05.05.1960
Neðri deild: 76. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2340 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Daníel Ágústínusson:

Herra forseti: Enda þótt umr. þessar séu um innflutnings- og gjaldeyrismálin, hafa mörg önnur mál blandazt inn í þær. Hv. frsm. fjhn. hefur líka tekið sérstaklega fram, að þetta væri einn þátturinn af mörgum í efnahagsráðstöfunum hæstv. ríkisstj. Mun ég því ræða þessi mál nokkuð almennt, eins og tilefni hefur gefizt til.

Gjaldeyrishöft hafa verið í gildi hér á landi s.l. 30 ár. Þau voru upphaflega sett eftir heimskreppuna miklu eftir 1930, þegar Íslendingar fengu að kenna harkalega á því, að aðalframleiðsluvara þeirra, saltfiskurinn, féll stórlega í verði og var erfitt um sölu á honum oft og tíðum. Höftin tryggðu þjóðinni lífsnauðsynjar, bægðu hinum lítt nauðsynlegu vörum frá og gerðu þjóðinni kleift að nota sín takmörkuðu fjárráð til að byggja atvinnulífið upp á nýjum grundvelli og taka tillit til gerbreyttra markaðsskilyrða. Einmitt á árunum 1934 og til stríðsins var lagður merkilegur grundvöllur að frystihúsaiðnaði þjóðarinnar, sem lengi bjó að, og ýmsum öðrum nýjungum í framleiðslunni, sem bættu upp það mikla tap, sem hrun saltfiskmarkaðarins leiddi yfir þjóðina. Ef hlutlaust er litið á ráðstafanir þær, sem þá voru gerðar, held ég, að engum blandist hugur um, að þær voru skynsamlegar og vörn var snúið í sókn í atvinnulífi þjóðarinnar. Síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið og fjölbreytnin aukizt mjög í atvinnulífinu og þjóðinni fjölgað um tugi þúsunda. En einhver innflutningshöft og nokkurt fjárfestingareftirlit hefur alltaf verið til öll þessi ár, og hafa allir flokkar komizt til valda þennan tíma í hinum ýmsu samsteypustjórnum, sem setið hafa að völdum í þessu landi undanfarin 30 ár. Frílistinn hefur ekki alltaf verið jafnstór, fjárfestingarhömlurnar ekki jafnvíðtækar, en engin stjórn hefur lagt út á þá braut áður að leggja stofnun þessa niður að fullu og öllu. Nafni hennar hefur líklega fjórum eða fimm sinnum verið breytt áður og breytingar gerðar á starfsliðinu. Forstjórum hefur verið fækkað eða fjölgað, skipt um menn o.s.frv., en stofnunin sjálf hefur verið furðu lífseig. Enginn hefur þó gert það að gamni sinu að viðhalda henni, heldur hefur reynslan sýnt áþreifanlega, að það er erfitt fyrir þjóð með jafneinhæfa útflutningsframleiðslu og Íslendingar hafa, þar sem yfir 95% alls útflutnings eru sjávarafurðir, að sleppa þessum málum algerlega lausum. Hins vegar er þörfin fyrir innflutning ákaflega mikill, þar sem rekstrarvörur aðalatvinnuveganna verður að flytja inn og óvenjulega mikið af nauðsynjavörum þjóðarinnar. Þó hefur þetta færzt nokkuð í rétta átt með framleiðslu áburðar og sements og enn fremur með mjög auknum iðnaði í landinu.

Í þessum umr. hefur á það verið bent, að höftin verði ekki lögð niður, heldur séu bankarnir látnir taka við verkefnum þeim, sem innflutningsskrifstofan hefur áður haft, og einhverjir sérstakir trúnaðarmenn ríkisstj. eigi að taka við störfum jeppanefndarinnar og jafnvel að fá víðtæk völd í ýmsum öðrum efnum, en fjárfestingarhömlur hins vegar lagðar niður. Það er staðreynd, að hluti af innflutningnum er bundinn við vörukaupalöndin eins og áður. Þegar þetta er athugað, er alveg furðulegur allur sá hallelúja-frelsisboðskapur, sem fluttur er af talsmönnum stjórnarliðsins.

En eitt er víst, stjórnin hefur tekið lán eða tryggt sér lán til að taka á móti yfirdrættinum, sem hún býst við að myndist við hina frjálsu verzlun sína. Er lán þetta sagt rúmlega 20 millj. dollara eða 800 millj. kr. íslenzkar. Hæstv. viðskmrh. sagði hér í þingræðu fyrir skömmu, að lán þetta hefði gert það mögulegt að gefa verzlunina frjálsa. Þetta hefði ekki verið fyrir hendi árið 1950 og því hefði sú gengisbreyting mistekizt. Og hæstv. ráðh. hefur sagt meira, hann hefur sagt: Ef þetta lán nægir ekki, verður að leita eftir viðbótarláni. — Þannig vill hæstv. viðskmrh. taka eyðslulán á eyðslulán ofan, meðan verið er að berja niður kaupgetuna í landinu, en það er annar þáttur þessa máls.

Þó að hinn svonefndi Alþfl. geti haldið út á þá braut, er vandséð, hvernig hinn stjórnarflokkurinn, Sjálfstfl., getur varið slík vinnubrögð fyrir þjóðinni. Meðan vinstri stjórnin sat að völdum, sagði Sjálfstfl. öllum erlendum lántökum stríð á hendur. Hefur sennilega aldrei á þessari öld verið rekinn óþjóðhollari né ábyrgðarlausari stjórnarandstaða en Sjálfstfl. rak á árunum 1956–58, er hann hikaði ekki við að senda í sífellu út fréttaskeyti til erlendra blaða til ófrægingar íslenzku ríkisstjórninni, og þau voru siðan birt aftur í íslenzkri þýðingu sem álit útlendinga á íslenzku stjórnarfari. Öll þessi lán ríkisstj. voru svo kölluð mútur í sambandi við varnarliðið og sníkjur til þess að halda þjóðarbúskapnum uppi. Eru vinnubrögð þessi löngu kunn að endemum.

Þá er einnig kunnugt það, sem annar hv. forvígismaður Sjálfstfl. sagði, að það yrði að finna önnur ráð til þess að koma ríkisstj. frá völdum en þau, að hún fengi ekki erlend lán. Og þessi ráð fundust. Alþfl. var boðið upp á ofur hátt fjall, og þar var honum sagt, að ef hann félli fram og tilbiði Sjálfstfl., þá skyldi Sjálfstfl. tryggja honum líf. Þetta var forsaga að kjördæmabreytingunni, og það, sem síðan hefur komið á eftir, staðfestir þetta eins rækilega og verið getur, því að allar þessar ráðstafanir eru fyrst og fremst hreinar og ómengaðar íhaldsráðstafanir og alveg óskiljanlegt, að flokkur, sem kennir sig við alþýðu landsins, geti staðið með þeim, eins og hann hefur gert að undanförnu.

En um hvaða lán var að ræða hjá vínstri stjórninni, og hve há voru þau? Erlendar lántökur vinstri stjórnarinnar handa ríkinu, ýmsum stofnunum þess og lán með ríkisábyrgð voru að upphæð um 450 millj. kr., og þau voru notuð til eftirfarandi framkvæmda: Í Sogsvirkjunina, raforkusjóð, rafmagnsveitur ríkisins, í ræktunarsjóð, fiskveiðasjóð, sementsverksmiðju ríkisins, til kaupa á flökunarvélum, hafnargerðar á Akranesi, frystihúsa, Flugfélags Íslands, til kaupa á 12 skipum, til framkvæmda hjá Landssíma Íslands, og fleira mætti nefna af slíkum þýðingarmiklum framkvæmdum. Sömu mennirnir, sem ætla að ærast út af þessum 450 millj., sem allar gengu til framkvæmda, sem ýmist juku gjaldeyrisframleiðslu þjóðarinnar eða spöruðu gjaldeyri í stórum stíl, hrósa sér nú af því að hafa komizt yfir hér um bil helmingi hærri upphæð, ekki til framkvæmdalána, heldur til eyðslu í stuttan tíma, og lýsa því jafnframt yfir, — því að ég ætla, að hæstv. viðskmrh. túlki skoðanir allrar ríkisstj., — að dugi ekki þetta eyðslulán, verði að leita eftir öðru í viðbót og þannig verði síðan haldið áfram, eftir því sem þörf krefur. Hér er eyðslan og ráðleysið leitt til öndvegis.

Einstaklingur eða fjölskylda í þessu þjóðfélagi, sem hagaði sér þannig að taka stöðugt lán fyrir daglegum þörfum og safna eyðslu- og vanskilaskuldum, mundi missa fjárræði sitt eftir nokkurn tíma. Á sama Hátt hljóta íslenzkir kjósendur að svipta núv. stjórn völdum, sem hún notar til að glata lánstrausti þjóðarinnar, safna stórfelldum eyðsluskuldum, en vanrækir flest aðkallandi framfaramál, sem þjóðin bíður eftir og þráir. Þjóð, sem sótt hefur fram til betri lífskjara og háð merkilega framfarabaráttu í meira en 30 ár, á nú að stöðva ferð sína.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er einn þátturinn af mörgum að því marki, sem hæstv. núv. ríkisstj. stefnir að. Hér er áreiðanlega mjög freklega komið aftan að kjósendum landsins. Hefðu stjórnarflokkarnir sagt þeim í haust það, sem nú er komið fram í dagsljósið og er að koma fram, þá eru litlar líkur fyrir því, að ráðherrastólarnir væru skipaðir eins og nú er. Þeir hafa setzt í stólana á alröngum forsendum. Alþfl. gekk þarna lengra en nokkur annar flokkur mun áður hafa gert. Hann sagði kjósendum, að meinsemd fjármálalífsins væri læknuð, fjárlög hefðu verið sett og útflutningssjóði tryggðar nægar tekjur og það þyrfti ekki að leggja á neina nýja skatta og engra nýrra tekna að afla. Óbreytt verðlag og óbreytt ástand, það var kjörorð þeirra. Og sem dæmi um hetjulega baráttu þeirrar stjórnar var á það bent, að menntmrh. hefði fallið frá hækkun á útvarpsgjaldinu, sem hann raunar, sá sami menntmrh., hafði sett á, að lyfsalar hefðu verið skornir niður við trog, að slátrið hefði verið selt á sama verði og árið áður o.s.frv., bændurnir hefðu verið stöðvaðir í auknum kröfum fyrir sínum verðlagsmálum, og þannig mundi verða haldið áfram, kjörorðið væri: óbreytt verðlag og óbreytt ástand, og við það mættu allir una og sætta sig vel. Margir héldu, að dýrtíðin hefði með þessum loforðum og þessum hreystiyrðum verið stöðvuð og núverandi stjórnarflokkar, þó einkum Alþfl., hefðu lagt töfrasprota sinn á efnahagslíf þjóðarinnar. Margir menn í kaupstöðum fóru að undirbúa íbúðarhúsabyggingar sínar fyrir næsta ár, tryggja sér lóðir, útvega teikningar og vinna önnur undirbúningsstörf. Þeir, sem höfðu auk þess í handbæru fé 50–60 þús. kr., þóttust einnig góðir og væntu þess að geta séð fokhelt hús sitt rísa upp haustið 1960. Þessar vonir hafa nú hrunið í rúst fyrir aðgerðir hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar. Alls staðar berast þær fréttir úr kaupstöðum og kauptúnum landsins, að menn hafi hætt við að taka lóðir þær, sem þeir voru búnir að fá úthlutað, þeir hætti við byggingarframkvæmdir sínar, þær dragist saman mjög mikið. Og það er víst svipað hlutfall þar og með pantanir bændanna á búvélum, en 85–88% allra bænda, sem pantað hafa dráttarvélar á þessu sumri, hafa afturkallað pantanir sínar, enda hafa litlar dráttarvélar hækkað úr 52 þús. upp í 87 þús. kr., og er það 65% hækkun. Maðurinn, sem í fyrra hafði sparað sér saman 50 þús. kr., á nú ef til vill aðeins fyrir hækkuninni. Það er sama og hann hefði byrjað í fyrra með tvær hendur tómar. Sá, sem fékk víxla, meðan byggingin var að verða lánhæf, þurfti í fyrra að greiða af þeim 7–8%, en þarf nú að greiða af þeim 11–12%. Sá, sem keypti sementstonnið í fyrra, þurfti að borga fyrir það 750 kr., en sá, sem kaupir sementstonnið í ár, þarf að borga 1153 kr. eða 55% hærra. Svipað er að segja um annað byggingarefni eða hækkun á því. Hækkunin á byggingarkostnaðinum er svo gífurleg, að stöðvun hlýtur að koma til hjá mörgum. Allt þetta verður til þess, að byggingarframkvæmdir einstaklinga, sem hafa takmörkuð fjárráð, dragast stórlega saman eða stöðvast með öllu.

Þeir, sem hafa yfir peningunum að ráða, láta sig ekkert muna um það að halda áætlunum sínum, og einkum og sér í lagi, þegar allar fjárfestingarhömlur eru afnumdar, þá nota þessir menn vitanlega tækifærið að koma framkvæmdum sínum áfram. Ágætt dæmi um það er, að Seðlabankinn ætlar í sumar að byggja stórhýsi upp á margar hæðir á Laugavegi 7 hér í Reykjavík, og þeir, sem aka um Suðurlandsbraut, sjá, að þar eru margar stórbyggingar í smíðum á ýmsu stigi, og vafalaust munu þær halda áfram. Þetta eru yfirleitt verzlunar- og skrifstofuhús. Það eru peningamennirnir, sem nú byggja, og það eru þeir einu, sem geta byggt og verða enn ríkari en áður, og eina till., sem hv. fjhn. gerði við þetta frv., var á þá lund að afnema lög frá 1957 um afnot íbúðarhúsnæðis. í kjölfar þessarar byltingar skal mönnum, sem eiga íbúðarhúsnæði núna, heimilt að breyta því í verzlunarhúsnæði, skrifstofuhúsnæði og taka það yfirleitt til hverra nota sem þeim sýnist. Það er athyglisvert, að þetta var það eina, sem hv. fjhn. Nd. sá að bæta þurfti við frv. það, sem hér liggur fyrir.

Þessi verður þróunin í fjárfestingarmálunum, ef áætlun hæstv. ríkisstj. kemst óhindruð í framkvæmd og héldur velli um sinn. Um þessa breyt. sagði hæstv. viðskmrh. . orðrétt — eða svo til orðrétt — hér í umr. s.l. mánudagskvöld: Stefna ríkisstj, hefur áhrif í heilbrigða átt. Fjárfestingin í landinu er miklu heilbrigðari eftir breytinguna. — Mig undrar, að maður, sem talar fyrir flokk, sem kennir sig við alþýðu þessa lands, skuli leyfa sér að viðhafa slík ummæli, kalla það stefnt í heilbrigða átt, að allur almenningur verður neyddur til að hætta við áform sín um byggingarframkvæmdir, en þeir einir, sem hafa komizt yfir peninga í gegnum ýmiss konar viðskipti, eru nánast löggiltir eigendur allra nýbygginga í þessu landi, eins og nú horfir. Þeir eiga að byggja íbúðirnar og leigja síðan þeim fyrir okurleigu, sem nú verða að hætta við byggingar sínar, það húsnæði, sem þarf ekki fyrir skrifstofur og verzlun. Einnig þetta er öfugt við þróun undanfarinna áratuga, sem stuðlaði að því, að sem flestar fjölskyldur ættu sjálfar húsnæði fyrir sig. Þetta er einn árangurinn af „bættum lífskjörum almennings“.

Þó er versti þáttur þessa máls eftir, og hann er sá, að þeir, sem þegar eru búnir að byggja íbúðarhús eða hafa verið að byggja á undanförnum árum og skulda vitanlega allháar upphæðir, verða nú margir hverjir að borga 11% vexti af öllum sínum íbúðarlánum. Mun þetta vera mjög algengt í flestum kaupstöðum og kauptúnum landsins, og ástæðan er ofur elnföld. Hún er sú, að lán frá húsnæðismálastjórninni hafa ekki náð eins langt og þurft hefði að vera og afgreiðsla þeirra hefur líka gengið nokkuð seint. Aftur á móti hafa allstöndugir sparisjóðir gripið inn í þessa lánastarfsemi og lánað húsbyggjendum sams konar lán og þeir fengju hjá húsnæðismálastjórninni. Menn hafa þess vegna á undanförnum árum hugsað um það eitt, að fyrstu peningar væru beztir, og tekið lán í sparisjóðunum, í góðri trú, að þau væru ekki dýrari en lánin frá húsnæðismálastofnun ríkisins og kæmu miklu fyrr. Þannig fengu margir menn lán allt upp. í 70 þús. eða kannske meira á undanförnum. árum víðs vegar í kaupstöðum landsins. En þegar þeir nú eftir aðgerðir hæstv. ríkisstj. fara að borga vexti af lánum sínum fyrir næsta ár, þá verður ekki krafið um 7%, eins og þeir héldu að þeir ættu að borga, heldur eru þeir krafðir um 11% af lánum sinum, og þetta er eðlilegt, vegna þess að allt fé sparisjóðanna er innstæðufé, sem sparisjóðirnir nú verða að greiða 9% og 10% af og þess vegna er þeim ógerlegt annað en innheimta 11% af þessum lánum, ef fjárhagur þeirra á að geta haldið velli. Þetta er mjög alvarlegt atriði og kannske það alvarlegasta, að þannig sé ráðizt aftan að þeim mönnum, sem þegar eru búnir að koma framkvæmdum sínum áfram. Það er vont að stöðva menn, áður en byrjað er, en það er enn þá verra, að þeir skuli fá slíkan rýting í bakið, þegar þeir eru fluttir inn í íbúðir sínar. Ég býst ekki við því, að hæstv. ríkisstj. hafi tekið þetta atriði með, þegar hún reiknar út kostnað hjá hinni svonefndu vísitölufjölskyldu.

Trúi hæstv. ríkisstj. á það, að frv. þetta geti breytt einhverju frá því, sem verið hefur, er það ekki aukið frelsi, heldur ófrelsi og skipulagsleysi. Og þá er það fyrsta; að gífurlegt eyðslulán myndast erlendis, sem lítil von er til að hægt verði að greiða á næstunni, og eykur þá ófrelsi þjóðarinnar og bindur hana á skuldaklafa erlendis. Í öðru lagi, að þar sem álagning er mest á ónauðsynlegri vöru, er hætt við því, að hún sitji í fyrirrúmi og skortur nauðsynjavöru geti orðið, ef ekkert eftirlit er haft með innflutningnum. Og í þriðja lagi, horfur á sölu á ýmsum framleiðsluvörum núna eru ekki hvetjandi til aukins frelsis, t.d. verðlag á síldarlýsi og síldar- og fiskimjöli o.s.frv. Það er talið t.d., að hið mikla framboð á fiskimjöll í Perú hafi þau áhrif fyrir Íslendinga, að þeir tapi um 150 millj. kr. í lækkuðu útflutningsverði bara á þessari einu vörutegund. Í fjórða lagi, það er með öllu rangt að viðhalda 1% leyfisgjaldi, eftir að búið er að leggja innflutningsskrifstofuna niður. Bankarnir taka sína „próvisjón“, og það er óeðlilegt að halda upp verðlagseftirliti með slíkum tekjum, því að 1% leyfisgjald er lagt á svo margt, sem verðlagseftirliti er óviðkomandi, t.d. námskostnað, sjúkrakostnað, afborganir og vexti af erlendum lánum, ferðakostnað og margt fleira, sem er verðlagseftirliti gersamlega óviðkomandi. Væri sýnu nær að leggja hæfilegt gjald á verðlagsútreikninga þá, sem eftirlitíð samþykkir eða verður að samþykkja samkv. lögum um það. Þá hljóta þessar ráðstafanir einnig að minnka mjög rekstrarfé og þrengja þannig að öllum viðskiptum og framförum í landinu. Í sambandi við það atriði sagði hæstv. viðskmrh. á mánudagskvöldið, að meginregla ríkisstj. væri mjög einföld og hún væri í stuttu máli þessi að efni til: að lána út sparifé bankanna og ekkert meira. Það er kjarninn í bankapólitíkinni. Atvinnulífið í heild þarf ekki á meira lánsfé að halda, og þau atvinnúfyrirtæki, sem fylgdu ekki slíkri bankapólitík, mættu fara á hausinn. Sumt af þessu endurtók hæstv. viðskmrh. hér í almennum umr. í Sþ. í gær. Ég verð nú að segja um þessi ummæli, að það er nokkuð annað teoría eða raunveruleiki. Þeir, sem eitthvað þekkja til atvinnurekstrar, vita vel, að það skiptast á skin og skúrir, og jafnvel á einu ári getur komið velgengnismánuður og miklir erfiðleikamánuðir. Menn, sem reka frystihús, og menn, sem reka báta, vita vel, að það þarf oft miklu meiri lán, þegar illa gengur, meira en afurðirnar segja til um, og er stytzt að minnast þess, að í fyrravetur á vertíðinni t.d. var byrjað yfirleitt að gera út hér við Faxaflóa um áramótin, en vertíðin gekk mjög illa í janúar, febrúar og fram eftir marz. Aflinn, sem kom á land, var tiltölulega lítill, og hefði lánið þá verið skorið nákvæmlega við aflann, hefði það auðveldlega getað leitt til þess, að allur atvinnurekstur hefði stöðvazt á miðri vertíðinni. Síðan kom hrotan í aprílmánuði, og þá lagaðist þetta mjög. Nei, ég held, að það sé alveg óframkvæmanlegt að binda nákvæmlega við sparifjárinnstæður útlán til margvíslegra atvinnutækja, því að það gæti orðið til þess, að þau stöðvuðust, — og hvað tekur þá við? Þá tekur það við, sem allir vita, atvinnuleysi og skortur, og ég tel víst, að hæstv. ráðh. óski ekki eftir slíkum afleiðingum af þessum ráðstöfunum.

Ríkisstj., sagði sami ráðh., mun ekki taka upp neinar uppbætur í neinu formi, og hún ætlar engin afskipti að hafa af kaupdeilum. Það var upplýst hér í hv. Alþ. í gær, að ríkisstj. er þegar farin að úthluta uppbótum, að vísu heita það uppbætur fyrir s.l. ár, 22 aurar á hvert kg af veiddum fiski á togurum, allt upp í 850 þús. kr. á skip. En það var minnzt á það líka, að það mætti réttlæta þetta m.a. vegna þess, að 5% af öllum útflutningnum kæmu aftur í sérstakan sjóð og væri þetta þess vegna ekki svo fráleit aðferð. Ég er ákaflega hræddur um, að ef atvinnulífinu gengur illa vegna ráðstafana ríkisstj. eða af öðrum ástæðum, komist ríkisstj. ekki hjá því að láta þessi mál að einhverju til sín taka. Þess vegna er ég hræddur um það, að þetta séu hreystiyrði, sem eigi eftir að breytast af reynslu næstu mánaða og næstu ára.

Ég held, að það hefði verið vissast fyrir hæstv. viðskmrh. og stjórnarliðið að samþykkja dagskrá þá, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. flutti. Gæti verið hyggilegt að láta íhuga þessi mál, á meðan séð verður, hvernig öðrum þáttum efnahagstillagna ríkisstj. reiðir af, því að undirstaða þeirra er ekki alls staðar sem traustust.