04.12.1959
Neðri deild: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. stjórnarandstæðingar og þá sérstaklega framsóknarmenn hafa gert brbl. að umtalsefni við þá umr., sem hér fer fram um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði á árinu 1960.

Mig undrar það, að hv. 2. þm. Sunnl. (AÞ) skuli flytja svona tillögu. Hann talaði um það hér áðan, að ef till. hans væri samþ., þá væri hægt að greiða bændum þetta, sem í till. felst, fyrir áramót og gleðja þá á þann hátt fyrir jólin. En hvers vegna orðar hann þá till. sína eins og hann gerir? Það er viðbótartillaga við bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði á árinu 1960, heimildartillaga. Er ekki ljóst, að hann ætlast til, að bændur bíði með að fá þetta greitt þangað til á næsta ári? Svona rökvillur má ekki láta sjást eða heyrast hér í hv. Alþingi, eins og fram kom hjá þessum hv. þm. og mér kom algerlega á óvart.

Svo er það annað, sem ég tel alveg sjálfsagt að upplýsa þennan hv. þm. og annan flm. till. um, og það er, að ríkisstj. hefur heimild til að bæta bændum þetta, sem á vantar. Það er vitanlega vegna þess, að hv. flm. hafa mikið traust á núv. ríkisstj., að þeir flytja þessa till. í heimildarformi, enda þótt þeir ímyndi sér, að ríkisstj. vanti heimildir. Ef þeir hefðu ekki treyst stjórninni til þess að standa við að bæta bændum það, sem á kann að vanta, þá hefðu þeir ekki flutt brtt. í heimildarformi, heldur hefðu þeir sagt: ríkisstj. skal greiða.

Þegar þetta er gegnumlýst, þá er augljóst, að hér er haldlaus vefur, sem ofinn er í því skyni að nota til áróðurs fyrir kjósendur og þá sérstaklega fyrir bændur landsins. Þetta er ónýtur vefur, sérstaklega fyrir hv. framsóknarmenn, þar sem ljóst er, hverja fortíð þeir eiga í sambandi við það að gera kjör bænda sæmileg. Og margir bændur spyrja í dag: Vildu ekki þessir hv, framsóknarmenn endurreisa vinstri stjórnina? Var það til þess að bæta okkar hlut? — Það er e.t.v. ástæða til þess að spyrja sérstaklega hv. 2. þm. Sunnl., hvort hann hafi verið því fylgjandi eða ekki. Ef hv. 2. þm. Sunnl. vildi lýsa því yfir, að hann hafi verið því mótfallinn að endurreisa vinstri stjórnina, þá væri hægt áð taka nokkurt mark á því, að hann vildi bæta bændum það tap, sem þeir hafa orðið fyrir með brbl. En hafi hann verið talsmaður þess að endurreisa vinstri stjórnina, þá taka fáir mark á þessu orðagjálfri.

Þegar fortíð Framsfl. er gegnumlýst, þreifa bændur á og vita, hvernig að þeim var búið, þegar Framsfl. hafði stjórn landbúnaðarmálanna, án þess að Sjálfstfl. gæti haft þar hönd í bagga og áhrif með aðild að ríkisstj. Hvernig var það, þegar landbúnaðarverðinu var haldið niðri á árunum 1934 og þangað til sjálfstæðismenn komu í stjórn? Var ekki landbúnaðarverðinu haldið niðri, þangað til sjálfstæðismenn fengu tækifæri til þess að leiðrétta það? Skyldu bændur muna, að það var sú breytta aðstaða, að sjálfstæðismenn fengu aðstöðu til þess að lagfæra málin. Annars hefðu bændur mátt vera í kútnum áfram þrátt fyrir stríðið. Það er algerlega tilgangslaust að reyna að breiða yfir staðreyndirnar með tillöguflutningi eins og þessum. Sízt af öllu verður hægt að breiða yfir þær stóru syndir Framsfl. gagnvart bændastéttinni úr vinstri stjórninni. Og þegar hv. 2. þm. Sunnl. var hér áðan að tala um, að það væri verið að gera bændur að ríkisþrælum með þessum brbl., þá gleymir hann því, að það var í tíð vinstri stjórnarinnar, sem hlutur bænda var sérstaklega fyrir borð borinn og alveg ný regla var upp tekin að leggja skatta á bændur, án þess að þeir fengju nokkrar bætur fyrir. Þetta var ekki annarri stétt boðið. Það er þess vegna dálítil kokhreysti, þegar hv. framsóknarmenn hér í d. telja sig sérstaklega þess umkomna að gerast málsvarar bænda og vara við, þegar sjálfstæðismenn fara með þessi mál.

Ég hygg, að reynslan tali skýrast sínu máli og bændur geri sér ljóst, að með því að Sjálfstfl. hefur nú þeirra mál með höndum, þá þurfi þeir engu að kvíða í þessum efnum. Það er vitanlega ljóst, að það er hægara að leggja á skatta en létta þeim af. Það er hægara að koma á misræmi og rangindum en leiðrétta það, sem illa hefur verið gert og komið úr lagi. Það hlýtur að taka nokkurn tíma. En það skal verða stefnt í þá átt að lagfæra misfellurnar. Og það er enginn vafi á því, núv. ríkisstjórn hefur þá staðreynd í huga sér, að það dugir ekki að mismuna þjóðfélagsstéttunum. Það verður að búa þannig að þjóðfélagsþegnunum, að þeir, sem mest vinna, þeir, sem mest á sig leggja og við þrengstan kost búa, sem eru bændur, verkamenn og aðrar erfiðisstéttir þessa lands, að því verður að vinna að bæta þeirra kjör. En eins og hv. 2. þm. Sunnl. veit, þá eru það bændurnir, sem hafa lengstan vinnudag og lægst tímakaup. Þrátt fyrir þá staðreynd hefur verið lagður skattur á bændur, án þess að þeir fengju nokkuð á móti, þegar öðrum stéttum þjóðfélagsins, sem tóku á sig þessa skatta, var sköpuð aðstaða til þess að standa undir sköttunum með sérstökum hætti. Þegar þarf að þrengja að, vegna þess að þjóðfélagsbyggingin stendur þannig, verður að stuðla að því, að byrðarnar komi réttlátlega niður.

Ég sagði hér áðan, að ríkisstj. hefði heimild til þess að bæta bændum upp það tap, sem þeir kunna að verða fyrir vegna brbl. Hv. framsóknarmenn hafa haldið því fram, að við höfum verið píndir til þess að leggja brbl. fram, vegna þess að alltaf hafi verið eftir þeim kallað. Það er þó vitað mál, að frá fyrstu hefur ríkisstj. ákveðið að fara að lögum hvað þetta mál snertir eins og öll önnur, þá vitanlega með því að leggja frv. fram. Hv. framsóknarmenn gleyma því, að það dróst ekki minna en þrjá mánuði á árinu 1957 að leggja fram brbl., sem vinstri stjórnin stóð að. En nú er ekki enn nema hálfur mánuður, síðan Alþingi var sett, og brbl. hafa verið lögð fram í dag og fengið þinglega meðferð. Það, sem hv. framsóknarmenn harma, er það, að brbl, skuli renna út 15. des. Þeir harma það að hafa ekki nægan tíma til þess að rífast um þessi lög og gera ágreininginn dýpri og meiri um þetta mál en þarf að vera. Það er vitað, áð nú er verið að vinna að samkomulagi í þessum málum. Það er verið að vinna að því að bæta úr því, sem illa fór s.l. sumar.

Bæði bændur og neytendur sögðu upp verðlagsgrundvellinum á þessu ári. Sex manna n. gat ekki komið sér saman um að reikna út verð landbúnaðarvara s.1. sumar. Það var ekki unnt, vegna þess að neytendur vildu ekki taka þátt í yfirdómnum og gera hann gildandi, eins og lögin um framleiðsluráð eru úr garði gerð. Og er það að vísu galli á þeim lögum, að ekki skuli vera gert ráð fyrir þeim möguleika, að neytendur eða framleiðendur neiti að fylla yfirdóminn. Nú er verið að vinna að því að koma 6 manna nefndinni á laggirnar og fá hana til þess að taka upp störf á ný. En takist það ekki, þá verður reynt að fá yfirdóminn skipaðan eins og lög gera ráð fyrir og finna þannig nýjan grundvöll að verði landbúnaðarvara, en það ber að gera og það verður að gera. Það var ágreiningur í 6 manna nefndinni. Fulltrúar bænda töldu, að verðið ætti að hækka um 5%. Fulltrúar neytenda töldu, að verðið ætti að lækka. Ég býst við, að hv. 2. þm. Sunnl. og mér, sem erum kunnugir rekstrarafkomu bændanna og þeim aukna rekstrarkostnaði, sem hefur hlaðizt á þann atvinnuveg undanfarið, okkur þyki báðum ósennilegt, að hinn nýi grundvöllur í verðlaginu verði lægri en sá gamli. Það þykir okkur ábyggilega ótrúlegt. Það er ótrúlegt, ef grundvöllurinn á ekki að hækka. En um það skulum við ekki fullyrða neitt samt sem áður, en mér er kunnugt um, að fulltrúar bænda munu sætta sig við úrslit yfirdómsins, að hverju sem hann leiðir.

Það hefur stundum verið talað um, að bændur sýndu fullan þegnrétt, og þáð má til sanns vegar færa. Þáð væri að vissu leyti eðlilegt, að bændur hefðu fullan sjálfsákvörðunarrétt um verðlag á afurðum sínum. En eins og nú er háttað í okkar atvinnulífi, að bændur hafa fengið uppbætur á útfluttar afurðir og niðurgreiðslu á þær vörur, sem seldar eru innanlands, þá hefur bændum ekki þótt fært að gera kröfu um það, að þeir mættu einir ráða verðinu. Ég hygg þó, að þótt bændur hefðu þennan rétt, þá mundu þeir ekki misnota hann, af þeirri einföldu staðreynd, að þeir mundu gera sér ljóst, að það væri áhættusamt fyrir þá að setja verðlagið of hátt, það gæti leitt til þess, að minna seldist en eila.

En þetta er ekki til umræðu. Það er aðeins til umræðu, hvernig á að fullnægja gildandi lögum, að koma 6 manna nefndinni af stað, fá hana til að vinna, og ef það tekst ekki, að hún nái samkomulagi, þá að fullgilda yfirdóminn. Ég geri mér vonir um, að þetta geti tekizt, og tel þá, að það sé sú lausn, sem báðir aðilar óska eftir og telja bezta, bæði bændur og neytendur. Þá þurfum við ekki að harma, þótt þessi brbl. fái þá meðferð, sem framsóknarmenn óttast að þau fái, að þau renni út 15. des., því að þegar þessi lög eru runnin út, þá eru það framleiðsluráðslögin, sem eru í gildi og taka við, hafi þessi lög ekki fengið samþykki á Alþingi. Hafi þau ekki fengið samþykki á Alþ., þá hafa þau ekki fengið stuðning, hvorki okkar sjálfstæðismanna né annarra. Það er þess vegna misskilningur hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. (Gís1G), þegar hann talar um, að við sjálfstæðismenn veitum þessum lögum stuðning, ef þau renna út 15. des. án þess að hafa fengið fullnaðarafgreiðslu í Alþingi. Hvers konar málflutningur er þetta? Það, sem verður að gerast, þegar lögin renna út, er, að 6 manna nefndin vinni eða yfirdómurinn verði skipaður. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að bændur eru tilbúnir til þess að tilnefna fulltrúa í yfirdóminn, eins og lög mæla fyrir. Ég er líka hér um bil sannfærður um, að neytendur afsala sér ekki þeim rétti að eiga fulltrúa í yfirdóminum. Ég hygg því, að þessi deila um landbúnaðarverðið muni leysast á farsælli og heppilegri hátt en gefið hefur verið í skyn hér af hv. framsóknarmönnum. Það er samkomulagsvilji á milli neytenda og framleiðenda, og það er mín sterka von, að samkomulag náist.

Ég tel, að það sé ekki ástæða til að vera að karpa mikið um þessi lög hér í sambandi við það mál, sem nú er til umræðu. Ég efast ekki um, að í sambandi við þingfrestunartillöguna verður málið einnig á dagskrá, og gefst þá ef til vill tækifæri til þess að ræða það nánar. Ég er viss um, að bændur landsins harma það ekki, þótt þessi lög fái ekki fullnaðarafgreiðslu á Alþingi, og það þarf ekki að sannprófa það, hvort við sjálfstæðismenn stöndum við okkar yfirlýsingar frá því í haust, með því að karpa um málið hér. Afstaða okkar sjálfstæðismanna til þessara laga er óbreytt frá því, sem hún var í haust, — alveg óbreytt, — og þess vegna er ekki um það að ræða, að við styðjum þessi lög, þótt við leggjum þau fram hér á þingi, til þess að þau fái þinglega meðferð og lögum og þingvenju sé fullnægt.

En við sjálfstæðismenn teljum skyldu okkar að freista þess að leysa þetta mál á friðsamlegan hátt á þann veg, að neytendur og bændur geti orðið sáttir. Það er ljóst, að það eru hagsmunir beggja þessara aðila, að það geti komizt á sættir á milli þeirra, að sú sundrung og það djúp, sem skapaðist á milli þessara aðila í sumar, verði brúað, og ég er sannfærður um, að bændur landsins vilja stuðla að því. Ég veit, að ýmsir í stjórn Stéttarsambands bænda og framleiðsluráði vilja einnig stuðla að því. Hitt er svo annað mál, hvort hv. þm. Framsfl., sem hafa hugsað sér að gera sér pólitískan mat úr þessu máli, eru á sama máli og bændur og hinir réttu fulltrúar þeirra. Það er annað mál. Ég tek ekki svo alvarlega, hvað þeir segja, þessir pólitíakusar Framsfl., sem áreiðanlega hafa ekki fyrst og fremst hagsmuni bænda fyrir augum: Ég tek meira mark á því, sem stjórn Stéttarsambandsins segir og fulltrúar bænda í framleiðsluráði, og það er þess vegna, sem ég hef snúið mér til þeirra með þetta mál og leitað samkomulags við þá.

Ég býst við, að flestir hv. þm. hafi tekið eftir því, að sumir þm. Framsfl. hneyksluðust á því hér fyrir nokkrum dögum, þegar ég minntist á Stéttarsambandið og framleiðsluráðið, að ég hefði rætt við það um þetta mál. Það fannst einum hv. þm. Framsfl., sem talaði hér í nótt, alveg fjarstæða. Það eru þm. Framsfl., sem hann vildi láta tala við, pólitíkusarnir, sem eru hér með klæki og yfirskin og telja sig þess umkomna að vera hinir einu málsvarar bænda, enda þótt allar staðreyndir um verk þeirra á fyrri árum vitni gegn þeim.