06.05.1960
Neðri deild: 77. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2397 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Unnar Stefánsson:

Herra forseti. Ef ég mætti nota tímann, þær tvær mínútur, sem tekur að sækja hv. þm., vil ég taka fram, að ummæli mín um Útvegsbanka-útibúið í Vestmannaeyjum mega ekki skiljast sem persónuleg ádeila á bankastjórann þar. Ég vildi aðeins taka þetta fram til þess að koma í veg fyrir allan misskilning. Ég hef enga ástæðu til þess að tortryggja neitt hans lánveitingavald, en gat þessa í tilefni af þeim orðum, sem hv. 5. þm. Reykv. hafði haft í gær, að það væri óeðlilegt, að einn maður hefði mikil völd um útlán í stórum banka, eins og t.d. í Búnaðarbankanum. Og sé það óeðlilegt, að það sé einn bankastjóri í banka í Reykjavík, þar sem eru margir bankastjórar og margir bankar í miðbænum og til margra að snúa sér um lán, hvað þá um einangraðan, stóran kaupstað, þar sem aðeins er einn banki og einn bankastjóri? Það var þetta, sem vakti fyrir mér. En ég vil taka fram, að í því felst ekki nein gagnrýni á störf bankastjórans þar.

Til þess að undirstrika það, sem ég sagði áðan um viðhorf verkalýðs til efnahagsmálaráðstafana, vil ég bæta við til þess að undirstrika sterklegar það, sem ég sagði, að ég átti ekki við, að alþýðan eigi að gera sig ánægða með þau kjör, sem hún býr við núna. Hún á auðvitað aldrei að gera sig fullkomlega ánægða með það, sem hún hefur. Hún á að krefjast aukinna framfara. En ef þær þjóðartekjur, sem við höfum úr að spila og til að ráðstafa núna, eru ekki nægilegar til þess að gera alla ánægða með sinn hluta, liggur þá ekki beinast við, að allir hinir sömu aðilar, sem eru óánægðir, taki höndum saman og vinni að því að auka þessar þjóðartekjur? M.ö.o.: í stað þess að halda áfram í endalausu stríði um að skipta þeirri köku, sem við höfum yfir að ráða, eins og hefur verið á undanförnum áratugum, þá verði öllum krafti beitt að því að stækka sjálfa kökuna með öllum tiltækilegum ráðum, til þess að þannig verði sem allra mest úr að spila.