29.04.1960
Neðri deild: 73. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2211 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér þykir rétt að svara nú nokkuð ýmsum ummælum, sem komu fram þegar við 1. umr. þessa máls af hálfu hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) og hv. 3. þm. Reykv. (EOI), og enn fremur ummælum, sem komu fram af hálfu minni hl. fjhn. við 2. umr. í gær, og mun gera það í einu lagi, þ.e.a.s. reyna að svara í einu með því að ríkisstj. landsins hlutaðist til um útflutninginn og innflutninginn og reyndi að stjórna honum. Það hefur gengið á ýmsan hátt böksulega, og það hefur á ýmsan hátt gengið vel. Og þrátt fyrir allt og allt hafa þessi 20 ár verið mikið framfaratímabil, mesta framfaratímabil íslenzku þjóðarinnar og sæmilegt afkomutímabil fyrir alþýðu manna. Nú á að breyta þarna um, og ríkisstj. segir: Nú verða atvinnurekendur að standa á eigin fótum. — Alþýða manna hefur enga trú á fótum atvinnurekendanna. Hún þekkir, að það eru leirfætur, sem þeir hafa staðið á.

En ætli hæstv. ríkisstj. að innleiða frelsið og segja hverjum að standa á sínum eigin fótum, þá vill áreiðanlega íslenzk alþýða líka fá að standa á sínum eigin fótum, líka fá fullt frelsi með útflutning og innflutning, fá að mynda sín eigin samtök, fá að ráða viðvíkjandi þessum hlutum, fá að fá það bezta þjóðastofnunum, sem Ísland er aðili að. Ísland átti ekki kost á neinum slíkum yfirdráttarlánum síðast þegar stórátak var gert til þess að gera innflutninginn til landsins frjálsan, þ.e.a.s. á árunum eftir 1950, og er enginn vafi á því, að einmitt sú staðreynd átti einn meginþáttinn í því, að sú tilraun fór eins og hún fór.

Hv. 7. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni við 1. umr., að hér væri í raun og veru ekki um það að ræða að afnema höft, heldur að láta ein höft koma í stað annarra, í stað hafta, sem hið opinbera stjórnaði, kæmu nú höft fátækt

Hv. forsvarsmaður Alþb. hefur svo á hinn bóginn algerlega rangt fyrir sér í því, að þessi breyting sé svo róttæk, að hún muni stefna sjálfstæði íslenzks efnahagskerfis í voða. Tryggingin fyrir því, að ekkert slíkt gerist, þótt frílistinn sé gerður raunverulegur og hann sé aukinn nokkuð frá því, sem áður hefur verið, er einmitt fólgin í þeim ráðstöfunum, sem þegar hafa verið gerðar innanlands til þess að tryggja jafnvægi innanlands og út á við. Tryggingin fyrir því, að óhætt sé að gera frílistann raunverulegan og stækka hann, er einmitt fólgin í þeim föstu tökum, sem stjórn bankamálanna hefur verið tekin, í þeim föstu tökum, sem vaxtapólitíkin hefur verið tekin, og í því að afgreiða örugglega tekjuhallalaus fjárlög, svo sem Alþ. hefur nú gert. En tryggingin fyrir því, að unnt sé að komast yfir þá byrjunarerfiðleika, sem eðlilegt er að eigi sér stað og búast má við í framhaldi af framkvæmd frílistans, er sú, að Íslandi hefur gefizt kostur á stóru yfirdráttarláni hjá alekki fyrst og fremst fólgin í því, að frílistinn, sem í gildi hefði verið á grundvelli laga um innflutningsverzlun, sé stækkaður svo mjög, og verður hann þó stækkaður talsvert. Höfuðbreytingin, sem verður, ef þetta frv. nær fram að ganga og skilyrði skapast til þess að gera þær ráðstafanir, sem meiningin er að gera í framhaldi af því, er sú, að frílistinn, sem í gildi hefur verið um mörg undanfarin ár eða síðan 1951, verður raunverulegur, en það hefur hann ekki verið í þann áratug, sem hann hefur verið í gildi. Það er höfuðbreytingin. setja íslenzkt efnahagskerfi um koll og reyra á það skuldaviðjar vestræns auðvalds.

Nú er það auðvitað augljóst mál, að þegar svo mikið ber á milli í málflutningi tveggja andstöðuflokka ríkisstj. í þessu máli, geta ekki báðir haft rétt fyrir sér. Hitt er fræðilega hugsanlegt, að báðir hafi rangt fyrir sér, og það á sér einmitt stað. Sannleikurinn er sá, að það er algerlega úr lausu lofti gripið hjá forsvarsmönnum Framsfl., að í þessu frv. og þeim ráðstöfunum, sem boðaðar eru í kjölfar þess, felist engin breyting á skipulagi innflutningsmálanna. Breytingin, sem verður, er svara Alþb., er aftur á móti þveröfugur við þetta. Kjarninn í hans gagnrýni er sá, að hér sé um svo róttækt afnám hafta að ræða, að af því muni hljótast mikil bölvun, hér sé um svo stórt spor að ræða í áttina til þess að gera innflutning til landsins frjálsan, að það mundi

arinnar, höft vaxtahækkunar, útlánahöft o.s.frv. Ég vil aðeins benda á, að hér er um algeran hugtakarugling að ræða. Í öllum þeim fjögurra áratuga umr., sem farið hafa fram um íslenzk gjaldeyris- og innflutningsmál, hefur orðið „höft“ ávallt verið notað í þeirri merkingu, að það tákni beinar innflutningstakmarkanir af hálfu opinberra stjórnarvalda. Þess vegna er það í algeru ósamræmi við alla þá málvenju, sem tíðkazt hefur í fjögurra áratuga umr. um þetta mál, að kalla höft þau áhrif, sem auðvitað verða á innflutning af takmörkunum útlána, vaxtahækkunum og jöfnuði á fjárlögum. Það er hugtakaruglingur, sem getur engum gert greiða, en getur aðeins torveldað skynsamlegar umr. um málið. Hitt er auðvitað alveg rétt hjá hv. þm., að sú leið, sem þessi ríkisstj. vill fara til þess að halda jafnvægi út á við, er fyrst og fremst fólgin í því að koma í veg fyrir óeðlilega útlánaþenslu af hálfu banka og koma í veg fyrir halla á fjárlögum, — en að kalla það höft er að nota orð í algerlega rangri merkingu og til þess eins fallið að rugla.

Hv. 7. þm. Reykv. ræddi og nokkuð um þau ákvæði, sem eru í þessu frv. um, að eftir sem áður skuli þurfa leyfi fyrir útflutningi, og kvartaði undan því, að stjórnin hefði ekki stigið spor í átt til að gera útflutningsverzlunina frjálsa, hliðstætt því, sem hún stígur í þá átt að auka frelsi í innflutningsverzluninni. Þetta er rétt. En rökin fyrir því að heimila ekki sams konar viðskiptafrelsi í útflutningsverzluninni og innflutningsverzluninni eru mjög einföld, og þau eru öllum hv. þdm. áreiðanlega kunn í grundvallaratriðum. Meginrökin fyrir kerfinu í útflutningnum eru þau að koma í veg fyrir keppni íslenzkra aðila á erlendum markaði, sem gæti haft í för með sér í fyrsta lagi verðfall á íslenzkum afurðum og svo óþarflega kostnaðarsama baráttu aðila í hinu litla íslenzka þjóðfélagi um sama markaðinn. Reynslan fyrir 1930 af slíku ótakmörkuðu frelsi í útflutningsverzluninni var svo bitur, að þær ráðstafanir, sem gripið var til á fyrstu árum fjórða áratugsins til þess að koma í veg fyrir slíka samkeppni íslenzkra aðila á erlendum mörkuðum, hafa verið óumdeildar milli flokkanna síðan. Og mér vitanlega hafa ekki verið uppi hér á hinu háa Alþ. till., sem hafa miðað að því að afnema öll afskipti íslenzka ríkisvaldsins af framboði íslenzkrar vöru erlendis, af þeirri einföldu ástæðu, að þá væri efnt til samkeppni á erlendum mörkuðum milli íslenzkra útflutningsfyrirtækja, sem gæti a.m.k. leitt til annars hvors, verðfalls eða alveg ónauðsynlegs sölukostnaðar íslenzkra afurða erlendis.

Þá minnti hv. 7. þm. Reykv. á það, hvað staðið hefði í stefnuskrá umbótaflokkanna eða málefnasamningi Framsfl. og Alþfl. sumarið 1956 um þetta efni, og harmaði, að í þessu frv. skyldi ekki vera tekin upp sú stefna, sem þar var mörkuð, en hún var í sem stytztu máli sú, að setja skyldi upp heildaryfirstjórn útflutningsverzlunarinnar og þar ættu sæti fulltrúar frá ríkisstj., sjómönnum, útvegsmönnum og fiskvinnslustöðvum, en þeir aðilar einir, sem ríkisstj. löggilti, skuli annast útflutning sjávarafurða. Þetta samningsákvæði Framsfl. og Alþfl. var aldrei framkvæmt af þeirri stjórn, sem mynduð var undir forsæti Framsfl. sumarið 1956, og mér finnst satt að segja til nokkuð mikils mælzt af hv. 7. þm. Reykv., að hann ætlist til þess af þessari ríkisstj., að hún framkvæmi samningsatriði Framsfl. og Alþfl. frá 1956, sem sú stjórn, sem við stóðum sameiginlega að, treysti sér aldrei til þess að framkvæma, þó að ég fjölyrði ekki um það, hvernig á því stóð. En þess vegna gat ég um þetta, að mér fannst það, að hann minnti á þessa stefnuskrá, gefa mér kærkomið tilefni til þess að minna hann á annað atriði í stefnuskránni, það atriði, sem einmitt lýtur að innflutningsmálunum, því að það var atriði, sem við ræddum mjög mikið, þegar sú stefnuskrá var undirbúin.

Við hv. 7. þm. Reykv. áttum báðir nokkurn þátt í því að semja þessa stefnuskrá, og ég man ekki betur en við værum innilega sammála um allt sem í henni stóð, eins og það að lokum varð, m.a. það, sem í henni segir um stefnuna í innflutningsmálunum, en hún er alveg skýlaus, og þar er ekkert skorið utan af. Þar segir, í 2. liðgrundvallaratriðanna í stefnuskránni, liðurinn byrjar svona: „Taka skal upp eftirlit með öllu verðlagi í landinu“. Og síðan: „Stefna skal að því, að ekki þurfi að beita innflutningshöftum.“

Þetta var sú stefna, sem Framsfl. og Alþfl. háðu kosningabaráttuna undir sumarið 1956, og þessi setning var ekki sett í stefnuskrána af neinni tilviljun, hún var þrautrædd áður, einmitt þessi stefna, að ef þessir flokkar ynnu sigur og fengju meiri hl. á Alþ. þá skyldu innflutningshöft í öllum aðalatriðum afnumin. Að öðrum kosti hefðum við hv. 7. þm. Reykv. auðvitað ekki átt okkar þátt í því, að þetta var svona orðað í stefnuskránni, ef við hefðum ekki meint það. Nú fór það að vísu þannig, að þessir tveir flokkar fengu ekki meiri hluta í kosningunum og fengu því ekki aðstöðu til þess að framkvæma þetta stefnuskráratriði, að innflutningshöft skyldu afnumin. Ástæðan til þess, að sú stjórn, sem formaður Framsfl. myndaði eftir þessar kosningar, framfylgdi ekki þessu stefnuskráratriði umbótaflokkanna að afnema innflutningshöft, var sú, að það tókst aldrei að fá nægilega samstöðu, fyrst og fremst við þriðja samstarfsflokkinn, um að beita þeirri stefnu í efnahagsmálum innanlands, sem gæti gert það kleift að afnema innflutningshöftin út á við. Það tókst aldrei að fá nægilega samstöðu milli allra flokka ríkisstj, um þá stefnu í bankamálum, um þá stefnu í fjármálum ríkisins, að því er snertir tekjuöflun ríkisins og að því er snertir tekjuöflun til útflutningssjóðs, að það væri hægt að mæla með því í alvöru, ef menn vildu varðveita ábyrgðartilfinningu að fullu, að innflutningshöft væru afnumin. Það er fyrst með myndun þessarar ríkisstj., að það tekst að skapa þingmeirihluta fyrir þess konar stefnu í fjármálum landsins inn á við, að það er unnt að framfylgja þeirri stefnu, sem svona ljóst og skýrt var mótuð í sameiginlegri stefnuskrá Alþfl, og Framsfl. 1956, að innflutningshöft skyldu afnumin.

Áður en ég skil við ræðu hv. 7. þm. Reykv. við 1. umr. málsins, langar mig til að fara nokkrum orðum almennt um afstöðu einmitt Framsfl. til hafta. Framsfl. hefur að því leyti haft svipaða grundvallarafstöðu til hafta og Alþfl., að hann hefur talið höft vera tæki, sem ekki aðeins hægt væri, heldur einnig ætti að beita til þess að mæta skyndilegum sveiflum á gjaldeyristekjum lands eins og Íslands, t.d. þegar mjög snöggar verðbreytingar yrðu á útflutningsvörum landsins á erlendum mörkuðum eða landið þyrfti nokkurra ára tímabil til þess að flytja mikilvæga útflutningsvöru frá einum markaði til annars. Undir þeim kringumstæðum væri skynsamlegt og eðlilegt og heppilegt að beita höftum, til þess að komast yfir þessa tímabundnu gjaldeyriserfiðleika, heldur en að þurfa að grípa til gengisbreytingar eða róttækra breytinga á peningamálastefnunni innanlands. En hins vegar veit ég ekki annað en Framsfl. hafi líka í grundvallaratriðum verið þeirrar sömu skoðunar, sem Alþfl. alltaf hefur verið, að höft væru ekki tæki, sem unnt væri að vinna með gegn varanlegum gjaldeyrisskorti, að höft væru hvorki heppilegt tæki til þess að reyna að sigrast á varanlegum gjaldeyrisskorti né heldur væri unnt að sigrast á varanlegum gjaldeyrisskorti með því að beita höftum, vegna þess að gjaldeyrisskorturinn ætti sér aðrar og dýpri orsakir. Hann ætti sér orsakir í jafnvægisleysi innanlands, og þess vegna yrði gjaldeyrisskorturinn ekki sigraður nema með því að hafa áhrif á þá þætti innanlands, sem eru grundvallaratriði í því, að gjaldeyrisskorturinn nefur myndazt. A.m.k. var þetta sameiginleg skoðun Framsfl. og Alþfl. svo snemma sem árið 1941, en þá hafði Alþingi kosið milliþinganefnd. Vorið 1940 hafði Alþingi kosið milliþinganefnd til þess, eins og segir í þál., með leyfi hæstv. forseta: „að endurskoða löggjöfina um gjaldeyrisverzlun og innflutningshömlur. Nefndin leggi áherzlu á að athuga, hvaða skipun þessara mála hæfi bezt því ástandi, sem nú er. Enn fremur rannsaki nefndin sérstaklega, hvaða ástæður þurfi að vera fyrir hendi, til þess að fært sé að afnema innflutningshömlur þær, sem nú gilda, og með hvaða hætti það yrði framkvæmt.“

Í þessari n. áttu sæti Eysteinn Jónsson, Björn Ólafsson og ég. Við Eysteinn Jónsson skiluðum sameiginlegu nál., alllöngu nál., þar sem einmitt var rætt alveg sérstaklega um þetta atriði, hvaða skilyrði þyrftu að vera fyrir hendi, til þess að unnt væri að afnema innflutningshöftin, sem þá voru í gildi og allir voru sammála um, að skyldu vera í gildi í stríðinu. En í þessu nál. kom mjög skýrt fram afstaða okkar Eysteins Jónssonar þá, sem var afstaða Alþfl, þá og hefur áreiðanlega verið afstaða Framsfl. þá til hafta í grundvallaratriðum, og þetta var fyrir 20 árum. Mig langar til að lofa hv. þdm. að heyra aðeins nokkrar setningar úr þessu nál., af því að ég er þeirrar skoðunar, að einmitt þarna hafi ekki aðeins Alþfl., sem samþ. mína afstöðu í n., heldur einnig Framsfl. markað afstöðu sína til hafta í grundvallaratriðum, hvað sem hann svo kann að segja núna, þegar hann er í stjórnarandstöðu. En nokkrar setningar úr nál. hljóða svona, með leyfi hæstv, forseta, — þar er verið að bera innflutningshöft saman við ýmsar aðrar ráðstafanir, sem til — greina geta komið til þess að ná sama markmiði, en þar segir:

„Hins vegar er framkvæmd innflutningshafta tiltölulega auðveld og einnig auðvelt að afnema þau, ef þeirra gerist ekki lengur þörf. Áhrifa þeirra gætir fljótlega, ef tekið er að beita þeim, áhrif þeirra á þjóðarbúskapinn í heild eru sízt minni en annarra ráðstafana, og áhrifa þeirra hættir að gæta mjög fljótt, eftir að hætt er að beita þeim. Þau virðast því bezt fallin þeirra ráðstafana, sem lýst var, til þess að vinna gegn tíðum sveiflum og snöggum á gjaldeyrisafkomunni, er rót sína eiga að rekja til breytts verzlunarárferðis. Hins vegar má ekki ætla, að með þeim einum megi vinna bug á langvarandi gjaldeyrisskorti, sem e.t.v. á rót sína að rekja til algerlega breyttra aðstæðna innanlands eða utan. Yrði þá auðvitað samhliða innflutningshöftunum að grípa til einhverra af þeim ráðstöfunum, sem minnzt var á hér að framan, eða jafnvel þeirra allra í sameiningu, þar til er aftur hefði verið skapað eðlilegt ástand, svo að fært sé að afnema innflutningshöftin, því að svo sem gefur að skilja, getur aldrei verið svo til ætlazt“ — þetta vildi ég mega lesa aftur — „því að svo sem gefur að skilja, getur aldrei verið svo til ætlazt, þegar innflutningshöft eru lögleidd, að þau muni verða um aldur og ævi. Innflutningshöftin hljóta jafnan að vera bráðabirgðaráðstöfun. Þau geta aldrei verið markmið í sjálfu sér, heldur einungis tæki til þess að ná ákveðnu markmiði, sem sé því að vinna gegn óhagstæðum greiðslujöfnuði.“

Þetta var sameiginleg skoðun okkar Eysteins Jónssonar árið 1941 og sameiginleg skoðun Alþfl. og Framsfl. á því herrans ári. Það er einnig þessi sama skoðun, sem kemur fram í stefnuskrá umbótaflokkanna frá 1956, sem hv. 7. þm. Reykv. gaf mér svo kærkomið tækifæri til þess að segja frá, til þess að vitna í, þar sem það er alveg umbúðalaust sagt, að stefna skuli að því að afnema innflutningshöft. Og það var ekki Framsfl., það vil ég segja alveg skýrt, það var ekki honum að kenna frekar en Alþfl., að vinstri stjórninni mistókst að afnema innflutningshöftin, sem við þó báðir höfðum lofað að gera í kosningunum 1956. Þar er við aðra aðila um að sakast.

En með sérstakri hliðsjón af þessari grundvallarstefnu Framsfl., sem kemur fram í þessu nál, okkar Eysteins Jónssonar og stefnuskrá umbótaflokkanna 1956, — með sérstakri hliðsjón af þessu hlýt ég að segja um andstöðu flokksins gegn þessu frv., eins og ég sagði um andstöðu hans gegn sjálfu efnahagsmálafrv., að maður veit ekki, hversu alvarlega maður á að taka hana. Mig grunar, — og það segi ég Framsfl. til hróss, en ekki til lasts, mig grunar, að hann sé í hjarta sínu miklu meir sammála þeirri heildarstefnu, sem kemur fram í þessum frv. báðum, heldur en fram kemur af ræðum ræðumanna hans nú, þegar málið er til umr. í þinginu, og skrifum dagblaðs hans, þegar það ræðir frumvörpin, og andstöðu flokksins gegn þessum málum megi miklu fremur rekja til þess, að hann sé í stjórnarandstöðu og telji það hlutverk stjórnarandstöðu að vera á móti ríkisstj., en ekki til hins, að hér sé í raun og veru um að ræða stefnu, sem sé flokknum ógeðfelld eða hann sé í sjálfu sér andvígur, eins og fram kemur af þessum dæmum, sem ég hef nefnt.

Það var eitt atriði í ræðu hv. 1. þm. Norðurl. v. í gær, sem mig langar til þess að leiðrétta. Hann sagði, að það mundi ekki verða ódýrara að framkvæma þá stjórn á innflutningsmálunum, sem óhjákvæmileg yrði, heldur en það var, og sæist það bezt á því, að eftir sem áður væri gert ráð fyrir því að innheimta 1% leyfisgjald af öllum veittum leyfum. Þessu til skýringar vil ég taka fram, að það er ætlazt til þess, að allur kostnaður við verðlagseftirlitið verði greiddur af þessu leyfisgjaldi, sem samkvæmt frv. á að nema allt að 1%, en áður var í lögum, að það skyldi nema 1%. Auk þess er gert ráð fyrir því, að fellt verði niður leyfisgjald á öllum vörum frá clearinglöndunum, þ.e.a.s. að ekkert leyfisgjald verði innheimt af þeim nær 40% innflutningsins, sem koma frá clearing-löndunum, svo að leyfisgjaldið verður fyrst og fremst á þeim vörum, sem háðar verða beinum leyfum samkvæmt glóbalkvótunum. Ef þær tekjur, sem af þessu hljótast, verða ekki nægilegar til þess að standa undir kostnaðinum við verðlagseftirlitið og þeim kostnaði, sem bankarnir hljóta af þeirri stjórn innflutningsmálanna, sem þeir takast á hendur, verður að semja um það við bankana, að þeir noti einhvern hluta sinna almennu yfirfærslugjalda, e.t.v. hækki þau eitthvað lítils háttar, en að það gangi þó jafnt yfir frjálsa innflutninginn samkvæmt frílistunum frá Vestur-Evrópulöndunum og innflutninginn samkvæmt bundna listanum frá clearing-löndunum. En það segir sig auðvitað sjálft, að ekki kemur til mála, eftir að allt leyfisveitingakerfi fellur niður samkvæmt frílistanum, að láta greiða 1% leyfisgjald af vörum frá clearing-löndunum. Það mundi vera að gera innflytjendum frá þeim torveldara um að annast sinn innflutning heldur en innflytjendum samkvæmt frílistanum.

Það er því alveg augljóst mál, að það er gert ráð fyrir því að innheimta miklu, miklu lægri fjárhæðir af innflutningnum í heild til að standa straum af kostnaði við stjórn hans heldur en hingað til hefur verið gert, og liggur í augum uppi, að það er hægt, þar sem innflutningsskrifstofan á Skólavörðustíg 12 verður að fullu og öllu lögð niður, verður hreinlega lokað, og þar með sparast störf fjögurra forstjóra, sem allir hafa haft ráðherralaun, og um 40 starfsmanna í heild. Auðvitað munu bankarnir þurfa á að halda eitthvað auknu starfsliði til þess að annast þá stjórn, sem þeir taka að sér. En ég þori að fullyrða, að fjölgun starfsmanna í bönkunum vegna þessara breytinga verður aðeins brot af þeim mannafla, sem við þessi mál hefur starfað á Skólavörðustígnum á vegum innflutningsskrifstofunnar. Og auk þess er þess að geta, að útflutningsnefndin verður lögð niður, en hjá henni hefur einnig starfað eitthvert starfslið. Þennan misskilning hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. vil ég leiðrétta.

Hv. 3. þm. Reykv. bar fram til mín nokkrar fsp., sem ég reyndi að skrifa upp eftir honum, og mér skal vera ánægja að reyna að svara þeim eftir beztu getu. Sú, sem mikilvægust var af fsp., var, hvort ríkisstj. hafi. undirgengizt nokkra skuldbindingu um að gefa verzlunina að einhverju leyti frjálsa eða hvort ríkisstj. sé alveg óbundin og geti hvenær sem er tekið upp höft að nýju, þ.e.a.s. geti hvenær sem er breytt frílistunum að nýju án þess að spyrja nokkurn erlendan aðila. Nokkurn veginn svona hygg ég að þessi fsp. hv. þm. hafi verið orðuð, eins og ég hef skrifað hana eftir honum, og mér skal vera ánægja að því að svara henni.

Þegar Íslendingar gerðust aðilar að Efnahagssamvinnustofnun Evrópu árið 1948, undirgengust Íslendingar vissar skuldbindingar um það að gefa verzlunina við aðildarríki Efnahagssamvinnustofnunarinnar frjálsa um milli 80 og 90%. Þá sömu skuldbindingu undirgengust allar aðrar þjóðir, sem urðu aðilar að Efnahagssamvinnustofnuninni, en henni var, sem kunnugt er, komið á fót til þess að dreifa Marshall-aðstoðinni, sem Bandaríkjastjórn veitti þá Evrópuríkjunum eða aðildarríkjum þessarar efnahagssamvinnustofnunar á næstu fimm árum. M.ö.o.: þau samtök, sem komu sér saman um að veita viðtöku Marshallaðstoðinni við Evrópu, gerðu með sér eins konar viðskiptabandalag, eins konar viðskiptasamning, og einn liður í þeim viðskiptasamningi var, að milli 80 og 90% af viðskiptunum milli aðildarríkjanna skyldu vera gerð frjáls smám saman og eftir vissum reglum. Þessi skuldbinding hefur verið á herðum okkar Íslendinga síðan 1948. Við höfum aldrei farið eftir henni. Við gerðum stórt spor, stóra tilraun í þá átt eftir gengisbreytinguna 1950, en það tókst ekki, því miður, nema að litlu leyti að framkvæma þá áætlun, sem þá var gerð. Íslendingar hafa hins vegar í Efnahagssamvinnustofnuninni gert grein fyrir því, hvernig á því stæði, að Íslendingar gætu ekki framfylgt samningsákvæðunum, að því er snertir líberaliseringu verzlunarinnar, og rök Íslendinga í því máli hafa ávallt verið tekin gild þannig að það hefur aldrei komið til, að Íslendingar hafi þess vegna, að þeir stóðu ekki við líberaliseringarákvæði efnahagssamvinnusáttmálans, verið beittir þar neins konar refsiaðgerðum eða orðið að sæta neins konar áminningum. Íslendingar hafa ekki undirgengizt neinar nýjar skuldbindingar umfram þessa, sem er þegar orðin 12 ára gömul. Í sambandi við þá yfirdráttarheimild, sem ein aðildarstofnun Efnahagssamvinnustofnunarinnar, Evrópusjóðurinn, veitti Íslendingum í janúarmánuði s.l., undirgengust Íslendingar engar nýjar skuldbindingar um að gefa verzlunina við aðildarríki Efnahagssamvinnustofnunarinnar eða önnur lönd í heiminum frjálsa. Hitt er svo annað mál, að þær ráðstafanir, sem hér er nú verið að gera, og ekki sízt yfirdráttarheimildin í Evrópusjóðnum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum gerir okkur færari um það en nokkru sinni fyrr að standa loksins við hina 12 ára gömlu skuldbindingu okkar sem aðildarríkis að Efnahagssamvinnustofnuninni, sem öll önnur aðildarríki Efnhagssamvinnustofnunarinnar hafa löngu uppfyllt, en þau hafa að meðaltali gefið sína verzlun frjálsa að marki, sem liggur einhvers staðar á milli 85 og 90% og þó nær 90%.

Á öðrum stað í ræðu sinni kom hv. þm. aftur að þessu sama atriði og sagðist vilja ítreka það, hvort íslenzka ríkisstj. væri frjáls að því, hvenær sem væri, að breyta frílistanum, ef ný viðhorf sköpuðust í viðskiptamálum Íslands, t.d. á mörkuðunum í Austur-Evrópu. Því svara ég hiklaust og eindregið játandi. Það er algert innanríkismál Íslendinga að stækka frílistann eða minnka hann. Um það efni þurfum við ekki undir neinn erlendan aðila að sækja, burtséð frá þessum almennu skuldbindingum, sem á okkur hvíla eins og öðrum aðildarríkjum Efnahagssamvinnustofnunarinnar.

Það, sem hv. 3. þm. Reykv. virðist einkum hafa áhyggjur af í sambandi við samþykkt þessa frv, og framkvæmd þeirra ráðstafana, sem gert er ráð fyrir að sigli í kjölfar þeirra, er, að þær stofni viðskiptunum við Austur-Evrópu í hættu. Ég er honum alveg sammála um, að ef það yrði afleiðing þeirra ráðstafana, sem tengdar eru þessu frv., væru þær ráðstafanir óheppilegar og skaðlegar íslenzkum þjóðarbúskap. En ég er honum alveg ósammála um, að nokkur hætta sé á því, að til þess muni koma. Ég skal rifja upp í örfáum setningum, hver er í raun og veru kjarni þess kerfis, sem meiningin er að sigli í kjölfar samþykktar þessa frv.

Það verður gefinn út frílisti, sem á munu verða vörur, sem nema um 60% af heildarinnflutningnum til landsins, eins og hann var 1958, og ástæðan til þess, að við förum ekki hærra með þennan frílista en þetta, en hann á að verða raunverulegur, raunverulegur þannig, að gjaldeyrisgreiðslur samkvæmt honum séu til reiðu fyrir hvern þann, sem hefur íslenzka peninga og biður um gjaldeyri til þess að flytja inn vörur samkvæmt honum, — ástæðan til þess, að þessi listi er þó ekki stærri en þetta, þrátt fyrir ákvæði samnings Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu, er sú, að við höfum stóra markaði í Austur-Evrópu, sem við getum ekki hagnýtt okkur, nema því aðeins að við flytjum inn vörur þaðan í jafnkeypisviðskiptum. Þetta sjónarmið hefur verið algerlega viðurkennt af Efnahagssamvinnustofnun Evrópu. Þess vegna verður gefinn út annar listi, sem á verða vörur, sem eingöngu má flytja frá jafnvirðiskaupalöndunum í Austur-Evrópu. En um þær vörur er það að segja, að það er ekki hægt að telja, að þær séu háðar höftum í þeim skilningi, sem venjulega er lagður í það orð, vegna þess að leyfi til þess að flytja inn vörur frá jafnkeypislöndunum skv. þessum lista verða gefin út án takmarkana, og þess vegna er ekki hægt að segja, að höft í venjulegum skilningi séu á þeim vörum, sem á þeim lista eru, og á þeim lista munu verða um 25% af innflutningnum, eins og hann var 1958. Þannig er hægt að staðhæfa, að um 85% af heildarinnflutningi til landsins verður án hafta, og það er kjarni málsins, sem menn oft og elnatt virðast ekki gera sér nógu ljósan. Um 85% af vörum til landsins verða án hafta, 60% af þeim má flytja frá Vestur-Evrópu eða hvaðan sem er, en 25% að vísu aðeins frá clearing-löndunum, en þó ótakmarkað, þannig að það verður í raun og veru aðeins um að ræða takmörkun á innflutningi á sem svarar 15% af innflutningnum 1958

Það, sem hv. 3. þm. Reykv. hefur lagt megináherzlu á í sínum tveim ræðum, er, að svo mikið af vörum hafi verið flutt yfir á hinn almenna frílista af þeim vörum, sem hingað til hafi verið á bundnum lista gagnvart Austur-Evrópulöndunum, að innflutningur þaðan muni minnka og þar af leiðandi útflutningsmöguleikar okkar til Austur-Evrópulandanna. Þetta er, held ég, mjög einfaldlega sagt kjarninn í hans gagnrýni.

Ef tekinn er innflutningurinn frá öllum clearing-löndunum árið 1958, þá munu nú verða á bundna listanum, sem einungis má flytja frá þeim, 87,2% af innflutningnum, eins og hann var þá, þ.e.a.s. af þeim innflutningi, sem kom frá clearing-löndunum 1958, mun nú verða heimilað að flytja 87,2% aðeins þaðan, þannig að um það bil 13% af þeim vörum, sem komu frá Austur-Evrópulöndunum 1958, mun nú verða unnt að flytja líka annars staðar frá. Þetta meðaltal er að vísu með Sovétríkjunum. Ef Sovétríkin eru tekin út úr meðaltalinu, lækkar þetta meðaltal ofan í 72,3% , en um 99% af þeim vörum, sem fluttar voru frá Sovétríkjunum 1958, verða á bundna listanum. Það er þetta, sem mér skilst að hv. 3. þm. Reykv. sé einkum hræddur um, þessi breyting, að hún muni hafa óheppileg áhrif á sölumöguleika okkar í Austur-Evrópulöndunum.

Um þetta vildi ég segja þetta: Mér finnst þessi lönd í heild skoðað með engu móti geta búizt við því, að við gerum meira til þess að viðhalda mörkuðum okkar í þeim, sem við þó sannarlega óskum eftir að viðhalda, en það, að vernda um 87% af þeim innflutningi, sem við höfum flutt þaðan, beinlínis að útiloka samkeppni frá öllum öðrum löndum á 87% af þeim vörum, sem þeir selja okkur. Mér dettur ekki í hug, að stjórnarvöld í þessum löndum ætlist til þess, að við verndum innflutninginn frá þeim 100% , þ.e.a.s. að við segjum, ef þau óska að selja einhverja vöru hingað, þá skal sú vara alls ekki mega koma frá nokkru öðru landi. Mér dettur ekki í hug, í fyrsta lagi, að þau hafi svo litla trú á samkeppnismöguleikum varnings síns hér og annars staðar, að þau telji þess konar vernd á útflutningsvörum sínum vera nauðsynlega. Í raun og veru er það mjög róttæk ráðstöfun til verndar þessum viðskiptum, — ég segi það aftur, það er mjög róttæk ráðstöfun til verndar þessum viðskiptum að hafa um 87% af þeim vörum, sem við flytjum þaðan, algerlega verndaðar gegn allri samkeppni annars staðar frá. Ég hef oft heyrt þær raddir, að það væri óhætt að hafa þessa prósenttölu miklu lægri, samkeppnishæfni t.d. iðnaðarins í mörgum þessara landa sé miklu meiri en svo, það væri óhætt að hafa þessa prósenttölu miklu, miklu lægri, að Austur-Evrópulöndin gætu keppt hér með 30–40% af þeim vörum, sem þau hafa flutt hingað, jafnvel þótt um enga verndun væri að ræða. Því höfum við ekki þorað að treysta. Viðleitni okkar til verndunar þessara markaða er svo mikil, að við viljum vernda meira að segja 87% af vörunum, sem koma frá þeim, og það verð ég að segja, að það þykir mér ekki mikil trú á útflutningsiðnaði þessara landa í heild, ef menn trúa því ekki, að 13% af þeim vörum, sem komu þaðan 1958, muni halda áfram að koma hingað, þótt þeir þurfi að keppa við vöru einhvers staðar annars staðar frá. Þá þykir mér ýmislegt fara að snúast öðruvísi en við hefði mátt búast, ef það kemur í raun og veru í ljós, að við, sem stöndum að þessum ráðstöfunum, höfum meiri trú á útflutningsiðnaði landanna í Austur-Evrópu heldur en hv. 3. þm. Reykv., því að ef hann í raun og veru heldur, ef það er alvara hans, að útflutningsmörkuðum okkar sé stefnt í hættu við það, að aðeins 13% af vörunum frá 1958 eigi að keppa við vörur annars staðar frá, ef hann heldur, að það spilli mörkuðunum mjög verulega, þá hefur hann minni trú á söluhæfni og söluvilja þessara landa en ég hef fyrir mitt leyti.

Það er alveg augljóst mál, að það getur ekki gengið að byggja jafnmikilvæg framtíðarviðskipti og viðskipti Íslands við Austur-Evrópulöndin á því, að innflutningur á vissum vörum þaðan sé 100% verndaður. Það getur ekki gengið. Í því er ekki heilbrigði, í því er engin skynsemi. Þess vegna verðum við að velja úr vissar vörur, þar sem við vitum að iðnaður þessara landa er fullsamkeppnihæfur, og láta hann mæta samkeppninni í þeirri von, að hann standist hana, þegar hann á það skiliðað standast hana.

Ég vil að lokum varðandi þetta atriði ítreka það, taka það mjög skýrt fram, að ég álít útflutningsmarkaði okkar í þessum vöruskiptalöndum vera mjög mikilvæga og það eigi eins og stendur að vera einn liður í stefnu Íslendinga í viðskiptamálum að vernda þessa markaði, að vernda þá, af því að viðskiptakerfi þessara landa er einu sinni þannig, að það gerir vissa verndun nauðsynlega. En ég segi það aftur og vil undirstrika það sérstaklega: Ég hef ekki þá vantrú á söluhæfni og söluvilja þessara landa, að þau þurfi 100% verndun, og það væri ekki heilbrigt að grundvalla viðskiptin áfram á slíkum aðstæðum. Þess vegna er hitt miklu heppilegra, að við smám saman byrjum að klífa niður þá tröppu, þar sem við höfum verið báðir í efsta þrepinu, að við klífum niður þrep af þrepi báðum megin, að við lækkum okkar útflutningsverð til þessara landa og þau lækki útflutningsverð á vörum sínum hingað í sama mæli, þannig að þjóðhagslega séð komi það í sama stað niður fyrir báða aðilana. Við hættum að þiggja yfirverð fyrir útflutningsafurðir okkar í þessum löndum, og við hættum að greiða yfirverð fyrir þá vöru, sem við kaupum frá þessum löndum. Að vísu er það nokkuð önnur saga en það, sem hér er um að ræða, en ég vil samt sem áður láta þess getið, að þá fyrst eru viðskipti okkar við þessi markaðslönd, sem að mörgu leyti eru mjög heppileg og æskileg fyrir okkur sem stórframleiðendur að fiski, — þá fyrst eru þau komin á þann þjóðhagslega séð hagkvæmasta grundvöll, þegar við seljum þessum aðilum á heimsmarkaðsverði og kaupum af þeim aftur á heimsmarkaðsverði.

Að síðustu var svo fsp. frá hv. 3. þm. Reykv., sem ég skal ekki gleyma að svara, sem lýtur að einstöku atriði, þ.e.a.s. bifreiðainnflutningnum. Hann spurði, hvort það væri rétt, að búið væri að semja um innflutning á 500 bifreiðum frá Sovétríkjunum, og hvort til stæði beinlínis að rjúfa þessa samninga. Um þetta hef ég þetta að segja: Í rammasamningnum við Sovétríkin er að vísu gert ráð fyrir innflutningi á 500 bílum, þar af um 100 jeppum. En það hafa ekki verið gerðir kaupsamningar nema um 250 bila, þ.e.a.s. 225 Moskvitsbíla og 25 Volgubíla. Þeir kaupsamningar hafa verið gerðir, og við þá verður að sjálfsögðu staðið. Hitt er svo atriði, sem verður að bíða síðari tíma, seinni mánaða ársins, þegar meira verður séð um, hvernig viðskiptum Íslands og Sovétríkjanna verður hagað, hvort unnt verður að flytja inn fleiri bila en þessa 250, sem þegar er búið að festa kaup á og að sjálfsögðu verða fluttir til landsins.

Fleiri fsp. held ég að hv. þm. hafi ekki beint til mín, og hafi ég gleymt einhverju af því, sem hann beindi til mín, er mér ánægja að svara því síðar í umræðunum.