26.04.1960
Efri deild: 65. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2564 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

135. mál, ríkisreikningurinn 1957

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir árið 1957. Tekjur ríkisins voru áætlaðar í fjárlögum það ár 811.6 millj. kr., en fóru 99.5 millj. fram úr áætlun og urðu því 911.1 millj. kr. Greiðslur úr ríkissjóði voru áætlaðar í fjárlögum 810.3 millj. kr., en gjöldin fóru fram úr áætlun um 107.8 millj. kr. og urðu því samtals 918 millj. Í fjárlögum hafði verið gert ráð fyrir greiðsluafgangi að upphæð tæplega 1.3 millj. kr., en niðurstaðan var greiðsluhalli, sem nam tæpum 7 millj. kr.

Ríkisreikningurinn fyrir þetta ár hefur verið endurskoðaður að vanda af yfirskoðunarmönnum, og gerðu þeir athugasemdir í 38 liðum við reikninginn, og eru þær athugasemdir birtar í reikningnum á bls. 220–228.

Eftir að fjmrn. hafði leitað umsagna hlutaðeigandi stofnana og starfsmanna varðandi þessar athugasemdir, en þau svör eru svo birt í framhaldi af þessu, gerðu yfirskoðunarmenn tillögur, sem eru á bls. 245–250, út af þessum athugasemdum og svörum við þeim.

Flestar till. yfirskoðunarmanna eru á þá leið, að athugasemdirnar eru ýmist taldar til eftirbreytni eða athugunar framvegis eða sagt, að við svo búið megi standa að fengnum upplýsingum, og um eina þeirra, að athugasemdinni sé fullnægt með svarinu, en um tvö atriði vísa yfirskoðunarmenn til aðgerða Alþingis. Það eru í fyrsta lagi athugasemdir þeirra nr. 7–14, sem allar fjalla um ríkisútvarpið, en yfirskoðunarmenn gagnrýna, að sú stofnun hafi eytt verulegum fjármunum umfram fjárlög. Eftir að menntmrn. hafði svarað þessum athugasemdum yfirskoðunarmanna með því að senda grg. útvarpsstjóra, segja yfirskoðunarmenn um þetta atriði:

„Eins og athugasemdirnar bera með sér, fer þessi stofnun sínu fram um fjáreyðslu án tillits til fjárlaga og hefur auk þess lánað fé, sem ekki hefur tekizt enn að innheimta, eins og áður hefur verið á bent. Málinu er vísað til aðgerða Alþingis.“

Hitt atriðið er 31.–32. athugasemd, varðandi Tryggingastofnun ríkisins, en þar höfðu yfirskoðunarmenn aðfinnslur, bæði út af því, hversu mikil væru vanskil ýmissa sveitar- og bæjarfélaga gagnvart Tryggingastofnuninni, og innheimta á útistandandi skuldum ýmsum hjá Tryggingastofnuninni, m.a. vegna lánveitinga, þykir ganga heldur erfiðlega. Út af þessu segja yfirskoðunarmenn:

„Tryggingastofnun ríkisins hefur svarað athugasemdunum með glöggum og greinilegum skýrslum, sem bera það með sér, að hér er um mikið vandamál að ræða. Sýnist hæpið, að heppileg lausn fáist á því án afskipta Alþingis. Er málinu vísað til aðgerða Alþingis.“

Ég tel rétt að vekja athygli á þessum tveim málum, sem yfirskoðunarmenn vísa sérstaklega til aðgerða Alþingis.

Varðandi svör fjmrn. við athugasemdum yfirskoðunarmanna skal ég að öðru leyti benda á svo hljóðandi athugasemd á bls. 244:

„Fram skal tekið, að núv. fjmrh. hafði ekki með höndum framkvæmd þessara mála á því tímabili, sem hér um ræðir, en að sjálfsögðu munu ábendingar og athugasemdir yfirskoðunarmanna verða gaumgæfilega athugaðar.“

Ég legg svo til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.