06.05.1960
Neðri deild: 77. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2373 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það hafa orðið miklar umr. um þetta frv., og er það að vonum. Þær hafa farið nokkuð víða og sjálfsagt ekki að tilefnislausu, en ég mun að mestu leyti halda mig við efni þessa frv. og ætla mér að víkja að því nokkrum orðum.

Ríkisstj. hefur oft haft um það mörg orð og stór, að það væri frelsið, fyrst og fremst frelsið, sem hún væri að gera hátt undir höfði og ætlaði að innleiða í efnahags- og viðskiptalífið með efnahagsmálaaðgerðum sinum. Og einkanlega mun það einmitt vera þetta frv., sem er hugsað til efnda á öllum frelsisfyrirheitunum. Það hefur a.m.k. aldrei verið sunginn annar eins frelsisóður hér í sölum Alþ., svo að ég minnist, eins og þegar hv. 6. landsk. (BK) var að mæla fyrir þessu frv. Má mikið vera, ef þeir, sem friða átti með öllu frelsisskrafinu, verða samt ekki fyrir vonbrigðum, þegar þessi mikla frelsisskrá ríkisstj. fer að koma til framkvæmda.

Mér kæmi það jafnvel ekki á óvart, að þegar til kastanna kæmi, hefði hæstv. ríkisstj. ekki einu sinni efni á að veita það viðskiptafrelsi til lengdar, sem hún þó gefur fyrirheit um í frv. Og þá gæti vel svo farið, að þeir, sem nú er ætlunin að reyna að gera ánægða með frelsishjalinu, yrðu fyrir því meiri vonbrigðum og kæmust, eins og flestir eru þegar komnir, yfir í raðir hinna óánægðu með alla stjórnarstefnuna. Og skyldi ég auðvitað ekki harma, þó að svo færi.

Ég les það út úr 1. gr. þessa frv., að innflutningur á vörum til landsins og gjaldeyrisgreiðslur til útlanda skuli vera frjáls, nema annað sé ákveðið í sérstökum lögum eða þá í reglugerð. Þannig eru fyllistu heimildir strax í 1. gr. frv. til þess að gera frelsisfyrirheitin í upphafsorðum frv. sjálfs að engu. Til hvers allar þessar heimildir til þess að ganga í berhögg við frelsið? Hvað út úr þessu kemur, hvort það verður verzlunarfrelsi eða haftabúskapur, líkt og verið hefur, get ég því alls ekki séð af frv., ekki einu sinni af 1. gr. þess, sem helzt fjallar þó um þær ráðstafanir, sem eigi að gera í frelsisátt. Ég er að þessu leyti nokkurn veginn sammála hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG). Hann fékk ekki séð af frv., að stigin væru nein stórvægileg spor í frelsisátt í viðskiptalífinu með þessari lagasetningu. En hvort okkur missýnist báðum um þetta, úr því verður reynslan að skera.

Svo mikið er a.m.k. víst, að upphafsorð 2. gr. frv. og raunar sú grein öll fjallar um úthlutun leyfa og aftur úthlutun leyfa. Þar segir: „Úthlutun gjaldeyris- og innflutningsleyfa fyrir vörum og gjaldeyrisgreiðslum annast þeir viðskiptabankar, sem hafa með höndum kaup og sölu á erlendum gjaldeyri, skv. þeim reglum, sem ríkisstj. setur.“ Um þessar leyfisúthlutanir eiga bankarnir svo að gefa ríkisstj. skýrslur. Og skv. þessari sömu gr. er ríkisstj. auk þess heimilt að fela sérstökum trúnaðarmönnum sínum úthlutun tiltekinna leyfa. Um þessa sérstöku trúnaðarmenn segir í aths. við frv., að þeim muni fyrst og fremst verða falið að úthluta leyfum fyrir innflutningi á bílum. Þar virðist því eiga að koma sérstök stofnun, sem hafi það með höndum við hliðina á bönkunum að úthluta innflutningsleyfum fyrir bílum.

Þetta er allt frelsið. Af þessu get ég ekki skilið annað en það, að úthlutun innflutningsog gjaldeyrisleyfa fari ekki lengur fram uppi á Skólavörðustíg, heldur niðri í Landsbanka og Útvegsbanka, og það sé meginmunurinn frá því, sem nú er. Og svo koma enn fremur til þessir sérstöku trúnaðarmenn ríkisstj. og úthluta bílaleyfum, hvaða menn sem það kunna nú að verða og hvar sem þeim kann svo að verða holað niður. Kannske það verði í einhverjum af bönkunum við Laugaveg?

3. gr. er sögð shlj. gildandi lagaákvæðum, og skal því ekki fjölyrt um hana.

Í aths. frv. segir líka um 4. gr., að efni hennar sé að mestu leyti óbreytt frá gildandi lögum. En í henni segir þó, að allur erlendur gjaldeyrir, sem hérlendir aðilar eigi eða eignist fyrir vörur, þjónustu eða á annan hátt, skuldi seldur Landsbanka Íslands, seðlabankanum eða öðrum bönkum, sem rétt hafi til að verzla með erlendan gjaldeyri.

Um gjaldeyriseftirlit sé ég ekkert í frv. annað en það, sem segir í 6. gr., en þar stendur: „Landsbanki Íslands, seðlabankinn skal fylgjast með því, að erlendum gjaldeyri sé skilað til gjaldeyrisbankanna og að erlendur gjaldeyrir, sem bankarnir selja, sé notaður eins og til er ætlazt.“

Út af þessu langar mig til að spyrja hæstv. viðskmrh., ef hann mætti heyra mál sitt: Verður ekkert hert á gjaldeyriseftirlitinu? Verður frelsi manna og fyrirtækja til að stela undan gjaldeyri, fara fram hjá gjaldeyrisbönkunum í stórum stíl og verja gjaldeyrinum til allt annars en til var ætlazt, eins og mér virðist hafa átt sér stað að undanförnu, og hvert stórgjaldeyrissvikamálið á fætur öðru virðist sanna, að átt hafi sér stað? Eða verður gjaldeyriseftirlitið e.t.v. endurskipulagt og gert öruggara, og ef svo er, með hvaða hætti verður það þá gert?

Þetta eru forvitnisspurningar. Mig langar til þess að fá að vita um þetta, hvort eitthvað er afráðið um það að lappa örlítið upp á gjaldeyriseftirlitið í landinu. En það fyndist mér ekki óeðlilegt að gert væri í sambandi við slíka endurskipulagningu á viðskiptamálunum sem hér er sögð fyrirhuguð. Ég tel, að það væri hin fyllsta þörf á því. En máske er ekki hægt að ætlast til þess, að slík og þvílík frelsisskrá eigi að takmarka frelsi gjaldeyrissvikaranna.

II. kafli frv. er allur um eintóm höft í útflutningsverzlunin. Ríkisstj. er þar heimilað að ákveða, að vörur megi ekki bjóða til sölu, selja til útlanda eða flytja úr landi nema að fengnu stjórnarleyfi. Það er hægt að binda útflutningsleyfi sérhverjum skilyrðum, sem ríkisstj. telur nauðsynlegt að setja. Aðalbreyt. þessa kafla er sögð sú, að útflutningsnefnd sjávarafurða verði lögð niður og verði rn. falið verkefni hennar. Hér er m.ö.o. enn á ný aðeins um tilfærslu að ræða á úrlausn verkefna, en enginn er kominn til með að segja, að af breyt. leiði greiðari og betri þjónustu né heldur minni tilkostnað. Mætti heldur segja mér, að útkoman yrði hin gagnstæða, því að það mun flestra manna mál, að á skrifstofu útflutningssjóðs hafi verið vel unnið og afkastað ótrúlega miklu starfi með mjög fámennu starfsliði. En þessa stofnun á nú alveg sérstaklega að leggja niður, en afgreiða hennar mál í ráðuneytinu.

Það mun vera túlkað af stjórnarsinnum sem skref í frelsisáttina, að nú þurfi ekki lengur að sækja um fjárfestingarleyfi. En þó munu þeir óefað verða nokkuð margir, sem telja verðhækkanir á aðalbyggingarvörum, eins og sementi, timbri og járni, vaxtaokrið og lánahömlur vera öllu illvígara stöðvunarafl við að fást heldur en jafnvel fjárfestingaryfirvöldin hafa verið. Frelsið til að byggja er nú orðið einkaréttur til handa þeim, sem hafa fullar hendur fjár, enda er öll stjórnarstefnan í hvívetna — þessu frv. sem öðru — miðuð við peningamennina í landinu. Einstaklingsframtak alls fjöldans, hinna efnaminni, verður hins vegar höftum reyrt og fjötrum flækt á allan hátt. Slíku einstaklingsframtaki þarf ekki að viðhalda, það þarf ekki að efla, það má fara fjárans til! Það er einstaklingsframtak máttarstólpanna í þjóðfélaginu, hinna fáu og stóru, sem þarf að efla, og það eitt er eflt með þessari stjórnarstefnu. Í þessu er fólgin sú haftapólitík, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú gert að sínu leiðarljósi og lokatakmarki — í reyndinni a.m.k., þó að frelsið sé haft að yfirvarpi og sífellt á vörunum.

En þrátt fyrir stórfelldan samdrátt í allri mannvirkjagerð verður ekki séð, að ætlunin sé að draga neitt úr skriffinnskunni. Framkvæmdabankinn á að semja víðtækar skýrslur um fjárfestingu í landinu og vera ríkisstj. til ráðuneytis í fjárfestingarmálum. Einnig skulu allar byggingarnefndir og allir hreppsnefndaroddvitar auka stórlega skýrslugerðir sínar um byggingamál.

Í aths. með frv. segir svo: „Að því er snertir gjaldeyrisgreiðslur fyrir annað en innflutning munu þær enn um sinn háðar leyfum að verulegu leyti. Ætlunin er hins vegar sú að setja um þær leyfisveitingar fastar reglur,“ Og enn fremur segir: „Þessi breyt. gerir það að verkum, að hægt er að koma úthlutun leyfa fyrir á einfaldari og ódýrari hátt en verið hefur.“ Ég endurtek: Einfaldari og ódýrari hátt en verið hefur! Í þessu felst mikið fyrirheit. Þ.e.a.s. með því að flytja framkvæmdirnar ofan af Skólavörðustíg og niður í Austurstræti, í bankana, verður framkvæmdin miklu einfaldari og stórkostlega miklu ódýrari.

En hvað segir svo um skattheimtu af viðskiptunum vegna þessarar þjónustu nú og framvegis? Verður skattheimtan ekki lækkuð, vegna þess að framkvæmdin verði nú einfaldari og ódýrari en áður? Nei, því miður sést það ekki á frv. og ekki heldur af skýringunum, sem fylgja því, því að í 10. gr. frv. segir svo: „Innheimta má af gjaldeyris- og/eða innflutningsleyfum allt að 1% leyfisgjald af fjárhæð þeirri, sem leyfin hljóða um. Af gjaldi þessu skal allt að helmingur, eftir nánari ákvörðun ríkisstj., ganga til bankanna til að standa straum af kostnaði við úthlutun leyfa, en að öðru leyti skal því varið til greiðslu á kostnaði við verðlagseftirlit.“ Í skýringum með frv. segir hins vegar þetta: „Innflutningsskrifstofan hefur innheimt 1% af leyfisfjárhæð hverri, og hefur því gjaldi verið varið til þess að greiða kostnað af starfsemi skrifstofunnar og verðlagseftirlitsins.“

Hér er ekkert um að villast. Nú á að innheimta sama hundraðsgjald og áður, þ.e. miklu hærra að krónutölu. En framkvæmdin á að verða miklu einfaldari og ódýrari en áður — mikil ósköp! Gjaldið á nú að standa straum af kostnaði bankanna og verðlagseftirlitsins, áður innflutningsskrifstofunnar og verðlagseftirlitsins — 1% í báðum tilfellum. –Og hver er svo sparnaðurinn?

Í sjálfu frv. er ekki miklu meira efni en þetta, sem ég hef nú skýrt frá. En lokaákvæði þessa frv. eru nokkuð óvenjuleg. Þar segir: „Gert er ráð fyrir, að lögin taki gildi þann dag, sem reglugerð sú, sem 1. gr. getur um, verður gefin út.“ Lögin taka gildi á þeim degi, sem reglugerðin verður gefin út! Á þeim degi mundi innflutningsskrifstofan og útflutningsnefnd sjávarafurða hætta störfum og hin nýja skipan koma til framkvæmda, — ekki þegar lögin verða afgreidd og staðfest, en þegar sjálf reglugerðin verður gefin út. Þá tekur hið nýja kerfi til starfa! Reglugerðin er sýnilega aðalatriðið, ekki lagasetningin. Sennilega er þm. ekki ætlað að fá að kynnast nema undan og ofan af því, sem til stendur, með lögunum sjálfum. Menn fá ekki heildarmyndina af því, hvað hér á að gerast í viðskiptamálum, fyrr en reglugerðin er komin, og það gerist sennilega ekki fyrr en þing hefur verið sent heim. Já, „lögin skulu taka gildi á þeim degi, þegar reglugerðin verður gefin út.“ — Ég man ekki eftir, að ég hafi nokkurn tíma séð svona ákvæði um gildistöku laga fyrr.

Þó að frelsishjalið hafi verið mest áberandi í sambandi við þetta frv., hefur sparnaðartal í sambandi við það líka verið nokkuð áberandi. Jeppanefndin verður lögð niður, innflutningsskrifstofan verður lögð niður og útflutningsnefnd sjávarafurða verður lögð niður, — þarna eru 3 stofnanir. Mikil hreinsun, mikil fækkun á starfsliði, mikill léttir á ríkinu á húsaleigukostnaði sjálfsagt? Eða slíkt er a.m.k. gefið í skyn með öllum þessum stofnunum, sem eigi að leggja niður.

Af þessu tilefni langar mig í öllu sakleysi að spyrja: Hefur húsnæði innflutningsskrifstofunnar við Skólavörðustig verið sagt upp, og er ætlunin að sleppa því úr notkun ríkisins? Eða er hitt rétt, að efnahagsmálaráðuneyti Jónasar Haralz eigi að breiða dálítið úr sér, skapa sér dálítið meira olnbogarúm, taka við húsnæðinu, eða leggja undir sig efstu hæðina í Arnarhvoli og að aðrar ríkisskrifstofur, svo sem landlæknisskrifstofa, biskupsskrifstofa og einhverjar fleiri, eigi að flytja þaðan og upp á Skólavörðustig í það húsnæði, sem innflutningsskrifstofan hefur nú haft, og húsnæðið verði þannig áfram í þjónustu ríkisins? Ef svo væri — það síðara, þá sé ég ekki sparnaðinn í sambandi við það.

En það getur verið, að þarna eigi að minnka skriffinnskubáknið stórlega og fækka fólki í opinberri þjónustu við að færa þessa starfsemi niður í Austurstræti. Af því tilefni vil ég þá spyrja: Hefur öllu starfsfólki innflutningsskrifstofunnar verið sagt upp, og er þannig ætlunin að spara laun, sem nema kannske launum 30–40 manna? Eða er hitt réttara, sem sagt er, að fólkið af Skólavörðustignum eigi að flytjast með verkefnum innflutningsskrifstofunnar ofan í bankana? Er þetta mál orðið afgert, þannig að hægt sé að greina frá þeim sparnaði, sem af þessu verði? Eða hefur Bandalag starfsmanna ríkis og bæja e.t.v. mælt með því nú þegar, að fólkinu verði kastað út á kaldan klaka öllu saman? Annað hvort er sjálfsagt staðreyndin.

Annars skiptir það meginmáli um þetta frv. ríkisstj., að það er liður í efnahagsmálaaðgerðum hennar. Auðvitað er því ætlað að þjóna sömu hagsmunum og öll hin efnahagsmálafrv. hafa stefnt að, nefnilega auðgun hinna auðugu, en jafnframt sé stefnt að kjaraskerðingu og atvinnusamdrætti, sem harkalegast bitnar á launastéttunum og á bændastéttinni ekki hvað sízt. Öll þessi frv. ber því að dæma eftir þeim þjóðfélagsverkunum, sem nú þegar er sýnt að þau hafa.

Ég held, að það væri t.d. ekkert úr vegi, til þess að mynda sér skoðun um þær þjóðfélagsverkanir, sem efnahagsmálaaðgerðir ríkisstj. hafa þegar haft, að maður spyrði t.d. útgerðarmennina, hvernig þeir standi nú fjárhagslega eftir aðgerðirnar, hvernig útlitið sé hjá þeim í næstu framtíð eftir lækninguna. Og það mætti sjálfsagt vonast til að heyra í þeim léttan tón og fá jákvæð svör: nú sé gaman að lifa, — því að lengi var látið í veðri vaka, að fyrir útgerðina og velgengni hennar væru þessar aðgerðir aðallega gerðar.

Hvernig ætli sé nú hljóðið í þeim, útgerðarmönnunum? Vægast sagt ekki gott, ekki mikið um bjartsýni. Það er síður en svo, að þeir nuddi saman lófunum ánægðir, nú sé allt í himnalagi hjá þeim, nú sé ekki uppbótakerfið að þjá þá og þjaka lengur, nú sé þeim borgið og þeir séu komnir í góða höfn. — Nei, sannleikurinn er sá, að hvaða útgerðarmann sem maður spyr, þá segjast þeir nú eiga í miklum þrengingum við fyrstu vertíðarlokin eftir aðgerðirnar, eftir lækninguna, og að þeir sjái ekki enn þá, hvernig þeim ásamt bönkunum takist að komast fram úr þessu.

Það væri kannske ráðlegt að spyrja bændurna, hvernig þeim lítist á blikuna, nú sé búið að tryggja þeirra lífsafkomumöguleika og fólksins í sveitunum. Það, sem ég hef getað heyrt austan af landi, norðan úr landi, af Suðurlandsundirlendinu, virðist mér alls staðar kveða við það sama, nefnilega þetta, að þar sem bændurnir hafa komið saman til mannfunda og rætt um efnahagsmálaaðgerðir ríkisstj., þá hafi niðurstaðan verið ein og hin sama í öllum landshlutum hjá bændastéttinni, að nú sé búið að þjarma svo að bændum, að þeir séu ekki þess megnugir að kaupa tilbúinn áburð á túnin nú í vor, þeir sjái ekki fram á, að þeir geti keypt fóðurbæti undir haustið, þeir geti ekki séð fram á, að þeir geti keypt neinar vinnuvélar, þeir sjái ekki fram á annað en að fleiri eða færri bændur flosni upp og verði að flytjast frá búum sínum. Í dag segir hér í einu dagblaðanna frá fundarhöldum hjá sunnlenzkum bændum: „Sunnlenzkir bændur mótmæla einróma vaxtahækkun á landbúnaðarlánum og skora á Alþ. að undanþiggja samvinnufélög bænda veltuútsvari.“ Önnur frétt um annan fund í sama blaði er um fund bænda hér á Suðurlandsundirlendinu, og þar er líka verið að barma sér undan þungum búsifjum, sem bændastéttin verði fyrir af efnahagsmálaaðgerðum hæstv. ríkisstj. Fyrir skömmu frétti ég af fundi norður í Þingeyjarsýslu, þar sem einn af þm. stjórnarliðsins var staddur, og voru þar gerðar svæsnar samþykktir gegn stjórnarstefnunni, — ekkert mótatkvæði, ekki einu sinni þm. úr stjórnarliðinu, svo algerlega var vörnin gefin upp, þegar bændur voru einróma að tæta í sundur öll rök, sem færð hafa verið fram fyrir þessari stjórnarstefnu. Svona koma þessar aðgerðir við bændastéttina.

En hæstv. ríkisstj. veit ekki neitt um þetta. Hún er borubrött og pattaraleg og ber sig vel, þylur hér talnadálka um það, hvað allt hafi nú snúizt af ógæfuhlíðinni til gæfusamlegrar þróunar, og er hin ánægðasta með allt saman — allt úthaldið.

En eru það nokkrir fleiri en útgerðarmenn og bændur, sem bera sig illa undan afleiðingum stjórnarstefnunnar, eins og hún birtist núna strax á byrjunarstiginu? Spyrjum t.d. fólkið, sem hefur lífsframfæri sitt af iðju og iðnaði hér í Reykjavík. Jú, það liggja fyrir svör um afstöðu þessa fólks. Ég skal aðeins grípa niður á þeim stöðum, þar sem ég ætti sízt að vera sakaður um, að ég væri að flytja hlutdræg svör, sem væri ekkert að marka. Það er ekkert langt síðan, það var núna í apríllokin, að stéttarfélag þess fólks, sem vinnur við hvers konar iðju og iðnstarfsemi í Reykjavík, það var félag verksmiðjufólks í Reykjavík, Iðja, sem var að halda aðalfund sinn, og það var 19. apríl, núna fyrir örskömmu. Það er vitað, að þetta er þriðja stærsta stéttarfélagið í Alþýðusambandi Íslands og er undir stjórn íhaldsmanna og Alþýðuflokksmanna, ekki stjórnarandstæðinga. Þau eru náttúrlega öll vitlaus, þau félög, sem eru undir stjórn andstæðinga stjórnarinnar, en hér er um krosstré að ræða, en ekki venjulega spýtu, sannkallað krosstré ríkisstjórnarinnar. Á þessum aðalfundi var gerð samþykkt um efnahagsmálaaðgerðirnar, og sú samþykkt var, með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið:

„Aðalfundur Iðju, félags verksmiðjufólks í Reykjavík, felur fulltrúa sínum í 1. maínefnd fulltrúaráðsins og verkalýðsfélaganna að vinna að því eftir megni innan nefndarinnar, að 1. maí í ár verði fyrst og fremst helgaður baráttunni gegn árásum ríkisvaldsins á lífskjör almennings.“

Iðja, félag verksmiðjufólks í Reykjavík, gaf sem sé fulltrúa sínum í 1. maínefnd verkalýðsfélaganna í Reykjavik þetta veganesti, að stuðla að því, að 1. maí yrði fyrst og fremst helgaður baráttunni gegn árásum ríkisvaldsins á lífskjör almennings. Það er ekkert um að efast, þó að till. sé orðfá, þá býr því fólki, sem stendur að baki svona till., allmikið niðri fyrir og telur sig ekki vera í neinum vafa um það, hvers konar björg í bú stjórnaraðgerðirnar færi því.

Ég skal nú þessu næst minna á, hvernig hljóðið er í einni þeirri iðnaðarstétt innan verkalýðssamtakanna, sem einna bezt lífskjör hefur haft, vegna þess að hún hefur átt kost á að vinna myrkranna á milli og stundum meira en það, Leggja á sig mikið strit, stundum ofurmannlegt erfiði. Það eru múrarar í Reykjavík. Ekki verður heldur sagt, að félagsskapur þeirra sé undir yfirráðum kommúnista eða kommúnistískra framsóknarmanna, eins og stundum er talað um. Nei, nei, formaður félagsins er góður og gildur íhaldsmaður, að því er ég bezt veit, studdur af Alþfl., á hans pólitíska mannorði er þannig hvorki blettur né hrukka, — maður úr liðssveitum stjórnarinnar. En á fundi í Múrarafélagi Reykjavíkur 26. apríl, nú rétt fyrir mánaðamótin seinustu, var samþykkt eftirfarandi till., einnig gegn efnahagsmálaaðgerðum ríkisstj. Till. var, með leyfi hæstv. forseta, svo hljóðandi:

„Fundur í Múrarafélagi Reykjavikur 26. apríl mótmælir efnahagsmálaráðstöfunum ríkisstj., að því leyti sem þær rýra kjör launþega. Fundurinn telur, að ráðstafanir þessar muni leiða til samdráttar í byggingariðnaði og jafnvel stöðvunar, og telur óhjákvæmilegt að mótmæla þeim kröftuglega.“

Það lá síður en svo við borð, að þessi till. væri rétt marin í gegn, hún fékk 46 atkvæði á fundinum, en mótatkvæði voru 25. Nærri tvöfalt atkvæðamagn var með þessari till., þeir helmingi færri, sem vildu þjóna ríkisstj. gegnum þykkt og þunnt, þrátt fyrir útlitið í þeirra eigin atvinnugrein. Niðurstaðan er, að stjórnarstefnan leiði til samdráttar í byggingariðnaði og jafnvel stöðvunar, og þeir telja óhjákvæmilegt að mótmæla þeim aðgerðum kröftuglega. Þetta er sú rödd, sem við höfum heyrt frá Múrarafélagi Reykjavíkur aðeins fyrir rúmri viku.

Spyrjum þessu næst opinbera starfsmenn, hvað þeir hafi að segja um sjálfa stjórnarstefnuna. Um hana hafa þeir að vísu ekki gert samþykkt, svo að ég viti, í öðru formi en því, að formaður bandalags þeirra, þ.e. landssamtaka þeirra, sem rétti hér upp hönd með stjórnarstefnunni, hefur verið víttur í sínu eigin stéttarfélagi fyrir að hafa veitt stefnunni brautargengi. Það eitt segir nú ekki heldur svo lítið um afstöðu þessa fólks, enda er sannleikurinn sá, að opinberir starfsmenn, sem búa við lögbundið kaup í slíku dýrtíðarflóði, sem aðgerðir ríkisstj. hafa velt yfir þjóðina, eru ekki þar vel settir, hafandi hvorki samningsrétt né verkfallsrétt að grípa til sér til varnar. Ég held, að þetta eitt nægi. Víturnar á formann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja í samþykktarformi í hans eigin stéttarfélagi gefa okkur alveg skýra hugmynd um það, hver sé afstaða opinberra starfsmanna til aðgerða ríkisstj. í efnahagsmálum.

Ég held líka, að sama afstaða hafi komið í ljós 1. maí í Reykjavik, eftir að Morgunblaðið, voldugasta málgagn stjórnarstefnunnar, vel stutt af aðstoðarmálgagni hennar, Alþýðublaðinu, hafði lýst því yfir, að yfirgnæfandi meiri hluti verkalýðssamtakanna hér í Reykjavík stæði ekki að fundinum á Lækjartorgi og ekki að kröfugöngu dagsins. En svarið var: Aldrei meira fjölmenni í kröfugöngunni í Reykjavík, aldrei meira fjölmenni á útifundi á Lækjartorgi, og meginkröfurnar voru andmæli gegn þeirri kjaraskerðingu, sem launafólkið í landinu hefur orðið fyrir, ásamt kröfunum um að hvika hvergi í landhelgismálinu. Um þetta fylkti fólkið sér, þrátt fyrir það, þótt símahringingar um allan bæ ættu sér stað til þess að biðja fólk um að sitja nú inni, fara ekki út á göturnar þennan dag, og málgögn eins og Morgunblaðið og Alþýðublaðið vöruðu fólkið við að taka þátt í hátíðahöldum dagsins, því að yfirgnæfandi meiri hluti verkalýðssamtakanna í Reykjavík kæmi þarna ekki nærri. Þetta er algerlega afdráttarlaust og skýrt svar.

En það mætti kannske stilla spurningunni eins almennt og unnt er og spyrja: Hvernig er að lifa í landinu í dag? Hvernig verður að lifa í landinu á morgun? Og ég er alveg viss um, að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar sagði: Útlitið er dökkt, það er dökkt í álinn. Stjórnarstefnan er búin að sýna okkur svo mikið, að okkur sýnist síður en svo bjart fram undan.

Nei, það ber allt að einum og sama brunni. Sjálfstfl. hefur með aðstoð Alþfl. komið hér í framkvæmd harðsvíraðri íhaldsstefnu, afturhaldsstefnu, og í gær lýsti hæstv. forseti þessarar deildar því yfir, að þetta væri fyrst og fremst stefna Sjálfstfl., draumur hans um mörg ár að koma slíkri stefnu í framkvæmd. En nú hefði hann fengið betri aðstöðu til að koma henni í framkvæmd en hann hefði jafnvel haft, ef hann hefði staðið einn að því, þó að hann hefði haft hreinan meiri hluta í landinu.

Af því, sem ég hef nú sagt, en í ræðu minni hef ég leitazt við að lýsa afleiðingum þessarar stjórnarstefnu og þar með því frv., sem hér er til umr., — þá vil ég vona, að mönnum sé ljóst, að niðurstaða mín er sú, að hér sé um háskastefnu að ræða, og þar sem þetta frv. er einn liður í þeirri stefnu, þá beri auðvitað að fella það.

Það er alkunugt úr dýrafræðinni, hvernig strúturinn er sagður haga sér, þegar hann telji hættu bera að höndum. Hann hyggst afstýra hættunum einungis með því að stinga hausnum niður í sandinn og sjá þannig ekki hætturnar. Ég held ég ljúki máli mínu með því að spyrja: Getur það verið, að hinir sjö hæstv. ráðh. hagi sér allir eins og strúturinn, sjái enga hættu færast að þjóðinni við framkvæmd stefnu sinnar, heldur séu þeir hinir öruggustu og ánægðustu, en til þess að vera þó alveg vissir um að sjá ekki það, sem allir aðrir sjá, og heyra ekki það, sem allir aðrir heyra, stingi þeir allir sjö hausnum djúpt í sandinn?