10.05.1960
Neðri deild: 79. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2519 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

150. mál, Verslunarbanki Íslands h.f.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér er ánægja að svara strax, að því leyti sem mér er það unnt, þeim fsp., sem hv. þm. beindi til mín.

Það er rétt að skýra frá því, að þegar forráðamenn Verzlunarsparisjóðsins sneru sér til viðskmrn. í lok febrúar s.l. með þau tilmæli, að ríkisstj. beitti sér fyrir lagasetningu um breytingu sparisjóðsins í verzlunarbanka, fannst mér það í fyrstu vera nokkurt álitamál, hvort eðlilegt væri að setja sérstök lög, sem heimiluðu breytingu Verzlunarsparisjóðsins í verzlunarbanka, eða hvort eðlilegra væri eða heppilegra að leggja fram frv. til almennra bankalaga, sem m.a. gerði þessa breyt. framkvæmanlega með sama hætti og hún er framkvæmanleg samkv. þessu frv. Eftir að ég hafði rætt þetta nokkuð við ýmsa sérfróða menn á sviði bankamála, urðum við allir og ríkisstj. sammála um, að eðlilegast væri og heppilegast, að þetta mál fengi sérstaka afgreiðslu í formi sérstaks frv. Það eru ýmis vandamál á ferðinni í sambandi við setningu almennrar bankalöggjafar, sem þó þarf tvímælalaust að koma, og tel ég rétt nú einmitt í beinu framhaldi af þessu að hefja undirbúning að því, að samið verði frv. aðslíkri almennri bankalöggjöf, sem gilti þá að sjálfsögðu um alla viðskiptabankana í landinu og legði einnig grundvöllinn að því, að unnt væri að stofna fleiri banka, m.ö.o. festi rammann fyrir því, með hvaða hætti bankastarfsemi eða peningaútlán mætti stunda hér. þannig að löglegt væri og tryggilega um alla hnúta búið. Það er raunverulega mikill galli á íslenzkri löggjöf, að slík almenn bankalöggjöf skuli ekki vera til hliðstæð sparisjóðalöggjöfinni, sem raunar er líka orðin mjög gölluð og er raunar nú í endurskoðun. En þetta tel ég að eigi að gera alveg óháð framgangi þessa frv. Það hlýtur að taka nokkurn tíma að útbúa frv. aðslíkri almennri bankalöggjöf og ástæðulaust að biða með þessa breyt., sem ég tel sjálfsagða, eftir samningu slíks frv.

Ég er að ýmsu leyti sammála hv. 3. þm. Reykv. (EOI) um það, að til nokkurrar athugunar eigi að koma um skattgreiðslur, ekki aðeins bankanna, heldur einnig allra opinberra fyrirtækja, svo sem tíðkast í sumum löndum, sem hafa mjög fullkomna löggjöf um efnahagsmál, eins og t.d. á við í Svíþjóð, þar sem jafnvel einkasölur greiða opinber gjöld, að vísu ekki með alveg sama hætti og einkafyrirtæki, en greiða þó til sameiginlegs sjóðs landsmanna.

Varðandi það, sem hann gat um, hvort samþykkt þessa frv., sem gerir ráð fyrir skattfrelsi Verzlunarbanka Íslands h/f, muni skapa nokkra skaðabótaskyldu síðar meir, þó að í annaðhvort skattalög eða almenna bankalöggjöf kæmi ákvæði um skattgreiðslu þessara stofnana, þá vildi ég taka það fram sem skoðun mína og skilning minn á málinu, að þar væri með engu móti um neina skaðabótaskyldu að ræða. Þrátt fyrir samþykkt þessa frv. væri jafnheimilt eftir sem áður að setja lagaákvæði, sem gerðu ráð fyrir skattgreiðslu þessarar stofnunar og annarra hliðstæðra stofnana, og nægir raunar að vísa um það efni til fordæmis, sem fyrir er, þ.e. ákvæðisins í lögum um skattfrelsi Eimskipafélagsins, sem mér skilst að hafi alltaf verið skilið þannig, að Alþingi geti hvenær

sem er sett ákvæði um skattgreiðslu Eimskipafélagsins, án þess að núgildandi ákvæði um skattfrelsi sköpuðu félaginu nokkurn rétt til skaðabótagreiðslna.

Að því er snertir það, sem hv. þm. sagði um 4. gr., hvort sé ekki varhugavert að gera minni hl. skylt að hlíta ákvæðum meiri hl. að því er snertir eignayfirfærsluna, þá er það að segja, að um þessi efni eru svo fjölmargar hliðstæður í öðrum lögum, hlutafélagalögunum, samvinnulögunum, að þetta ákvæði er ekki neitt einsdæmi í íslenzkri löggjöf, og það mundi vera ástæðulaust og algerlega óeðlilegt að krefjast þess, að hver einasti ábyrgðarmanna þyrfti að samþykkja eignayfirfærsluna. Það mundi gera framkvæmdina óeðlilega þunglamalega og kannske meira að segja ókleifa. Á bak við þetta ákvæði 4. gr. liggur að sjálfsögðu sú hugsun, að ekki sé hægt að svipta neinn mann í skjóli þessarar greinar, í skjóli þessa ákvörðunarvalds meiri hl. yfir minni hl. nokkrum hluta af eignum sínum, þ.e. að kjósi einhverjir ekki að eiga hlutdeild að hinu nýja fyrirtæki, séu þeir aðilar að sjálfsögðu skaðlausir með öllu.