að sýna fram á eitt einasta dæmi um von um aukningu á framleiðslu í sambandi við þetta frv.

Þá talaði hv. 6. landsk. þm. um, að það væri hættulegt að vera einstökum mörkuðum of háður. Og það var eftirtektarvert, hvaða markaði hann nefndi. Hann nefndi, hvað það væri slæmt að verða þannig háður síldarmörkuðum Svíþjóðar, hvað það hefði verið slæmt að vera háður fiskmörkuðum Spánar, hvað það hefði verið hart að vera háður fiskmarkaði Bretlands. Allt eru þetta kapítalistískir kreppumarkaðir, allt saman lönd, sem eru í OEEC, efnahagssamvinnu Norðurálfu, þannig að allt eru þetta dæmi um, hve hættulegt það er fyrir okkur Íslendinga að vera háðir þessum kapítalistísku mörkuðum.

Þá kom hann inn á það, hvort jafnkeypissamningarnir gerðu okkur háða. Nei, jafnkeypissamningarnir gera okkur ekki háða, það eru samningar, sem skapa okkur tryggingu, öryggi fyrir framleiðslu, og eru gagnkvæmir. Við kaupum jafnmikið af þeim löndum og við seljum til þeirra. Við verðum þeim ekki skuldugir, og þau verða okkur ekki skuldug. Þvert á móti sýnir reynslan okkur það, að fjarri fer því, að þessir jafnkeypissamningar geri okkur háða slíkum löndum, heldur hafa einmitt samningarnir við þessi lönd verið okkur bjargráð í þeim góða skilningi þess órðs, þó að farið sé að nota það oft illa, eins og hv. 6. landsk. þm. einmitt kom inn á, þegar okkar ágætu bandamenn, Bretar, lokuðu fyrir okkur fiskmarkaðinum 1952. Hvert sneri þáv. ríkisstj. sér, ríkisstj. Framsóknar- og Sjálfstfl.? Til Sovétríkjanna, til þess að gera jafnvirðiskaupasamning við Sovétríkin, og þau beinlínis björguðu okkur undan því banni, sem þessir þokkalegu bandamenn okkar, Bretar, settu á okkur. Það er náttúrlega rétt almennt séð, að Ísland er háð erlendum mörkuðum í þeim skilningi, að þegar við flytjum út þriðjunginn af allri okkar framleiðslu, þá þurfum við á öllum þessum mörkuðum að halda til þess að lifa. Það er allt annað. Spurningin er hins vegar hvort við getum hagað þannig okkar viðskiptum, að við verðum aldrei einhliða of háðir einstökum aðilum í þessu, og það er það, sem við höfum verið að reyna að gera á undanförnum árum. Og sú jafnvægispólitík, sem er eina skynsamlega jafnvægispólitíkin, sem við höfum rekið, hefur tekizt vonum framar.

Þá kom hv. 6. landsk. inn á höftin og að við hefðum verið búnir að búa við þau, og rakti alla sögu þeirra í 30 ár, frá okt. 1931. Af hverju höfum við búið við þessi höft? Af því að bitur reynsla hratt okkur út í þau, svo bitur reynsla, að við áttum einskis annars úrkosta en annaðhvort að hálfdrepast í þessu landi okkar og taka upp Ameríkuferðir að nýju eða eitthvað slíkt, nýjan landflótta, eða reyna að finna einhver ráð til að gera Ísland byggilegt. Ég man eftir ráðunum, sem sumir afturhaldsseggirnir hér á Íslandi gáfu okkur 1934 í. kreppunni. Þegar ung hjón voru að gifta sig, þegar atvinnuleysið var í Reykjavík, þá sögðu þeir: Þau geta farið upp í sveit og vistráðið sig þar. — Að vera vistráðið hjú og horfa fram á það mestallt sitt líf, þetta var það, sem var látið blasa við sem framtíðin. Slíkir menn mundu heldur flýja land en hokra þar eins og menn gerðu um 1890. Það er ekki til neins að bjóða upp á svona. Það er þessi bitra reynsla, sem hefur rekið okkur út í það að taka upp þessi höft. Hverjir voru það, sem tóku upp höftin? Það voru Sjálfstfl. og Framsfl. Það var meira að segja enginn kommúnisti á þingi þá. Það var svo ótvíræð járnhörð nauðsyn, að sjálfir aðaláhangendur frjálsrar samkeppni gengu fram fyrir skjöldu og það ekki þeir, sem voru smæstir og veikastir í frjálsu samkeppninni. Sterkasta fyrirtækið, sem þá var til á Íslandi, þegar kreppan skall á, var Kveldúlfur. Og hvað gerði Kveldúlfur, Kveldúlfur og Alliance, fiskhringurinn, sem ræður 90% af útflutningi Íslands í frjálsri samkeppni þá? Það er hann, sem kemur til ríkisvaldsins og segir: Það verður að taka upp ríkiseinokun á fiskútflutningnum og fá þá ríkiseinokun þessum okkar fiskhring í hendur, til þess að við getum lifað, annars förum ekki bara við á hausinn, heldur fer líka Landsbankinn á hausinn og þjóðfélagið á hausinn. — Þetta er reynslan, sem rak okkur út í það. Það er reynslan af kapítalismanum. Það er hún, sem knúði Ísland út í þetta.

— Það, sem hefur verið gallinn í þessi þrjátíu ár, er, að Ísland skuli ekki hafa borið gæfu til að taka upp sósíalisma. Þar höfum við verið að tvístíga allan þennan tíma, þar eð við höfum verið með höft, sem hafa þýtt skriffinnsku, spillingu, þröngsýni, vitleysu, helmingaskipti og allt mögulegt slíkt. Sjálfstfl. og Framsókn hafa verið að dunda við að semja sín á milli í 30 ár um, hvernig eigi að skipta spillingunni í sambandi við þessi höft oft og tíðum, og ég frábið mér, að það sé kallaður sósialismi. Nei, en hins vegar hafa þessir flokkar ekki verið að gera þetta að gamni sínu. Þeir hafa gert þetta vegna þess, að kreppan var að drepa Ísland, vegna þess, að því unga íslenzka ríki var kastað út í hringiðu kapítalismans í heiminum, þegar það varð sjálfstætt ríki, og fær að kenna svo óþyrmilega á þessum óvætti, sem kapítalisminn er, að það reynir að finna eitthvað út til þess að bjarga sér, svo að það sé ekki alveg drepið.

Hv. 6. landsk, þm. sagði, að þrjátíu ára saga sýndi, að höftin gætu ekki tryggt verðgildi myntar okkar íslenzku krónu. Það er alveg rétt hjá honum, þau hafa sýnt það. En hafa þau sýnt það, að höft séu ófær til þess, þótt þessi þrjátíu ára saga hafi sýnt það? Eða hafa þau sýnt það, að frjálst hagkerfi svokallað sé fært um að tryggja verðgildi myntar? Í því frjálsa hagkerfi hefur t.d. sterlingspundið fallið tvisvar sinnum á þessum tíma. Og ég skal nefna annað: Það eru ýmsir möguleikar til þess að tryggja ákveðið verðgildi myntar. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. 6. landsk. þm.: Hvað álítur hann vera rétt gengi á dollarnum í dag? Bandaríkjamenn þykja líklega standa fremst um frjáls viðskipti og um rétta mynt og rétt gengi, og ég vil segja, að þrjátíu ára saga sýnir, að það er ekki hægt með svokölluðum frjálsum viðskiptum að tryggja verðgildi myntar. Dollarinn hefur fallið, hann hefur hríðfallið á þessum tíma, þrátt fyrir allt frelsið, þrátt fyrir það þótt meiri hluti af gullforða hins kapítalistíska heims sé í Bandaríkjunum. En hvernig hafa Bandaríkin farið að? Jú, þau hafa farið þannig að, að dollarinn er skráður gagnvart allri annarri mynt, ensku pundi, danskri og íslenzkri krónu, á helmingi hærra gengi, tvöfalt hærra gengi en hans raunverulega gengi er. Hv. 6. landsk. þm. getur spurt hagfræðiprófessorana í Kaupmannahöfn að því, hvað sé raunverulegt gildi eins dollars. Dollarinn er skráður miðað við danska krónu 15 cent, en kaupgildi þeirra danskra króna, sem dollaraeigandi fær í Danmörku, gefa honum 30 centa andvirði fyrir, gefa honum helmingi meira. Skráningu dollarsins er haldið uppi í veröldinni, eftir að dollarinn er fallinn, með ofbeldi og hervaldi og áhrifum amerísks auðvalds. Það eru allar þjóðir með því stjórnmálavaldi, sem Bandaríkin hafa, með þeim ítökum, sem þau hafa, knúðar til þess að skrá dollarinn á tvöfalt hærra gengi en hann raunverulega er, og þessari staðreynd munu ekki hagfræðingar þess kapítalistíska heims þora að neita. Hvað þýðir þetta? Það þýðir, að þegar t.d. amerískur ferðamaður kemur til Danmerkur og kaupir þar fyrir sína dollara danskar vörur, þá fær hann fyrir þær helmingi meira af vörum en hann fengi í Bandaríkjunum. Það þýðir, að þegar stór amerískur hringur kemur hvort heldur er til Vestur-Þýzkalands eða Kaupmannahafnar og kaupir þar upp fyrirtæki og er búinn að skipta dollarnum á þessu gengi, þá getur hann keypt helmingi meira af vélum, verksmiðjum eða öðru slíku hvað verðgildi snertir í þessum ríkjum heldur en hann getur í Bandaríkjunum. — Þess vegna hafa amerískir auðhringar getað náð tökum á fyrirtækjum í Vestur-Þýzkalandi og þessum ríkjum fyrir helmingi lægra verð en þessi fyrirtæki raunverulega kosta, í krafti þeirrar skráningar, sem er á dollarnum. Þetta er sama aðferð og t.d. það nazistíska Þýzkaland notaði gagnvart Danmörku, þegar Danmörk var hernumin. Danski seðlabankinn var skyldaður til að taka við mörkunum eins og nazistarnir skráðu þau, og í krafti þess gátu þeir rænt Danmörku. Og Bandaríkin eru í dag að ræna hvert einasta land, líka Ísland, í krafti falskrar skráningar á dollarnum. Dollarinn hefur þrátt fyrir allt þetta frelsi, sem talað er um, og frelsið í Ameríku, fallið, hann hefur hríðfallið raunverulega, en skráningunni er haldið rangri til þess að gera amerísku auðvaldi mögulegt að ræna öll svokölluð bandalagslönd Bandaríkjanna.

Það er ekki af engu, að Bandaríkjaauðvaldið er búið að ná undir sig svo og svo miklu af fyrirtækjum, t.d. í Vestur-Þýzkalandi. Þetta er sama sem hernám, ökonómískt hernám. innrás og rán, en það er gert á ósköp penan hátt, bara með falskri skráningu á dollar. Dollarinn hefur fallið, þó að þar hafi ekki verið höft og annað slíkt. Það, hvort eru höft eða ekki höft, er því ekki það, sem ræður úrslitum í því að viðhalda verðgildi einnar myntar. Það, sem ræður úrslitum í að viðhalda verðgildi einnar myntar, eins og t.d. okkar, það er að auka okkar framleiðslu innanlands, þannig að okkar útflutningur sé sem mestur, takmarka dálítið það, sem við kaupum inn, og gera það skynsamlega.

Til þess að viðskiptajöfnuðurinn hjá okkur sé öruggur og helzt hagstæður, skal gengi okkar myntar haldast. Þess vegna snertir þetta ekkert, hvort það eru höft eða ekki höft. Það snertir bara, hvort það er rekin skynsamleg viðskiptapólitík, hvort það er rekin forsjál viðskiptapólitík eða ekki. Við höfum neyðzt undir áhrifum amerísks auðvalds til þess að fella okkar gengi nú tvisvar sinnum, 1950 og 1960. Bandaríkin hafa fyrirskipað okkur með Marshall-samningnum að skrá rétt gengi, og þau koma sjálfum sér undan að skrá rétt gengi. Þau skrá falskt gengi um allan heim, þau stela og ræna í krafti falsks gengis af öllum þjóðum, sem þau þykjast vera að hjálpa. Það má mikið vera, ef hv. 6. landsk. er ekki sammála mér um þetta.

Þá segir hv. 6, landsk., að haftakerfið sé uppspretta óeðlilegrar gróðamyndunar, það geri alþýðu manna fátækari. Jæja, ef haftakerfið er uppspretta óeðlilegrar gróðamyndunar og gerir alþýðu fátækari, þá ættum við að fara að sjá eitthvað af því, að hún yrði ríkari og betur stæð, þegar haftakerfið yrði afnumið. En hvað sjáum við fram á? Við sjáum fram á, að sjálfir postular frelsisins segjast ekki geta afnumið haftakerfið nema með því að byrja að gera alþýðuna á Íslandi fátækari, fátækari en hún hefur verið nokkurn tíma síðustu tuttugu ár, þrátt fyrir það, þó að í þessi 20 ár hafi hún fengið fyrst upp undir 600 millj. kr. í svokallaðan stríðsgróða og alla þá nýsköpun atvinnulífs, sem hann var að nokkru leyti notaður til, þó að hún hafi fengið Marshallgjafir upp á álíka upphæðir og þó að hún hafi tekið lán erlendis, sem hefði með skynsamlegri stjórn verið hægt að nota til þess að auðga hana með því að kaupa framleiðslutæki fyrir, þá á alþýða manna nú, þegar frelsið kemur, að búa við lélegri kjör en hún hefur búið við öll þessi 20 ár, — lélegri kjör. Hún á einskis að fá að njóta af allri þeirri aukningu framleiðslugetunnar, sem orðið hefur á Íslandi þessi 20 ár. Framleiðslan hefur aukizt stórkostlega á Íslandi þessi 20 ár, en postular frelsisins segja: Alþýðan verður að vera fátækari en hún var fyrir 20 árum. Þeir ætla að einoka fyrir sig allt, sem Ísland hefur auðgazt á þessum áratugum, og þá segjum við nei.

Haftakerfið er ekki nein sérstakleg uppspretta óeðlilegrar gróðamyndunar. Það er hægt að skapa óeðlilega gróðamyndun alveg jafnt í svokölluðu frjálsu kerfi. Gróðamyndun auðvaldsins í Bandaríkjunum hefur getað verið nógu stórkostleg, þó að það væri ekki svokallað haftakerfi þar. Mér heyrðist annars hv. 6. landsk. þm. vera nú ekki allt of öruggur um uppsprettu gróðans í sambandi við þetta nýja kerfi, sem á að taka upp. Hann var að heimta, að verðlagsákvæðin yrðu afnumin. Verðlagsákvæðin eru nú í augnablikinu það eina litla, sem eftir er skilið til þess að reyna að tryggja alþýðu ofur lítið gegn okrinu og arðráninu, og það er auðheyrt, að honum finnst frelsi heildsalanna ekki orðið nóg, fyrr en verðlagstakmarkanirnar eru afnumdar líka.

Svo talaði hv. 6. landsk. þm, um gervibúskap, um gervibúskap haftanna á þessum undanförnum 30 árum. Jæja, látum þá vera, ef við köllum það gervibúskap. En við þennan gervibúskap þessara síðustu 20 ára hafa alþýðufjölskyldurnar á Íslandi lifað betur en alþýða hefur nokkurn tíma lifað á Íslandi fyrr. Þeirra búskapur hefur verið þannig, að menn hafa ekki endilega þurft að borða tros sex daga vikunnar, eins og þegar frelsi var, þegar sá raunverulegi búskapur var. Menn hafa ekki þurft að ganga atvinnulausir þrjá til fjóra daga í hverri viku, eins og var, meðan frelsið var. Menn hafa ekki þurft að segja sig eins mikið á sveit og ekki heldur missa kosningarréttinn við það, eins og var, meðan frelsið var. Þessi ár, sem hv. 6. landsk. kallar ár gervibúskaparins, eru ár mestu framfara í sögu Íslands, stórkostlegustu efnahagslegu framfara, sem Ísland hefur nokkurn tíma upplífað, — framfara, sem jafnvel hafa vakið athygli á Íslandi og sett það í fremstu röð þjóða hvað snertir lífsafkomu. Í stað þeirrar neyðar, sem við bjuggum við, meðan frjálsa verzlunin var, t.d. 1920–30, hefur komið sæmileg afkoma og sérstaklega þó nokkurt afkomuöryggi þessi síðustu 20 ár. Það hefur ekki verið gervibúskapur hjá alþýðu manna, það hefur verið raunverulegur, sæmilegur afkomubúskapur hjá alþýðufjölskyldunum. Ég þekki það tímabil, sem íhaldið fékk að ráða eitt í þessum efnum og framkvæma sínar hugmyndir um frjálsa samkeppni og þegar það var látið bitna á alþýðufjölskyldunum, svo framarlega sem atvinnurekendurnir höfðu ekki neinn áhuga á atvinnurekstrinum. Ég man enn þá eftir því ástandi á Akureyri, þegar atvinnuleysið, landlægt atvinnuleysi hvern einasta vetur, svarf þannig að, að vikum saman voru fátækir menn að íhuga það og berjast við það, hvort þeir ættu að segja sig til sveitar eða hálfsvelta fjölskyldur sínar, vegna þess að ef þeir sögðu sig til sveitar, misstu þeir kosningarrétt. Ég man eftir ákvörðunum, sem við höfðum orðið að taka í stjórn jafnaðarmannafélagsins á Akureyri þá um að segja ákveðnum meðlimum okkar félags að segja sig til sveitar og missa kosningarréttinn, vegna þess að heimilið var búið að svelta lengi undan atvinnuleysinu, sem þá var. Þetta var ástandið, sem við bjuggum við, á meðan frelsið var, meðan verzlunarfrelsið var, meðan atvinnurekendurnir, sem höfðu kannske hrúgað upp einhverjum fyrirtækjum, hættu við þau, fluttu til Hafnar eða fluttu til Reykjavíkur og skildu alþýðuna eftir svona. Það er á móti þessu verzlunarfrelsi braskaranna, sem alþýðan á öllum þessum stöðum hefur orðið að skapa sér sínar bæjarútgerðir og annað slíkt, orðið að basla með þetta. Það er á móti þessum braskbúskap, á móti þessari neyð, sem ríkið hefur orðið að koma upp þeim höftum, sem vissulega voru framkvæmd ósköp vitlaust oft og tíðum, en við fulltrúar alþýðunnar höfðum gert það, sem við höfðum getað, til þess að skapa eitthvert vit í og gera jákvætt og skapandi. Þess vegna skulum við varast að kalla það gervibúskap, sem verið hefur þessi ár, þótt ýmislegt megi að honum finna. Hins vegar hefur sá áætlunarbúskapur, sem hv.. 6, landsk. þm. minntist á, aldrei verið reyndur á Íslandi, því miður. Hann hefur aldrei komizt á þrátt fyrir okkar baráttu í því efni. Það hafa verið gerðar smátilraunir til þess að hagnýta einhvern ofur lítinn anga af þeirri hugsjón, í sambandi við ákveðnar nefndir og ráð, sem settar hafa verið á stofn, og þó að lítið hafi verið, hefur það hjálpað þó nokkuð.

Það var vissulega hugmynd, sem á rót sína að rekja til áætlunarbúskapar, þegar nýsköpunin var sett á laggirnar 1944, og þótt undarlegt megi virðast, hefur núv. hæstv. forsrh., sem þá var líka forsrh., verið svo stoltur af þessari smátilraun, sem gerð var þá, að hann hefur aldrei mátt á þá stjórn minnast án þess að lofsama hana meira en nokkra aðra stjórn, og hefur hann oft verið ráðh. og forsrh, á Íslandi siðan. Svo vel hefur honum þótt það takast, þegar þessi lítil angi af sósíalistískri hugsjón var hagnýttur á borgaralegu Íslandi, enda það borgaralega Ísland tórað á því síðan og heildsalarnir haft sína peninga til þess að verzla fyrir af því, sem nýsköpunartogararnir og bátarnir hafa gefið.

Áætlunarbúskapur hefur því miður ekki verið reyndur, en með það litla, sem gerðar hafa verið tilraunir til að hagnýta einhvern anga af honum, höfum við bjargazt af þessi síðustu 20 árin. Við höfum haft sára reynslu af frjálsu samkeppninni, og það var ekki aðeins svo, að þeir færu á hausinn, eins og ég var að minnast á áðan, kaupmennirnir og atvinnurekendurnir úti um allt land, Bogesenarnir þá, það endaði með því, að þeirra aðalfyrirtæki, Íslandsbanki, fór á hausinn líka. Þetta var allt að fara á hausinn, vegna þess að Ísland stóðst ekki hringiðu kreppunnar. Kreppan ætlaði að drepa okkur, og þess vegna urðum við að forða okkur á einhvern hátt út úr þessu.

Hv. 6. landsk. vitnaði mjög stoltur til Þýzkalands og yfirlýsingar, sem Erhard ráðh. þar gaf um, að þeir Vestur-Þjóðverjar hefðu ekki bara breytt reglum hernámsstjórnarinnar, heldur hefðu þeir afnumið þær. Við skulum aðgæta, að það er tvennt dálítið ólíkt, sem þarna á sér stað. Vesturþýzka auðvaldið er með bezt skipulögðu auðmannastéttum heimsins. Hvað sem okkur kann að greina á um Þjóðverja almennt, þá býst ég við því, að við séum sammála um, að þeir séu góðir menn til skipulagningar, hafi einhverja mestu skipulagshæfileika, sem nokkur þjóð hefur, ef hægt er að tala um það yfirleitt sem þjóðareinkenni. Og hvað snertir auðvaldsþróunina í Þýzkalandi, þá hafa auðhringarnir þróazt þar og stóriðjufyrirtækin og bankarnir vaxið þar saman á síðustu 60 árum í eins ríkum mæli og í nokkru öðru kapítalistísku ríki heims, jafnvel sterkar en í Bretlandi, jafnvel eins sterkt og í Bandaríkjunum, þannig að auðvaldið í Þýzkalandi er háþróað hringaauðvald og þær voldugu samsteypur, bæði I. G. Farben, bæði þeirra stóri kemíski hringur og þeirra voldugu málm- og stálfyrirtæki, voru með voldugustu hringum heims. Það þarf ekki annað en að minna á nöfn eins og Krupp eða I. G. Farben, til þess að menn muni eftir, hvílíkir drottnar í atvinnulífi veraldarinnar þýzku auðhringarnir voru. Og hvað var það, sem Erhard var að gera? Við vissum ósköp vel, að jafnhliða því sem síðasta stríð var stríð á móti nazismanum, þá var líka í því fólginn viss þáttur, sem snerti verzlunarsamkeppnina á milli brezka auðvaldsins annars vegar og jafnvel fleiri auðmannastétta og þýzka auðvaldsins hins vegar, og það, sem brezka auðvaldið hafði m.a. sérstakan áhuga á, var að sundurlima þýzka auðhringavaldið, til þess að það yrði ekki samkeppnisaðili við það, og það, sem Erhard var að gera, var að slíta þessa fjötra, sem hernámsyfirvöldin höfðu lagt á þýzka hringaauðvaldið, af þýzka hringaauðvaldinu og segja: Við skeytum ekkert um ykkar boð. Við höfum ekki breytt þeim, við höfum afnumið þau, eins og hv. 6. landsk. þm. vitnaði í áðan. Það þýddi: þýzka hringaauðvaldið var að slita af sér fjötrana, sem hernámsvöld Bandamanna. höfðu lagt á það, og þar með var þýzka auðhringavaldið að endurreisa sitt gamla auðveldi í allri sinni dýrð, ef svo mætti að orði komast, til þess að vera samkeppnisfært, til þess að geta slegið Bretland út, geta slegið jafnvel Bandaríkin út, jafnvel sama bandaríska auðvaldið sem hjálpaði vestur-þýzka auðvaldinu til að byrja með: Og nú horfizt þið og aðrir framan í þetta vestur-þýzka auðvald upprisið aftur eins voldugt og nokkru sinni fyrr, jafnvel þannig, að sú tak= markaða afvopnun, sem um skeið var í Vestur-Þýzkalandi, hjálpaði beinlínis þýzka auðvaldinu til að geta notað enn þá meira af framleiðslugetu Þýzkalands til þess að byggja upp sitt auðhringavald. M.ö.o.: voldugt hringavald Þýzkalands er risið upp á ný núna í öllum sínum mætti. Það slítur af sér þessa fjötra. Það þarf ekki á neinum höftum að halda. Stálhringurinn og I. G. Farben og allir þeir hringar, sem eru núna, stjórna þessu út frá sínum skrifstofum. Þar er þeirra áætlunarbúskapur. Hringavald veraldarinnar gerir sinar áætlanir. Það planleggur eins vél og nokkurt herforingjaráð á stríðstímum gerir, hvernig það skuli leggja undir sig heiminn, hvernig það skuli leggja undir sig nýlendurnar, hrifsa hver af öðrum völdin í þeim. Það er engin tilviljun, að Erhard fer til Asíu og Afríku og verður nokkuð ágengt.. Þýzkt auðvald er sterkt. Að bera þetta saman við okkur, það — er fásinna. Það — hentar þýzku auðvaldi að slíta þessa fjötra.

Okkar litlu og ófullkomnu og vitlausu höft eru hins vegar ofur lítil viðleitni frá hálfu íslenzku þjóðarinnar til þess að verða líka sterk. Hún er svo fámenn, að hún getur ekki orðið sterk nema standa öll saman. Hún getur ekki orðið sterk í þessari harðvítugu baráttu, sem við heyjum úti í veröldinni, nema við séum helzt skipulagðir eins sterkt og einn hringur. Nú mundi vafalaust hvorugur okkar vilja, að það væri einn auðhringur hér á Íslandi, við skulum segja, að okkar gamli Kveldúlfur væri risinn upp og réði öllum fiskútflutningnum og tæki svo allan innflutninginn í sínar hendur líka. Við mundum ekkert kæra okkur um það. Það mundi ekki samræmast okkar lýðræðishugsjónum. Hvernig getum við þá skapað þau samtök, orðið það sterkir, að við með þessar smáu 1000–2000 millj. kr., sem við flytjum út, séum þó eitthvert ofur lítið vald á heimsmælikvarða, getum notað okkar heimamarkað, sem getur tekið við, — ég veit ekki, hvað verður í þeirri nýju mynt, 2000–3000 millj. kr. í verðmætum, — getum tekið við því og hagnýtt okkar innkaupamátt upp á 2000–3000 millj. til þess að koma okkar ár sem bezt fyrir borð úti í heimi með að selja okkar vörur? Við getum ekki hagnýtt okkur þessa aðstöðu, við getum ekki skipalagt okkur sem ein sterk heild til þess að nota þessa aðstöðu út á við nema með því, áð íslenzkur þjóðarbúskapur sé ein heild, sem ríkisstj. Íslands stjórnar. Annars verðum við aldrei neitt vald á alþjóðlegan mælikvarða og erum litlir samt og verðum að vera helzt klókari en aðrir, forsjálli en aðrir, til þess að geta komið ár okkar vel fyrir borð. Þess vegna þýðir ekkert að bera þetta saman við það, sem einu voldugasta auðvaldi heimsins hentar, þýzka hringaauðvaldinu. Því hentar að slíta þá fjötra. Það var mjög eðlilegt frá þess sjónarmiði. En okkur hentar það ekki. Þvert á móti eigum við að gera þessi höft, sem við getum verið sammála um að oft hafi verið framkvæmd ósköp vitlaust, — við eigum að gera þau að skapandi samtakaheild íslenzkrar þjóðar, þar sem við beitum öllum okkar kröftum annars vegar til þess að tryggja okkur markaði, þar sem það er gert með ákveðnum fyrirframsamningum, hins vegar til þess að berjast sem allra mest á þeim mörkuðum, þar sem við verðum að berjast í þessum frumskógi svokallaðrar frjálsrar samkeppni, raunverulega í frumskógi hringavaldsins í heiminum. Og þar verðum við að reyna að mynda sem bezt samtök á milli okkar, starfa sem bezt saman, hvort heldur sem heitir einstaklingar, samvinnufélög, hlutafélög eða aðrir slíkir eða ríkisútflutningur eða hvað sem það er. Við eigum að reyna að sameina alla þessa krafta um að koma okkar ár þarna sem allra bezt fyrir borð. Þess vegna er ekki til neins að taka það eftir, að Vestur-Þjóðverjum eða vesturþýzka auðvaldinu kunni að vegna vel við að afnema höft. Það þýðir, að hinir litlu auðmenn okkar hérna heima bara drepa sig á því að gera þetta sama.

England hafði áhuga á því um miðja 19. öld, að allar aðrar þjóðir hefðu frjálsa verzlun, — þá meina ég með frjálsri verzlun tollfrjálsa verzlun, enga tolla. England hafði áhuga á því, því að England var á undan öllum hvað snerti framleiðslu, hafði komið upp fullkomnu framleiðslukerfl: Englendingar vildu fá að selja til allra þjóða. En hvernig mynduðu allar aðrar þjóðir sina stóriðju? Hvernig mynda Þjóðverjar sina stóriðju á 19. öld? Með því að koma á tollum. Með því að mynda tollabandalag. Með því að skapa múra á móti innflutningi allra iðnaðarvara og skapa í krafti þeirra tollmúra sina eigin þýzku stóriðju. Þetta verður hvert einasta ríki að gera, sem vill vera sjálfstætt. Gömlu ríkin eru þarna stór og voldug og eru langt á undan okkur. Ef við ætlum að skapa sjálfstæða stóriðju eða iðju yfirleitt og framleiðslu hjá okkur, hvort heldur hún er rekin af einstaklingum, hlutafélögum, samvinnufélögum, ríkinn eða hverjum sem er, þá verðum við að girða okkur af á móti þeim, sem eru heilli öld jafnvel á undan okkur, hafa slíkt forhlaup. Þess vegna skulum við ekki líkja okkur við þessar þjóðir. Þar er um allt annað að ræða. Þetta ætti aðeins við í einu tilfelli, þ.e. ef við ætluðum að verða partur af Þýzkalandi, Frakklandi eða Ítalíu eða slíku, þá væri þetta rökrétt. En ég býst ekki við, að þeir ætlist til þess.

Þá kom hv. 6. landsk. þm. inn á, að þetta skipulag, sem nú ætti að koma upp, gæfi öllum jafnan rétt. Þetta er ekki satt. Það er gert óskaplega upp á milli manna með þessu frv. Í fyrsta lagi er nú gert upp á milli heildsala og útvegsmanna, svo að ég haldi mig bara að yfirstéttinni. Heildsölunum er gefið frelsi til að eyða peningum elns og þeir vilja. Ríkið borgar, þjóðin á að borga seinna meir, þegar við eigum að taka við þessu seinna meir, þá eigum við að fara að borga þessa peninga, sem þeir eyða í dag, 800 millj. En útvegs mennirnir, hvað er sagt við þá? Það er sagt við þá: Þið eigið að skila öllum gjaldeyri, sem þið fáið. — Það er sem sé gert óskaplega upp á milli. Það er síður en svo, að það sé verið að gefa jafnan rétt. Í öðru lagi, að svo miklu leyti sem jafn réttur svokallaður er gefinn um, að menn megi flytja inn, þá er annar ójöfnuður settur á um leið. Það er ójöfnuður peninganna. Þeim, sem hafa mikla peninga, er gefinn þarna réttur. Þeim, sem hafa litla peninga, er ekki gefinn réttur. Það er réttur fyrir þá ríku, aðstaða fyrir þá ríku, aðstöðuleysi fyrir þá fátæku. Í öðru lagi eru til ríkisbankar í landinu, eins og við vitum. Ef menn hafa aðgang að ríkisbönkum, og viss fyrirtæki í landinu njóta jafnvel sérréttinda hvað það snertir að fá lán þar, þá fá þeir það, aðrir fá það ekki. M.ö.o.: það er ekki heldur jafn réttur, hvað þetta snertir, það hafa ekki allir jafnan rétt til lána hér í bönkunum. Það er mjög misjafn réttur. M.ö.o.: það er engu jafnrétti verið að koma á með þessu. Það er bæði formlega og raunhæft alger skortur á jafnrétti þegnanna. Fátækum og ríkum er mismunað. Þeim, sem eru í náð hjá bönkunum, og þeim, sem eru það ekki, er mismunað, alveg eins og hefur alltaf verið. Það er eitt, sem maður gæti sagt: með þessu er verið að skapa rétt og vald peninganna.

Þá sagði hv. 6. landsk., að meiningin væri að auka þjóðarauð Íslendinga. Hvað sannar sagan? Hefur þjóðarauðurinn verið aukinn, þegar svona skipulag hefur verið tekið upp? Nei þvert á móti, hann hefur farið minnkandi.: Þegar frjálsa samkeppnin var hér á árunum, var þetta allt að fara á hausinn. Þetta var allt að flosna upp. Menn voru að flýja, flýja landið, bæði atvinnurekendur og aðrir. Hvað blasir við núna? Það blasir við þetta sama, uppflosnunin úti um land.

Þá sagði hv. 6. landsk., að frjáls verzlun væri okkur lífsnauðsyn, og hann talaði í því sambandi með miklum fjálgleik um nauðsynina á vöruvali og annað slíkt. Vissulega er það ánægjulegt, að það er mikið vöruval. En fullmikið fannst mér hann nú tala út frá þeirra sjónarmiði, sem hafa þá peningana til að velja um, hvað þeim þóknast að kaupa. Það skipulag, sem við sköpum með því að innleiða þetta hér, verður máske fullar búðir, á meðan við höfum lán erlendis, af vörum og mikið vöruval, fullar búðir, en tómár pyngjur. Það er skipulag, sem maður þekkir frá Vestur-Þýzkalandi og annars staðar. Það er nógu mikið úrval í búðunum, en geta almennings til þess að kaupa, það er hún, sem skortir. Það, sem hefur verið aðalatriðið fyrir okkur á undanförnum árum, er að reyna að tryggja kaupgetu almennings, að auka kaupgetu almennings, og það er það, sem hlýtur að vera aðalátriði fyrir okkur. En í öllum þeim ráðstöfunum, sem nú er verið að gera, er í raun og veru eitt höfuðatriði af hálfu hæstv. ríkisstj., það er að draga úr kaupgetu almennings. Kaupgeta almennings er í fyrsta lagi góð fyrir almenning sjálfan, að geta veitt sér það, sem menn nauðsynlega þurfa, og það, sem þjóðin sem heild hefur efni á að flytja inn. Það er gott fyrir almenning. Það er að vísu ákaflega skemmtilegt að geta valið úr öllu mögulegu, hvers konar tegundir af silki eða purpura menn vilja klæðast í og hvers konar tízku af skóm menn vilja hafa. En það er ekki fyrir öllu. Það, sem er fyrir öllu, er, að sem flestir meðlimir þjóðfélagsins geti veitt sér það að hafa nóga skó á fæturna, að hafa góð föt að klæðast í, og það hafa menn getað veitt sér. Og meira að segja þó að kvenfólkið hér á Íslandi hafi ekki getað valið úr margs konar tízku í dömuskóm, þá hafa þær getað keypt sér allmiklu fleiri skó á fæturna á undanförnum árum en þær gátu fyrr á tímum. Það að rýra kaupgetu almennings, að minnka hana meira en gert hefur verið nokkru sinni fyrr nema á krepputímum, það þýðir þess vegna að gera lífskjör almennings á Íslandi slæm, og að lokum munu jafnvel kaupmennirnir fá að kenna á því. Ég man eftir hinni litlu tilraun, sem gerð var 1951 með þetta svokallaða frelsi. Það. var einn kaupmaður eða verzlunarmaður, sem sagði þá við mig, þegar atvinnuleysið var hér í Reykjavík og menn voru farnir að spara við sig mjólk: Já, nú gerist það, sem hefur ekki gerzt síðan á kreppuárunum. Nú kaupa menn ekki lengur heila sígarettupakka, nú biðja menn um að fá keyptar nokkrar sígarettur úr pakka. Og það má vel vera, að kaupmönnunum finnist það betra eða heildsölunum, en ég er hræddur um, að meira að segja þér fái að kenna á því á endanum, ef þeir taka þátt í því núna að leiða það atvinnuleysi yfir sem verður endanlega afleiðingin af þessu. Við höfum ekkert að gera við fullar búðir, ef alþýða manna hefur ekki efni á að kaupa það, sem í þeim er. Það, sem við þurfum, eru fullar pyngjur almennings, þó að hann geti ekki keypt allt, sem hugur hans kann að girnast í veröldinni, en hafi þó yfirdrifið til hnífs og skeiðar.

Þá sagði hv. 6. landsk. þm., að fríverzlunarkerfið mismunaði ekki. Mér er spurn: Hvar hefur hv: 6: landsk. lært hagfræði? Í hvaða hugarheimi hefur hann lifað síðustu 20 árin? „Fríverzlunarkerfið mismunar ekki“: Hvað er það, sem við höfum verið að upplifa í veröldinni? Við höfum verið að upplifa það í veröldinni, að í skjóli þess, sem einu sinni í gamla daga var kallað fríverzlun, hefur risið upp sá mesti munur, sem til hefur verið nokkurn tíma í heiminum á efnahagslegri aðstöðu manna í þjóðfélögunum. Það hafa skapazt voldugir peningafurstar, sem hafa vald, sem einvaldskonunga eins og Lúðvík XVl hefði ekki dreymt um að hafa. Vald fjölskyldna eins og Morgans eða Rockefellers, vald þessara auðfursta nútímans, vald báknanna, sem þeir eru fulltrúar fyrir, þessara voldugu hringa, það er meira en nokkrir auðvaldskonungar og nokkrir forríkir indverskir furstar nokkurn tíma hafa haft. „Fríverzlunarkerfið mismunar ekki.“ Fríverzlunarkerfi dó fyrir 60 árum og vék af sviði sögunnar fyrir auðhringamyndun í veröldinni, sem hefur orðið harðvítugri með hverjum áratugnum, þannig að í hinum gömlu löndum auðvaldsins, Bandaríkjunum, Bretlandi, Vestur-Þýzkalandi, Frakklandi, þá er það frá 10 og 20 upp í 200 fjölskyldur, sem í krafti drottnunar yfir örfáum voldugum auðhringum ráða upp undir 90% af stóriðju viðkomandi landa. M.o.ö.: það er ekkert jafnrétti til á milli þegnanna í þessu kerfi. Engan mann í Bandaríkjunum mundi dreyma um það í dag að ætla að gerast olíukóngur þar. Það einvaldskóngafyrirkomulag er ákveðið og svo að segja óhagganlegt. Og við Íslendingar fengum snemma að kenna á þessu. Meira að segja þegar fríverzlunin var hér í fullum gangi, meira að segja á meðan danska efnahagskerfið var enn þá með þá gamaldags fríverzlun, þá var Standard Oil byrjað að teygja sinn litla fingur hingað til Íslands í gegnum Danmörku, í gegnum D. D. P. A., sem alþýða á Íslandi kallaði þá: danskur djöfull pínir alþýðuna. Íslenzka alþýðan þekkir það frá upphafi, hvernig einokunarhringarnir koma ár sinni fyrir borð.

Svo sagði hv. 6. landsk. þm., að þetta kerfi, sem nú væri verið að innleiða, væri eina lýðræðilega kerfið. Við skulum ekki fara að misnota orðið lýðræði með því að fara að tengja það við efnahagslega ástandið, sem verið er að reyna að skapa með þessu. Efnahagslegt lýðræði verður héðan af ekki skapað með öðru en þjóðnýtingu og sósíalisma. Það efnahagskerfi, sem auðvaldið hefur skapað, er í raun og veru þannig, að það er einræði á sviði efnahagslífsins, jafnvel þó að reynt sé að viðhalda borgaralegu lýðræði á sviði stjórnmálanna. Og þegar þeir hringar, sem ráða á sviði efnahagslífsins, þeir stóru auðhringar halda, að þeir geti ekki viðhaldið sinni einokun lengur í krafti borgaralegs lýðræðis, þá þurrka þeir borgaralega lýðræðið út, eins og þeir gerðu með fasismanum í Þýzkalandi, og koma á líka sínu elnræði á sviði stjórnmálanna. Það er vegna þess, að þeir hafa einræði á sviði efnahagslífsins, að þeir skella á sínu einræði á sviði stjórnmálanna, svo framarlega sem borgaralega lýðræðið verður þeim of þröngt eða skapast sú hætta, að t.d. verkalýðsflokkar í skjóli þess borgaralega lýðræðis geti náð þar meiri hluta og þjóðnýtt einokunarhringana.

Við skulum þess vegna ekki vera að leggja lýðræðið þannig við hégóma að tengja það við slíkt efnahagskerfi og það, sem er verið að innleiða með því skipulagi, sem hér er lagt til að taka upp, að peningarnir einir skuli ráða í efnahagskerfinu, að ekkert annað tillit skuli tekið en til peninganna og þeirra valds, að ekkert annað sjónarmið skuli ríkja en möguleikinn á að skapa gróða, að engin önnur hvöt skuli vera um stofnun atvinnufyrirtækja heldur en vonin um gróða, í staðinn fyrir að það, sem við höfum reynt undanfarið, þrátt fyrir þann böksulega gang, sem á því hefur verið, það hefur þó verið þetta, að reka atvinnutæki á Íslandi með það fyrir augum að afla gjaldeyris, til þess að þjóðin gæti lifað, reka atvinnufyrirtækin með það fyrir augum, að það væri næg atvinna handa almenningi. Þetta hefur verið höfuðsjónarmiðið, og þó að aðferðirnar, sem hafa verið notaðar til þess að framkvæma þetta, af því að það hafa verið meira og minna borgaralegar aðferðir, hafi oft mistekizt, býrokratískar, hálfspilltar og annað slíkt, þá hefur samt þetta verið sá tilgangur, sem ríkisstj. hafa neyðzt til þess að taka tillit til, þó að þeim hafi tekizt oft óhöndulega að framkvæma þær, af því að raunverulega er ekki hægt að framkvæma þetta takmark, að reka atvinnuvegina með sjónarmið almennings fyrir augum, nema með sósíalistískum búskapar, háttum, nema með meiri eða minni þjóðnýtingu.

Þess vegna skulum við gera okkur það alveg ljóst, að það að innleiða þetta svokallaða frjálsa kerfi, sem hér er, það þýðir að ryðja hringunum aftur braut á Íslandi. Það þýðir t.d. hvað snertir síldarlýsi að skapa aftur aðstöðu fyrir Unilever-hringinn að ná tökum hér, þegar búið er að brjóta niður viðskiptin austur á bóginn í þessu efni. Fríverzlunarkerfið gamla hefur leitt til þessa hringavalds.

Þá sagði hv. 6. landsk. þm., að nú væri verið að innleiða frelsi einstaklinganna til þess að geta framleitt og mega framleiða og selja, eða sagði eitthvað í þá áttina, það er víst ekki orðrétt hjá mér. — Þetta er ekki rétt, það er ekki verið að innleiða slíkt frelsi einstaklinganna. Okkur er neitað um það í þessum lögum, að einstaklingarnir á Íslandi megi framleiða og selja eftir því, sem þeir geta. Okkur er neitað um það. Bæði hringavald, sem einkahagsmunirnir hafa myndað, og ríkisvaldið, sem stendur að baki þess, koma í veg fyrir það. Það eina, sem er verið að innleiða með þessu, er frelsi heildsalanna til innflutningsins og halda við einokun útflutningshringanna í þessu sambandi — og samtímis þessu að kúga bæði verkamenn og útvegsmenn.

Þá kom hv. 6. landsk. þm. að því, að nú væri aldeilis verið að frelsa okkur af nefndunum, og nefndi sem dæmi jeppanefndina, þar fengjum við nú loksins frelsið, nú væri jeppanefndin afnumin og fleiri n. færu á eftir. Jeppanefndin var ekki sérstaklega æskileg, það er ekkert sérlega gaman að hafa jeppanefnd. Hún er engin fyrirmynd, hvorki um sósíalisma né neitt slíkt. En eru þar með öll höft afnumin á innflutningi jeppa? Er ekki verið að setja önnur höft um leið, höft fátæktarinnar? Það er nefnilega verið að setja aðra nefnd, annan skömmtunarstjóra, miklu verri skömmtunarstjóra en jeppanefndina, þótt slæm væri. Sá skömmtunarstjóri heitir peningur — eða ef við viljum nefna hann öðru nafni: fátækt. Hefur hv. 6. landsk. þm. athugað, hvaða áhrif það að tala um að afnema jeppanefndina hefur þegar haft á hugsanlegan innflutning á jeppum? Það var búið að sækja um, ég held, að ég megi fullyrða það, ég verð að fá leiðréttingu á því, ef ég fer rangt með, það var búið að sækja um — ég held — innflutning á 300 jeppum. Nú er frelsið komið. Hæstv. ríkisstj. er búin að innleiða frelsið, búin að afnema jeppanefndina, við erum alveg frjáls af jeppanefndinni, og nú getum við notið frelsisins, teygað frelsisbikarinn alveg í botn. Nú líður okkur líklega vel á eftir. Og hvað eru eftir núna margir, sem vilja flytja inn jeppa og hafa efni á því eftir ráðstafanir ríkisstj.? 10, er mér sagt. Kannske eru það fleiri, kannske eru það 20 eða 30. Meginið af öllum umsóknunum treysta menn sér ekki til að standa við. Efnahagsráðstafanir ríkisstj. um að gera almenning í landinu frjálsan og losa hann úr höftum fátæktarinnar og allt saman slíkt er farið að bera ávöxt. Og kannske getur einhver upplýst, hvernig það muni vera með dráttarvélarnar. Það var víst engin jeppaúthlutunarnefnd í þeim, en það sýnir sig kannske þar líka. Það má aldeilis hrópa: Lifi frelsið, lifi frelsið af jeppanefndinni. Bara hætta að kaupa jeppa í staðinn. Það er kannske það frelsi, sem hæstv. ríkisstj. er að miða við. Það er kannske allt í lagi. Það var víst eitthvað af þessu rússneskir jeppar, svo að það er kannske ágætt, að íslenzkir bændur þurfi ekki að vera að keyra í rússneskum jeppum, það getur haft vond áhrif á þeirra pólitísku innstillingu. En ef markaðurinn fyrir fisk minnkar svo að sama skapi sem jeppainnkaupin minnka, þá gæti nú ef til vill farið að koma við milljónamæringana á Íslandi. — Nei, ég er hræddur um, að það verði að endurskoða jeppafrelsið, sem hæstv. ríkisstj. er að innleiða, ég held, að það sé ekki einhlítt til farsældar.

Og svo að lokum sagði hv. 6. landsk. það, sem honum auðsjáanlega bjó í brjósti allan tímann. Hann sem sé hafði komizt á snoðir um, að það var heldur en ekki þokkalegt samsæri á ferðinni undanfarið á Íslandi. Það voru nokkrir slæmir karlar, þessir sósialistar, sem höfðu bara verið að læða sósíalismanum inn um bakdyrnar. Þokkalegt var það. Hann tók fyrst dæmi úr skattakerfinu, þeir höfðu verið að nota þessa aumingja vesalings saklausu og hrekklausu borgaraflokka á Íslandi til þess að læða sósfalismanum, innleiða hann um bakdyrnar. Jæja, þá hafið þið það nú hér, Sjálfstfl. og Framsfl., hvernig þið hafið látið nota ykkur á undanförnum árum. Meira að segja áður en nokkur Alþfl., Kommúnistafl.,

Sósíalistafl. eða Alþb. var til, þá voru þeir byrjaðir á þessum skramba. Það var skattakerfið á Íslandi, sem var svo þröngt, að það gerði ekki ráð fyrir auðvaldi. Ég held, að ég megi til með að upplýsa hv. 6. landsk. um, að þetta voðaþrönga skattakerfi, sem gerði mönnum ómögulegt að græða, það var til á Íslandi, áður en nokkuð fór að bera þar á sósíalisma eða marxisma. Þetta gamla skattakerfi, sem var svona þröngt, það var sniðið út frá hugsunarhætti gamallar bændaþjóðar, sem mestallt sitt líf hafði verið fátæk og lifað af sinni vinnu og fannst satt að segja auður í einstakra manna höndum vera af því illa, var kannske ekki sérstaklega kristin guðfræðilega séð, en með þá siðferðilegu afstöðu þess gamalkristna manns að álfta gróða siðferðilega ljótt fyrirbrigði. Það var þessi afstaða, sem upphaflega skóp skattakerfið á Íslandi. Þessi bændaþjóð sneið það svona þröngt vegna þess, að hún áleit, að það að skapa gróða í einstakra manna höndum væri ljótt, væri hættulegt, slíkur auður væri af því illa, ekki sósíalismi, það var eiginlega frekar kristindómur, það leyfi ég mér að segja. Og bitur reynsla þjóðar, sem hafði verið kúguð í gegnum aldir, var að vita auðinn lengst af í höndum mjög illra afla.

Þegar ég var að alast upp, lásum við það meira að segja í landafræði Karls Finnbogasonar, að í Bandaríkjunum væri auðurinn að mestu leyti í höndum einstakra auðhringa. Og þegar Matthías Jochumsson var að skrifa sínar ferðasögur frá Bandaríkjunum og Páll Árdal að yrkja út frá því eins og kvæðið „Auðvaldið“ frá 1894, þá var það allt saman út frá því sjónarmiði, að guð gefi, að þetta skipulag komi aldrei til Íslands, að þetta gróðaskipulag, að þetta að hugsa allt út frá peningunum komi aldrei til Íslands. Það var út frá þessu sjónarmiði, sem beztu menn Íslands hugsuðu um aldamótin. Það var út frá þessu sjónarmiði, sem beztu mennirnir á meðal þeirra, sem fluttu út af Íslendingum, meðan landflóttinn var að eiga sér stað, og kynntust auðvaldinu í Ameríku, eins og Stephan G. og aðrir slíkir, vöruðu Íslendinga við því að flytja nokkurn tíma auðvaldsskipulagið inn á Íslandi. Það var sár reynsla gamallar bændaþjóðar, ótti hennar við auðvald, peningavald og allt, sem því fylgir, sem olli því, að skattakerfið varð svona frá upphafi á Íslandi. Þetta sem sé leiddi af gamalli og biturri reynslu fátækrar þjóðar, sem óttaðist auð í einstakra manna höndum. Hitt er rétt, að ég hef oft skilgreint það. Ég man eftir t.d., þegar ég var að skilgreina þetta á nýsköpunartímanum fyrir ráðherrum Sjálfstfl. þá, Pétri Magnússyni og Ólafi Thors, hæstv. núverandi forsrh., og var að segja þetta einmitt, að prívatkapítalisminn væri raunverulega bannaður á Íslandi, hann hefði þrifizt í skjóli gjaldeyrissvika og skattsvika, og þeir sögðu, að það væri alveg rétt, og jafnvel annar þeirra, sá sem nú er látinn, bætti stundum við, að hann ætti víst ekki heldur langt eftir.

Sannleikurinn er, að það er ósköp erfitt fyrir prívatkapítalismann að þróast á Íslandi. Þjóðin er það sjálfstæð, gerir það miklar kröfur til þess, að hver einstaklingur geti ráðið nokkuð fyrir sig sjálfur, að hún þolir ekki, að það komi upp nokkrir, örfáir einstaklingar, sem safni til sín megininu af auðnum, sem þjóðfélagið hefur skapað. Það er ekki út frá sósíalistískum hugsjónum, sem raforkumál á Íslandi eru þannig, að ríkið hefur einokun á raforkuvirkjun. Það er ekki af sósíallstískum kringumstæðum, að sementsverksmiðjan er í ríkiseign og áburðarverksmiðjan ríkiseign og síminn er rekinn af ríkinu o.s.frv. Það er vegna þess, að smæð okkar þjóðar og sjálfstæðistilfinning Íslendinga mótmælir því, að nokkrir einstaklingar eða eistök fyrirtæki eigi svona hluti, vegna þess að fyrirtækin yrðu of voldug, vegna þess að það þýddi, að slík fyrirtæki afnema hið raunverulega lýðræði og frelsi í landinu, ef þau ráða yfir svona hlutum. Þess vegna er það þáttur í allri frelsisviðleitni Íslendinga að reisa sig upp úr nýlendukúguninni og að hindra, að hér skapist sterkt og voldugt auðvald. Hins vegar ef hér ætti að skapast svokölluð frjáls verzlun, frjálst atvinnulif og allt annað slíkt, þá gat það vegna lögmála kapítalismans, vegna þeirra lögmála, sem gera það að verkum, að stórrekstur er alltaf ódýrari og praktískari en smárekstur, farið í þá áttina, að það mynduðust hringar, eins og við sáum greinilega viðvíkjandi fiskútflutningnum, þegar hann var frjáls. Kapítalisminn leiddi til hringavalds, og það er vegna þess, að Íslendingar hafa ekki getað þolað það ófrelsi, sem myndun og þróun prívatkapítalismans hlaut að þýða, að þeir hafa ekki sætt sig við annað en að það yrðu eins mikil ríkisafskipti á Íslandi af atvinnulífinu og verið hafa í 30 ár. Af því að íslenzk þjóð hefur ekki borið gæfu til þess að innleiða sósíallsmann hjá sér á þessum tíma, hafa þessi afskipti verið fálmandi, óviss. Af því að þessi höft hafa verið í höndunum á flokkum eins og Sjálfstfl. og Framsfl. sérstaklega, sem oftast hafa notað þetta til helmingaskipta, spillingar og allt saman slíkt, þá hafa þau orðið óvinsæl og annað þess háttar, af því að það hefur ekki verið stefnt að ákveðinni áætlun með þeim og öðru slíku, af því m.ö.o., að þau hafa ekki verið framkvæmd á sósíalistískan hátt, þá hafa þau verið stórkostlega gölluð allan þennan tíma.

En það mun líka sýna sig með þær tilraunir, sem gerðar eru til þess að breyta þessu, að íslenzk alþýða og íslenzk þjóð og íslenzkir smærri atvinnurekendur munu ekki heldur sætta sig við, að prívatkapítalisminn fái að þróast hér á Íslandi, vegna þess að ef hann ætti að fá að þróast, mundi hann aðeins geta þróazt á þann hátt að skapa hér einn eða tvo stóra auðhringa, og mér hefur jafnvel heyrzt stundum úr herbúðum Sjálfstfl., að það sé ekkert sérstaklega gott hljóð út í það, sem þeir kalla auðhringa.

Hv. 6. landsk. sagði svo, að nú mundi ég vera bitur og leiður, þegar nú sæi ég, að það væri loku skotið fyrir sósíalismann. Það er skiljanlegt, ef hann hefur haldið, að við værum að læða sósíalismanum inn með þessum höftum, að hann hrósi nú sigri. En ég skal segja honum, hvað ég held. Ég held, að núna með því að gera þessa tilraun til þess að koma á þeim gamla og vitlausa prívatkapítalisma og losa sig við þessi höft, sem hafa haldið í honum líftórunni undanfarið, kollkeyri hv. 6. landsk. og hæstv. ríkisstj. þetta kerfi sitt þannig, að það verði ekki möguleiki fyrir neitt annað en sósíalisma á eftir, m.ö.o.; að þið ryðjið brautina fyrir sósíallsmann með þessu. Þessi gagnbylting einkaauðvaldsins, eins og hann var að taka upp eftir mér, mun misheppnast svo hrapallega, að íslenzk þjóð mun sjá, að það er ekki til neins að vera með þennan læðupokahátt, svo að ég noti orðin, sem hv. 6. landsk. þm. notaði, það er miklu betra að ganga hreint til verks og koma upp meira eða minna sósíalistískum búskaparháttum á Íslandi, áætlunarbúskap og öðru slíku. Það held ég að verði reynslan.

Svo fór hv. 6. landsk. út í teoríurnar, sem mér þykir líka mjög gaman að ræða, allt aftur til Cobdens og Marx. Hann talaði um, að ég hefði eitthvað minnzt á næturverði á 19. öld. Það var gamla slagorðið hjá hugsuðum prívatkapítalismans líka þá, að ríkisvaldið ætti bara að vera eins og næturvörður, það ætti sem sé að sjá um, að það væri ekki brotizt inn og stolið í bönkunum eða hjá prívatkapítalistum, hafa lögreglu til þess að passa upp á slíkt, en það ætti hvergi að koma nálægt atvinnulífinu, það ættu atvinnurekendur alveg að sjá um sjálfir. Og þetta var þannig trú, að þegar sú löggjöf var í fyrsta skipti samþ. í Bretlandi 1848, að börn innan 10 ára mættu ekki vinna í verksmiðjum lengur en 10 tíma á dag, m.ö.o. að börn allt niður í 6 ára mættu vinna í kolanámum, þó að það væri ekki lengur en 10 tíma á dag, þá voru þetta talin óhæfileg afskipti ríkisvaldsins af atvinnulífinu. Auðvaldið hefur síðan 1890 orðið að sætta sig við það, að verkalýðshreyfingunni í heiminum tækist að knýja það fram, að ríkisvaldið og löggjöfin hefðu afskipti af atvinnulífinu, ekki aðeins þau afskipti að hindra, að börnum innan 10 ára og jafnvel innan 12 ára og innan 16 ára væri bannað að vinna í verksmiðjum, ekki aðeins lengur en 10 tíma á dag, heldur er það jafnvel bannað yfirleitt. Í 100 ár hefur kapítalisminn orðið að þola það, að hans frelsi væri takmarkað, af því að verkalýðshreyfingin hefur orðið það sterk í veröldinni, að menn láta ekki lengur svelta sig í hel, eins og þá var gert, og láta ekki drepa börnin úr sulti og þrældómi, eins og þá var gert, þegar kapítalisminn var algerlega frjáls. Þess vegna hefur kapítalisminn þessa síðustu öld orðið að hopa undan, láta verkalýðnum svo og svo mikið í té af endurbótum og réttindum, ekki getað drottnað algerlega einn í veröldinni og orðið að gera sínar vissu ráðstafanir.

Hv. 6. landsk. sagði, að það hefði ekki reynzt rétt, sem Marx hefði spáð, að smáfyrirtækjunum hafi verið útrýmt. Jú, það hefur einmitt reynzt rétt, að smáfyrirtækjum í heiminum væri ýmist útrýmt eða væru gerð háðari og háðari þessum voldugu auðsamsteypum. Samsteypur auðhringanna í heiminum ráða nú víðast hvar í þeim stóru, gömlu kapítalistísku löndum, eins og Englandi og Vestur-Þýzkalandi og Bandaríkjunum, allt upp í 90% af stóriðjunni þar. Hringaþróunin hefur á þessum 60 árum orðið óskapleg, þrátt fyrir að jafnvel ríkisvald kapítalistanna í þessum löndum hefur sett víssa löggjöf, en löggjöf, sem bara hefur verið brotin.

Hv. 6. landsk. hefur ekki fylgzt vel með í því, hvað gerzt hefur síðustu 60 árin í þessum efnum. Hann talaði líka um, að launþegastéttin, eins og Marx kallaði það á sínum tíma, hefði raunverulega horfið. Hvað hefur gerzt í þessum efnum? Það, sem hefur gerzt, meira að segja hér hjá okkur á Íslandi, það er, að launþegastéttin hefur vaxið. Hvað eru launþegarnir á Íslandi margir nú? Þeir eru 75% af þjóðinni, þeir menn, sem fyrst og fremst lifa af því að selja sína vinnu. Hitt er annað mál, að þessi verkalýður er ekki eins fátækur og hann var fyrir 100 árum. Af hverju er hann ekki eins fátækur? Er það vegna þess, að í 100 ár hafi auðvaldið nokkurn tíma gefið honum einn einasta eyri? Nei. Það er vegna þess, að hann hefur te:kið með valdi sinna samtaka af auðvaldinu nokkuð af því, sem auðvaldið hefur rænt hann á þessum tíma. Og hann hefur í krafti sinna samtaka knúið auðmannastéttina til þess að sleppa úr helgreipum sínum nokkru af þeim auði, sem hún hefur tekið frá verkalýðnum. Þess vegna hafa kjör verkalýðsins í fjölmörgum löndum batnað, hann hefur sótt á. Ég hef tekið þátt í þessari sókn í 40 ár hér á Íslandi. Og í hvert einasta skipti, sem sótt hefur verið á, hefur verið sagt: Það er verið að kollvarpa þjóðfélaginu, það eru útsendarar frá Moskvu að steypa lýðræðinu á Íslandi, — með því að skipuleggja kaupdeilur eða verkföll, þar sem verkalýðurinn á Íslandi hefur verið að taka eitthvað ofur lítið af þeim gróða, sem atvinnurekendurnir hafa haft af honum. Þannig höfum við orðið að leiða verkalýðinn í 40 ár frá fátækt og neyð, frá því að vera á sveitinni, til þeirra bjargálna, sem hann býr við í dag, þeirra bjargálna, sem núverandi ríkisstj, er að reyna að hrinda honum út úr.

Auðvaldið hefur aldrei gefið okkur neitt. Við höfum aldrei upplifað, að auðvaldið hafi sagt við okkur: Heyrið þið, við græðum svo mikið núna, það er svo gott ástand í þjóðfélaginu, að nú skulum við hækka kaupið hjá ykkur. —Kjarabæturnar, sem við höfum knúið fram, hafa verið einvörðungu vegna þess, að verkalýðurinn hefur verið sterkur, einvörðungu vegna þess, að hann hefur vald, — vald, sem auðvaldið hér í þjóðfélaginu hefur ekki ráðið við. Og hvenær sem auðvaldið réði við verkalýðinn, mundi fátæktin byrja aftur.

Þá sagði hv. 6. landsk„ að kreppurnar hefðu sýnt sig að vera fyrirbrigði, sem borgaralegt þjóðfélag geti ráðið við. Þetta er ekki rétt. Það er eitt, sem villir hann í þessu efni. Það er rétt, að auðvaldið hefur orðið alvarlega hrætt í heiminum eftir heimskreppuna 1930, af því að heimskreppan 1930 var svo ægileg, að auðvaldinu sjálfu ofbauð. Þær venjulegu auðvaldskreppur í heiminum, sem hafa staðið nú í meira en 100 ár, í um 130 ár, þær hafa venjulega, þegar kreppan hefur verið dýpst, eins og hagfræðingarnir kalla það, framkallað framleiðsluminnkun, sem hefur verið um 15% frá toppinum, verið samt tilfinnanlegar, skapað mikil vandkvæði, skapað aukið atvinnúleysi og hvers konar hörmungar. Heimskreppan aftur á móti er það mikil, hún er það djúp, ef við notum orðatiltæki hagfræðinganna, að frá toppinum minnkar framleiðslan um 47% í því landi, þar sem það er verst. Það er þetta, sem gerir það að verkum, áð kreppurnar eftir styrjöldina, sem hafa verið eins og gömlu kapítalistísku kreppurnar, kannske framleiðsluminnkun allt niður í 15%, hafa verið eðlilegar, venjulegar kapítalistískar kreppur, sem meira að segja oft hefur verið reynt tiltölulega snemma að stöðva, t.d. með Kóreustríðinu, þegar sá Syngman Rhee, sem nú var að falla, hafði frjálsar kosningar 1950 og var í minni hl. í þingi í Suður-Kóreu 1950, rak það þing burt og réðst á Norður-Kóreu til þess að geta komið á hervaldi í landinu og hefur síðan viðhaldið þeirri böðulsstjórn í 10 ár, þangað til hann var hrakinn burt núna: Með því að setja Kóreustríðið af stað voru Bandaríkin að reyna að lina þá kreppu, sem var skollin yfir 1948. Og Marshall-hjálpin hefur verið ein aðferðin til þess. Hergagnaframleiðsluaukinn var aðferð hjá Hitler til slíks og raunar notaður til fleira. Hergagnaframleiðslan núna í kalda stríðinu hefur líka verið ein aðferð til að draga úr afleiðingum kreppu.

Kreppurnar hjá kapítalistunum halda alveg jafnt áfram, en þær mundu bara að eðlilegum hætti ekki vera eins ægilegar og heimskreppan var 1930. Talið þið við þá í Kanada núna. 10% af verkalýðnum í Kanada er atvinnulaus, tíundi hver maður. Fólk, sem kemur frá Kanada núna, talar fyrst og fremst um eitt, og það er um kreppuna. Og í búðum og alls staðar í Kanada er ekki meira talað um neitt annað en kreppuna, sem sé að koma, kreppuna, sem sé að vaxa. Í Bandaríkjunum eru í dag 5 millj. verkamanna atvinnulausir. Og kreppan kemur með sínu reglulega millibili í sínum kapítalistíska heimi samkvæmt lögmálum þeim, sem þar gilda. Hitt er gefið, að hún verður ekki eins ægileg og heimskreppan var 1930, m. á. vegna þess, að í dag mundi auðvaldsheimurinn ekki þola það. Auðvaldsskipulagið yrði þurrkað út í hverju einasta landi veraldarinnar, ef fólkið sæi fram á, að heimskreppa ætlaði að verða eins og 1930.

Þá sagði hv. 6. landsk., að ég mundi vera eitthvað smeykur við, að það væri verið að girða fyrir, að sósíalisminn kæmist á, með því að taka nú upp frelsið á Íslandi. O, nei, nei, nei. Ég þarf ekki að örvænta út af þróuninni á síðustu 30–40 árum í veröldinni um sósíalismann. Sósíalisminn er orðinn sterkasta valdið í heiminum. Af hverju? Af því að hann hefur sýnt efnahagslega yfirburði yfir þann kapítalistíska heim. Framfarir í öllum löndum sósíallsmans í efnahagsmálum, í atvinnumálum, í vísindum og fleira hafa orðið slíkar, að nú er loks svo komið, að sjálfar auðmannastéttir heimsins viðurkenna þetta. Það fleygir fram þeim sósíalistísku þjóðfélögum, þannig að gömlu auðvaldsþjóðfélögin dragast aftur úr. Hitt er svo aftur annað mál, að þau ríki, þar sem sósíalisminn hefur byrjað, eins og t.d. það gamla Rússland, voru áður fyrr einhver fátækustu lönd heimsins og þau sem mest voru aftur úr, hafa þar að auki orðið að upplifa tvennar styrjaldir á þessum mannsaldri, þar sem hins vegar fremsta auðvaldsland veraldarinnar, Bandaríkin, sem stóðu náttúrlega langt, langt framar því gamla Rússlandi 1913, hafa stórgrætt á tveimur heimsstyrjöldum, en sjá samt sjálf fram á það núna, að þau muni dragast aftur úr í þeirri efnahagslegu samkeppni á milli þessara kerfa.

Það er þess vegna engum efa bundið, að sósíalisminn sigrar vegna þess, að í hverju landi mun alþýðan sjá, að það að koma á áætlunarbúskap er eina vitið til þess að tryggja afkomu manna og nægar efnahagslegar framfarir, rétt eins og Sjálfstfl. sá það, þegar hann hafði ofur litla reynslu af samstarfinu við okkur 1944, að með því að nota einhvern anga af sóíalistískum hugmyndum í sambandi við nýsköpunina var hægt að gera meira fyrir íslenzkt atvinnulíf með stuttri tveggja ára stjórn þá heldur en í öllum þeim stjórnum, sem Sjálfstfl. hefur starfað í siðan. Meira að segja Sjálfstfl, mun ekki verjast því að verða að viðurkenna yfirburði þeirra hugmynda, sem liggja í áætlunarbúskapnum, yfir ringulreið kapítalismans.

Okkur mætti svo sem vera sama um það, þm. Alþb., þó að þeir kæmu þessu á hér hjá okkur núna. Fólkið á Íslandi, sem í 30 ár er búið að búa við svokölluð höft og í 20 ár hefur lifað við sæmilega afkomu, það má vel vera, að það væri holl lexía fyrir það fólk að sjá, hvers konar eymdarástand þeir skapa með þessu. Fólk er máske búið að gleyma því, hvernig það er, að unga fólkið hafi ekki aura til þess að fara í bíó eða hafi varla aura fyrir strætisvagni. En það hefur bara verið okkar pólitík öll þessi ár að reyna að afstýra því, að slíkt ástand skapaðist, en ekki vera svo að segja að stuðla að því, að það kæmist á, til þess að fólkið lærði af því. Við höfum sjálfir fengið lexíuna af þessu verzlunarfrelsi það hart á sínum tíma, að við vitum, hvernig það er, að okkur langar ekki til, að neinn annar þurfi að standa í því. Við, sem höfum alizt upp við þetta fátæktar- og kúgunarskipulag, viljum gjarnan, að okkar börn geti notið þótt ekki sé nema þess takmarkaða frelsis, sem verið hefur á undanförnum árum í efnahagsmálum, en geti þó venjulega leyft sér nokkurn veginn að hafa til hnífs og skeiðar.

Þess vegna, þegar hv. 6. þm. landsk. er að lýsa því yfir, að hann haldi, að spádómar Marx hafi ekki rætzt eða kreppurnar séu yfirunnið fyrirkomulag eða að frjálsa verzlunin geti skapað einhverja velmegun enn þá, þá ferst honum og þeim, sem slíkt kenna, eins og nátttrölli, sem er að daga uppi. Það var nótt, þegar þessir hlutir gátu gerzt, nótt miðrar 19. aldar, þegar hægt var að boða þessa frjálsu samkeppni. Sú nótt er búin, henni er að ljúka. Það er dagrenning aldar, þar sem alþýðan sættir sig ekki við annað en að hver einasti maður hafi rétt og fullt öryggi til þess að hafa vinnu hvern einasta dag, og það þjóðfélag, sem ekki veitir honum það, á ekki skilið að vera til. Það er réttur hvers einasta manns að geta fengið að vinna og vinna fyrir sómasamlegu kaupi. Íslenzk alþýða er, þótt böksulegur búskapur hafi verið um margt á undanförnum 20 árum, orðin vön við að njóta þessa réttar, og hún mun ekki sætta sig við það, að atvinnuleysi þeirrar frjálsu verzlunar verði leitt yfir hana.

Hv. 6. landsk. þm. las upp eftir mér ýmislegt, og það var mjög góður partur í hans ræðu og margt skynsamlega sagt, þegar hann var kominn þar að. Það var alveg rétt hjá honum, að ég hef stundum talað um, að höftin hefðu ekki verið nógu ströng, en hins vegar alveg sérstaklega þó um hitt, að þau væru ekki gerð jákvæð, þau væru ekki gerð skapandi. Ég hef skammazt eins mikið út af höftum og nokkur annar, en í þeim tilgangi að hagnýta þetta haftafyrirkomulag á skynsamlegan hátt. Og satt að segja lá ég margar nætur vakandi til þess að brjóta það mál til mergjar hér á árunum 1943 og 1944, hvernig væri hægt að koma einhverjum skapandi neista í þetta haftafargan, sem búið var að vera 10 ár þá hér á Íslandi, þangað til ég fann út úr því, að það væri meira að segja hægt að nota þessi höft til þess að gera það að skilyrði, hvers konar vélar menn flyttu inn í landið, og hagnýta þannig þessi höft til þess að byggja upp togaraflotann og annað slíkt í sambandi við það.

Hv. 6. landsk. sagði, að öll þessi ráð, sem sett hefðu verið á laggirnar í sambandi við slíkt og í sambandi við það, sem við hefðum reynt að gera til þess að breyta þessum höftum og gera þau jákvæð, það hefði verið mikið fígúruverk. Ég þakka honum, og ég held, að hæstv. forsrh. hafi meira að segja verið að þakka honum fyrir ræðuna, og það þykir mér jafnvel enn þá vænna um, þegar hæstv. forsrh. er líka það langt leiddur að fara að telja nýbyggingarráð og slíkt eitthvert fígúruverk. Það er ágætt, að Sjálfstfl. á þeirri braut, sem hann er nú, sverji af sér nýsköpunina. Hann hefur stundum haft tilhneigingu til þess á undanförnum áratugum að reyna að tileinka sér hana og hæstv. forsrh. alveg sérstaklega. Hún hefur jafnvel stundum verið sérstaklega hans stolt, og það er allt í lagi, að hann sverji hana nú af sér og telji hana sem hvert annað fígúruverk. Verkalýðurinn, sem skóp hana, mun halda áfram að kannast við hana. Hann mun halda áfram að benda á hana sem fyrirmynd um, að jafnvel í borgaralegu þjóðfélagi sé hægt að koma á ofur litlu og hagnýta ofur lítið af þeim neista, sem í sósíalismanum felst.

Þá virtist hv. 6. landsk, alveg sérstaklega mótmæla fyrir hönd íslenzks verkalýðs, að það væri verið að stefna að áætlunarbúskap. Má ég vekja athygli hv. 6. landsk. á því, að Alþýðusamband Íslands hefur bæði á síðasta Alþýðusambandsþingi og yfirleitt undanfarin ár gert það að einni höfuðkröfu sinni og samþ. það einróma, að það væri komið á fullum áætlunarbúskap á Íslandi? Og íslenzkur verkalýður hefur verið að berjast fyrir sinni velferð með því að gera þessar kröfur.

Þá talaði hv. 6. landsk. um, að það væri alveg rangt, að það væru einhverjir að hatast við verzlun við einstök lönd. Ég get nú ekki verið að þreyta hann á því að fara að lesa hér upp úr Félagsbréfum Almenna bókafélagsins eða eitthvað þess háttar, ef hann ekki vissi af því, hvernig sumir hatast við slíkt.

Og svo kom hann að því, að það væri að vísu slæmt að geta ekki losnað við allar hömlur viðvíkjandi útflutningnum, en það væri þó nauðsyn fyrir okkur að geta tryggt nokkur viðskipti við þessi lönd og við tryggðum 87% af þeim með þeim ráðstöfunum, sem nú væri fyrirhugað að gera, og 13% ætti samkeppnishæfni þeirra sjálfra að tryggja.

Eins og ég hef sagt áður, spurningin þarna er ekki um samkeppnishæfni. Ísland gæti hætt að kaupa olíu í Sovétríkjunum jafnt á morgun hvað það snertir. Spurningin er ekki um samkeppnishæfni. Spurningin er um, hvort okkar innflutningskerfi getur hagnýtt sér þeirra viðskiptakerfi. Þau geta kannske verið fullkomlega samkeppnishæf um hinar og þessar vörur, en það getur bara verið svo með þær vörur, að þau ráðstafi þeim eitt ár fram í tímann eða fleiri ár fram í tímann, þannig að við getum ekki fengið neitt af þeim vörum, ef við gerum ekki fyrirframsamninga við þau um það, og það veit hæstv. ríkisstj. Spurningin þarna stendur þess vegna um að hagnýta sér þeirra kerfi með því að hafa það vald á okkar eigin innflutningi og útflutningi, ef við getum það. (Forseti: Ég vil spyrja hv. þm., hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni.) Ég er alveg að ljúka henni.

Þá talaði hv. 6. landsk. um, að það væri ekkert efnahagslegt öryggi í því að semja við þessi lönd, og hann nefndi eitt dæmi, sem átti að vera sönnunin. Það væri, að ég hefði sagt, að umtalið um frílistann hefði orðið til þess að minnka viðskiptin, t.d. draga úr, að Tékkar keyptu inn fisk til Tékkóslóvakíu. Jú, hvað var það, sem ég var að segja? Ég var að segja, að umtalið um frílistann, sem hér hefur verið nú í meira en 3 mánuði, hefði orðið til þess að minnka innkaup íslenzkra kaupmanna í þessum löndum, t.d. í þessu tilfelli í Tékkóslóvakíu og jafnvel líka í Austur-Þýzkalandi. Þessi minnkuðu innkaup íslenzkra innflytjenda í þessum viðskiptalöndum okkar hafa orðið til þess, að inneignir þessara landa hjá okkur hafa orðið mjög miklar, og þessi ríki vilja ekki eiga hjá okkur stórupphæðir. Þau vilja ekki skulda okkur stórar fjárupphæðir, og þess vegna hafa þau dregið úr sínum innkaupum. Bara sú afstaða íslenzku heildsalanna, sem hefur skapazt við það, að fyrirhugað hefur verið að koma þessu kerfi á, hefur nú þegar byrjað að hafa þau áhrif að draga úr viðskiptunum við þessi lönd. Og ég hef nú aftur í þessari ræðu minni nefnt ný dæmi um þetta, hvernig þessi háskalega löggjöf er nú þegar, meðan innflytjendur á Íslandi búast við, að hún komist á, byrjuð að hafa þessi skaðlegu áhrif. Hvað mundi þá verða, þegar hún væri komin í gildi, ef hún kæmist í gildi?

Svo sagði hv. 6. landsk. viðvíkjandi útflutningsverzluninni: „Um það skal ekki fjölyrt að sinni,“ sagði hann orðrétt. Það skil ég vel. Eftir að hann er búinn að tala í meira en klukkutíma um frelsið, heilan frelsisóð, og loksins er Ísland laust úr 30 ára höftum, frelsað þjóðina, þegar kemur að útflutningsverzluninni, þá skal ekki fjölyrt að sinni. Þar á einokunin að haldast. Hann langaði ekki til þess að sjá heilan her af sölumönnum að vera að selja. Jú, vissulega, það hefði verið í samræmi við það. Nú fáum við heilan her af heildsölum til þess að kaupa inn í öllum þeim vestrænu frjálsu gjaldeyrislöndum. Auðvitað ættum við að hafa heilan her af sölumönnum líka til að selja. Það er ekki gert. M.ö.o.: ef það væri rétt trú ríkisstj. á þetta allt saman, að frjáls verzlun mundi lífga eitthvað, þá ætlar hún að lífga við innflutninginn til landsins og hengja útflutninginn. Það að hengja útflutninginn, það er hún vissulega að gera. Það að setja líf í innflutninginn, það gerir hún á meðan hún lifir á lánunum og svo búið. Svo eigum við að fara að taka við þessu á eftir, þrotabúinu hjá ykkur, borga skuldirnar, sem þið eruð búnir að steypa þjóðinni í, og standa frammi fyrir því að verða að byggja upp á ný viðskiptasamböndin, sem þið eruð búnir að rífa niður með þessum aðgerðum.

Hann sagði viðvíkjandi útflutningsverzluninni, hv. 6, landsk., að það væri önnur saga. Já, því ekki að segja þá sögu? Ég held við ættum að segja þá sögu, tala hér við nafna minn, hv. 3. þm. Austf. (EinS). Við ættum að segja söguna af útflutningnum, láta heildsalana og útflytjendurna eigast við og skrifta hér fyrir okkur um aðstöðuna í þessu, sameiginlega og andstæða hagsmuni þeirra. Það er önnur saga. Ég hef ofur lítið komið inn á þá sögu hér, og ég vil gjarnan ræða þá sögu.

Við höfum hingað til reynt að bera ábyrgð á afkomu þessarar þjóðar, þessi síðustu 20 ár, lagi þeim helztu athugasemdum, sem fram hafa komið við þetta frv. af hálfu hv. stjórnarandstöðu.

Mig langar til að byrja á að benda á það mikla ósamræmi, sem er í málflutningi fyrirsvarsmanna stjórnarandstöðuflokkanna tveggja. Það er kjarni í gagnrýni Framsfl. á þessu frv., beggja þeirra ræðumanna, sem talað hafa, hv. 7. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG), að í því felist í raun og veru sáralítil breyting frá því ástandi, sem nú er, að það sé í raun og veru ekki um neitt verulegt afnám hafta að ræða, höftin eigi að haldast, afskipti ríkisvaldsins af atvinnulífinu eigi að haldast, ofstjórnin eigi að haldast, ríkið sé eftir sem áður mikils ráðandi í atvinnulífinu og geti beitt innflutningshöftum, bankalánapólitík, vaxtapólitík og þar fram eftir götunum, þannig að í raun og veru sé breytingin með frv. sáralítil. Ríkið haldi m.ö.o. eftir sem áður þeirri lykilaðstöðu, sem það hafi, til þess að hafa þá úrslitastjórn á þjóðarbúskapnum áfram, sem það hefur haft undanfarið.

Kjarni í gagnrýni hv. 3. þm. Reykv., málút úr þessu, sem hægt er.

Ég hef svarað þeirri framsöguræðu, sem hv. 6. landsk., frsm. meiri hl. fjhn., flutti, og ég hef bætt því við, sem ég áleit ósagt við 1. umr., míns máls, og ég þykist hafa fært nokkur rök fyrir því, að þetta frv. sé stórhættulegt fyrir okkar þjóð. Þess vegna er það mín tillaga, að þetta frv. sé fellt.