17.05.1960
Neðri deild: 83. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2511 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

154. mál, alþjóðasiglingamálastofnun (IMCO)

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur athugað frv. á þskj. 403 og mælir með samþykkt þess. Samkv. frv. er ríkisstj. heimilað að staðfesta fyrir Íslands hönd samþykkt um alþjóðasiglingamálastofnun eða Inter-Governmental Maritime Consultative Organization, skammstafað IMCO. Stofnun þessi er á vegum Sameinuðu þjóðanna, og hefur tekið við verkefnum, sem Bretar önnuðust áður einir. Ákveðið hefur verið, að starfssvið stofnunarinnar skuli næstu tvö ár takmarkast af eftirtöldum atriðum:

1. Öryggi á hafinu.

2. Olíuóhreinkun sjávar.

3. Tonnatölumæling skipa.

Sá fyrirvari verður af Íslands hálfu við staðfestingu samningsins, samkv. frv., að verði stofnuninni síðar ákveðið víðtækara verksvið, þannig að fjallað verði þar um mál, sem eru algerlega fjármálalegs eða viðskiptalegs eðlis, þá getum við afturkallað aðild okkar að samningnum. Er þetta sams konar fyrirvari og hjá hinum Norðurlandaþjóðunum. Kostnaður við þátttöku okkar í þessari alþjóðlegu stofnun er 2000 dollarar á ári plús aukagjald, sem ákveðið er á grundvelli brúttó-rúmlestatölu skipastóls landsins, en það aukagjald getur aldrei orðið hátt vegna þess, hversu hverfandi lítinn skipastól við eigum samanborið við önnur þátttökuríki. Hér við bætist svo kostnaður við sendiferðir fulltrúa okkar á þær ráðstefnur, sem stofnunin heldur, en slíkan kostnað greiðir hvert aðildarríki fyrir sig.

Sjútvn. aflaði sér upplýsinga um þetta mál hjá skipaskoðunarstjóra. Taldi hann nauðsynlegt og gagnlegt fyrir Ísland að gerast fullgildur aðili að stofnuninni, og gat hann þess m.a., að í þessari viku ætti að hefjast í London ráðstefna á vegum stofnunarinnar um öryggi mannslífa á hafinu og mundu tveir fulltrúar héðan sækja þá ráðstefnu. Fyrir hönd sjútvn. legg ég til, herra forseti, að frv. verði vísað til 3. umr.