16.05.1960
Efri deild: 78. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2483 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Björn jónsson):

Herra forseti. Ég skal sízt mótmæla því á þessu stigi málsins a.m.k., að bæta þurfi skóiðnaðinum í landinu nokkuð fyrir þá aðstöðubreytingu, sem nú er fyrirhuguð hjá honum, þar sem hleypa á inn ótakmörkuðu magni af erlendum skófatnaði til samkeppni við þann iðnað, sem hér er í þessari grein. Hins vegar finnst mér, a.m.k. fljótt á litið, þessi brtt. við þetta frv., eins og það er og eins og efni þess er, vera fráleit og ekki eiga þar heima. Þetta frv. fjallar hvorki um tollskrár né aðflutningsgjöld, og till. sem þessi ætti auðvitað að koma fram við tollskrá eða þá a.m.k. við einhver þau lög, sem vörðuðu aðflutningsgjöld önnur, og ég hef sannast að segja ekki heyrt hjá hæstv. ráðh. nein rök fyrir því, að það sé frambærilegt eða í samræmi við venjur, að slík till. sé borin fram við algerlega óskylt efni.

Ég álít, að í sambandi við þetta væri líka rík þörf á því að athuga um aðflutningsgjöld af öðrum þeim vörutegundum, sem nú á að setja á sérstakan frílista eða kannske almennan frílista, og ganga úr skugga um, hvort ekki er þegar þörf á því að veita þeim iðnaði svipuð hlunnindi og nú er ætlað að gera gagnvart skóiðnaðinum. Á sérstökum frílista er núna, eftir því sem ég bezt veit, öll málningarframleiðsla, bæði olíumálningar og vatnslita, sömuleiðis öll lökk, allar sápugerðir, allur ytri fatnaður, sem prjónaður er úr gervisilki og öðrum gerviþráðum, sokkar og leistar úr ull, ytri fatnaður prjónaður úr ull Og öðrum dýrahárum, nærfatnaður prjónaður úr ull og öðrum dýrahárum, nærfatnaður úr ull, enn fremur lífstykki, korselet, brjóstahaldarar og aðrar þvílíkar vörur, og svo að síðustu skófatnaður, sem hér hefur verið nokkuð rætt um. Það má vel vera, að þessi listi sé eitthvað breyttur frá því, að þessi gerð hans var birt fjhn., því að málin hafa ekki verið athuguð betur hjá hæstv. ríkisstj. en svo, að hún hefur þegar verið að gera miklar og mjög veigamiklar breytingar á þessum frílistum sínum, og má því vel vera, að þarna séu fleiri tegundir en mér er kunnugt um.

Þegar þetta mál var rætt í fjhn., spurðist ég fyrir um það, hvort einhver athugun hefði farið fram á því, hvernig þessum iðngreinum reiddi af við hina nýju skipan, og fékk ég þau svör ein, að þessi mál væru í athugun í n., og varð ekki betur skilið af þeim svörum en þessi listi væri útbúinn án allrar endanlegrar athugunar á því, hvernig þessum iðngreinum reiddi af. Ég held nú, að það hefði verið réttara af hæstv. ríkisstj. að geyma það að ákveða hömlulausan innflutning á þessum greinum og e.t.v. fleiri, þangað til þessari rannsókn væri lokið, og það hefði verið alveg lágmark að gefa þá þennan hálfs árs frest, þegar eitthvað væri sýnt um það, hvernig hag þessara iðngreina yrði komið eftir breytinguna.

Mér finnst öll þessi málsmeðferð bera vott um alveg sérstakan flautaþyrilshátt og tel ósamboðið hv. d. að taka við þessu alveg athugunarlaust á síðustu stundu, skrifl. brtt. um þetta efni, og vildi a.m.k. gera þá lágmarkskröfu, að hv. fjhn, yrði veitt tækifæri til þess að taka þetta mál til athugunar og þá jafnframt að kynna sér betur, hvort ekki v æri ástæða til hliðstæðra breytinga varðandi aðrar iðngreinar, sem aðgerðir ríkisstj. setja nú í hættu.