24.05.1960
Efri deild: 83. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2575 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er frv. til l. um breyt. á l. nr. 115 7. nóv. 1941, um Búnaðarbanka Íslands. Lögum um Búnaðarbanka Íslands hefur nokkrum sinnum verið breytt, eins og kunnugt er. Bankinn er stofnaður 14. júní 1929 með l. nr. 31 það ár, og hefur l. verið breytt, eins og áður segir, nokkrum sinnum síðar í nokkrum atriðum.

Í fyrstu voru 3 bankastjórar við bankann, einn aðalbankastjóri og 2 meðstjórnendur. Síðan var l. breytt þannig, að gerður var einn bankastjóri og gæzlustjóri, sem starfaði við hans hlið, þannig að það nálgaðist að vera 2 bankastjórar. En 1938 er l. breytt þannig, að stjórn bankans er falin einum bankastjóra og 3 manna bankaráði, tveimur kosnum af landbn. Alþ., en einum skipuðum af landbrh. hefur síðan verið einn bankastjóri við bankann, nema í veikindaforföllum núv. bankastjóra störfuðu um skeið 2 bankastjórar settir við bankann. Var það að nokkru viðurkenning á því, að starfið væri orðið umfangsmikið og meira en fyrir einn mann að gegna því, enda hefur settur bankastjóri, Benedikt Guttormsson, starfað í bankanum síðan, enda þótt hann hafi ekki bankastjóratitil.

Frv. það, sem hér um ræðir, fer fram á það, að bankaráðinu verði breytt, að í Búnaðarbankanum verði 5 manna bankaráð kosið af Sþ. eins og í Útvegsbankanum og Landsbankanum, að ráðh. skipi formann úr hópi þessara 5 manna. Kjörtímabilið er lengt í 4 ár. Með því að hafa 5 manna bankaráð kosið af Sþ. verður komið á lýðræðislegri stjórn í bankanum. Eins og Alþ. er nú skipað, munu allir þingflokkar eiga þar fulltrúa eftir hinni nýju skipan. Er ljóst, að það gæti orðið bankanum til styrktar. Eins og starfsemi hans er nú umfangsmikil og fjárfrek, mun það vissulega styrkja starfsemi hans að eiga sem víðast ítök.

Önnur breyt., sem þetta frv. felur í sér, er að opna möguleika til þess að fjölga bankastjórum, og vil ég lýsa því yfir sem minni skoðun, að ég tel, að bankastjórar Búnaðarbankans eigi að vera tveir, til þess að ekki verði ofhlaðið á einn mann. Núverandi bankastjóri, Hilmar Stefánsson, hefur gegnt bankastjórastarfinu með dugnaði og mikilli kostgæfni. Er hann nú orðinn aldraður maður og getur ekki átt langan starfstíma fram undan í bankanum, þar sem hann er kominn að sjötugu. Ég tel því heppilegt, að nýr bankastjóri fengi tækifæri til þess að starfa, þótt ekki væri nema í nokkra mánuði, við hlið svo reynds manns eins og Hilmar Stefánsson er, og teldi það vera bankanum til góðs. Ég geri líka ráð fyrir því, að þótt bankastjórar væru tveir í bankanum, þyrfti það ekki að hafa mikinn kostnaðarauka í för með sér, vegna þess að eins og nú er háttað í bankanum, þá eru þar nú 2 menn, sem hafa gegnt aðstoðarbankastjórastarfi. Það má vel vera, að menn séu ekki á einu máli um þetta og sumum sýnist það bezt eins og það er, að það sé 3 manna bankaráð kosið, 2 kosnir af landbn. Alþingis og einn skipaður af ráðh., og aðeins einn bankastjóri. Ég hygg þó, að þeir séu ekki margir og þeir séu miklu færri, sem telja þessa skipun eðlilega. Þetta er ríkisbanki, og það er eðlilegt, að Alþ. eigi hlutdeild í stjórn bankans, þingflokkarnir í réttu hlutfalli við styrkleika sinn, eins og er um aðra ríkisbanka.

Það fer ekki á milli mála, að starfsemi Búnaðarbankans er umfangsmikill, og sá banki, eins og margar aðrar stofnanir, þarf að halda áfram að vaxa og dafna. Starfssviðið er umfangsmikið. Starfssviðið er fyrst og fremst það að útvega lánasjóðum landbúnaðarins, sem eru í Búnaðarbankanum, nægilegt starfsfé, að koma málum þannig fyrir, að þessir sjóðir hafi starfsgrundvöll og geti innt af hendi hlutverk sitt. Eins og nú er málum háttað, er af ýmsum ástæðum þannig ástatt með lánasjóði Búnaðarbankans, svo sem skýrsla frá stjórn bankans ber með sér, að sjóðirnir éta sig upp á fáum árum með því fyrirkomulagi, sem verið hefur. Sumir sjóðir bankans hafa verið og eru algerlega févana, svo sem veðdeildin, og hefur hún ekki nema að litlu leyti getað innt hlutverk sitt af hendi. Verkefnið, sem hin nýja stjórn Búnaðarbankans fær, verður þess vegna fjölþætt og mikilvægt, og það hefur áreiðanlega veigamikla þýðingu, að stjórn bankans, bankaráðið, sé skipuð með eðlilegum hætti og lýðræðislegum.

Ég sé ekki ástæðu til að svo stöddu að fara fleiri orðum um þetta frv., það skýrir sig sjálft. Breytingarnar eru aðeins tvær, sem gera á við núgildandi lög, þ.e. að kjósa 5 manna bankaráð af Alþ. í stað þess að hafa 3 manna bankaráð, eins og nú er, og annað að opna möguleika fyrir því að fjölga bankastjórum, þannig að það verði ekki aðeins einn bankastjóri við bankann.

Ég get aðeins getið þess, að þegar ég fór að athuga nánar 1. gr. frv., er síðasta mgr. tekin upp úr gömlu l., þar sem talað er um, að eftirlaunagreiðsla til bankastjóra megi ekki fara fram úr 50% af launum bankastjóra. Þetta er öðruvísi en framkvæmt er í öðrum bönkum, og tel ég þess vegna eðlilegt; að þetta ákvæði sé athugað.. Sömuleiðis aðeins 25% af launum handa ekkju hans. Ég tel, að það eigi að breyta gr. til samræmis við það, sem er í öðrum ríkisbönkum hvað þetta snertir, og í samræmi við það, sem praktíserað hefur verið í Búnaðarbankanum. Það er veigalítið atriði, sem mætti athuga í nefnd fyrir 2. umr.

Ég vil leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.