06.05.1960
Neðri deild: 77. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2382 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til þess að svara fsp., sem hv. 4. landsk. þm. (HV) beindi til mín í máli sínu áðan. Hann spurði, hvort uppi væru nokkrar ráðagerðir um það að auka og bæta gjaldeyriseftirlitið, þegar sú nýskipun í gjaldeyris- og innflutningsmálum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, kemst á. Þessu svara ég játandi. Það eru uppi ráðagerðir um að auka og bæta gjaldeyriseftirlitið mjög verulega frá því, sem verið hefur. Því hefur ekki verið sinnt nægilega. Það skipulag, sem á því hefur verið, þarfnast endurbóta, og um þetta atriði hafa einmitt farið fram viðræður milli viðskmrn. og Seðlabankans, sem lögum samkvæmt fer með gjaldeyriseftirlitið.

Þá spurði hv. þm., hvað yrði um það húsnæði á Skólavörðustíg 12, sem innflutningsskrifstofan hefur haft til umráða, hvort nokkuð væri til í þeim sögusögnum, að efnahagsmálaráðuneytið mundi flytja þangað, þegar innflutningsskrifstofan hefði verið lögð niður, eða kannske hvort aðrar opinberar skrifstofur, — ég held, að hann hafi nefnt skrifstofu biskups eða landlæknis, — mundu kannske flytjast í þetta húsnæði. Allar þessar sögusagnir eru algerlega úr lausu lofti gripnar. Þegar innflutningsskrifstofan verður lögð niður og búið er að ganga þar frá öllum málum eins og nauðsynlegt er, þegar stofnunin hættir störfum, þá verður þetta húsnæði yfirgefið fyrir fullt og allt af ríkinu. Engin ríkisstofnun mun flytja inn í það aftur, húsnæðinu verður sagt upp, ríkið á það ekki, það, hefur leigt það, og hvað sá húseigandi, sem þar er um að ræða, gerir við það, verðurríkinu að sjálfsögðu algerlega óviðkomandi mál.

Og þriðja spurningin var svo um það, hvaða ráðagerðir væru uppi varðandi það starfsfólk, sem unnið hefur á vegum innflutningsskrifstofunnar. Það mál hefur verið athugað rækilega nú undanfarnar vikur. Það er eðlilegt, að ríkisvaldið telji sig hafa skyldur gagnvart því starfsfólki, sem hefur unnið hjá hinu opinbera langan starfsaldur, sumir starfsmanna þarna hafa milli þriggja og fjögurra áratuga starf að baki í þágu ríkisins. Það er eðlilegt og við það hefur verið miðað að gefa því fólki kost á öðrum störfum sem sambærilegustum hjá ríkinu, þegar innflutningsskrifstofan verður lögð niður. Það er augljóst mál, að bankarnir munu þurfa á eitthvað auknu starfsliði að halda í sambandi við þær nýju skyldur, sem þeir takast á hendur í framhaldi af þessari endurskipulagningu, en það er líka augljóst mál, að bankarnir telja sig ekki þurfa á að halda neitt nálægt því jafnhárri tölu starfsfólks og starfað hefur í innflutningsskrifstofunni. Ég geri ráð fyrir því, að eitthvað af fólkinu, sem á Skólavörðustígnum hefur starfað, muni fá í bönkunum svípuð störf og það nú hefur eða sambærileg störf og það hefur gegnt. E.t.v. mun enn annað fara til annarra ríkisstofnana, án þess þó að sé um að ræða fjölgun á starfsfólki þar, heldur sem liður í venjulegum tilflutningi á starfsmönnum. Heildarniðurstaðan mun samt sem áður verða sú, að allmörg störf munu beinlínis leggjast niður. Samkvæmt ákvæðum í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna hefur ríkið ekki neina bótaskyldu gagnvart starfsmönnum, ef starf er hreinlega lagt niður, aðra en þá að greiða starfsmanninum eftirlaun samkvæmt ákvæðum laga eða samningum, og það mun að sjálfsögðu verða gert.

Það er því ekki um það að ræða, eins og hv. þm. lét liggja orð að, að hér mundi gömlum starfsmönnum með langan starfsaldur að baki verða kastað út á gaddinn. Þvert á móti telur ríkisstj. það vera sjálfsagða skyldu sína að greiða fyrir því, að þeir, sem lengi hafa starfað í þágu hins opinbera, geti fengið sambærileg störf og með svipuðum launakjörum. Að því er snertir hina, sem hafa ekki starfað nema nokkur ár, munu gilda venjuleg uppsagnarákvæði samkvæmt þeim samningum, sem þeir starfa eftir, og lögunum um opinbera starfsmenn.