19.05.1960
Neðri deild: 84. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2498 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Forseti (JóhH):

Það er ekki deilt hér um veigamikið atriði. Eins og vikið hefur verið að, er það svo eftir orðalagi 25. gr., að þá á forseti að senda mál, sem koma frá hinni deildinni, til nefndar. En eins og ég vék að hér áðan, má hv. þdm. öllum vera það kunnugt, að þetta ákvæði hefur ekki verið framkvæmt og það um mjög langan aldur, og mér er ekki kunnugt um, að þessu ákvæði hafi nokkurn tíma verið framfylgt samkvæmt orðanna hljóðan.

Það er till. um að vísa málinu til nefndar, og sú till. verður borin upp. En ég vil sérstaklega taka það fram að gefnu tilefni, að það er skoðun forseta, að það séu engin lögbrot framin hér, þó að sú till. sé felld. Og alveg sérstaklega er þeim mun minni ástæða til þess að víkja nú frá almennri framkvæmd í þessu sambandi, þar sem brtt., sem hefur orsakað það, að málið kemur hér í deildina aftur og kemur til atkvæða, er alls ekki um efni frv. sjálfs, heldur brtt. við bráðabirgðaákvæði og þess eðlis, að hún virðist ekki hafa af þeim sökum nokkurt sérstakt tilefni til þess að fara til nefndar, enda er um allt annað að ræða, að dómi forseta, ef brtt. hefði verið samþykkt við meginefni málsins í hv. Ed. Till., sem samþ. var í Ed., og skriflega brtt. eru við bráðabirgðaákvæði frv. og snerta ekki meginefni málsins. Það á því sama bæði við skriflegu brtt. og eins till., sem samþ. var í Ed.