16.05.1960
Efri deild: 78. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2481 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að flytja skriflega eina brtt. við þetta frv. Hún hljóðar svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Við ákvæði til bráðabirgða bætist eftirfarandi: Fjmrn. er heimilt, þar til endurskoðun tollskrár er lokið, að lækka aðflutningsgjöld af efnivörum til skógerðar, ef viðtakandi vörunnar rekur skógerð og staðfestir í aðflutningsskýrslu, að efnivaran verði einungis notuð til framleiðslunnar.“

Eins og ég tók fram, þegar ég mælti fyrir þessu frv. hér í þessari hv. d. við 1. umr. þess, verða nokkrar vörur hafðar á sérstökum frílista, sem ætlazt er til að ekki taki gildi fyrr en sex mánuðum eftir að hinn almenni frílisti tekur gildi. Þær vörur, sem á þessum frílista verða og ég gerði í aðalatriðum grein fyrir við 1. umr., eru ýmsar vörur, sem íslenzkur iðnaður keppir við, og þá fyrst og fremst leðurskófatnaður, eins og ég tók þá fram. Ég lét þess líka getið, að höfuðrökin fyrir því að láta þennan hluta frílistans eða þennan sérstaka frílista ekki taka gildi fyrr en sex mánuðum eftir hinum almenna frílista, væru þau, að nauðsynlegt væri að skapa þeim greinum íslenzks iðnaðar, sem vörurnar á þessum lista eru í sérstakri samkeppnisaðstöðu gagnvart, aðstöðu til þess að bæta samkeppnisaðstöðu sína, þannig að þessar greinar þyrftu ekki að dragast saman vegna hins frjálsa innflutnings á þessum vörum. Ég hafði líka tekið fram, að þetta ætti alveg sérstaklega við skógerðina. Aðstaða hennar mun að vísu að ýmsu leyti batna vegna þess, að gert er ráð fyrir óheftum innflutningi á hvers kyns vélum, þannig að skógerðirnar munu fá aðstöðu til þess að bæta vélakost sinn verulega og þar með bæta samkeppnisaðstöðu sína. En við þetta bætist, að þau tollaákvæði, sem gilda um efnivörur til skógerðar, eru að ýmsu leyti óhagstæð íslenzkri skógerð, ef borið er saman við fullunna erlenda vöru, og þess vegna einmitt hefur fjmrn, fyrir alllöngu hafið allsherjarendurskoðun á tollskránni, sem m.a. er ætlað að taka til atriða eins og þessara, sem hér er um að ræða. En þar eð búast má við því, að þeirri endurskoðun verði ekki að fullu lokið á sex mánuðum, þ.e. áður en liðinn er þessi hálfs árs frestur, sem innlendum iðnaði er veittur, þykir nauðsynlegt að gera ríkisstj. kleift að lækka aðflutningsgjöld af efnivörum til skógerðar, eftir því sem nánari athugun leiðir í ljós að þörf er á, til þess að hinn sérstaki frílisti verði ekki til að stofna réttmætum hagsmunum mikilvægrar íslenzkrar iðngreinar í hættu. Ég vona, að hv. dm. geti verið samdóma um það, hvað sem mönnum að öðru leyti kann að sýnast um meginefni þessa frv., að brýna nauðsyn ber til þess, að sú linun á höftum eða það afnám hafta, sem gert er ráð fyrir að sigli í kjölfar þessa frv., verði ekki til þess að stofna neinum réttmætum hagsmunum íslenzkra atvinnugreina eða íslenzkra atvinnuvega í hættu. Þetta er það vandamál, sem brýnast er að taka á, og þess vegna hefur ríkisstj. ákveðið að bera fram þessa brtt. við þetta frv. nú við 3. umr. málsins. Það hefur því miður ekki unnizt tími til þess að fá hana prentaða, en ég mun gera ráðstafanir til þess, að hún liggi sem fyrst prentuð fyrir hv. þm. Efni málsins er að öðru leyti einfalt.

Þá vildi ég nota tækifærið til þess að koma á framfæri við hv. þd.. upplýsingum varðandi meðferð þessa máls eða framkvæmd þess, ef þetta frv. nær fram að ganga. Ég mun hafa sagt það við 1. umr.. málsins, að ráð væri fyrir því gert, ef frv. næði fram. að ganga, að reglugerð yrði gefin út og lögin þar með öðlast gildi hinn 21. þ.m., þannig að innflutningsskrifstofan hætti störfum frá og með þeim degi. Undanfarna daga hafa farið fram miklar viðræður við gjaldeyrisbankana um það verk, sem þeim er ætlað í framhaldi af því, að innflutningsskrifstofan leggst niður, og þótt unnið sé sleitulaust að því að koma á því nýja skipulagi, sem gert er ráð fyrir að taki við, hefur samt sem áður komið í ljós, að gjaldeyrisbankarnir hafa eindregið óskað eftir því, að hin nýja skipan þurfi ekki að taka gildi fyrr en í mánaðarlok eða í byrjun næsta mánaðar, þ.e. 1. júní. En undirbúningi málsins er það langt komið, að ég tel óhætt að fullyrða, að á því þurfi ekki að verða frekari frestur en sá, að frílistarnir taki gildi og hin nýja skipan komist á. Þetta vildi ég aðeins taka fram við hv. d., af því að ég hafði sagt við 1, umr., að það hefði verið gert ráð fyrir því þá, að reglugerðin yrði gefin út 21. maí og hin nýja skipun kæmi þá til framkvæmdar. En það frestast um níu daga eða fram til mánaðamóta.