04.12.1959
Neðri deild: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Frsm. 1. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. svaraði hér eða réttara sagt neitaði nú að svara þeim spurningum, sem ég lagði fyrir hann. Hann endurtók þá gömlu fullyrðingu sína, að það mundi vanta 200–300 millj., án þess að koma nokkuð nánar inn á það, og lýsti því yfir, að hann mundi ekki láta fram fara 1, umr. fjárlaga og flytja sína skýrslu. M.ö.o.: það er alveg greinilegt, að hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj. vill ekki ræða efnahagsmálin við Alþingi nú. En mér er spurn: Eru þeir að ræða við aðra um þessi efnahagsmál? Eru þeir að ræða t.d. við útlenda aðila um, hvaða stefnu eigi að marka Íslandi um, hvaða nýtt efnahagskerfi, svo að ég noti orð hæstv. fjmrh., eigi að taka upp? Ég leyfi mér að spyrja: Er verið að ræða við alþjóðagjaldeyrissjóðinn? Hafa staðið yfir samningar um, hvað gera skuli í gjaldeyrismálum Íslands, gengi og mynt, á næstunni? Ég leyfi mér að spyrja: Hefur verið rætt við Alþjóðabankann um, hvað eigi að gera í þessum málum, og standa yfir samningar um það? Ég leyfi mér að spyrja: Hafa verið starfandi 2 sérfræðingar Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu, og eru þeir hér á Íslandi til að athuga um, hvað íslenzka ríkisstjórnin eigi að gera á næstunni? Er máske búið að gefa öllum þessum aðilum skýrslu? Vill hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj. ekki gefa Alþingi skýrslu um þessi mál, hvernig þetta stendur? Er kannske nú þegar búið að ákveða, — ég vil ekki segja nýja mynt, en nýja seðla a.m.k. með dollaralagi, — kannske með mynd af Bessastöðum á bakhliðinni, — er kannske búið að prenta þá nú þegar? Er verið að ræða um þetta við alla mögulega aðra aðila: í París, Washington, New York — og kannske látið prenta í London? En Alþingi Íslendinga, það er aðilinn, sem ekki má ræða við?

Við náttúrlega getum ekki knúið hæstv. ríkisstj. til þess að gera neitt í þessum málum. Eins og við höfum okkar málfrelsi, þá hefur hún náttúrlega sitt frelsi til þess að breyta eins og henni þóknast. Og við verðum þess vegna að bíða og sjá. Hæstv. fjmrh. sagði, að þetta kæmi allt saman fram, þegar ríkisstj. leggur sínar till. fyrir eftir áramót. Það er einmitt það, sem við óttumst. Við óttumst nefnilega, að þegar ríkisstj. leggur sínar till. fyrir eftir áramót, þá sé ekki lengur hægt að koma neinu viti fyrir hana, þá sé hún búin að semja við útlenda aðila, beygja sína eigin þingmenn — og láti svo alla vitleysuna dynja hér á Alþingi, og þá kemur hennar metnáður og hennar stolt, að nú megi engu breyta. Þetta er hættan, sem við vildum afstýra. Þess vegna vildum við reyna að fá hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj. til að segja við okkur núna: Við erum ekki búnir að ákveða neitt, en satt að segja er ástandið svona og svona ljótt og okkur lízt svona og svona illa á þetta. Okkur hefur verið að detta í hug, að ef til vill væri hægt að gera þetta. — Ef hæstv. ríkisstj. segði þetta, — ég veit nú nokkurn veginn, að enn þá er hún efins í, hvað hún eigi að gera, en bara er að hlusta á slæm ráð, og hættan er, eins og vanalega, að hún fari eftir þeim, — ef hún hefði komið fram með allar sínar bollaleggingar hér núna, þá hefði verið hægt að gefa henni góð ráð.

En nú hefur það meira að segja verið þannig, að þau góðu ráð, sem við höfum reynt að þylja hér yfir hæstv. ríkisstj., hafa meira að segja að mestu leyti farið fram hjá hæstv. fjmrh.

Ég spurði um hið nýja efnahagskerfi, og hæstv. fjmrh. sneri sig ákaflega þægilega út úr því. Hann las upp stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar, og raunar hafði ég einmitt gert hið sama kvöldið áður, kvöldið góða, þegar hann vantaði. Þá las ég upp stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar eða meginið úr henni til þess að sýna fram á, að það vantar einmitt loforðið um nýtt efnahagskerfi, m.ö.o.: ríkisstj. hefði ekki verið komin svo langt 20. nóv., að hún hefði verið búin að gera sér nokkra hugmynd um, hvort hún ætti að mynda nýtt efnahagskerfi né hvernig það ætti að vera, heldur að hún væri bara að láta rannsaka hlutina. Ég var að lýsa því í ræðu minni í gær, hvernig eitt af því, sem mundi fylgja með þessu, væri, að mörg hundruð millj. kr. í eignum mundu verða gefnar milljónamæringunum, svo framarlega sem farið yrði inn á að breyta genginu. Og ég held, að það hefði verið gott, að hæstv. fjmrh., sem nú á að fara að passa upp á ríkissjóðinn, að ekki sé gefið út úr honum allt, sem þar er til, — ég held, að það hefði verið gott, að hann hefði hlustað á þá hluti. En það var hins vegar í sambandi við annað mál á dagskránni, sem við ræðum ekki núna. Það verður að bíða til morguns.

Svo lauk hæstv. fjmrh. öllum sínum neitunum með því að segja, að það að vera að reyna að yfirheyra ríkisstj. hér í þinginu til þess að geta varað hana við þeim vitleysum, sem hún ætlar að ana út í, það væri hreinasta vansæmd, og fór jafnvel að tala um, að það væri málþóf. Hæstv. fjmrh. virðist ekki vita, hvað málþóf er. Hér hefur ekki nokkur maður talað sig dauðan enn þá, og það er þó sannarlega ekki kallað málþóf á Alþingi. Venjulega fá menn þó rétt til að tala jafnvel fjórum sinnum, þegar frjálslyndir forsetar eru, þó að tvær seinni ræðurnar séu mjög stuttar. En það er enginn a.m.k. búinn að tala sig alveg dauðan með því að tala tvisvar eða þrisvar, ef hann hefur rétt til. Þá er ekki hægt að tala um málþóf.

Hæstv. fjmrh. er nú ekki bara ungur sem fjmrh., heldur líka frekar ungur maður enn þá, og hann hélt, að það væri einstætt í þingsögunni, að það væri talað eins og talað hefur verið núna. Hæstv. fjmrh. hefði átt að þekkja Sjálfstfl. Það er flokkur, sem kann málþóf. Ef hæstv. fjmrh. hefði fylgzt hér með, — við skulum segja 1928 eða 1929, — þegar fjárlögin voru rædd í báðum deildum, þá var níu daga umræða bara í annarri deildinni, umr. um fjárlögin, og þá var hver punktur og komma sérstaklega tekin fram, þegar þm. Sjálfstfl. voru að lesa upp prentað mál eins lengi og þeir vildu án þess að spyrja forseta. Þá var málþóf. Nú hefur verið leitazt við að koma vitinu fyrir ríkisstj. með tiltölulega stuttum ræðum, eftir því sem ræður hér tíðkast, en gengið ósköp illa.

Það, sem hins vegar hefur gerzt og er einstætt í þingsögunni, það er þingfrestunin, sem nú er verið að ræða hér. Það var lagt til að fresta þinginu 30. nóv. eða síðar og það eftir að það hafði setíð eina einustu viku. Það er einstætt. Það hefur aldrei komið fyrir áður. Það eru aðferðir, sem hæstv. ríkisstj. nú hefur verið að beita í krafti síns meiri hluta. Þær hafa aldrei þekkzt áður, og þær eru vansæmd. Framkoma ríkisstj. í þessu hefur verið vansæmd. En það er kannske ekki það allra versta við hana. Verra er hitt, að hún leggur á sig þessa vansæmd til þess að fá tíma og tækifæri og frið til að gera vitleysu, til að gera ílit verk. Verkið, sem hún er að undirbúa, er: Í fyrsta lagi að auka stórkostlega dýrtíðina í landinu, þ.e. gengislækkun. Í öðru lagi að halda laununum niðri, þannig að þau raunverulegu laun stórkostlega lækki. Í þriðja lagi að stórminnka tekjur manna með því að koma á atvinnuleysi að meira eða minna leyti, þannig að a.m.k. öll eftirvinna hverfi. Þetta er það, sem felst í því nýja efnahagskerfi, sem ríkisstj. fær nú ráðleggingar um frá útlendum aðilum að taka upp og hæstv. fjmrh. óvart glopraði út úr sér, að ætti að fara að koma hér á, en ég veit, að hæstv. ríkisstj. er ekki fullkomlega ákveðin í enn þá, hvernig skuli vera. Og ástæðan til þess, að þessar umræður einmitt hafa farið hér fram, hefur verið sú, að alþm. hafa gjarnan viljað reyna að koma vitinu fyrir ríkisstj., áður en hún gerði vitleysurnar í þessum efnum. Þess vegna hefur þetta borizt svona mikið í tal, og þess vegna hefur verið reynt að hafa þetta upp úr hæstv. ríkisstj. En hún er hrædd. Hún er ekki bara hrædd við Alþ., eins og sýnir sig í því, að hún vill senda það heim. Hræðsla hennar við Alþ. er endurspeglun af ótta hennar við alþýðuna í landinu, það er aftur endurspeglun af því, að hún hefur slæma samvizku. Hún hefur hugmynd um, að hún sé að leggja út í að gera verk, sem sé bæði dýrt og skakkt. Þess vegna hefðum við, sem er umhugað um efnahagsþróunina á Íslandi á næstunni, gjarnan viljað fá tækifæri til þess að ræða þessi mál við ríkisstjórnina. En það er rétt eins og hún óttist það að taka á móti nokkrum ráðum, af því að þau færu kannske í öfuga átt við það, sem hennar útlendu og hálfútlendu sérfræðingar eru að gefa henni. Eftir yfirlýsingu hæstv. fjmrh. mun ég þess vegna halda fast við mína rökst. dagskrá og mæli með því við hv. þd., að hún verði samþykkt.