19.05.1960
Neðri deild: 84. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2499 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. talaði um, að n. hefði haft þessa aðstöðu. Ef við förum eftir bókstaf laganna í þessum efnum og þeim anda, sem á bak við þann bókstaf er, þá hefði n. átt að fá þetta tækifæri, eftir að málið kom frá Ed. Hún hefur ekki haft það tækifæri, vegna þess að hún hefur ekki komið saman einu sinni á þessum tíma til að ráðgast um, hvort hún vildi ræða þetta. Ég hef þess vegna lögin algerlega með mér í þessu. Ég gat ekki sem einn einstakur aðili í n. farið að hafa framtak um þetta, áður en n. gerði þetta sjálf. Ég var þegar í gær boðaður á fund í n. kl. 6 í dag og vissi þess vegna, að það mundi vera fundur í n. og þar mundi vera möguleiki til þess að ræða þetta mál. Og þó að þetta mál væri á dagskrá, þá var þar með ekki gefið, að málið yrði rætt og því síður útkljáð nú, því að þar voru ýmis önnur mál, sem voru mikil deilumál. Þar að auki er komið fram með skriflega brtt. um þetta mál nú á síðasta stigi, og hvaða efnis sem hún er, þá er það ekki nema kurteisi að gefa annaðhvort n. eða þá minni hl. í n. tækifæri til þess að ræða slíkar tillögur. Ég vil þess vegna eindregið halda við þá ósk mína, hæstv. forseti, að umr. sé frestað sem stendur til þess að gefa mér þessa aðstöðu.