06.05.1960
Neðri deild: 77. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2400 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Daníel Ágústínusson:

Herra forseti. Það má segja um þessar aðgerðir hæstv. ríkisstj., að veður sé ekki lengi að skipast í lofti. Við höfum heyrt það undanfarna daga, að hæstv. viðskmrh. hefur lýst því yfir, að lánareglur ríkisstj. séu mjög einfaldar, og ég þarf ekki að skýra frekar ummæli hæstv. viðskmrh., og í spurningatíma hér á miðvikudaginn var skýrði hann nákvæmlega, hverjar reglurnar væru um útlán til sjávarútvegs og landbúnaðar, og væri þar miðað við útlán undanfarinna ára. Í dag, tveim dögum síðar, kemur annar hæstv. stjórnarstuðningsmaður hér upp í ræðustólinn, hv. 5. þm. Reykv., og segir, að útibússtjóri bankaútibúsins í Vestmannaeyjum sé búinn að vera hér í viku til viðræðu við bankastjórnina til að leita lausnar á þeim vandræðum, sem nú væru á ferðinni í Vestmannaeyjum eftir vertíðarlokin. Og hver er þessi vandi? Hann er sá, að þessar lánareglur, þessar einföldu lánareglur, sem hæstv. viðskmrh. hefur gumað svo mikið af hér í deildinni undanfarna daga, standast alls ekki í Vestmannaeyjum og það verður að leita nýrra og annarra úrræða. Undirstrikað er, að það sé mikill vandi á höndum, sem bankastjórnin situr nú yfir. Það er þess vegna sennilegt, að það þurfi eitthvað að víkja frá þessum hörðu reglum, það þurfi þegar á fyrstu dögum efnahagsmálalöggjafarinnar að gera þarna einhverjar breytingar á.

Það er ósköp hætt við því, að gagnvart landbúnaðinum verði sömu sögu að segja. Verði þeirri stefnu haldið áfram, sem nú hefur verið mörkuð, þá er öruggt mál, að landbúnaðurinn stórdregst saman á næstu árum og dregst ef til vill svo saman, að mjólk verður skömmtunarvara eftir 3–4–5 ár handa börnum og gamalmennum, — ef stefna ríkisstj. heldur áfram í landbúnaðarmálum, ef sú stefna heldur áfram, að enginn bóndi getur lengur flutt inn dráttarvél, að bændur verða að hætta ræktun, hætta byggingum, þar sem kostnaðaraukningin er um 60%, án þess að framleiðsluvörur bænda hækki sem máli skiptir. Kunnur kaupfélagsstjóri sagði mér nýlega, að á sínu verzlunarsvæði liti út fyrir það, að fjöldamargir bændur gætu ekki tekið allan áburð sinn í vor og yrðu að láta hann liggja. Ef þetta er rétt, að bændur landsins geti ekki tekið áburðinn vegna rekstrarfjárskorts, þá sjá allir, hvaða afleiðingar það hefur á mjólkurframleiðsluna þegar á þessu ári, og haldi sú þróun áfram hin næstu ár, þá fer eins og ég sagði áðan, að mjólkin verður skömmtunarvara handa börnum og gamalmennum, þegar fram líða stundir, — ef stefna hæstv. ríkisstj. í þessum lánamálum, bæði til sjávarútvegs og landbúnaðar, fær að haldast, eins og hún hefur hugsað sér hana í framkvæmd.

Að lokum vil ég mjög taka undir tillögu hv. 7. þm. Reykv., að 1% leyfisgjald verði fellt niður. Það er algerlega ástæðulaust að vera að innheimta margar milljónir af innflutningi, t.d. til þess að standa undir verðlagseftirlitinu, sem væri miklu réttara að væri lagt á verðlagsútreikninga þá, sem verðlagsstjóri þarf að samþykkja, og eðlilegast að taka það upp í lögin um verðlagseftirlit.

Í sambandi við margs konar yfirfærslur, þá er það gersamlega óviðkomandi verðlagseftirliti, eins og ég minntist á í gær hér í hv. d., svo sem yfirfærslur vegna ferðalaga, námskostnaðar, sjúkragjaldeyris, yfirfærslur vegna afborgunar og vaxta af lánum og mörgu öðru, sem ekkert réttlæti mælir með að séu teknar af stórar fjárhæðir til þess að standa undir verðlagseftirliti í landinu.