04.12.1959
Neðri deild: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður. En það voru nokkur atriði, sem komu fram í ræðu hæstv. fjmrh., sem gefa mér tilefni til þess að segja hér örfá orð. Ræða hæstv. fjmrh. var í þeim venjulega stíl, sem ræður hans eru við slík tækifæri. Ráðh. temur sér alloft þá aðferð, að vera prúður og sléttur í ræðumennsku og hafa yfir sér eins konar helgiskikkju, sem ýmsir eru farnir að kalla forsetaskikkju. En þegar svo ber við, t.d. í bæjarstjórn eða hér á Alþingi, að hæstv. ráðh. mætir einhverri mótspyrnu, þá fellur þessi skikkja af honum, og þá kemur í ljós heldur ósanngjarn og ófyrirleitinn áróðursmaður, eins og glöggt kom fram í ræðu hans hér fyrir kvöldmatinn.

Hæstv. ráðh. gerði mér t.d. upp þau orð, að ég hafi verið að finna sérstaklega að því, að hann færi fram á heimild við þingið til bráðabirgðafjárgreiðslna. En það gerði ég aldrei. Ég sagði hins vegar, sem ráðh. veit að er rétt, að það er gert ráð fyrir því í lögum, að fjárlög séu afgreidd fyrir áramót, enda eru þau miðuð við áramót. En ég tók það jafnframt fram, að það væru sérstakar ástæður, sem væru þess valdandi, að þetta væri ekki hægt núna, og ég rakti þær, og ég kenndi ráðherranum ekki neitt sérstaklega um það, ekki a.m.k. sem fjmrh., heldur þá aðila eða flokksmanni í þeim flokki, sem hann er í, — sýndi fram á það, hvernig það væri sök Alþfl. og Sjálfstfl., að í þessu tilfelli þyrfti að óska eftir sérstökum bráðabirgðafjárlögum, en væri ekki hægt að afgreiða eðlileg fjárlög.

Annars var það ekki þessi missögn ráðh. eða aðrar blekkingar, sem hann kom með, sem gáfu mér tilefni til að biðja hér um orðið, því að ég tel ástæðulaust að vera að eyða tímanum í að eltast við þær. En það, sem gaf mér tilefni til að biðja hér um orðið, var sú andúð og lítilsvirðing á þingræðinu, sem mér virtist koma fram í orðum og ræðu hæstv. ráðherra. Það var ekki annað að skilja á hæstv. ráðh. en Alþingi ætti eiginlega ekki að hafa annað verkefni en að leggja blessun sína yfir efnahagstillögur, sem ríkisstj, kynni að leggja fram. Ef ríkisstj. hefði ekki sínar till. tilbúnar um þessi mál, þá ætti að senda þingið heim, og það ætti ekki að kalla það saman, fyrr en ríkisstj. væri búin að undirbúa till. sínar, og síðan ætti þingið að segja já og amen við því, sem stjórnin legði til. Það var ekki annað hægt að skilja en ráðh. liti svo á, að störf Alþingis ættu fyrst og fremst að vera fólgin í þessu. Ég segi, að hér komi fram hrein andúð og lítilsvirðing á þingræðinu, því að verksvið Alþingis samkv. okkar stjórnarskrá er allt annað og meira en þetta. Þingið á ekki að láta nein mál sér óviðkomandi, og þingið á ekki að bíða eftir því, að ríkisstj. undirbúi ýmsar till., heldur er ætlazt til þess, að þingið sjálft hafi frumkvæði í þessum efnum. Það er þingið, sem fer með löggjafarstarfsemina, en ekki ríkisstjórnin. En hjá hæstv. ráðh. kemur það hér fram, að Alþingi eigi eiginlega að afsala sér sínu hlutverki og sínu verkefni, það sé ríkisstj., sem eigi að taka þetta að sér og Alþ. eigi ekki annað að gera en segja já og amen við hennar gerðum.

Þetta er á móti þingræðinu. Og þetta er nákvæmlega sami hugsunarháttur og á sér stað í einræðislöndunum, þar sem þingin eru aðeins haldin til málamynda, kölluð saman einu sinni eða tvísvar á ári til að leggja blessun sína yfir það, sem valdhafarnir hafa að segja, eins og t.d. á sér stað nú í Rússlandi og eins og átti sér stað í Þýzkalandi á þeim tíma, sem hæstv. fjmrh. dáði mest.

En það kom fram á fleiri vegu en þennan sú andúð, sem hæstv. ráðh. virðist hafa á þingræðinu. Hann hélt því t.d. fram, að það væri alls ekki nein skylda ráðh. að vera viðstaddur í Alþingi, þegar rætt væri um þau mál, sem undir hann heyrðu. Það væri ástæðulaust fyrir ráðh. að vera nokkuð að eltast við það, og á þann hátt vildi ráðh. réttlæta það, að hann var ekki hér viðstaddur í gærkvöld, þegar verið var að ræða um bráðabirgðafjárlögin, heldur var einhvers staðar úti í bæ, sem hvorki hann né forsetar hans hafa viljað segja frá.

Ég held, að hæstv. ráðh, sé eini ráðh. í þingræðislandi, sem hefur látið sér slíkt um munn fara. Ég held, að það sé viðtekin venja í öllum þingræðislöndum, að ráðh. telji sér skylt og sjálfsagt að vera viðstaddir á þingi, þegar rætt er um þau mál, sem undir þá heyra, svo framarlega sem þeir hafa aðstöðu til þess að gera það, og að þeir telji sig ekki hafa rétt til fjarveru, nema alveg sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Þessi hæstv. ráðh. virðist líta allt öðruvísi á þessi mál, og þess vegna vil ég endurnýja það, sem ég sagði hér áðan, að ég tel, að hæstv. forseti hafi gert alveg rétt hér í nótt, þegar hann frestaði fundi, vegna þess að þessi ráðh. var fjarverandi. Ég tel það alveg nauðsynlegt, að á þennan hátt reyni þingið að tryggja það, að værugjarnir og veizluglaðir ráðherrar geri skyldu sína við Alþingi.

Það kom enn fremur hið sama fram hjá hæstv. ráðh., þegar hann var að tala um það með fyrirlitningartón, að fyrrv. ríkisstj. hefði látið fjvn. vera að dunda við fjárlögin. Hæstv. fjmrh. hlýtur að vita, að það er skylda fjvn. að fást við fjárlögin og gera sínar aths. við þau, og það er skylda ríkisstjórnarinnar að sjá svo um, að fjvn. hafi fullan tíma til þess að sinna verkefni sínu, enda er það oft þannig, að fjárlög eru þannig undirbúin af hálfu ríkisstjórna, að það er eðlilegt, að þingið afsali sér ekki þeim rétti, sem það hefur til þess að kynna sér ríkisútgjöldin á þann hátt, að fjvn. fari yfir þau. En það er á þennan hátt eins og svo margan annan, sem kemur fram, að hæstv. fjmrh. vill losna sem allra mest við afskipti þingsins, setja það til hliðar og draga allt vald í hendur ríkisstj., eins og átt hefur sér stað í þeim löndum, þar sem þingræði hefur verið lagt niður og einræðisstjórnir hafa hafizt til valda.

Það voru reyndar mörg fleiri atriði í ræðu hæstv. ráðh., sem hefði verið ástæða til þess að gera aths. við. En vegna þess að það samkomulag liggur eiginlega hér í loftinu, að menn haldi frekar stuttar ræður, þá sé ég ekki ástæðu til þess að ræða þau nánar að þessu sinni, en það mun e.t.v. gefast tækifæri til þess að koma frekar að því síðar.