06.05.1960
Neðri deild: 77. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2391 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér meir inn í deilurnar um þetta frv., en aðeins nota þetta tækifæri til þess að gera örstutta aths. við einn þátt í ræðu hv. síðasta ræðumanns, 3. landsk. þm. (US), þar sem hann vék nokkuð að bönkunum út af ummælum mínum í gær og sérstaklega útibúi Útvegsbankans í Vestmannaeyjum, og geri það einvörðungu vegna þess, að þessi ummæli hans gætu síðar valdið nokkrum misskilningi.

Ég talaði um það í gær, að bankarnir hefðu bæði fyrr og síðar verið ómaklega ásakaðir um pólitíska úthlutun. Það hefði mikið verið talað um þetta 1957, þegar vinstri stjórnin breytti bankalöggjöfinni, og þá átti það aðallega að vera vegna hinnar pólitísku úthlutunar sjálfstæðismanna, eftir því sem sagt var. Ég sagði, að það hefði aldrei komið til neins pólitísks ágreinings þá í bönkunum milli þeirra manna, sem þar voru og voru bankastjórar af öllum flokkum og fulltrúar í bankaráðum úr öllum flokkum, og svo hefðu heldur aldrei mér vitanlega verið nein pólitísk átök innan bankanna eftir þær breytingar, sem þá voru gerðar. En um leið og þetta var gert, þótti engin ástæða til að gera neinar varúðarráðstafanir í þessu sambandi, sagði ég, um þann eina ríkisbanka, þar sem var einn bankastjóri og þar sem var alger meiri hluti eins pólitísks flokks í bankaráðinu. Og ég vék að mismuninum á aðstöðu bankastjóra í einkabönkum eða ríkisbönkum. Einstaklingarnir ráða því, hvort þeir vilja einn eða fleiri bankastjóra. Í ríkisbönkum er bankastjórum raunverulega faliðað ávaxta fé almennings og vinna að verulegu leyti sem embættismenn ríkisins. Og út af þessu talaði síðasti hv. ræðumaður, 3. landsk., og tók þá sérstaklega til, að samkv. því, sem ég hefði sagt, bæri sérstaklega að líta á útibú Útvegsbankans í Vestmannaeyjum, þar sem einn bankastjóri, útibússtjóri, væri í þessum banka í stærstu verstöð landsins. Nú skil ég ekki, vegna hvers það er eitthvað sérstakt með útibúið í Vestmannaeyjum, nema þá kannske, hvað það er stærra en önnur útibú. En það er svo í öllum útibúum bankanna, að það er einn útibússtjóri. En um útibússtjórana er það hins vegar að segja, að þeir eru undir yfirstjórn bankastjórnarinnar í aðalbönkunum. Þeir hafa eftirlit með útlánastarfsemi þeirra og aðalbankastjórarnir bera ábyrgð á þeirri útlánastarfsemi, ef einhverjar misfellur væru í henni, svo að ég álít, að athugasemdir hv. 3. landsk. séu byggðar á misskilningi.

Í sambandi við þær ráðstafanir í peningamálum, sem nú hafa verið gerðar og hafa víðtæk áhrif á bankastarfsemina og útlánastarfsemina, höfum við í Útvegsbankanum, bankastjórarnir þar, ekki alls fyrir löngu kallað alla útibússtjóra okkar til viðtals við okkur um þær stefnur, sem við teljum að þeim beri að fylgja í meginatriðum í útlánastarfseminni. En þó á þetta alveg sérstaklega við útibúið í Vestmannaeyjum, því að það er óhætt að segja, að það er ekkert útibú, sem aðalbankastjórnin hér í Reykjavík fylgist í raun og veru nákvæmar með en þetta útibú, og það er vegna þess, að þetta er stærsta útibúið í þessari stóru verstöð og erfiðust viðfangsefni í sambandi við útlánin hafa einatt verið á undanförnum árum í sambandi við útgerðina, vegna margvíslegra erfiðleika, sem í mismunandi mynd og á mismunandi tímum hafa steðjað að útgerðinni. En þó er svo á hinn bóginn um útibú það að segja, þar sem sjávarútvegur er aðalatriðið og sjávarútvegslán mestmegnis, að auðvitað hafa engin lán í sjálfu sér verið á undanförnum árum eins átomatísk, ef svo má segja, eða bundin föstum skorðuðum reglum, eins og þessi lán, þó að hins vegar nú sé að því stefnt að hverfa nokkuð frá því.

Ég vil alveg sérstaklega taka fram, og það hafa gefizt fleiri tilefni til að taka það fram hér í umr., að varðandi uppgjörið í Vestmannaeyjum nú eftir þessa vertíð, þá er útibússtjórinn búinn að vera hér s.l. viku til skrafs og ráðagerða við aðalbankastjórnina, og endanlegar ákvarðanir stóð til að taka nú einmitt í dag í sambandi við þau vandræði, sem þar eru á ferðinni. En þótt að formi til hafi orðið þær breytingar á útlánum, að hin sjálfkrafa lán, sem menn hafa getað gengið að, hafi minnkað, bæði frá Seðlabanka og viðskiptabönkum, eins og nú er í framkvæmdinni, þá hafa hins vegar orðið samráð milli viðskiptabankanna og Seðlabankans um viðbótarlán, eftir því sem þörf krefur að dómi bankastjórnar viðskiptabankans og Seðlabankans, hins vegar í einstökum tilteknum tilfellum þannig, að hvert mál sé skoðað út af fyrir sig, en ekki almennt hægt að ganga þar að sjálfkrafa lánum. Ég held þess vegna, að aðstaða Vestmannaeyjaverstöðvarinnar og annarra muni í reyndinni á engan hátt breytast til hins verra vegna þeirra ráðstafana, sem gerðar hafa verið í sambandi við útlán bankanna eða ráðagerðir, sem uppí hafa verið um útlán bankanna nú að undanförnu, í samvinnu ríkisstj., Seðlabanka og viðskiptabanka. Hvort Vestmanneyingar vilja fá annað útibú frá Landsbankanum, það er svo þessu málí óviðkomandi. En hitt get ég ekki skilið, að lánsfjármagnið í útibúi Útvegsbankans mundi aukast í Vestmannaeyjum, þótt bankastjórarnir væru tveir, og því hef ég aldrei heyrt neinn óska eftir eða fara fram á, að þar væru 2 bankastjórar. Ekki heldur hef ég heyrt hitt, að Vestmanneyingar hafi þurft að kvarta undan stirðleika í sambandi við þá þjónustu, sem Útvegsbankinn hefur getað látið þeim í té, heldur þvert á móti, að það hefur einmitt vegna þeirrar miklu þýðingar, sem þessi verstöð hefur í þjóðarbúskapnum, og vegna þess, hversu útibússtarfsemin er ákaflega mikilvæg fyrir Útvegsbankann í heild, þá er það svo, að það hefur jafnan verið reynt að veita þá ýtrustu þjónustu, sem bankinn hefur á hverjum tíma getað veitt þessari mikilvægu verstöð.

Ég held, að þetta sé nægjanleg aths. við það, sem fram kom, en ræðumaður lauk máli sínu einmitt með því, að það væri ekki varlegt og eðlilegt, að allt lánveitingavald í svona stóru útibúi væri í höndum eins manns. En samkv. því, sem ég sagði áðan, fer víðs fjarri, að það sé, heldur er þessi og aðrir útibússtjórar einmitt undir yfirstjórn og á ábyrgð aðalbankastjórnarinnar.