19.05.1960
Neðri deild: 84. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2501 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Fyrst þessu máli var ekki vísað beinlínis til n., mun ég ekki fara inn á það, sem ég hefði ella gert, að flytja allmargar brtt. við þetta frv. til þess að reyna að afstýra vandræðum og ekki heldur inn á það að fara að gefa út í sambandi við þær sérstakt nál. aftur, heldur aðeins láta við það standa að gera brtt. við þá skriflegu brtt., sem hæstv. viðskmrh. hefur lagt fram. Að vísu verð ég að segja það, að eftir þá yfirlýsingu, sem hæstv. viðskmrh. nú gaf um, að þessu máli væri ekki ætlað að öðlast gildi fyrr en 1. júní, þá hefði náttúrlega, svo að málið hefði getað fengið alveg fullkomna, þinglega meðferð, ekki legið á fyrir stjórnarliðið endilega að neita um það að vísa þessu máli til fjhn. Það er augsjáanlega nægur tími. Og ég vil um leið benda á, að það er ákaflega óviðkunnanlegt, að lög frá Alþ. skuli vera bundin við það að öðlast gildi, þegar reglugerð er gefin út. M.a. vil ég aðelns benda á það, að ég veit ekkert, hvað óþekkur hæstv. viðskmrh., sem mundi eiga að gefa út reglugerðir í sambandi við þetta, kynni að vera hæstv. ríkisstj., en það er sem sé á hans persónulega valdi, eftir að þessi lög eru samþykkt, hvort þau öðlast nokkurn tíma gildi eða ekki. Ef Sjálfstfl. væri eitthvað óþekkur við hann, þá er sem sagt Alþingi búið að gefa honum það í hendur að ráða þessum lögum. Ég skal ekkert segja, hvort hæstv. viðskmrh. færi að misnota þetta vald sitt, en það er ekkert viðkunnanleg afgreiðsla á málum frá Alþ. að ákveða það, að þegar einum ákveðnum ráðh. í stjórninni þóknast að gefa út eina ákveðna litla reglugerð, þá skuli lög öðlast gildi.

Ég vil taka undir það, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. benti hér á, að það væri eins hægt að gera þetta í sambandi við efnahagsmálin. Það er í raun og veru orðið nokkuð sama nú, í hvern grautarpottinn saltið er látið hjá hæstv. ríkisstj., þessu er öllu orðið sullað saman, þannig að hver lög, sem hér fara í gegnum þingið, eru orðin breytingar á ótal lögum, bandormshátturinn er hafður á þessu öllu saman. Er það ekkert nýtt.

Það, sem ég vildi gera hér brtt. við, er, að í hinni skrifl. brtt. hæstv. ráðh. er gengið út frá, að það megi lækka aðflutningstollana af 150 bilum til þessara sérstöku nota, sem lagagreinin frá 1957, 29. maí, fjallar um viðvíkjandi þeim, sem fatlaðir eru eða hafa orðið fyrir slysum. Ég held, að það væri rétt, fyrst farið er inn á þetta og fyrst reynt er að slá tvær flugur í einu höggi, að hjálpa þeim, sem hafa sótt um samkv. þessum lögum, og hins vegar að tryggja það að geta selt þessa bíla, — þá held ég, að væri rétt að hækka þessa tölu upp í 250, og vildi gera þá skriflegu brtt. við þetta, að í staðinn fyrir 150 í efnismálslið brtt. komi 250. Þetta yrði brtt. við till. hæstv. viðskmrh. og þetta gildir fyrir 2 ár, og það mundi þá verða til samans 500 bæði árin, og mundu þá verða a.m.k. meiri líkindi til þess, að við stæðum við þann samning, sem við höfum gert, og tryggðum okkur markað fyrir okkar fisk í sambandi við þetta, en gerðum um leið gott verk hér innanlands.

Ég vildi biðja hæstv. forseta um að leita afbrigða fyrir, að þessi skrifl. brtt. mín mætti þá líka koma til atkvgr.