04.12.1959
Neðri deild: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að bæta miklu við þær umræður, sem fram hafa farið undanfarið hér í hv, deild, en ég vil þó gera fáein atriði að umtalsefni, áður en þessari umr. lýkur.

Þetta frv., sem fyrir liggur á þskj. 16, er eitt þeirra mála, sem standa í sérstöku sambandi við till, hæstv. forsrh. varðandi frestun Alþingis nú á næstunni fram til loka janúarmánaðar. Ef ekki væri farið fram á að fresta þinginu nú þegar, væri ekki heldur óskað eftir afgreiðslu þessa frv. að svo stöddu, þar sem það kemur ekki til framkvæmda fyrr en í byrjun janúarmánaðar á næsta ári. Samþykkt þessa frv. og frv. á þskj. 40 um bráðabirgðabreytingu og framlengingu nokkurra laga nú þýðir, eins og fram hefur verið tekið áður í þessum umræðum, að hægt er að fresta þinginu strax, ef till. um það, sú sem fyrir liggur, verður samþykkt. Það er því eðlilegt, að þeir, sem vilja draga þingfrestun t.d. fram yfir miðjan þennan mánuð, vilji einnig fresta afgreiðslu þessa frv. til þess tíma eða því sem næst.

Ég tel eins og fleiri, sem hafa tekið til máls í þessum umr., að frestun Alþingis, eins og hún er fyrirhuguð, sé ótilhlýðileg. Ég skal ekki rekja ástæðurnar til þess í löngu máli. Það hefur verið af öðrum gert, og ég get að miklu leyti undir það tekið. En ég vil í því sambandi nefna, að fjárlögin hafa ekki verið tekin til 1. umr. og ekki flutt fjárlagaræða, að mörg mál hafa verið lögð fyrir þingið og mál hafa verið að koma fram þessa dagana og nú síðast í dag og eðlilegt er, að nokkuð sé að þeim málum unnið, áður en þingi er frestað. Í þriðja lagi kemur það svo til, að brbl. frá 18. sept. um verð landbúnaðarvara hafa ekki enn verið tekin til meðferðar í þinginu. Ég vil leyfa mér að gera þetta síðasta atriði að umtalsefni með nokkrum orðum, vegna þess að mér sýnist það mál vera stærsta ástæðan fyrir því, að ekki er tilhlýðilegt að fresta þingi að svo stöddu.

Þegar Alþingi kom saman 20. nóv., held ég að flestir, a.m.k. þeir, sem höfðu ekki fengið vitneskju um annað, hafi búizt við, að þessi brbl. yrðu lögð fyrir þingið þegar eftir að það væri tekið til starfa, að þau yrðu eitt af allra fyrstu málum þingsins. Ég minnist þess, að ný ríkisstj., sem tók við völdum árið 1956, gaf þá um haustíð út brbl., sem mikla athygli vöktu og fjölluðu eins og þessi brbl. um vissan þátt efnahagsmála, þótt þar væri að vísu öðruvísi á málum tekið og með meiri víðsýni að mínum dómi. Þessi brbl. 1956 voru lögð fyrir þingið svo fljótt sem kostur var á. Þau munu hafa verið á þskj. 12 á því þingi. Ætla mátti að óreyndu, að nú yrði farið eins að.

En svo liðu nokkrir dagar í upphafi þings, að frv. var ekki lagt fram. Þegar þm. svo tóku að spyrja eftir frv. og hvenær það kæmi fram, varð hæstv. landbrh. afundinn og gaf engin svör, sem því nafni mætti nefna í þessu sambandi. Er svo skemmst af því að segja, að ríkisstj. hefur allt til þessa dags ekki fengizt til þess að leggja frv. fram, þótt margsinnis hafi verið eftir því gengið, en hefur í þess stað borið fram till. um að fresta þinginu nú þegar. Loksins nú í kvöld hafa þau tíðindi gerzt, að brbl.-frv. hefur verið útbýtt hér í hv. deild. Þetta er þá sá árangur, sem umr. undanfarna daga hafa borið. Hitt er enn eftir, að sannfæra hæstv. ríkisstj. um, að henni beri að láta málið ganga til úrslita í þinginu.

Afstaða Sjálfstfl. eða forustumanna hans í þessu brbl.-máli hefur verið mjög einkennileg fyrr og síðar, svo að ekki sé meira sagt. Brbl. voru, eins og ég sagði áðan, gefin út 18. sept. s.l., en hinn 22. sept. birtist í Morgunbl. yfirlýsing frá Sjálfstfl. Það hafði að vísu áður birzt yfirlýsing í Morgunbl. frá þessum flokki varðandi þetta mál, en ég geri þá yfirlýsingu ekki að umræðuefni, heldur þessa, sem birtist 22. sept. Í þeirri yfirlýsingu frá flokknum segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, og er vitnað til hinnar fyrri yfirlýsingar:

„Sjálfstfl. lýsti sig þegar í stað andvígan setningu brbl. um ákvörðun verðlags landbúnaðarafurða, og mun þess vegna ekki styðja þau á Alþingi, heldur leggja til, að bændum verði bætt upp það tjón, sem þeir verða fyrir af þessum sökum.“

Þannig hljóða þau orð. Það mun út af fyrir sig orka nokkuð tvímælis, hvort Sjálfstfl. hafi, eins og segir í þessari yfirlýsingu, þegar í stað lýst sig andvígan setningu brbl. Þegar litið er á yfirlýsingar hæstv. fyrrv. forsrh. í Alþýðublaðinu í september um þetta leyti, verður að ætla, að andstöðuyfirlýsing Sjálfstfl. hafi a.m.k. ekki komið nógu snemma og ekki verið með nógu mikilli áherzlu fram borin til þess að hindra útgáfu laganna. Ég man þess ekki dæmi, síðan ég kom fyrst á þing fyrir 25 árum, að ríkisstj. hafi gefið út brbl., nema hún væri í góðri trú á það, að lögin mundu ekki sæta andstöðu meiri hl. alþm. Það eru alþm., en ekki ráðherrar sem slíkir, sem hafa löggjafarvaldið. Ákvæði stjórnarskrárinnar um útgáfu brbl. eru vart sett í þeim tilgangi að fá ráðh. löggjafarvaldið, heldur til þess, ef alveg sérstaklega stendur á, að leyfa þm. eða meiri hl. þeirra fyrir forgöngu ríkisstj. að nota löggjafarvald án þess að vera saman komnir á fundi í alþingishúsinu í Reykjavík. Það er þetta, sem að jafnaði gerist, þegar brbl. eru gefin út. Ég hef líka alltaf gengið út frá því, að fyrrv. hæstv. forsrh., sem er bæði glöggur maður og þingræðissinnaður, hafi hlotið að gera sér þetta ljóst og að hann hafi verið í góðri trú, þegar hann gaf lögin út, hvort sem þar kann að hafa verið um misskilning að ræða og hvers eðlis sem sá misskilningur kann að vera.

En hvað sem þessu liður, þá hefur Sjálfstfl. heitíð því opinberlega og skriflega hinn 22. sept., svo skýrt, að ekki verður um villzt, að styðja ekki brbl. á Alþingi. Það er það orðalag, sem ég las upp áðan, tekið úr yfirlýsingunni.

En hvaða stuðningur er það þá, sem brbl. þyrftu á að halda eða formælendur þeirra? Stuðningurinn er sá, að þau yrðu ekki felld úr gildi með alþingissamþykkt fyrir 15. des. Eftir þann tíma eru þau fallin úr gildi eða efni þeirra samkv. ákvæðum í þeim sjálfum. Ef Alþingi er frestað fyrir 15. des. og þm., sem eru á móti lögunum, hefur ekki gefizt kostur á að greiða um þau atkvæði og afgr. þau endanlega fyrir frestunina, þá er þessum lögum, sem út voru gefin 18. sept., þar með veittur allur sá stuðningur, sem þau þurfa á að halda, og það er þá Sjálfstfl., einmitt hann, sem veitir þann stuðning.

Ef hæstv. forsrh. leggur það til við forseta lýðveldisins, að þinginu verði frestað fyrir 15. des. og hæstv. landbrh. dregur að beita sér fyrir því, að brbl. verði afgreidd, þá hafa þeir hæstv. ráðh. þar með gert að engu heit Sjálfstfl. 22. sept. um að styðja ekki brbl. frá 18. sept. Af hálfu flokksins hefur þeim lögum þá verið veittur allur sá stuðningur, sem þau þurfa á að halda eða sá málstaður, sem í þeim felst, og ef svo á að fara að, þá er ekki óeðlilegt, þó að mönnum komi til hugar, eins og nokkuð hefur verið tæpt á í þessum umræðum, að hæstv. ríkisstj. kunni að láta sér koma til hugar að gefa út ný brbl. eftir þingfrestunina. Það er ekki mikið öryggi í því að treysta þeim, sem sýna tómlæti af þessu tagi í sambandi við yfirlýsingar sínar.

Nú má e.t.v. segja, að Sjálfstfl. eigi fyrst og fremst um það við sjálfan sig og kjósendur sína, hvernig forustumenn hans meta þær yfirlýsingar, sem gefnar hafa verið í nafni flokksins. En það er skylda alþm., eftir því sem í þeirra valdi stendur, og Alþingis í heild að láta ekki lítilsvirða eða rýra það umboð, sem þjóðin, þ.e.a.s. kjósendurnir, hefur falið þeim til þess að setja landinu lög. Það er því skylda þeirra í því tilfelli, sem hér er um að ræða, að sjá um, eftir því sem í þeirra valdi stendur, að þau lög haldi ekki áfram að gilda, sem meiri hl. Alþingis er á móti, og láta það koma í ljós, ef ætla má, að svo sé. Samkvæmt yfirlýsingunni er ástæða til að ætla, að meiri hl. Alþingis sé á móti þessum brbl., þó að trúnaðarmenn Sjálfstfl. í ríkisstj. hafi komið í veg fyrir, að það kæmi í ljós. Það er því eðlilegt, að hér á Alþingi sé staðið gegn því, að þingið sé sent heim á gildistíma brbl., áður en þingvilji er fyrir hendi. Þess er að vænta, að hæstv. ríkisstj. fallist á þetta sjónarmið, áður en lýkur, og hún er komin nokkuð á leið með að fallast á það, sem betur fer.

Sjálf þingfrestunartill. er enn þá ekki komin til umræðu. En afgreiðslu þessa frv., sem hér liggur fyrir, og frv. á þskj. 40 er nú, eins og ég sagði áðan óskað af hálfu hæstv. ríkisstj. svo snemma sem raun er á, til þess að hægt sé að ákveða þingfrestunina. Ella væri það ekki hægt. Andstaðan gegn frestun þingsins nú þegar hlýtur því þegar á þessu stigi að koma fram og hefur komið fram sem andstaða gegn því, að afgreiðslu frumvarpanna sé hraðað, þótt sú afgreiðsla væri að öðrum kosti síðar talin eðlileg. Með þessari andstöðu eru þingmenn að gæta réttar síns og skyldu gagnvart kjósendum sínum, eftir því sem í þeirra valdi stendur. Af þessum ástæðum hafa átt sér stað langar umræður í báðum deildum og í sameinuðu þingi, þó að ég hafi raunar ekki tekið þátt í þeim fyrr, — umræður, sem hægt hefði verið að komast hjá að miklu leyti, ef hæstv. ríkisstj. hefði farið rétt að í öndverðu gagnvart þingi og þjóð í þeim málum, sem eru tilefni þessara umræðna. Þeim tíma, sem farið hefur í það að ræða þessa mjög svo óvenjulegu aðferð ríkisstj., — og hann er orðinn töluvert langur, — hefði verið betur varið til að ræða brbl. og ýmis vandamál í sambandi við þau. Og það mátti hæstv. ríkisstj. auðvitað vita fyrir fram, að alþm. mundu ekki taka alveg þegjandi þeim — ég leyfi mér að segja hvatvíslegu og vanhugsuðu ráðagerðum og því tillitsleysi, sem hér er um að ræða gagnvart Alþingi og öðrum. Ég segi: öðrum, því að allur sá fjöldi manna um land allt, sem ber í brjósti sér sára gremju út af umræddum brbl., allir þessir menn eiga fullan rétt á því, að fulltrúar þeirra í þessum sölum fjalli um þetta mál á réttum tíma. Hér er því ekki eingöngu verið að sýna tillitsleysi gagnvart Alþingi, heldur fjölda manns.

Ég er því miður ekki svo fróður sem æskilegt væri um sögu Alþingis frá öndverðu. En ég hygg það þó einsdæmi, og ég held, að það hafi komið fram ómótmælt í umr., að það sé einsdæmi eða a.m.k. fádæmi, að ríkisstj., sem hefur sett brbl., hafi komið þannig fram gagnvart þinginu í því sambandi sem þessi ríkisstj. hefur leyft sér að gera, því miður, og ég efast um, að þetta hefði getað gerzt, meðan hin fyrri kjördæmi landsins héldu enn sínum sögulega rétti til að eiga sína sérstöku fulltrúa á Alþingi. Ég efast um, að það hefði getað gerzt á meðan. Ég efast um, að þeim fulltrúum hefði verið boðið þetta, sem hæstv. ríkisstj, nú þykir hlýða áð bjóða þeirri „réttu mynd þjóðarviljans”, sem hér blasir við henni á þingbekkjum.

Þegar samtök urðu um það hér á þessum vettvangi á s.l. vetri að leggja kjördæmin niður, var því af mörgum spáð, að ekki mundi sú ráðstöfun verða til þess að styrkja grundvöll þingræðisins hér á landi. Hin nýja kjördæmaskipun hefur það m.a. í för með sér, að í stað hinnar persónulegu kosningar, sem tíðkazt hefur hér á landi til Alþingis, er nú komin kosning flokkslista. Ég hygg, að aðferð núv. hæstv. ríkisstj. og alveg sérstaklega hæstv. ráðherra Sjálfstfl. beri þess vott, að andrúmsloftíð sé strax byrjað að breytast í þeim herbúðum til samræmis við þennan nýja þingræðisgrundvöll. Það er byrjað að loka gluggum á þessari vistarveru. Það er hugboð mitt, að frestur af ýmsu tagi kunni að þykja æskilegur, á meðan flokksmenn ýmsir, þ. á m. nýliðar á þingi, eru að venjast hinu nýja andrúmslofti. Það er samt hyggilegt fyrir þá, sem á s.l. sumri stóðu yfir höfuðsvörðum hinna fornu kjördæma, að ganga hægt um gleðinnar dyr, því að öll er þessi litla þjóð í einum bási, og enginn veit í dag, hver skarðastan ber hlutinn að lokum, ef stjórnarfarsreglum er raskað í írafári af þeim, sem telja sig þurfa þess við í bili. Það veit enginn, hver skarðastan hlutinn ber frá borði að lokum, þegar slík fordæmi eru gefin. Forustumenn og flokksstjórnir ættu að kunna sér hóf, þótt þeim hafi verið lagt meira upp í hendurnar á þessu ári en vera skyldi. Og oddvitar fjölmennis ættu að gæta hófs í því að láta kné fylgja kviði gagnvart þeim, sem minni hafa máttinn, hvort sem um er að ræða fámenn byggðarlög þessa lands eða dreifða atvinnustétt, sem er seinþreytt til vandræða. Ég teldi það vel farið, ef hæstv. ríkisstjórn sæi sig um hönd í þessu máli, eins og ég er ekki vonlaus um, að hún sé nú að byrja að gera, og þeir mundu vera margir, sem mætu hana meira eftir en áður.

Rómverjar hinir fornu sögðu: Það er mannlegt að láta sér skjátlast. En það er óviturlegt að vaða áfram í villu sinni. Ég hygg, að enn geti orðið samkomulag hér á þingi um eðlilega afgreiðslu þeirra mála, sem nú þarf að ráða til lykta, og um eðlilega þingfrestun, ef hæstv. ríkisstj. vildi taka þann kostinn, sem henni og öðrum er fyrir beztu, og ég vil bæta mínum tilmælum við tilmæli annarra manna um, að hún geri það. Mundi ég vilja leggja slíku samkomulagi lið. Ég sé ekki ástæðu til að vera vonlaus um það enn þá, að úr því geti orðið, og dreg það m.a. af því, sem gerðist í kvöld, er brbl. voru lögð fram.