10.05.1960
Efri deild: 74. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2425 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Þetta frv. til l. um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála er einn liður í þeim ráðstöfunum, sem hæstv. ríkisstj. beitir sér fyrir og sýnist þvinga áfram meira af kappi en forsjá. Frv. er því vart unnt að ræða í heild án þess að víkja um leið nokkuð að því, sem á undan er gengið hér á þingi í vetur, þeim málum, sem hæstv. ríkisstj. hefur barið í gegn.

Viðskiptahöftin verða afnumin og verzlunin gefin frjáls. Innflutnings- og gjaldeyrisskrifstofuna við Skólavörðustíg á að leggja niður. Hún hefur ekki lengur neinu hlutverki að gegna og verður því sett til hliðar eins og hver annar aflóga gripur. Þetta boða stjórnarflokkarnir af talsverðu steigurlæti, bæði á mannfundum og í blöðum að undanförnu. Afnám hafta og frjáls verzlun eru orð, sem klingja þægilega í eyrum og eru ekki ólíkleg til að vinna einhverja lýðhylli, enda hefur þess oft gerzt þörf í stjórnarherbúðunum, en þó líklega aldrei eins og nú. Það er rétt, að skrifstofan við Skólavörðustíg verður lögð niður, enda ekki sparað að segja frá því. Hins er minna getið, að um leið og þeirri skrifstofu verður lokað, á að opna nýjar skrifstofur sömu tegundar á öðrum stöðum í bænum. Þeirra verður líka full þörf, því að sannleikurinn mun reynast sá, að höftin verði ekki afnumin og verzlunin ekki gefin að fullu frjáls. Það sparast ekkert við að loka skrifstofunni við Skólavörðustíg, síður en svo. Nýju skrifstofunum, sem við eiga að taka, eru ætlaðar miklu hærri fjárhæðir í rekstrarkostnað en þeirri gömlu. Talið um óheft frelsi og talið um sparnað er ekki annað en leikaraskapur.

Það má raunar telja loddaraleik af þessu tagi næstum einkennandi fyrir núverandi valdhafa, og því til sönnunar skal ég rifja upp í örfáum orðum nokkur eldri dæmi. Bóta- og styrkjakerfið lofuðu stjórnarflokkarnir að leggja niður, og var svo látið heita, að hin gífurlega gengislækkun væri fyrst og fremst til þess gerð. Afnám bótakerfisins var eitt hátrompið á hendi stjórnarflokkanna í kosningaáróðrinum, eins og menn muna. Síðan settu þeir löggjöf og sögðu fólki, að með henni væri bótakerfið endanlega úr sögunni. Enn í dag streitast þeir við að halda því fram, að bótakerfið sé úr sögunni. Þó var niðurgreiðslum á vöruverði aldrei hætt, ekki einu sinni úr þeim dregið, heldur hafa þær þvert á móti verið stórauknar, og nú fyrir nokkrum dögum ákvað hæstv. ríkisstj. að hefja á ný bótagreiðslur til þeirra, sem útflutning sjávarafurða annast. Útflutningssjóður hefur aldrei hætt störfum og mun starfa áfram svo lengi sem hæstv. ríkisstj, sýnist. Þá heimild tryggði hún sér í l. um efnahagsmál. Gengið átti að lækka, til þess að unnt yrði að afnema bótakerfið. Gengið var lækkað, en bótakerfið ekki afnumið. Slíkur er hráskinnsleikurinn, sem hæstv. ríkisstj. leikur. Söluskatturinn gamli var ranglátur og orðinn býsna óvinsæll. Stjórnarflokkarnir hétu því fyrir kosningar að afnema hann og gerðu það raunar, enda hafa þeir haldið því afreki sínu mjög á lofti. Hitt ræða þeir helzt ekki að fyrra bragði, að í stað gamla söluskattsins lögleiddu þeir nýjan söluskatt og enn þá ranglátari. Þeir stóðu við loforðið, en innleiddu bara annað verra í staðinn. Afnám tekjuskatts af lágum launum var eitt loforðið, sem talið var freistandi og því óspart notað sem agn í síðustu kosningum. Nú hafa lög um afnám tekjuskatts af láglaunum verið samþ., svo að ekki eru svikin í því efni. Það er farið liðlega í kringum hlutina, ekki vantar það. Í stað tekjuskattsins er þegar lögleiddur annar skattur með öðru heiti, sýnu varhugaverðari og láglaunafólki miklu þyngri í skauti en gamli skatturinn.

Þetta eru aðeins fáein dæmi af mörgum um þær brellur, sem hæstv. ríkisstj. hefur í frammi við almenning. Ég vil frekar kalla þær grófar en fágaðar og tel þær bera meiri keim af óskammfeilni en kænsku.

Í stjórnarfrv. því, sem nú er til 1. umr. hér í hv. d., kemur óskammfeilnin glögglega í ljós. Í upphafi þess er fullyrt, að innflutningur til landsins skuli vera frjáls. Sú staðhæfing er blásin upp í yfirskriftum og í dálkum Morgunblaðsins og Alþýðublaðsins, en þegjandi gengið fram hjá hinu, að meginmál frv. er ekki um annað en höft og heimildir hafta. Hvers vegna eru þessi loddarabrögð leikin? Hvers vegna er alltaf verið að sýnast? Hæstv. ríkisstj. getur bersýnilega leyft sér margt og gerir það. En eitt getur hún ekki leyft sér, og það er að vera hreinskilin. Þess vegna eru öll látalætin og undanbrögðin. Hún er hrædd við almenningsálitið og það ekki að ástæðulausu. Stefna stjórnarflokkanna er miðuð við hagsmuni fámennrar stéttar, og því er þeim erfitt um vík að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir. Þegar verkamannaflokkar og bændaflokkar berjast fyrir hagsmunum sinna umbjóðenda, þurfa þeir þess ekki með að dulbúa fyrirætlanir sinar. Þeir geta játað það undanbragðalaust, að þeir séu hlutdrægir fyrir hönd sinna stétta og vilji gera þeirra hlut í þjóðfélaginu sem mestan. Launþegar og bændur mynda langfjölmennustu stéttir landsins, og því þurfa flokkar þeirra ekki að fara í launkofa með áform sín. Þessu er öðruvísi háttað um íhaldsflokkana, sem gæta hagsmuna tiltölulega fárra manna, hagsmuna, sem að jafnaði rekast á hag og heill almennings. Það er því ekki undarlegt, að íhaldsflokkar öðrum fremur reyni eftir megni að dylja sinn sanna tilgang.

Fyrir 14 árum rituðu þeir Jónas Haralz og Torfi Ásgeirsson greinaflokk um dýrtíðarvandamálið, þar sem þeir bentu á leið út úr ógöngunum. Í þessu riti tóku þeir það skilmerkilega fram, að ekki sé til nein lausn, sem sé sú eina rétta frá hagfræðilegu sjónarmiði, — „hver sá, sem tekur sér slík orð í munn, veit annaðhvort ekki, hvað hann er að segja, eða talar mót betri vitund,“ segja þeir orðrétt. Þeir viðurkenna hreinskilnislega, þessir höfundar, að þeir ræði dýrtíðarvandamálið út frá sjónarmiði launþega, verkamanna, sjómanna, starfsmanna og annarra þeirra, er að mestu hafa afkomu sína undir eigin vinnu og afköstum hennar, eins og t.d. bænda og hlutarsjómanna. Og þeir bæta við þessum orðum: „Við erum vísvitandi hlutdrægir fyrir hönd þessara aðila, fyrir hönd yfirgnæfandi meiri hluta íslenzku þjóðarinnar.“ Fyrir 14 árum gat Jónas Haralz játað umbúðalaust, hverra taum hann dró í lausn sinni á dýrtíðarvandanum þá, því að þá bar hann hag alls þorra þjóðarinnar fyrir brjósti. Nú hygg ég hins vegar, að hann telji sig ekki hafa efni á sömu hreinskilni. Nú mun hann láta óátalið, að stjórnarliðið talar æ ofan í æ um hina einu réttu lausn efnahagsvandans, og nú hefur hann víst ekki hátt um hlutdrægni sína. Fyrir 14 árum dró hann taum fjöldans, en nú dregur hann taum fárra útvalinna, það gerir gæfumuninn.

Stjórnarflokkarnir eru að leysa vandamál efnahagslífsins. Þeir gera það á sinn hátt sem

íhaldsflokkar og sínum mönnum til hagsbóta. Ráðstafanir þeirra eru m.a. í því fólgnar að færa fjármagnið til á milli stétta, taka frá launþegum og bændum, en færa atvinnurekendum og kaupsýslumönnum. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig, en þó erfitt við það að kannast opinberlega vegna þess, hve fjölmennar þær stéttir eru, sem frá er tekið. Ótti við þessar stéttir er eðlilegur, og það er hann, sem knýr hæstv. ríkisstj. til allra hinna klaufalegu loddarabragða, sem ég nefndi dæmi um áðan.

Því verður ekki neitað, að íhaldsflokkarnir, sem nú fara með stjórn landsins, kunna vel til verka að hygla sínum. Það sést m.a. á frv. því, sem nú liggur fyrir. Þar er ríkisstj. áskilinn allur réttur, hún getur veitt hverjum sem er í heildsalastétt þau fríðindi að gera vöruinnkaup á þeim stað erlendis, sem bezt hentar hans hagsmunum hverju sinni. Þannig verður heildsalinn óháðari en áður þeim hömlum, sem settar voru vegna hagsmuna þjóðarbúsins. Að hæstv. ríkisstj. ætli sér að veita stórkaupmönnum þessi sérstöku fríðindi, má marka af því, að hún hefur þegar tekið 800 millj. kr. erlent eyðslulán og heitir því að taka meira, ef á þurfi að halda. Stjórnarliðið hefur áður býsnazt mikið út af fjárfestingareyðslu þjóðarinnar og það ekki með öllu að tilefnislausu. Í þessu frv. er þó gert ráð fyrir, að síðustu leyfum fjárfestingarhafta verði nú útrýmt úr lögum. Skal eftirleiðis frjálst og hömlulaust að byggja svo stórar óhófsíbúðir sem vera skal og reisa hvers konar verzlunar- og viðskiptahallir og önnur skrauthýsi, en til þess hefur hingað til orðið að sækja um leyfi. Hverjum skyldi koma þetta nýja frelsi vel nema máttarstólpum Sjálfstfl., fjárgróðamönnunum?

Þrátt fyrir þessa tilslökun er það ætlun hæstv. ríkisstj. að hefta fjárfestinguna í landinu. En það verður gert með öðru móti, sem sé því að skerða lífskjör almennings nægilega mikið og torvelda honum auk þess lántökuleiðina.

Íhaldsflokkarnir gleymdu ekki heldur sínum mönnum; þegar hin fyrri efnahagsmálafrumvörp voru samin. Það var svo sem munað eftir hátekjumönnum við breyt. á lögum um tekjuskatt. Þá var nokkurra hundraða króna skatti létt af láglaunafólki, en um leið sluppu hátekjumenn við mörg þús. kr. skatt, og kannske var allur leikurinn einmitt til þess gerður. Þegar fjölskyldubætur voru auknar í vetur vegna hinnar gífurlegu kjaraskerðingar, sem gerir lægstu tekjur með öllu ónógar til lífsframfæris, þá voru auðmanninum ætlaðar jafnháar fjölskyldubætur og fátæklingnum. Allt, sem öðrum er veitt, skal milljónamaðurinn fá og að auki sitthvað þar fram yfir. Söluskatt á innfluttum vörum tvöfaldaði hæstv. ríkisstj. nýlega og ríflega þó, og í leiðinni rétti hún kaupmönnum smáglaðning. Hún leyfði þeim sem sé, bæði heildsölum og smákaupmönnum, að hækka álagningu sína vegna þessa háa söluskatts, leyfði þeim m.ö.o. að hagnast ofur lítið aukreitis á skattpíningunni, en neytendur borga brúsann.

Þá er bönkum og öðrum peningastofnunum ekki gleymt frekar en gróðastéttunum. Er bönkunum hyglað á hinn margvíslegasta hátt, og í 10. gr. frv., sem hér er verið að ræða, eru þeim ætlaðar milljónir króna fyrir það eitt að úthluta leyfum, sem hæstv. ríkisstj. þykist ætla að gera óþörf. Það vill margt hjá þessari ágætu hæstv. ríkisstj. reka sig hvert á annars horn, en þó er tilhneigingin alls staðar hin sama, að færa þjóðartekjurnar sem mest yfir á fárra hendur.

Frv. til laga um innflutnings- og gjaldeyrismál er í 14 greinum. Eiga þessar 14 greinar að koma í stað fjögurra lagabálka minnst, og gæti það bent til, að víðar hygði hæstv. ríkisstj. á samdrátt en í efnahagslífinu. Þessarar stefnu gætti einnig í fyrri frv. hæstv. ríkisstj., svo að þetta er engin tilviljun. Virðist stefnan vera sú, að löggjafinn segi stjórninni sem minnst fyrir verkum og láti hana hafa sem frjálsastar hendur. Því skulu lög samin sem rúmust og sem losaralegust og hafa fátt annað að geyma en heimildarákvæði til handa framkvæmdavaldinu. Hv. þdm. minnast vafalaust umr. um söluskattsfrv. Þá var haft mjög á orði hið óvenjulega mikla vald, sem í því frv. var lagt í hendur ráðh. Svipuðu máli gegnir um þetta frv., sem hér liggur fyrir. Í því er fátt beinharðra ákvæða, en því meira um heimildir. Nær því hver grein þess fjallar um heimild handa ríkisstj., skilyrði, sem hún getur sett, eða undanþágur, er hún ein má veita. Mun þetta þykja einkar hentugt fyrir ráðríka stjórn eða stjórn, sem hyggur á vafasamar aðgerðir, en sérstaklega lýðræðisleg er slík lagasetning ekki. Sem dæmi um þessi vinnubrögð má nefna, að samkvæmt frv. skulu lög um útflutning og innflutning á íslenzkum og erlendum gjaldeyri frá 1948 numin úr gildi, en í þeirra stað kemur ein mgr., þar sem það eitt er ákveðið, að ríkisstj. sé heimilt að setja reglur um þessi efni að eigin geðþótta. Það hefur komið fram í öðru efni einnig, að þessari hæstv. ríkisstj. er sérstakur ami að afskiptum Alþingis af málum. Var það mikið rætt í þingbyrjun í vetur, eins og allir muna.

Það má segja, að upphafsorð frv. séu ekki með neinum aumingjasvip, og raunar eru þau ekki alveg laus við yfirlæti: „Innflutningur á vörum til landsins skal vera frjáls.“ Munnurinn er strax tekinn fullur, en síðan er farið að spýta út í smágusum: „Innflutningur á vörum skal vera frjáls, nema annað sé ákveðið í reglugerð, er ríkisstj. gefur út.“ Þetta er fyrsta gusan af gúlsopanum, og síðan koma þær hver af annarri. Stjórninni er heimilt að setja skilyrði um innflutning og um gjaldeyrissölu, henni er heimilt að taka í sínar hendur eða fela trúnaðarmönnum sínum úthlutun leyfa. Hún getur veitt undanþágu frá, að íslenzkir aðilar selji bönkunum erlendan gjaldeyri sinn o.s.frv. Ríkisstj. gefur og ríkisstj. tekur, hennar er valdið og dýrðin. Annars hefði ekki verið úr vegi að haga kaflaskiptingu frv. á annan veg en gert er. Hefðu tveir kaflar nægt fyllilega og hinn fyrri þá hljóðað á þessa leið: „Allur innflutningur á vörum til landsins skal vera frjáls.“ Síðari kaflinn hefði svo fjallað um allar undanþágurnar, fyrirvarana og skilyrðin og þar með að um innflutnings- og gjaldeyrismál skyldi fara eftir geðþótta ríkisstj. á hverjum tíma og á hverjum stað. Það var svo sem vitað fyrir fram, að allt tal stjórnarflokkanna um viðskiptalegt frelsi er alveg út í hött, enda sannar þetta frv. það ótvírætt. Innflutningur frá jafnkeypislöndunum svokölluðu er fyrir fram ákveðinn með samningum, og hann nemur a.m.k. þriðjungi alls innflutnings. Við það bætist, að allar þær vörur, sem ýmist eru keyptar austan járntjalds eða vestan, verða framvegis sem hingað til háðar leyfum. Þá kemur og þverrandi kaupgeta almennings bráðlega til með að verka sem höft á innflutninginn. Og loks verður þetta marglofaða viðskiptafrelsi um alla tíð háð útflutningsverðmætunum, gjaldeyrisöfluninni. Ég býst varla við, að hæstv. ríkisstj. ætli þjóðinni að lifa á yfirdráttarlánum um alla framtið. Í sjálfum áróðurspésa hæstv. ríkisstj. er játað, að 40% innflutningsins verði áfram háð leyfum, og er það vafalaust of lág tala, enda ekki gert ráð fyrir því, sem þó er fyrirhugað, að ég hygg, að gefa ekki frjálsar þær iðnaðarvörur erlendar, sem hættulegar geta orðið innlendum iðnaði í samkeppni.

Almenningur eða þjóðin í heild græðir áreiðanlega ekki á þessu fyrirhugaða verzlunarfrelsi hæstv. ríkisstj. Hins vegar kunna voldugustu heildsalarnir og aðrir fjársterkustu menn þjóðarinnar að hagnast í bili á þeim breyt., sem ráðgerðar eru á skipan innflutnings- og gjaldeyris- og fjárfestingarmálanna. Það er líklegt, að þeir heildsalar, sem þess sinnis eru, geti með aðstoð yfirdráttarlánanna beint viðskiptum sínum í ríkara mæli en áður til þeirra erlendu fyrirtækja, sem bezt bjóða í umboðslaunum og faktúrufölsun, og er það þá auðvitað þeirra gróði, en tæpast eykst þjóðarhagur í heild við slíkt.

Það er svo, að alltaf græða einhverjir. Jafnvel í frumstæðustu og fátækustu þjóðfélögum eru fáeinir útvaldir, sem fleyta rjómann. Eins verður það hér, þótt stjórnarflokkunum takist að skapa almennt kreppuástand. Þeir sterkustu í gróðastéttunum fljóta ofan á, og þeir þrífast eftir sem áður og jafnvel ekki síður, þegar neyðin kreppir að fjöldanum. Minni spámenn í gróðastétt fara á hausinn, og viðskiptin safnast á hendur færri manna en áður og þeim vegnar vel. Fyrir þá verður innflutningsfrelsið og fjárfestingarfrelsið fyrst og fremst, en þorri þjóðarinnar þarf ekki svo mjög á því frelsi að halda, með því að hann skortir fé til þess að njóta þess. Það er svo sem flestu haganlega fyrir komið í bjargráðaráðstöfunum hæstv. ríkisstj.

Svipmót hæstv. ríkisstj. skýrist með hverju nýju frv., þrátt fyrir allan dulbúninginn. Það frv., sem nú hefur verið lagt fram hér í hv. d. og tekið til umr., er í rökréttu samhengi

við þau, sem áður eru komin. Fyrst er allt kaupgjald slitið úr tengslum við vísitölu og síðan gerðar róttækar ráðstafanir til verðlagshækkana, skattahækkana og vaxtahækkana. Afleiðingin er fyrir fram kunn: skert lífskjör og skert kaupgeta alls almennings í landinu. Þegar sú kaupgeta er orðin nægilega stýfð, er tíminn kominn til að boða frjálsan innflutning og frjálsa verzlun. Kaupið þið nú, góðir hálsar, er sagt við fólkið, þegar búið er að reyta það inn að skyrtunni.

Tilgangur valdhafanna er auðsær. Þjóðin hefur lifað um efni fram, segja hinir prúðu í þeirra hópi og þar fram eftir götunum, allt í hálfkveðnum vísum. Þeir reyna með orðum að villa á sér heimildir, en verkin koma upp um þá. Afdráttarlaus sannleikurinn um afstöðu stjórnarflokkanna var þó orðaður af einum íhaldsleiðtoganum. Hann komst þannig að orði: „Efnahagsörðugleikar þjóðarinnar stafa af því, að verkafólkið hefur tekið meira í sinn hlut en komið gat til skiptanna.“ Hér er stefna íhaldsflokkanna í hnotskurn. Svipað hefur nú nýlega verið sagt um bændurna. Þeir hafa með frekju hrifsað meira en þeim bar. Þetta þarf að leiðrétta, og það er hæstv. ríkisstj. nú að gera.

Fyrir kosningar í haust lofuðu núv. stjórnarflokkar því hátíðlega frammi fyrir alþjóð að vísa henni leiðina til bættra lífskjara. Hinn 14. okt. birti Morgunblaðið langa ræðu, sem einn íhaldsleiðtoginn hafði þá nýlega flutt á Óðinsfundi. Er þar lögð alveg sérstök áherzla á þá stefnu Sjálfstfl. að stöðva dýrtíð og tryggja kaupmátt launa. Nú sjá allir efndirnar á þeim loforðum. Þar var því líka heitíð, að Sjálfstfl. skyldi tryggja næga atvinnu í landinu og vinna markvisst að aukinni útflutningsframleiðslu. Í dag óttast allir, að einnig þessi loforð verði svikin, enda bendir óneitanlega margt til þess, að atvinnuleysi og minnkandi framleiðsla sé á næsta leiti.

Hæstv. ríkisstj. gerir sér það nú orðið ljóst, að hún er búin að koma upp um sig og nú vantreystir þorri þjóðarinnar henni. Hvað gerir hún þá? Hún neyðist að vísu til þess að játa á sig dýrtíðaraukninguna og launaskerðinguna, en þó lætur hún ekki af blekkingatilraunum sínum. Nú ákallar hún þjóðina og biður um þolinmæði og langlundargeð. Veitið okkur frest í 1–2 ár, og þá skal hagur almennings batna, segja stjórnarliðarnir. Þeir reyna að kaupa sér frest til þess að geta haldið áfram iðju sinni; tilfærslu tekna frá fátækum til. ríkra og samdrætti í atvinnu og viðskiptum.

Ég hef aldrei heyrt nein frambærileg rök færð fyrir því, að stefna hæstv. ríkisstj. geti með nokkru móti leitt til batnandi lífskjara eftir nokkur ár. Dýrtíðarskriðan, sem stjórnarflokkarnir hafa hrundið af stað, heldur enn lengi áfram, þótt hún kunni að stöðvast um síðir. Kaupgjaldinu er hins vegar af stjórnarvöldum ætlað að standa í stað, á hverju sem veltur, enda er það grundvöllurinn undir öllu saman. Lífskjörin eiga því enn eftir að versna, og eru engar líkur til, að þau geri síðar meir betur en standa í stað, svo aum sem þau verða þá orðin. Þetta er það, sem fram undan virðist vera, fái núv. stjórnarstefna að ráða. Að þessu miða líka allar ráðstafanir markvisst, og á þessu byggist allt kerfið. Annars vegar er skert kaupgeta almennings og minnkandi eftirspurn eftir vörum og vinnuafli og hins vegar tilfærsla fjármagns, viðskipta og atvinnutækja á fárra hendur.

Við búum ekki við íhaldsstjórn á Íslandi nú, heldur hreinræktaða afturhaldsstjórn, er reynir að sigla sem hraðast áratugi aftur í tímann. Í þessari viðleitni er hún kappsöm, en ekki forsjál að sama skapi. Hún rennir blint í sjóinn og rekur sig víða á. Erfiðleika sína, afglöp og skyssur reynir hún að dylja í lengstu lög, og í því skyni leikur hún alls konar loddarabrögð. En augu þjóðarinnar eru nú að opnast. Í dag eru þeir fáir, sem treysta hæstv. ríkisstj. Þjóðin er farin að líta í kringum sig spyrjandi, hvar sé hjálpar von. Hún óttast kreppu og hrun. Fleiri og fleiri renna nú vonaraugum til hinna stóru samtaka verkamanna, sjómanna og annarra launþega og til samtaka bænda. Þaðan telja menn nú helzt að vænta björgunar úr ógöngunum. Efnahagsmál þjóðarinnar varða þessi samtök mjög miklu máli, og geta samtökin með engu móti látið þau afskiptalaus til lengdar. Er það ein af mörgum skyssum hæstv. ríkisstj. að hafa með öllu sniðgengið þessi heildarsamtök vinnandi fólks í landinu og hafa aldrei samráð við þau haft um lausn hinna erfiðu og viðkvæmu efnahagsmála: Verður hún aldrei nóg vítt fyrir þessa skyssu, svo mjög sem það þó lá í augum uppi, að samvinna við vinnustéttirnar var óhjákvæmileg, ef sæmilega ætti til að takast:

Einn af höfuðpostulum Sjálfstfl., hagfræðingurinn Birgir Kjaran, sagði eftirfarandi orð rétt fyrir síðustu alþingiskosningar: „Það, sem úrslitum ræður í því, hvort verðbólguráðstafanir sjálfstæðismanna bera árangur eða ekki, er því, hvort takast megi að koma á samstarfi milli þeirra þriggja afla, sem fara með efnahagsvöldin í þjóðfélagi okkar, en þau eru Alþingi, eigendur atvinnutækjanna og hin stóru heildarsamtök stéttanna, Alþýðusambandið, Landssamband verzlunarmanna, Bandalag opinberra starfsmanna og fleiri.“ Þannig fórust þessum hv. alþm. orð fyrir kosningar, og þetta var skynsamlega mælt. En hvað varð eftir kosningar? Það var aldrei reynt að koma þessu samstarfi á við samtök stéttanna og því aldrei sannprófað, hvort það mætti takast eða ekki. Eftir kosningar virtist öll skynsemi stjórnarsinna rokin út í veður og vind. Við engan var talað, hvað þá samið, heldur öllu hagað með sama sniði og hér sæti einræðisstjórn að völdum. Er öll sú framkoma hæstv. ríkisstj. í senn ósæmileg, ábyrgðarlaus og fávísleg. Nú mæna sem sagt margra augu til hinna voldugu samtaka vinnustéttanna og ætlast til, að þau bjargi því, sem bjargað verður. Menn vona, að þau bregðist ekki á úrslitastundu. Launþega- og bændasamtökin eru að vísu seinþreytt til stórræða, og er það vel, en þolgóð og sterk, þegar á reynir. Ætli hæstv. ríkisstj. sér að etja kappi við þau, bætir hún gráu ofan á svart, og yrði það raunar kórónan á glappaskotum hennar. Vonandi kemur ekki til þess.

Ég lýk nú máli mínu. Ég vil hæstv. ríkisstj. ekki illt, þótt ég gagnrýni hana. Ég óska henni góðs og hygg, að ég eigi, eins og nú er komið fyrir henni, enga ósk betri henni til handa en þá, að hún segi af sér hið allra bráðasta.