02.05.1960
Neðri deild: 74. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2236 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Frsm. meiri hl. (Birgir Kjaran):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. talaði hér langt mál fyrir helgina og kom víða við, allt frá andvökunóttum sínum á árunum 1943 og 1944, þegar hann var að velta fyrir sér því vonlausa verki, hvernig hann ætti að koma lífsneista í íslenzkt haftakerfi, til atburða líðandi stundar. Obbinn af þessum fjölbreytilegu bollaleggingum kemur því máli, sem hér er til umr., svo lítið við, að ég mun leiða hjá mér að lengja umr. með því að andmæla þar ýmsu, sem ég þó er ósammála 3. þm. Reykv. um og tel enda frekar mótað af frómum óskum hans og þráhyggju. Ég mun því að mestu leyti takmarka mig við vissar staðhæfingar hv. 3. þm. Reykv., enda þótt ég óttist, að hann sé svo sæll í sinni krepputrú, að kufl hans sé algerlega skotheldur fyrir flestum rökum, hversu skynsamleg sem þau kunna að vera.

Í fyrsta lagi gat 3. þm. Reykv. þess sem sönnunar fyrir ágæti haftabúskaparins, að allar framfarir á Íslandi væru að þakka þeim litla votti af áætlunarbúskap, sem hér hefði verið rekinn, og á tímum hafta- og gervibúskaparins hefði alþýða landsins lifað betur en nokkru sinni áður. Þessi ár hefðu verið ár stórkostlegustu efnahagsframfara, sem þessi þjóð hefði upplifað. Í öðru lagi fullyrti 3, þm. Reykv., að prívatkapítalisminn væri dauður og raunar óframkvæmanlegur með öllu á Íslandi. Í þriðja lagi fullyrti 3. þm. Reykv., að efnahagskerfi sósíalistísku landanna hefði sýnt yfirburði yfir efnahagskerfi kapítalistísku landanna. Í fjórða lagi fullyrti 3. þm. Reykv., að öryggi og festa fylgdi hagkerfi sósíalistísku landanna og viðskipti við þau mundu skapa Íslendingum trygg viðskipti og öryggi á komandi árum, Í fimmta lagi fullyrti 3. þm. Reykv., að íslenzkir atvinnurekendur væru óhæfir til samkeppni á heimsmarkaðinum. Og í sjötta og síðasta lagi fullyrti 3. þm. Reykv., að efnahagslegt lýðræði væri ekki framkvæmanlegt eða tryggt nema með sósíallstísku hagkerfi.

Ég ætla nú að víkja fáeinum orðum að hverju þessara sex atriða fyrir sig og kem þá að fyrsta atriðinu, því, að haftabúskapurinn hafi skapað bætt lífskjör.

Það er alveg rétt, að það hafa miklar framfarir í efnahagsmálum átt sér stað á Íslandi á síðustu 15–20 árum og lífskjör manna hafa verið hér góð. Hvort sem sagan á eftir að telja þetta tiltölulega mesta framfaratímabilið eða ekki, hefur þetta vissulega verið mikið framfartímabil. En við skulum ekki heldur gleyma því, að áður hafði þungum steinum verið lyft hér úr vegi, og það eru fleiri kynslóðir, sem hafa verið dugmiklar, en sú, sem nú lifir, og kapítulinn frá aldamótum og fram til 1918 verður vafalaust komandi kynslóðum ekki heldur rýrt söguefni, þegar frá líður, svo að við skulum ekki ofmetnast af því, sem við erum að framkvæma og höfum gert á síðustu áratugum. Um framfarirnar hér á landi á síðustu 15 árum vil ég annars segja þetta: Þær eru miklar, og þær hafa fært þjóðinni betri lífskjör en hún áður bjó við. Það afsannar hins vegar ekki, að misvægi hafi verið í búskaparstarfseminni og framfarirnar hefðu getað vegna hagstæðari ytri skilyrða orðið enn þá meiri, ef misvægið hefði ekki verið fyrir hendi og ekki hefði þurft að reka hafta- og gervibúskap og viðhafa óæskileg ríkisafskipti. Þessar framfarir hafa einmitt átt sér stað þrátt fyrir, en ekki vegna haftabúskaparins. Þetta rökstyð ég með því, að framfarirnar á þessu tímabili eru ekkert einsdæmi fyrir Ísland. Allur heimsbúskapurinn hefur á þessu tímabili verið í örri framþróun, og ákaflega víða hefur þjóðarframleiðslan vaxið, ekki einungis jafnmikið og á Íslandi, heldur mun meira en á Íslandi. Á Norðurlöndum jókst þjóðarframleiðslan á árunum 1948–57 eitthvað svipað og hér á landi, í Kanada mun hún hafa vaxið um 60%, og í Vestur-Þýzkalandi óx hún um hvorki meira né minna en 100%, enda var athafnalífið þar frjálsara en í nokkru öðru landi í Vestur-Evrópu. Tel ég þetta allt færa sönnur á það, að þær framfarir og þau góðu lífskjör, sem við hér höfum búið við, hafa ekki verið að þakka höftunum, heldur þrátt fyrir höftin.

Við lifðum hér, eins og ég sagði, vel á þessum árum, en lífskjörin voru að vissu leyti gervibúskapur. Þau voru lánslífskjör, vegna þess að þau voru fengin að láni erlendis. Þau voru nefnilega ekki framkölluð með eðlilegri framleiðslu, heldur var þeim haldið uppi með stríðsgróða, gjafafé og erlendum lánum, sem námu hvorki meira né minna en 5000 millj. kr. frá ófriðarlokum og fram til síðustu áramóta.

Ég vík þá að annarri staðhæfingu hv. 3. þm. Reykv., um það, að prívatkapítalisminn sé dauður hér á landi. Ég skal játa það, að einkarekstur og einkafjármagn hefur verið hart leikið í þessu landi á undanförnum árum, eins og ég raunar hef áður bent á. En engu að síður er prívatkapítalisminn ekki dauður úr öllum æðum hér á landi, enda finnst mér hv. 3. þm. Reykv. ekki alltaf vera mjög staðfastur í þeirri trú. Nú staðhæfir hann að vísu, að prívatkapítalisminn sé aldauður á Íslandi og eigi sér engrar viðreisnar von. En það er ekki nema ár liðið síðan hv. þm. fullyrti, svo að orðrétt sé haft eftir Þjóðviljanum, með leyfi hæstv. forseta: „Það eru 650 milljónerar á Íslandi og aðeins 29 þeirra eiga 250 millj. í skuldlausum eignum.“ Ég fæ nú satt að segja ekki skilið, hvernig prívatkapítalisminn á bæði að vera dauður á Íslandi, en samt eiga að vera hér um 650 milljónerar. Hv. 3. þm. Reykv. verður að afsaka það, að menn taka það ekki alvarlega, þegar hann að hætti dávalda tekur 650 milljónera upp úr töfrahattinum og segir svo hókus pókus og lætur þá hverfa. Sannleikurinn mun vera sá hér sem oftar, að það fer nokkuð bil beggja. Einkafjármagnið er nefnilega hvorki útdautt né tala hinna voldugu milljónera svo há hér á landi sem hann vill vera láta. Og það er trú mín og von og okkar raunar, sem styðjum að þeim efnahagsbreytingum, sem verið er að gera í þessu landi, að það megi einmitt takast að fá einkafjármagnið til aukinna þjóðnýtra starfa. Það hefur verið sú reynsla í öðrum löndum, að þegar allt er um þrotíð eftir hafta- og nefndafargan, þá hefur það einmitt verið einkareksturinn, hið frjálsa framtak, sem brotið hefur brautirnar og komið til bjargar. Og þetta er ekki einungis saga hinna kapítalistísku landa. Þessi saga hefur einnig átt sér stað í sjálfu Rússlandi, í föðurlandi sósíallsmans. Þess er ekki svo ýkjalangt að minnast, það var árið 1921, sem Lenin sá fram á hrun hins kommúnistíska þjóðskipulags og varð þá að grípa til prívatkapítalismans. Það var NEP-tímabilið: þá var skömmtuninni hætt, þá var vinnuskyldan afnumin, þá var gefið frjálsræði í verzlunar- og iðnaðarrekstri. Þetta gerði Lenin. Hann fórnaði kommúnismanum til þess að bjarga hinu rússneska ríki. Hins vegar virðist 3. þm. Reykv. hafa meiri áhuga á því að bjarga kommúnismanum á kostnað hins íslenzka ríkis.

Ég kem þá að þriðju staðhæfingu 3. þm. Reykv. um yfirburði hins sósíalistíska efnahagskerfis. Þeirri staðhæfingu leyfi ég mér að mótmæla og bendi á því til sönnunar, að jafnvel í okkar litla og fátæka þjóðfélagi hafa á ýmsum sviðum orðið miklu meiri og hlutfallslega örari efnahagslegar framfarir en í hinu stóra, auðuga og volduga föðurlandi sósíalismans og að enn í dag lifum við hér í hinum kapítalistíska heimi við almennt betri og jafnari lífskjör en menn eiga enn að fagna í Rússlandi.

Lítum t.d. á einstök atriði eins og þróun þjóðarteknanna. Við skulum gera samanburð á þeim í Sovét-Rússlandi og á Íslandi. Við skulum búa okkur til vísitölu, sem hefur grundvöllinn árið 1913: látum það ár gilda sama og 100. Ef við skoðum þá tölu, hvernig hún mundi líta út árið 1958 í þessum tveim ríkjum, þá mundi rússneska talan sýna 2208 stig, en íslenzka talan 3500 stig. Þannig hafa þjóðartekjurnar á Íslandi vaxið miklu meir en í Rússlandi.

Við getum tekið aðra tölu, sem varðar virkjanir og raforkuframleiðsluna. Við getum búið okkur til sams konar vísitölu fyrir þessa raforkuframleiðslu. Við skulum taka árið 1913 aftur sem grundvallarár. Hvað segir þá vísitalan í Rússlandi árið 1958 og hvað segir hún á Íslandi? Í Rússlandi sýnir hún 233 stig, en á Íslandi 445 stig. Virkjanirnar hér hjá okkur, þótt fáir séum, smáir og fátækir, hafa sem sagt orðið hlutfallslega miklu meiri en hjá hinu stóra Sovét-Rússlandi.

Við skulum ekki gera lítið úr þeim framförum, sem orðið hafa í Sovétríkjunum. Ég efast ekki um, að þær hafi verið miklar og þær hafi fært þeim betri lífskjör en þeir bjuggu áður við. En við skulum ekki heldur gera lítið úr því, sem við og okkar forfeður hafa verið að gera í þessu landi og það við ólíkt erfiðari skilyrði en Rússar hafa við að búa.

Ég vil líka segja, að ef hv. 3. þm. Reykv. er svona sannfærður um yfirburði hins sósíalistíska efnahagskerfis, því í ósköpunum treystir hann þá ekki hinum sósíallstísku ríkjum til þess að keppa í frjálsri samkeppni við kapítalistísku löndin á hinum litla íslenzka markaði? Ef efnahagskerfi sósíalistísku ríkjanna er fremra efnahagskerfi kapítalistísku ríkjanna, þá getur þetta kerfi framleitt betri og ódýrari vörur, sem þarfnast ekki neinnar verndar á íslenzkum markaði, því að þær eiga þá að geta verndað sig sjálfar. Eitt af tvennu sem sagt er, að hið sósíalistíska kerfi er ekki eins fullkomið og hv. 3. þm. Reykv. vill vera láta eða allur ótti hans um minnkandi viðskipti við þessi lönd er ástæðulaus. Hvort tveggja fær a.m.k. ekki staðizt samtímis.

Ég kem þá að fjórða atriðinu, og það er um öryggi hinna sósíalistísku markaða. Það er víssulega mikilsvert fyrir Íslendinga að eiga góða markaði í Austur-Evrópu, og við höfum átt góð viðskipti við þau lönd. Við höfum e.t.v. ekki lagt alla þá alúð við þau viðskipti, sem nauðsynlegt er, því að markaður fyrir t.d. um 50 þús. tonn af 75–80 þús. tonna freðfisksframleiðslu okkar er sannarlega hlutur, sem hirða þarf um, einmitt af því að þessi markaður er ekkert öruggari en aðrir útflutningsmarkaðir okkar. Sósíalistísku markaðirnir eru nefnilega alls ekkert öruggari eða þeirra samningur öruggari en viðskipti við önnur lönd. Á þetta skal ég færa sönnur. Tökum t.d. síldina. Þjóðviljinn var einmitt nú fyrir helgina að fræða lesendur sína á því, að hv. 11. landsk. (GJóh) hefði flutt þinginu mikinn fróðleik í þeim efnum og þá í leiðinni tekið rösklega í lurginn á mér. Sá hv, þm. minntist m.a. á síldarsölu til Póllands. Við skulum rétt hyggja að því máli. Pólverjar sömdu við okkur um kaup á 20 þús. tunnum af síld fyrir s.l. samningstímabil, en keyptu ekki eina einustu tunnu af því, sem þeir höfðu samið um. En Pólverjar keyptu samt síld, og það var ekki af okkur. Þeir keyptu síld af Rússum. Og það skyldi nú ekki vera, að sú síld hafi þó verið fiskuð einhvers staðar á Íslandsmiðum? Þannig var um öryggi þess markaðar.

Svo eru það Austur-Þjóðverjar. Við höfum haft góðar vonir um síldarsölu þangað. En hvernig fór um þann trygga markað? Þeir keyptu enga síld af okkur, en þeir keyptu síld og meira að segja Íslandssíld. Rússar létu nefnilega afskipa nokkru af þeirri síld, sem þeir höfðu samkvæmt samningum keypt af okkur, beint til Austur-Þýzkalands.

En það er ekki einungis, að þessir útflutningsmarkaðir hafi reynzt ótryggir. Innflutningurinn þaðan hefur líka reynzt ótryggur. Við höfðum t.d. á síðasta samningstímabili samið við Pólverja um kaup á 5000 tonnum af áburði þaðan, sem áttu að afgreiðast nú í vor. Ekki svo mikið sem tonn af þessum áburði kemur. Við höfðum samið við Pólverja um 1000 standarda af byggingartimbri, sem áttu að afgreiðast fyrir sumarið. Ekki einn standard kemur af þessu timbri. Þetta sósíalistíska land er þó ekki neitt einsdæmi. Við Tékka höfðum við samið um kaup á miklu magni af járni, en svo til ekkert verður afgreitt af því. Fyrir öllu þessu geta verið óviðráðanlegar ástæður, og skal þessum viðskiptavinum okkar ekkert hallmælt fyrir þessar vanefndir á að standa við gerða samninga, enda þótt það geti vissulega verið mjög óþægilegt og valdið miklu tjóni að losna ekki við síld, sem lofað hefur verið að kaupa, og fá ekki áburð, sem átti að nota í vor, eða fá ekki timbur og járn, sem átti að smiða úr í sumar. Þetta getur allt haft sínar afsakanir, en við skulum bara ekki vera að hæla þessum vinnubrögðum. Og vissulega sanna þau okkur, svo að ekki verður á móti mælt, að þessi viðskipti eru hreint alls ekki traustari eða öruggari en skipti við aðrar þjóðir annars staðar í Evrópu.

Ég kem þá að fimmta atriðinu. Hv. 3. þm. Reykv. lét í ljós mikið vantraust á íslenzkum atvinnurekendum, hæfni þeirra og möguleikum til þess að taka þátt í samkeppni á frjálsum útflutningsmarkaði og líkti þeim nánast við óþekka krakka, sem þörfnuðust móðurverndar í umferð götunnar. Ég vil eindregið mótmæla þessu vantrausti. Ég ber fullt traust til íslenzkra atvinnurekenda og útflytjenda, að þeir muni færir og hæfir til þess að kappkosta að notfæra sér þá nýju markaði, sem gengisbreyting og bættur samkeppnisgrundvöllur gefur þeim. Það er og vitað, að ýmsir nýir möguleikar eru þar að opnast, eftirspurn eftir skreið fer stöðugt vaxandi. Sama er að segja um saltfiskinn. Portúgal, Kúba og Brasilía vilja öll kaupa verulega meira af saltfiski en þau hafa áður keypt, og í Vestur-Evrópu eru ábyggilega stórir og góðir freðfiskmarkaðir í Hollandi, Belgíu, Frakklandi, Sviss og Þýzkalandi. Það mun að vísu kosta bæði vinnu, fyrirhöfn og fé að komast inn á þessa markaði, en íslenzkum útflytjendum er fyllilega treystandi til þess að leysa þennan vanda og komast vel frá þessu vissulega mikla verkefni, sem er fram undan.

Ég kem þá að sjöttu og síðustu staðhæfingu hv. 3. þm. Reykv., og hún er um það, að efnahagslegt lýðræði verði ekki tryggt nema með hagkerfi sósíalismans. Ég skal ekki fjölyrða um þessa fullyrðingu, því að hún er hrein öfugmæli, og ég held, að henni verði bezt svarað með því, að ég geri orð manns, sem hv. 3. þm. Reykv, talaði allmikið um hér fyrir helgina, að mínum orðum. Maðurinn er Ludvig Erhard, efnahagsmálaráðh. Vestur-Þýzkalands, og orðin, sem ég leyfi mér að tilfæra, með leyfi hæstv. forseta, eru þessi: „Neyzlufrelsi og athafnafrelsi eiga í hugum allra þegna að vera óskerðanleg mannréttindi. Að brjóta í bága við þau ætti að teljast tilræði við þjóðfélagið. Lýðræði og frjáls efnahagsstarfsemi eru jafnóaðskiljanleg og einræðið og ríkisreksturinn er samloðandi.“

Hv. 3. þm. Reykv. telur þetta frv., frv. um fríverzlunina, hættulegasta málið, sem ríkisstj. hefur flutt. Ég spyr: Hættulegt hverjum? Hann fullyrðir, að með því að leggja niður innflutningsskrifstofuna hverfi allt aðhald um að reka íslenzkan þjóðarbúskap af einhverju viti. Hann harmar það, að menn verða ekki lengur háðir ákvörðunum ríkisvaldsins um kaup á skófatnaði og öðrum nauðþurftum. Ég er sannfærður um, að borgararnir, alþýða manna í landinu, telur sér þessar ráðstafanir ekki hættulegar, heldur hagstæðar. Þessar aðgerðir geta þó kannske verið einum og aðeins einum aðila hættulegar, og það er Sósfl. Að koma hér á heilbrigðu og hagstæðu atvinnulífi mun veikja og draga úr fylgi Sósfl., en efla traust og tiltrú manna til stjórnarflokkanna og stefnu þeirra.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að kjarabætur í Austur-Evrópu væru nú almennt ekki framkvæmdar sem kauphækkanir, heldur í formi lækkaðs vöruverðs. Það er von mín og trú, að þetta frv. muni, þegar frá líður, einmitt hafa slík áhrif í för með sér hér á landi, færa almenningi kjarabætur í formi hagstæðara vöruverðs. Og það er einnig alger misskilningur hv. þm., að aukið vöruval sé fyrst og fremst gert fyrir þá ríku. Það eru ekki fyrst og fremst þeir ríku, sem geta keypt vörur hvaða verði sem er, sem þurfa á vöruvalinu að halda, það er einmitt sá fátæki neytandi, sem þarfnast vöruvals, svo að tekjurnar nýtist honum betur, og að því á þetta frv. að stefna.

Hv. 3. þm. Reykv. hefur verið með mjög ákveðnar spár um, að viðreisnarstefna hæstv. ríkisstj. muni mistakast með öllu og að fram undan sé efnahagslegt hrun innan fárra mánaða og þá muni það verða hlutskipti þeirra sósíalista að taka við forustunni í efnahagsmálum þjóðarinnar. Enda þótt ég sé á öndverðri skoðun við hv. 3. þm. Reykv. í þessum efnum og fleiri og telji mig engan spámann, þá væri vissulega fróðlegt að heyra, hverjar þær aðgerðir í efnahagsmálum væru, sem stjórn sósialista mundi þá grípa til, og ég leyfi mér því að beina nokkrum spurningum varðandi þetta efni til hv. 3. þm. Reykv.

Það er í fyrsta lagi: Mundu sósíalistar þá að nýju endurreisa innflutningsskrifstofuna og gera allan innflutning háðan leyfum, þ.e.a.s. endurreisa haftakerfið og gera höftin strangari en nokkru sinni áður?

Það er í öðru lagi: Mundu sósíalistar beita sér fyrir því, að vöruskömmtun yrði tekin upp á ýmsum sviðum, m.a. skömmtun á brauði, sykri, kaffi og fleiri nauðsynjum?

Það er í þriðja lagi: Mundu sósíalistar gangast fyrir því, að fjárfestingarhöft yrðu tekin upp að nýju og öll fjárfesting verulega skorin niður?

Það er í fjórða lagi: Mundi Sósfl. beita sér fyrir því, að menn yrðu að nýju sviptir frjálsum umráðum yfir húsnæði sínu?

Það er í fimmta lagi: Mundu sósíalistar keppa að því, að allt að 50% af utanríkisverzlun landsmanna yrði bundið clearingsamningum við löndin í Austur-Evrópu til langs tíma?

Það er í sjötta lagi: Telja sósialistar, að við eigum að sníða efnahagskerfi okkar fyrst og fremst eftir óskum og þörfum viðskiptalandanna í Austur-Evrópu?

Það er í sjöunda lagi: Telja sósíalistar, að þau lönd í Vestur-Evrópu, sem hafa mörgum sinnum umfangsmeiri viðskipti við Austur-Evrópulöndin en við, hafi þurft að sníða utanríkisverzlun sína eftir þessum viðskiptum og taka upp ströng viðskiptahöft þeirra vegna?

Það er í áttunda og síðasta lagi: Mundi Sósfl. beita sér fyrir stórum lántökum í Sovétríkjunum?

Þessar átta spurningar snerta flestar að einhverju þau mál, sem sósíalistar gagnrýna núverandi stj. fyrir að hafa aðra stefnu í en æskilegt sé. Ég leyfi mér því að óska eftir, að hv. 3. þm. Reykv. svari hverri þessara spurninga beint og afdráttarlaust, en skjóti sér ekki undan með einhverjum almennum yfirlýsingum um áætlunarbúskap eða önnur ámóta óljós hugtök. Kjósendur í landinu eiga kröfu til þess að vita, hver stefna sósíalista í efnahagsmálum er, og stefnan, ef einhver er, hlýtur að fela í sér afstöðu til hvers og eins af framangreindum atriðum.

Ég hef hér hrakið sex af höfuðröksemdum hv. 3. þm. Reykv. gegn því frv., sem hér er til umr., og ég hef jafnframt borið fram átta grundvallarspurningar, sem ég vænti að fá svar við.