19.05.1960
Neðri deild: 84. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2497 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. hefur tilgreint upp úr þingsköpum, að samkvæmt orðanna hljóðan ber forseta að senda málið til nefndarinnar, sem hafði það áður. En mér skilst, og ég hef rætt þetta mál stuttlega við skrifstofustjóra þingsins, að þetta sé í raun þannig, að þótt forseti gangi ekki í gegnum það að skrifa formlegt bréf til manns, sem situr hér á bekkjum, og senda honum málið þannig, þá liggi málið raunverulega fyrir nefndinni, það liggi fyrir nefndinni, það sé hennar, þegar málið sé komið aftur til þessarar hv. d., þá sé það á n. valdi, hvort hún tekur það upp, gefur út um það álit eða ekki.

Seinna í þessari sömu grein, 25. gr. þingskapa, er talað um það, hvenær málið megi síðan koma fyrir deildina, og er talað um, að liðin sé a.m.k. ein nótt frá því að frv., eins og það kom frá hinni deildinni, var útbýtt meðal þingmanna á fundi, eða nál., ef um það er að ræða. Þingsköpin gera ráð fyrir þeim möguleika, að það sé ekki um neitt nál. að ræða.

Ég lít því þannig á, að hér hafi verið farið alveg eftir venju og forseti í engu breytt frá því, sem venja er, málið hafi raunverulega, síðan afgreiðslu þess í Ed. lauk, legið fyrir nefnd hér, ef sú nefnd vill taka það upp og gera eitthvað í því. En það, sem hér hefur gerzt, er sá möguleiki, sem gert er ráð fyrir í þessari 25. gr., ef um nál. er ekki að ræða. Hér hefur ekki verið um nál. að ræða, og þess vegna hefur málið komið hér fram á venjulegan hátt, og ég sé því ekki neina sérstaka ástæðu til þess, að deildin fari að samþykkja að vísa málinu til nefndar, því að þingsköpin gera ráð fyrir, að þess sé ekki þörf, og að það sé af þeim ástæðum ekki um neina óvenjulega afgreiðslu að ræða, þó að það færi ekki til nefndar héðan af, úr því að nefndin gerði ekkert í málinu, á meðan það raunverulega lá fyrir henni.