06.05.1960
Neðri deild: 77. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2385 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Tölur þær, sem hv, þm. nefndi í ræðu sinni áðan um það, hversu miklar tekjur mundu hljótast af innheimtu leyfisgjalda samkv. 10. gr., voru allar að því leyti á misskilningi byggðar, að hann gerir þar ráð fyrir því, að heimild 10. gr. verði notuð út í æsar. En það er sá munur á ákvæðum 10. gr. frv., sem hér liggur fyrir, og ákvæðum gildandi laga, að í gildandi lögum er skylt að innheimta 1% leyfisgjald af öllum veittum leyfum. Samkv. 10. gr. þessa frv. er um að ræða heimild til að innheimta allt að 1% leyfisgjald af leyfisfjárhæð, og ég vil taka það skýrt fram til að fyrirbyggja allan misskilning, að það er ekki ætlun ríkisstj. að nota þessa heimild nema að því marki, sem nauðsynlegt er til þess að standast straum af kostnaði við verðlagseftirlitið og til þess að greiða bönkunum nokkra þóknun fyrir það starf, sem þeir taka að sér samkv. lögunum, svo að þær háu tölur, sem hann nefndi um þetta efni, eru á algerum misskilningi byggðar. Það hefur verið um það rætt að taka engin leyfisgjöld af leyfum til innflutnings frá vöruskiptalöndunum til þess að íþyngja ekki þeim viðskiptum miðað við vöruinnflutning landsins samkv. hinum almenna frílista, og þegar af þeirri ástæðu fellur niður innheimta leyfisgjalda af miklum innflutningi, miðað við það, sem nú á sér stað.

Ég vildi aðeins láta þetta koma skýrt fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning um þetta í framtíðinni, að heimildirnar samkv. 10. gr. munu aðeins verða notaðar eins og nauðsynlegt er til þess að greiða óhjákvæmilegan kostnað við verðlagseftirlitið og til þess að greiða bönkunum þá upphæð, sem um semst við þá, að þeir skuli fá fyrir störf sín samkv. lögunum. En ég fullyrði, að það muni ekki verða nema brot af þeirri upphæð, sem innflutningsskrifstofan hefur kostað undanfarin ár.