13.05.1960
Efri deild: 76. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2472 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ríkisstj. telur, að þær efnahagsráðstafanir, sem gerðar hafa verið að tilhlutun hennar og með samþykki þingmeirihlutans, séu grundvöllur fyrir því, að nú geti hún flutt fram þetta frv. af landsföðurlegri umhyggju sem eins konar „frelsisskrá úr föðurhendi.“ 1. gr. þessa frv. er í samræmi við þetta, þar sem hún hefst á þessum orðum: „innflutningur á vörum til landsins skal vera frjáls.“ En þegar lengra er lesið, þá er allt frv. boðorð um heimildir ríkisstj. til handa um að skerða þetta frelsi. Á þetta hefur verið rækilega bent í umr., en það er ekki að ófyrirsynju til yfirlits að gera sér grein fyrir því í samhengi, hver þessi boðorð til frelsisskerðingar eru.

Í fyrsta lagi getur ríkisstj. ákveðið með reglugerð, að innflutningur á vissum vörum skuli eftirleiðis vera háður leyfum. Í öðru lagi á ríkisstj. að fá heimild til að setja skilyrði um innflutning og gjaldeyrissölu, sem nauðsynleg kunna að vera vegna viðskiptasamninga eða af öðrum ástæðum. Í þriðja lagi á úthlutun gjaldeyris- og innflutningsleyfa að fara samkvæmt reglum, sem ríkisstj. setur. Í fjórða lagi skulu bankarnir gefa ríkisstj. skýrslur um þessa úthlutun, eftir því sem hún ákveður. Í fimmta lagi á ríkisstj. að vera heimilt að taka í sínar hendur eða fela sérstökum trúnaðarmönnum úthlutun tiltekinna leyfa. í sjötta lagi skal allur erlendur gjaldeyrir, sem hérlendir aðilar eiga eða eignast fyrir vöru eða þjónustu, seldur bönkunum, svo sem verið hefur, samkvæmt reglugerð, sem ríkisstj. setur. í sjöunda lagi eiga undanþágur, sem frá þessu kunna að verða veittar, að vera háðar samþykki ríkisstj. Í áttunda lagi getur ríkisstj. sett með reglugerð takmarkanir á útflutning og innflutning íslenzkra peningaseðla, skiptimyntar, skuldabréfa o.s.frv. Í níunda lagi: hvorki opinberir aðilar né einkaaðilar mega semja um lán erlendis til lengri tíma en eins árs nema með samþykki ríkisstj. Í tíunda lagi: erlend lán til skemmri tíma en eins árs, þar sem talinn hvers konar greiðslufrestur á vörum og þjónustu, skulu háð reglum, sem ríkisstj. setur. Í ellefta lagi: ríkisstj. er heimilt að ákveða, að vörur megi ekki bjóða til sölu, selja til útlanda eða flytja úr landi nema að fengnu leyfi hennar. Í tólfta lagi: útflutningsleyfi getur ríkisstj. bundið skilyrðum o.s.frv. Í þrettánda lagi: byggingarnefndir og oddvitar skulu senda Framkvæmdabanka Íslands eða öðrum aðila, sem ríkisstj. ákveður, skýrslur um byggingarframkvæmdir o.s.frv. Í fjórtánda lagi: fyrirmæli um þessar skýrslur skulu sett í reglugerð, sem ríkisstj. setur. Og í fimmtánda lagi má verja allt að helmingi af gjaldi, sem innheimta á samkvæmt 10. gr., eftir ákvörðun ríkisstj.

Þarna eru í frv. fimmtán boðorð, sem ríkisstj. á að hafa vald á að framkvæma, bjóða eða banna að eigin vild. Það má því með fullum sanni segja, að það sé rétt, sem sagt hefur verið í þessum umr., að í frv. þessu felst fyrst og fremst frelsi fyrir ríkisstj. En öll þau þýðingarmiklu atriði, sem þessi fimmtán boðorð hljóða um, á ekki að fjalla um samkvæmt löggjafarleiðinni eða með lagabreytingum hverju sinni.

Innflutningsskrifstofuna á að leggja niður, eftir að þetta frv. hefur verið gert að lögum. Það hefur verið sýnt fram á það í þessum umr„ að í stað innflutningsskrifstofunnar muni koma önnur stofnun eða að þeirri starfsemi, sem innflutningsskrifstofan hefur nú með höndum, verði haldið uppi að miklu eða jafnvel mestu leyti og að af þessari skipulagsbreytingu muni því ekki leiða sparnað.

En valdssviðið, úrskurðarvaldið um ágreiningsatriði, færist að meira leyti í hendur ríkisstj. sjálfrar við þessa skipulagsbreytingu heldur en verið hefur. Að undanförnu hefur það verið svo, að innflutningsskrifstofan hefur haft rétt til þess að áfrýja ágreiningsmálum til ríkisstj. til úrskurðar. En ég ætla, að þau mál, sem þannig hafa komið til kasta ríkisstj., séu fá í hlutfalli við þær fjölmörgu afgreiðslur mála, sem fram hafa farið í innflutningsskrifstofunni. Ríkisstj. sem slík eða viðskmrn. hefur því eiginlega ekki, a.m.k. ekki í augum almennings, borið ábyrgð á afgreiðslu þessara mála, heldur hefur verið litið svo á, að það væri innflutningsskrifstofan, og þannig hefur það verið í reynd í flestum tilfellum.

Með þessu frv. á að gera þá skipulagsbreytingu, að ríkisstj. getur falið sérstökum trúnaðarmönnum sínum að úthluta tilteknum leyfum, eða eins og það er orðað í frv., að veita henni heimild til að taka þetta vald í sínar hendur. Og nú hefur verið á það bent í umr. um þetta mál, að þar sem það er niður fellt í þessu frv., sem áður hefur staðið í lögum, að þegar rætt er um ríkisstj. að þessu leyti, þá sé átt við hana alla, þá sé það rétt lögskýring, að þetta vald samkvæmt orðalagi frv. nú færist raunverulega í hendur eins rn., viðskmrn. Það er vitanlega rétt, að á þessu sviði geta risið svo stórfelld ágreiningsatriði, að ástæða þyki til að leggja þau fyrir ríkisstj. í heild og ræða þau og taka ákvörðun um þau á ráðherrafundi, en það liggur í augum uppi, að afgreiðsla mála getur ekki orðið á þann veg nema um hin veigamestu atriði. Um hin smærri atriði og afgreiðslu mála að því leyti hlýtur því ábyrgðin raunverulega að færast yfir á hendur viðskmrn.

Það má vel vera, að viðskmrn, og núv. hæstv. ríkisstj. og þeim flokkum, sem hana styðja, sýnist þetta ákjósanlegt. En þess er þó ekki að dyljast, að á þessu sviði er mjög góður jarðvegur fyrir tortryggni, og ég öfunda viðskmrn. í sjálfu sér ekkert af því að eiga framvegis að bera þessa ábyrgð. Ég held, að það hafi bæði af almenningi og jafnvel af hálfu stjórnmálaflokkanna ekki verið talin óeðlileg skipan, að fulltrúar frá stjórnmálaflokkunum ættu hlutdeild að veitingu leyfa og öðrum störfum í sambandi við þessi mál, jafnvel þó að þeir, sem hafa veitt forstöðu innflutningsskrifstofunni; hafi ekki starfað þar beinlínis á ábyrgð stjórnmálaflokkanna. Og það hlýtur þeim að vera ljóst, sem að þessu frv. standa, að skilyrði á viðskiptasviðinu breytast jafnvel óðar en nokkurn varir. Ef gjaldeyrisöflunin dregst saman, þá kallar fremur á takmarkanir heldur en ella, og ef ríkisstj. tækist nú ekki, svo sem hún stefnir að í sambandi við efnahagsráðstafanir sínar, að halda kaupgetunni svo niðri sem ætlað er, þá getur líka farið svo, að gjaldeyrisöflunin leyfi ekki það frelsi í reynd, þegar frá líður, sem þó er látið í veðri vaka að eigi að koma í kjölfar þessarar lagasetningar. En ef slíkar breytingar yrðu og nauðsyn væri nýrra takmarkana, þá hljóta þeir, sem að þessu frv. standa, að gera sér það ljóst, að vandinn, ábyrgðin, sem viðskmrn. tekur á sínar herðar í sambandi við jafnvel smærri atriði í framkvæmd þessara mála, sem oft eru þó mjög viðkvæm gagnvart einstaklingunum og vandasamt að gera mönnum til hæfis, — að sú ábyrgð getur orðið jafnvel óðar en varir ærið þung.

En í sambandi við þetta frelsistal er ekki hægt að komast hjá að gefa því gaum, að það er ekki gert ráð fyrir auknu frelsi í sambandi við útflutningsverzlunina. Útflutningsverzlunin er þó í raun og veru undirstaða á viðskiptasviðinu, þar sem innflutningur vöru til landsins er háður þeirri gjaldeyrisöflun, sem þjóðarbúið hefur á hverjum tíma.

Mér virðist með því að bera saman lög þau, sem nú gilda um útflutning sjávarafurða o.fl., annars vegar og hins vegar ákvæði þessa frv., að þá sé ekki veitt aukið frelsi á þessu sviði frá því, sem verið hefur. Og ég fæ ekki betur séð en að í þessu frv. sé fellt niður það ákvæði, að útflutningsnefnd sjávarafurða er nú ætlað m.a. það verksvið að hafa forgöngu um markaðsleit erlendis. Ég fæ ekki séð, að það sé tekið upp í þetta frv. eða að það hafi komið fram, hvaða aðila er þá ætlað það verksvið framvegis.

Hv. frsm. meiri hl. fjhn. gerði grein fyrir áliti meiri hl. með. alllangri ræðu hér við upphaf þessarar umr, í dag. Meginhlutinn af ræðu hans var í raun og veru útskýring á hagfræðilegum kenningum um frelsi í viðskiptum, haftabúskap og þeim annmörkum, sem höftum fylgja og ríkisafskiptum. á viðskiptasviðinu. Hann komst þannig að orði, að það hefði verið fyrirsjáanlegt greiðsluþrot þjóðarbúsins gagnvart útlöndum, ef ekki hefði verið gripið til þeirra efnahagsaðgerða, sem fjallað hefur verið um á þessu þingi og nú eru að miklu leyti komnar til framkvæmda.

Ég hygg, að hann hafi kveðið of fast að orði í þessu sambandi. Nú síðustu dagana hefur af hálfu ríkisstj. verið á það bent hér á þingi, að gjaldeyrisaðstaðan hefði batnað að mun nú s.l. vikur, s.l. mánuð, og í blöðum nú þessa dagana hefur verið skýrt frá því, að sparifjáraukningin hafi orðið allveruleg s.l. mánuð, og telja stjórnarblöðin þetta bera vott um, að stjórnarstefnan sé raunhæf. En ef þetta er nú svo, að á örfáum víkum hafi skipt svo um til hins betra sem látið er í veðri vaka, þá er augljóst, að það er allt of djúpt tekið í árinni að tala um, að það hafi legið við borð greiðsluþrot fyrir fáum mánuðum.

Þá ræddi frsm. meiri hl. fjhn. nokkuð um það, að í skjóli hafta yrði sú þróun, að það risu upp í landinu atvinnugreinar, sem væru ekki þjóðhagslega jafnmikilvægar og t.d. öflun útflutningsverðmæta, og ef slíkar atvinnugreinar risu upp, lægi það í augum uppi, að þær drægju að sér fólk og það fólk yrði að koma frá útflutningsframleiðslunni eða öðrum atvinnugreinum, sem væru þjóðhagslega séð mjög þýðingarmiklar.

Í þessu sambandi þykir mér rétt að láta það koma fram, að hér koma ekki öll kurl til grafar, þegar dæmið er gert upp á svona einfaldan hátt. Sem betur fer er okkar þjóð í mjög örum vexti. Á hverju ári bætist við álitlegur hópur vaskra manna í fylkingar hinna starfandi manna með þjóðinni. Nýjar atvinnugreinar taka því kannske fyrst og fremst eða a.m.k. öðrum þræði við þessu aukna vinnuafli án þess að þurfa að draga það frá öðrum atvinnugreinum. Og í öðru lagi ber að gæta þess, að með aukinni tækni sparast vinnuafl á ýmsum sviðum, án þess að framleiðslan dragist saman. Þetta á sér stað t.d. í landbúnaði með stóraukinni véltækni. Þetta vinnuafl, sem þannig sparast í einni atvinnugrein, án þess að um rýrnandi eða minnkandi framleiðslu sé að ræða, þarf eðlilega að leita að öðrum atvinnugreinum:

Þá minntist hv. frsm. meiri hl. á, að það væri mikill vandi að framkvæma höftin. Það má vel vera, að þetta sé rétt. En það er ekki að öllu leyti vandalaust heldur að ákveða frílista, og ég fellst á það með frsm. meiri hl., hv. 11. þm. Reykv., að við getum aldrei búizt við því, að í þjóðfélagi þurfi engar takmarkanir að setja, að einstaklingarnir geti notið þeirra gæða, sem kostur er á í þjóðfélaginu, svo takmarkalaust eins og við teygum að okkur andrúmsloftið. Við verðum einhvers staðar að setja mörkin og setja takmarkanir, og jafnvel þótt það sé gert með því að flokka vörur á frílista, þá fylgir því nokkur vandi líka eins og hinu að framkvæma höftin. Í þessu sambandi leyfi ég mér að minna á það, að þegar bátagjaldeyriskerfið var tekið upp, var í sjálfu sér ekki kallað, að það væri verið að innleiða höft, heldur verið að koma á sérstökum frílista. En það var ekki alveg vandalaust að flokka vörur á hinn sérstaka frílista, og því fylgdu nokkrir annmarkar að ýta undir það að flytja inn vörur, sem voru miður nauðsynlegar, til þess að sjá farborða vissum atvinnugreinum, svo að það geta víðar komið erfiðleikar fram í sambandi við þessi mál en á sviði haftanna.

Út af því, sem hv. 11. þm. Reykv. tók fram um það, að reynslan sýndi, að hagkvæmara væri að dreifa innkaupum á hendur margra einstaklinga en binda verzlunina í þröngar skorður og láta innkaupin vera á höndum fárra, þá get ég ekki látið hjá líða að minna á það, að reynslan sýnir, að hvort tveggja getur verið gott á vissum sviðum eða í vissum greinum. Það getur að vissu leyti verið gott, að samkeppni geti ríkt um val á vörum og í innkaupi. En við höfum þó hér mikla reynslu fyrir því, að hitt, að gera samninga um stór viðskipti og hafa þau á höndum fárra aðila, það hefur reynzt íslenzku þjóðinni einnig mjög farsælt á ýmsum sviðum. Og þannig er þessu háttað nú um vöruflokka, sem eru mjög þýðingarmiklir og nauðsynlegir, svo sem olíu o.fl., og það þarf áreiðanlega að hugsa málið betur en fram kom í ræðu hv. 11. þm. Reykv., ef á í eitt skipti fyrir öll að fella þann dóm, að slík viðskipti séu varhugaverð.

Á það vil ég einnig benda, að útflutningurinn er ekki þýðingarlítil atvinnugrein, heldur þvert á móti, eins og ég sagði áðan, í raun og veru grundvöllur utanríkisviðskiptanna. En er það nú svo, að þeir, sem að þessu frv. standa, berjist fyrir því eða séu reiðubúnir til þess að leggja utanríkisviðskiptin haftalaust og eftirlitslaust í hendur fjölda einstaklinga? Er það ekki þvert á móti þannig, að þeir, sem að þessu frv. standa, telji hagkvæmt þjóðarbúinu að binda utanríkisviðskiptin við stór viðskiptasambönd og hafa útflutninginn að miklu leyti á höndum fárra aðila, t.d. í höndum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna o.s.frv., en ekki að leysa þetta upp þannig, að hver einstaklingur geti boðið sína vöru hvar sem honum sýnist? Allt eru þetta rök fyrir því, að það er hyggilegra að líta raunhæft á málin, áður en menn fella þunga dóma um þær takmarkanir, sem að vissu leyti verður að gera, þegar höft eru framkvæmd.

Annars var þessi kafli í ræðu hv. 11. þm. Reykv. fræðilegs efnis, og ætla ég ekki að fara að gera það frekar að umtalsefni í einstökum atriðum. En ég ætla þó, áður en ég skil við þetta efni, að bregða upp einni mynd, alveg raunhæfri mynd úr viðskiptalífinu, eins og það er að gerast nú í dag og eftir að efnahagslöggjöf ríkisstj., sem sett var í vetur, er komin til framkvæmda, — dæmi, sem sýnir, að þetta tal um að afnema höft og að innleiða frelsi er að miklu leyti orðaleikur. Einstaklingarnir, sem standa í viðskiptum og búa sig undir framkvæmdir, eru nú í dag og verða þrátt fyrir samþykkt þessa frv. varir við marga þröskulda á göngu sinni í sambandi við viðskiptalífið, og ég ætla bara að bregða upp einni raunhæfri mynd af þessu með því að taka dæmi af manni, sem ætlar að kaupa atvinnutæk,i, þ.e. fiskibát af meðalstærð, 70 –80 tonna fiskibát, en einmitt kaup á slíku atvinnutæki eru mjög þýðingarmikil atriði í sambandi við viðskiptalífið og afkomu þjóðarbúsins, eins og allt, sem stuðlar að aukinni framleiðslu og aukinni gjaldeyrisöflun. Á meðan ófrelsið ríkti, eins og stjórnarflokkarnir vilja líklega orða það, þurfti maður, sem ætlaði að kaupa fiskibát, að sækja um leyfi til þess hjá innflutningsskrifstofunni. En sú breyting verður á í sambandi við þetta frv., þegar það hefur orðið að lögum, að þetta mun nú ekki þurfa að gera lengur, því að mér skilst, að fiskibátar eigi að vera ein sú vörutegund, sem tekin er á frílista. En er þá maðurinn alveg laus við öll höft, þrátt fyrir þetta, þó að hann þurfi ekki leyfi frá innflutningsskrifstofunni? Ég held ekki. Í fyrsta lagi verður hann að semja við banka um gjaldeyrisafgreiðslu eða a.m.k. loforð um yfirfærslu fyrir andvirði bátsins, og hann verður í upphafi að ná ákveðnum samningum um greiðslurnar. Ef þeir samningar ganga ekki greiðlega eða eru ekki fullnægjandi og hann hugsar sér að taka erlent lán, þá verður hann að leita á náðir ríkisstj., sem samkvæmt einni grein í þessu frv. á að hafa eftirlit með því, ef opinberir aðilar eða einkaaðilar semja um lán erlendis, jafnvel hvort sem það er til langs eða stutts tíma. Þessu næst verður maðurinn að leita eftir innlendu lánsfé og leitar þá fyrst og fremst til fiskveiðasjóðs. Nú er sú breyting á orðin, að meðalvélbátur kostaði áður, meðan ófrelsið ríkti, um 3 millj. kr., en kostar nú eftir efnahagsráðstafanirnar 4.5 millj. kr. a.m.k. Þetta þýðir það, að ef aðili er svo lánsamur, að fiskveiðasjóður láni það hámark, sem honum er heimilað í lögum, þá verður að leita eftir miklum mun hærra láni vegna bátakaupanna í íslenzkum krónum en áður þurfti. Þetta skapar þá erfiðleika, að lánastofnanir og m.a. fiskveiðasjóður leggja á það ríkari áherzlu nú en áður, að hann fái aðstöðu til að greiða þetta lán í áföngum og að gjaldeyrisgreiðslurnar dreifist á jafnlangan tíma. Ekki minnkar þetta umsvif mannsins, sem stendur í viðskiptunum. Vegna þess, hve þetta framleiðslutæki hefur hækkað í verði, mun væntanlega verða lögð á það meiri áherzla en áður að fá stuðning af atvinnuaukningarfé, en til þess að fá það þarf að leita á náðir nefndar, sem kosin er til að úthluta því, leita til ríkisstj. og leita til sveitarstjórnar í hlutaðeigandi sveitarfélagi. Enn er ekki öll sagan sögð, því að vegna þeirra ráðstafana, sem gerðar hafa verið, þyngist svo fyrir fæti þessa einstaklings, að árgjald af fiskveiðasjóðsláni, sem nemur 2/3 hlutum kostnaðarverðs bátsins, ef tillit er tekið til hinnar miklu hækkunar á stofnkostnaði, hins stytta lánstíma og hinna hækkuðu vaxta, sem nú er búið að lögbjóða, þá hækkar árgjald vegna fiskveiðasjóðsláns á meðalfiskibát yfir 200 þús. kr., a.m.k. meðan lánið er lítið greitt niður. Og á öll laus lán, sem aðilinn tekur til þess að bæta við hið fasta lán fiskveiðasjóðs, falla okurvextirnir, sem búið er að lögleiða. En sumir reyna að njóta fjárhagslegs stuðnings frá tryggingafélögum. En hvernig er þá með vélbát af meðalstærð? Ég veit ekki betur en að á honum hvíli tryggingarskylda, þ.e.a.s. skylda til þess að vera tryggður hjá Samábyrgð ísl. fiskiskipa, svo að sú leið að leita þar eftir leiðum frjálsrar samkeppni er þessum aðila lokuð. Ég sé ekki, að með þessu frv. sé lagt út á þá braut að liðka neitt til í því efni. Og ef maðurinn kemst nú yfir alla þessa þröskulda, sem lagðir eru á götu hans, þá er gengi íslenzkrar krónu miðað við það, eins og er meginatriði í efnahagslöggjöfinni, að þorskveiðar bátanna beri hið sama úr býtum og var áður með þeim útflutningsuppbótum, sem þá giltu. Eftir allt saman er afraksturinn af svona atvinnutæki miðaður við það, að eigandinn beri hið sama úr býtum og hann fékk áður með þeim útflutningsbótum, sem þá giltu.

Þetta er svo kölluð frelsisskrá, sem ríkisstj. af landsföðurlegri mildi gefi almenningi í þessu landi með þessu frv. Það er vitanlega öfugmæli.

Þá minntist hv. 11. þm. Reykv. í ræðu sinni á pólitíska afstöðu. Hann komst þannig að orði, að þegar um höft væri að ræða, réði oft pólitísk afstaða því, hvort menn fengju keyptan erlendan gjaldeyri eða ekki. Ég vona, að þó að hinir sérstöku trúnaðarmenn ríkisstj. fari að fjalla um veitingu leyfa á vissum vörutegundum og vitanlega um ákvörðun lána og úthlutun atvinnuaukningarfjár og annað þvílíkt, sem þýðingu hefur í þessu sambandi, þá verði ekki pólitísk afstaða látin ráða því, hvort menn fá fyrirgreiðslu eða ekki. En hitt er mér vel ljóst, að pólitíkin hverfur ekki, hún hverfur ekki úr hugum þjóðarinnar við það, þó að þetta frv. verði lögfest.

Hv. þm. komst einnig þannig að orði, „að höftin væru brjóstvörn einokunaraðstöðu og sérréttinda“. Ja, það er hægt að koma að eða skapa sér brjóstvörn einokunaraðstöðu og sérréttinda víðar en í innflutningsskrifstofunni. Það eru viða staðir til þess, ef menn vilja það viðhafa.

Þegar litið er á svona dæmi, alveg raunhæft dæmi úr viðskiptalífinu, þá liggur það í augum uppi, að með þeim efnahagsaðgerðum, sem framkvæmdar hafa verið, er málum stefnt í það horf, að það eru lögð stór björg í götu einstaklinganna, sem vilja ráðast í framkvæmdir eða koma fótum undir eigin atvinnurekstur, svo framarlega sem þeir eru ekki stórefnaðir menn. Ég hef tekið hér dæmi af mönnum, sem ætla sér að kaupa meðalfiskibát. Sjálfur hef ég kunnugleika á því, að duglegir menn á bezta aldri, sem voru að búa sig undir að eignast slíkt atvinnutæki, hafa einmitt horfið frá því nú, eftir að þeir sjá alla þá þröskulda, sem lagðir eru í götu þeirra í því efni. Og ég hef einnig kynnt mér, að það er rétt, sem fram kom hér hjá einum ræðumanni áðan, að það horfir svo, að það verði stórkostlegur samdráttur á t.d. framkvæmdum í framræslu lands frá því, sem verið hefur undanfarið.

Nei, hin raunverulega stefna er þetta, að einstaklingarnir sjá, að það er fram undan leið, sem er lokuð þungum steini, og það fellst ég á með hv. frsm. meiri hl. fjhn., að í þessu sambandi er ekki rétt að taka tillit til áhrifa, sem eru frá náttúrunnar hendi. En þau áhrif, sem ég hef nú verið að lýsa, eru öll af mannavöldum og standa í sambandi við þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið og nú eru þegar farnar að hafa áhrif. Þessi stefna, sem fram kemur í frv., er eins og 2. minni hl. fjhn. orðar með svo skáldlegri líkingu, eins og hans er von og vísa, að þetta er frelsisgjöf, sem er eins og á stendur storkun við almenning. Nokkrir stórlaxar geta vafalaust notað sér þetta frelsi, en þótt meta megi þá mikils, eru þeir ekki þjóðin öll. Þeirra sporðaköst eru síður en svo það, sem mest á ríður.

Ég skal nú fara að stytta mál mitt, en áður en ég lýk því, vil ég leyfa mér að drepa sérstaklega á tvö atriði. Þeir, sem að þessu frv. standa, eru óþreytandi að halda því fram, að í þessu frv. og allri stefnu ríkisstj. felist aukið frelsi til handa almenningi, m.a. frelsi til byggingarstarfsemi. En það er alveg augljóst, að það verður samdráttur í byggingarstarfseminni vegna þeirrar stefnu, sem nú hefur verið tekin upp, og þarf ekki að fjölyrða um það. Þrátt fyrir þetta er þjóðin í örum vexti. Fólki fjölgar í landinu almennt, en þó misjafnlega eftir landshlutum. Á fjórum árum, frá 1954–58, fjölgaði íbúum Reykjavíkur um rúm 11%, og á sama tíma fjölgaði íbúum í Reykjaneskjördæmi um full 26%, í Suðurlandskjördæmi um 6% o.s.frv Ég vil nú vona og er nú svo bjartsýnn, að þrátt fyrir mörg afglöp hæstv. ríkisstj. og þær viðsjárverðu fylgjur, sem núverandi stjórnarstefna hefur, þá vil ég nú vona, að þessi vöxtur þjóðarinnar haldi áfram. Ég vil ekki spá því, að það kreppi svo að þessari þjóð, að það kippi úr þeirri þróun, sem verið hefur um vöxt hennar. En á sama tíma sem það er augljóst, að það dregur stórkostlega úr íbúðarhúsabyggingum, og hitt liggur fyrir, að fólki fjölgar í landinu almennt og mjög ört í sumum landshlutum, þá á að afnema með þessu frv. eða taka burt þann hemil, sem verið hefur á því, að íbúðarhúsnæði sé beinlínis tekið undir verzlun eða aðra starfsemi. Mér finnst þetta vera öfugþróun og það sé full ástæða til þess að gefa þessu gaum, að í viðbót við allar aðrar ráðstafanir sé ekki unnið að því nú að taka þennan hemil í burtu.

Að síðustu ætla ég að fara örfáum orðum um brtt., sem 2. minni hl. fjhn., Karl Kristjánsson, hefur flutt og er um það, að fellt sé niður úr þessu frv., að lögin um úthlutun jeppabifreiða óg landbúnaðarvéla séu niður felld. Innflutningur jeppabifreiða hófst ekki að ráði fyrr en eftir heimsstyrjöldina, á árinu 1946 og upp frá því. Fyrst þegar þessi innflutningur hófst, var sú tilhögun á úthlutun jeppabifreiðanna, að valdið var í raun og veru lagt í hendur ríkisstj. eða sérstakra trúnaðarmanna hennar, eins og nú er stefnt að að gera, en var í framkvæmd í höndum nýbyggingarráðs eða manna, sem störfuðu á þess ábyrgð. Þessi skipun þótti ekki gefast vel, og hún hafði ekki verið framkvæmd lengi, þegar menn hér á Alþ. tóku að beita sér fyrir því, að úthlutun jeppabifreiða yrði komið í fastari skorður en upphaflega var gert. Og merkir bændur, sem þá áttu sæti hér á þingi, en nú eru horfnir héðan, munu hafa átt frumkvæði að því, að flutt var frv. um úthlutun jeppabifreiða og sú starfsemi skipulögð. Þetta frv. var fyrst flutt á þingi 1948, þegar hitt skipulagið hafði verið reynt 2–3 ár og að mjög margra dómi raunverulega misheppnazt. Flm. jeppafrv. voru menn úr öllum þingflokkum. Það voru Jón Sigurðsson, Jörundur Brynjólfsson, Sigurður Bjarnason, Jón Gíslason, Ásgeir Ásgeirsson og Sigfús Sigurhjartarson. Og þetta frv. var lögfest á þinginu 1948. Síðar kom í ljós, að þetta skipulag gafst þó svo vel, að mönnum hér á Alþ. þótti ástæða til að taka sama skipulag upp við úthlutun heimilisdráttarvéla, þegar ekki var hægt að fullnægja eftirspurn þeirra, og vegna þess var á þinginu 1950 samþ. viðauki við jeppaúthlutunarlögin samkv. frv., sem flutt var af þm. úr Framsfl. og Sjálfstfl., og var núverandi hv. 1. þm. Vesturl., Ásgeir Bjarnason, fyrsti flm. að frv. um þann viðauka. Síðan er búið að reyna þetta skipulag í raun og veru í meira en áratug, og mér er ekki kunnugt um, að utan úr sveitunum liggi fyrir neinar kvartanir yfir því eða óskir um, að þessu sé breytt. Nú veit ég, að því er til að svara, að með þessu frv., sem hér er til umr., sé gert ráð fyrir því, að þessar vörur verði raunverulega á frílista. En mér skilst, að það muni þó a.m.k. fyrst um sinn verða þannig, að það verði ekki leyfður innflutningur á öllum tegundum landbúnaðarbifreiða, ekki þeim tegundum, sem bændur kjósa helzt, heldur verði innflutningurinn takmarkaður að því leyti, að honum verði beint að vissum gerðum bifreiðanna, og meðan svo er, þá er raunar naumast hægt að segja, að þessi vara sé alls kostar frjáls. En í annan stað vil ég sérstaklega benda á, sem ég veit ekki, hvort fjhn. hefur veitt eftirtekt, að lögin um úthlutun jeppabifreiðanna eru frá upphafi hugsuð þannig, að þau séu aðeins framkvæmd, þegar innflutningurinn er takmarkaður. Þau hefjast þannig, að meðan er takmarkaður innflutningur o.s.frv., þá skal þessu skipulagi fylgt. Og nú hin síðari ár hefur innflutningur á heimilisdráttarvélum í raun og veru verið frjáls, þær hafa verið á frílista, og þá hafa þær greinar eða sá kafli 1. ekki verið framkvæmdur, en lögin hafa verið í gildi þrátt fyrir það, og jafnskjótt og breyting yrði á, þannig að einhver takmörkun yrði gerð um innflutning á dráttarvélum, þá væri skipulagið til og þá ætti úthlutunin að fara eftir því. Ég vil leggja áherzlu á, að þessi lög verði ekki felld úr gildi, heldur till. Karls Kristjánssonar samþykkt. Hitt er svo annað mál, að ef reynslan sýnir, að þessar vörur verða til sölu eiginlega án takmarkana eða þannig, að það verði hægt að fullnægja eftirspurn, þá leiðir einungis af því, að lögin eru ekki framkvæmd, meðan það ástand helzt. En jafnskjótt og breyting yrði á aftur, höfum við skipulagið til, en þurfum þá ekki á nýjan leik að fara að setja um það löggjöf hér á hv. Alþingi.